1. gr.
64. gr. reglnanna orðast svo í heild:
Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, og háskóladeildum og stofnunum fræðasviða og deilda er heimilt að standa fyrir fræðslu fyrir almenning og endurmenntun, sbr. reglur nr. 844/2001 um Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og 12. gr. þessara reglna.
Skilgreiningar:
Með fræðslu fyrir almenning er m.a. átt við fyrirlestra, málstofur, almenna kynningu, námskeið og nám án þess þó að um skipulagt grunnnám til bakkalárgráðu sé að ræða.
Með endurmenntun er átt við:
- Námskeið fyrir háskólamenntað fólk á fagsviði þess.
- Viðbótarnám fyrir háskólamenntað fólk á þverfaglegum grunni sem miðar að skilgreindum námslokum eða prófgráðu.
Með hefðbundnu námi er átt við námskeið og nám sem deildir Háskóla Íslands bera ábyrgð á og eru hluti hefðbundins náms til prófgráðu, eða eðli máls samkvæmt ætti að vera það.
Með óhefðbundnu námi er átt við námskeið og nám sem deildir Háskóla Íslands bera ábyrgð á en eru ekki hluti af hefðbundnu námi deilda, t.d. vegna ólíks markhóps, kostnaðar m.a. við handleiðslu, kröfu um annað fyrirkomulag en tíðkast í hefðbundu námi eða aðkomu annarra en háskólakennara að náminu.
Með námi sem deildir Háskóla Íslands bera ábyrgð á er átt við að deild skipuleggur námið og hvort það skuli metið til eininga. Einungis deildum er heimilt að meta nám til eininga.
Fræðsla fyrir almenning og endurmenntun á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands og stofnana fræðasviða og deilda:
Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og stofnunum fræðasviða og deilda er heimilt að bjóða upp á:
- Fræðslu fyrir almenning og endurmenntun sem er hluti af hefðbundu námi á ábyrgð deildar, og er eftir atvikum metið til eininga, í samræmi við samkomulag stofnunar og deildar. Fyrir hefðbundið nám er óheimilt að innheimta annað gjald en skrásetningargjald, sbr. a-lið 24. gr. laga um opinbera háskóla. Álitaefnum er varða námið skal vísa til deildar.
- Fræðslu fyrir almenning og endurmenntun sem fellur undir óhefðbundið nám á ábyrgð deildar, og er eftir atvikum metið til eininga, í samræmi við samkomulag stofnunar og deildar. Óheimilt er að fella skipulagt grunnnám til bakkalárgráðu undir ákvæði þessarar greinar. Nám á meistarastigi sem miðar að skilgreindum námslokum eða prófgráðu skal lúta sérstökum reglum. Álitaefnum er varða námið skal vísa til deildar.
- Fræðslu fyrir almenning og endurmenntun sem þróuð og skipulögð er af Endurmenntunarstofnun eða stofnunum fræðasviða og deilda eða samkvæmt samkomulagi, s.s. við stjórnvöld, fyrirtæki, stofnanir eða fagfélög, geta eftir atvikum verið metin til eininga af deild, enda ábyrgist viðkomandi deild að námið uppfylli gæða- og námskröfur Háskóla Íslands. Samstæð heild einingarbærra námskeiða getur aldrei numið fleiri einingum en 1/3 af skilgreindri prófgráðu hjá Háskóla Íslands. Álitaefnum er varða námið skal vísa til þeirrar stofnunar sem skipuleggur eða stendur fyrir náminu.
Endurmenntun og fræðsla á ábyrgð háskóladeilda:
Deildum Háskóla Íslands er heimilt að bjóða upp á:
- Fræðslu fyrir almenning og endurmenntun sem er hluti af hefðbundu námi hjá deild. Fyrir hefðbundið nám er óheimilt að innheimta annað gjald en skrásetningargjald, sbr. a-lið 24. gr. laga um opinbera háskóla.
- Fræðslu fyrir almenning og endurmenntun sem fellur undir óhefðbundið nám á ábyrgð deilda. Óheimilt er að fella skipulagt grunnnám til bakkalárgráðu undir ákvæði þessarar greinar. Nám á meistarastigi sem miðar að skilgreindum námslokum eða prófgráðu skal lúta sérstökum reglum.
