1. gr.
Við 2. gr. reglugerðarinnar bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
- Ekjufarþegaskip: skip sem er útbúið þannig að hægt er að aka ökutækjum eða járnbrautarvögnum beint um borð og frá borði og getur flutt fleiri en tólf farþega.
- Háhraðafarþegafar: far eins og það er skilgreint í reglu 1 í X. kafla SOLAS 74 og getur flutt fleiri en tólf farþega.
- Áætlunarferðir: siglingar ekjufarþegaskipa eða háhraðafarþegafara milli tveggja eða fleiri hafna eða siglingar til og frá sömu höfn án viðkomu á öðrum stöðum, annaðhvort:
- samkvæmt birtri áætlun, eða
- með svo reglulegum eða tíðum ferðum að telja má að um reglubundnar ferðir sé að ræða.
2. gr.
Við 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar bætist nýr undirliður, svohljóðandi:
Þessi reglugerð gildir einnig um skoðanir á ekjufarþegaskipum og háhraðafarþegaförum sem framkvæmdar eru utan hafnar eða akkerislægis meðan á áætlunarferð stendur, í samræmi við 14. gr. a.
3. gr.
Inngangsliður 13. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Samgöngustofa skal tryggja að skip, sem eru valin til skoðunar, í samræmi við 12. gr. eða 14. gr. a, sæti upphafsskoðun eða nákvæmari skoðun sem hér segir:
4. gr.
Við reglugerðina bætist ný grein, 14. gr. a, svohljóðandi:
Skoðun ekjufarþegaskipa og háhraðafarþegafara í áætlunarferðum.
1. Ekjufarþegaskip og háhraðafarþegaför í áætlunarferðum gætu þurft að sæta skoðunum í samræmi við tímarammann og aðrar kröfur sem settar eru fram í XVII. viðauka.
2. Þegar Samgöngustofa skipuleggur skoðanir á ekjufarþegaskipi eða háhraðafarþegafari skal taka tilhlýðilegt tillit til rekstrar- og viðhaldsáætlunar þeirra.
3. Þegar ekjufarþegaskip eða háhraðafarþegafar hefur verið skoðað í samræmi við XVII. viðauka skal skrá slíka skoðun í skoðunargagnagrunninn og hafa hana til hliðsjónar í tengslum við 10., 11. og 12. gr.
4. Ákvæði 9. gr. (1. mgr.), 11. gr. (a-liðar) og 14. gr. gilda ekki um ekjufarþegaskip og háhraðafarþegaför í áætlunarferðum sem skoðuð eru samkvæmt þessari grein.
5. Samgöngustofa skal sjá til þess að þau ekjufarþegaskip eða háhraðafarþegaför sem þurfa að sæta viðbótarskoðun, í samræmi við b-lið 11. gr., séu valin í samræmi við c-lið liðar 3A og c-lið liðar 3B í II. hluta I. viðauka. Skoðanir, sem framkvæmdar eru samkvæmt þessari málsgrein, skulu ekki hafa áhrif á tímabilið milli skoðana sem kveðið er á um í 2. lið XVII. viðauka.
6. Við skoðun á ekjufarþegaskipi eða háhraðafarþegafari getur skoðunarmaður Samgöngustofu samþykkt að skoðunarmaður hafnarríkis frá öðru aðildarríki fylgi honum eftir sem eftirlitsmaður. Ef skipið ber fána aðildarríkis EES-ríkis skal Samgöngustofa, ef óskað er eftir því, bjóða fulltrúa frá fánaríkinu að vera viðstaddur skoðunina sem eftirlitsmaður.
5. gr.
3. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar falli brott.
6. gr.
1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Samgöngustofa skal banna aðgang skipa að íslenskum höfnum og akkerislægjum sem:
- sökum hárrar farbannstíðni, sigla undir fána ríkis sem er á svarta listanum, sem samþykktur er í samræmi við Parísarsamkomulagið um hafnarríkiseftirlit, á grundvelli upplýsinga sem skráðar eru í skoðunargrunninum og framkvæmdastjórnin birtir árlega, og sem farbann hefur verið lagt á oftar en tvisvar á síðastliðnum 36 mánuðum í höfn eða akkerislægi EES-ríkis eða í ríki, sem er undirritunaraðili að Parísarsamkomulaginu um hafnarríkiseftirlit, eða
- sökum hárrar farbannstíðni, sigla undir fána ríkis sem er á gráa listanum, sem samþykktur er í samræmi við Parísarsamkomulagið um hafnarríkiseftirlit, á grundvelli upplýsinga sem skráðar eru í skoðunargrunninum og framkvæmdastjórnin birtir árlega, og sem farbann hefur verið lagt á oftar en tvisvar á síðastliðnum 24 mánuðum í höfn eða akkerislægi EES-ríkis eða í ríki, sem er undirritunaraðili að Parísarsamkomulaginu um hafnarríkiseftirlit.
Framangreint gildir ekki um tilvikin sem um getur í 6. mgr. 21. gr.
Aðgangsbannið skal öðlast gildi um leið og skip siglir úr höfn eða frá akkerislægi þar sem farbann hefur verið lagt á það í þriðja sinn og þar sem úrskurður um aðgangsbann hefur verið gefinn út.
7. gr.
Nýr viðauki, viðauki XVII bætist við reglugerðina. Viðaukinn er birtur sem viðauki við þessa reglugerð.
8. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 4. mgr. 1. gr. laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003 með áorðnum breytingum og öðlast þegar gildi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 26. nóvember 2020.
F. h. r.
Sigurbergur Björnsson.
|