Fræðsla fyrir almenning og endurmenntun sem eru á ábyrgð háskóladeilda og metin eru til eininga lúta eftirfarandi skilyrðum:
- Við inntöku í námið skal nemandi uppfylla inntökuskilyrði samkvæmt 47. gr. þessara reglna. Deild kveður nánar á um inntökuskilyrði í námið og er í samþykktum deildar heimilt að setja strangari inntökuskilyrði.
- Námið skal í hverju tilviki vera á faglegri ábyrgð háskóladeildar og er henni heimilt að meta það til eininga.
- Deild er heimilt að semja við þriðja aðila um ákveðin framkvæmdaratriði, s.s. skráningu nemenda, fjárreiður, reikningshald, húsnæði, kynningu o.fl., en fagleg ábyrgð skal ávallt vera hjá deildinni.
- Deild er heimilt að ákveða að endurmenntunarnámi fyrir háskólamenntað fólk á vegum hennar ljúki með sérstakri prófgráðu. Skal það koma fram í kafla deildar í reglum þessum.
- Tilskilið er að forseti viðkomandi fræðasviðs heimili kennurum að sinna þessum verkefnum og ákveði hvort þau teljist hluti af starfsskyldu þeirra.
Gjaldtaka:
Um gjaldtöku vegna endurmenntunar og fræðslu fyrir almenning fer eftir e- og f-lið 2. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla. Háskólaráð skal staðfesta samþykktir deilda um endurmenntun á þeirra vegum og gjaldtöku vegna hennar.
2. gr.
Á eftir orðinu „stofnunar“ aftast í 65. gr. reglnanna bætast við orðin: , sbr. 64. gr.
3. gr.
Á eftir 29. mgr. 84. gr. reglnanna bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
MA-nám í afbrotafræði er sjálfstætt 120 eininga nám að loknu BA-prófi eða sambærilegu prófi.
4. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 94. gr. reglnanna:
- Við upptalningu kennslugreina í 1. mgr. bætast orðin: MA-próf í alþjóðaviðskiptum og verkefnastjórnun.
- Á eftir 13. mgr. bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
Meistaranám í alþjóðaviðskiptum og verkefnastjórnun er þriggja missera nám, þar sem kennsla fer fram á ensku. Námsleiðin samanstendur af 60 einingum í námskeiðum og 30 eininga lokaritgerð.
5. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 117. gr. reglnanna:
- Við upptalningu kennslugreina í staflið c. í 1. mgr. bætist orðið: sjálfbærnimenntun.
- Á eftir 1. mgr. bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
Enn fremur til meistara- og doktorsprófs í umhverfis- og auðlindafræðum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.
6. gr.
Á eftir 1. mgr. 119. gr. reglnanna bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
Enn fremur til meistara- og doktorsprófs í lýðheilsuvísindum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.
7. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 121. gr. reglnanna:
- Við upptalningu kennslugreina í staflið c. í 1. mgr. bætast orðin: menntun allra og sérkennslufræði; menntun allra og stoðþjónusta.
- Á eftir 1. mgr. bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
Enn fremur til meistara- og doktorsprófs í lýðheilsuvísindum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.
- Núverandi 2. mgr. (sem verður 3. mgr.) orðast svo:
Deild kennslu- og menntunarfræði er skipað í þrjár námsbrautir, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna: Námsbraut í menntunarfræði leik- og grunnskóla, námsbraut í menntastjórnun og matsfræði og námsbraut í menntun allra.
- Á eftir 17. mgr. bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
Diplómanám í menntun allra er sjálfstætt 60 eininga nám á meistarastigi.
8. gr.
Á eftir 1. mgr. 122. gr. reglnanna bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
Enn fremur til meistara- og doktorsprófs í umhverfis- og auðlindafræðum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.
9. gr.
Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar í samræmi við lög nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.
Háskóla Íslands, 12. desember 2022.
Jón Atli Benediktsson.
|