Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 236/2018

Nr. 236/2018 16. febrúar 2018

SAMÞYKKT
um meðhöndlun úrgangs í Sveitarfélaginu Hornafirði.

1. gr.

Gildissvið.

Samþykkt þessi gildir fyrir meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. hirðu, söfnun og förgun úrgangs, í Sveitar­félaginu Hornafirði. 

2. gr.

Almenn ákvæði.

Meðhöndlun úrgangs skal vera samkvæmt ákvæðum samþykktar þessarar og reglugerðar nr. 737/2003, um meðhöndlun úrgangs og laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

Skipulags- og tæknisvið ásamt umhverfisfulltrúa fyrir hönd bæjarstjórnar bera ábyrgð á úrgangs­málum Sveitarfélagsins Hornafjarðar og samskiptum við þá aðila sem þeim viðfangsefnum tengjast.

Bæjarstjórn er heimilt að fela öðrum framkvæmd söfnunar á úrgangi, rekstur, móttökustöðva, flokkun og förgun úrgangs. Skal sá rekstraraðili hafa starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd Austurlands og Umhverfisstofnun eftir því sem við á.

Heilbrigðisnefnd Austurlands hefur eftirlit með meðhöndlun úrgangs í Sveitarfélaginu Hornafirði skv. 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 737/2003, um meðferð úrgangs.

3. gr.

Markmið.

Markmið samþykktarinnar er:

  1. að lágmarka það úrgangsmagn sem fer til förgunar með því að auka endurvinnslu og endur­nýtingu úrgangs,
  2. að lágmarka kostnað samfélagsins við meðhöndlun úrgangs,
  3. að kostnaður vegna úrgangs greiðist af þeim sem úrganginum veldur.

Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs er lögð til grundvallar samþykkt þessari.

4. gr.

Skilgreiningar.

  1. Meðhöndlun úrgangs felur í sér, söfnun, geymslu, böggun, flokkun, flutning, endurnotkun, endurnýtingu, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim hefur verið lokað.
  2. Söfnunarstöð (gámastöð) er staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar og endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðvar.
  3. Heimilisúrgangur er úrgangur frá heimilum, t.d. matarleifar, pappír, plast, garðaúrgangur, gler, timbur, málmar og sams konar leifar frá rekstraraðilum o.þ.h.
  4. Húsráðendur eru eigendur fasteigna og umráðamenn fasteigna.

Varðandi frekari skilgreiningar vísast til laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og reglugerðar nr. 737/2003, um meðhöndlun úrgangs.

5. gr.

Umgengni og úrgangsforvarnir.

Óheimilt er að skilja eftir eða geyma rusl, garðaúrgang eða annan úrgang á víðavangi, götum og gangstéttum. Sama á við um númerslausar bifreiðar, vélar og sambærilega hluti.

Íbúar, stofnanir og fyrirtæki skulu leitast við að draga úr myndun úrgangs eftir föngum. Úrgang sem fellur til skal flokka þannig að unnt sé að endurnýta, endurnota og endurvinna sem mest og lágmarka magn úrgangs sem fer til urðunar.

6. gr.

Heimilisúrgangur.

Söfnunarílát fyrir heimilisúrgang skulu vera við heimili og er sérhverjum húsráðanda skylt að nota þau ílát og þær aðferðir við geymslu og meðferð úrgangs sem umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Hornafjarðar ákveður hverju sinni, í samráði við heilbrigisnefnd og í samræmi við lög og reglur þar að lútandi.

Húsráðendur fá afhent söfnunarílát, tunnur, frá sveitarfélaginu og eru ábyrgir fyrir lánstunnum. Húsráðendur skulu gæta þess að valda ekki skemmdum á ílátunum.

Húsráðendur skulu halda sorpílátum hreinum svo ekki skapist heilsuspillandi aðstæður eða óþæg­indi af völdum þeirra. Haldi húsráðendur sorpílátum ekki hreinum getur sveitarfélagið látið hreinsa ílátin á kostnað þeirra.

Sorpílátin eru eign sorphirðuverktaka samkvæmt útboði þar um. Sé ílát skemmt af öðrum ástæðum en eðlilegri notkun og sliti getur sorphirðuverktaki farið fram á að íbúðareigandi greiði fyrir nýtt ílát.

Sorphirðuverktaki útvegar sorpílát til notkunar við íbúðarhúsnæði sem eru:

240 l ílát fyrir endurvinnsluefni í þéttbýli, en 660 l í dreifbýli.
240 l ílát fyrir almennan heimilisúrgang.
35 l ílát undir lífrænan úrgang sem settur er í almennu tunnuna, fyrir þéttbýli.
310 l jarðgerðartunna, fyrir dreifbýli.

Húsráðendur eða hússtjórnir fjölbýlishúsa geta beðið um að ílátum sé fjölgað eða fækkað og greiðir þá viðkomandi fyrir flutning íláta samkvæmt reikningi og aukagjald fyrir hvert ílát. Fjöldi íláta skal ekki vera svo takmarkaður að þau yfirfyllist, gæta skal þess að fylla ekki sorpílátin meira en svo að auðveldlega megi loka þeim. Umhverfisnefnd gefur út og birtir upplýsingar um hversu oft hirða heimilisúrgangs fer fram. Ákvörðun um tíðni hirðu heimilisúrgangs skal tekin í samráði við heilbrigðisnefnd Austurlands og framkvæmdaraðila/verktaka.

Úrgangi til endurvinnslu, lífrænum- og heimilisúrgangi er safnað samkvæmt sorpdagatali sem Sveitarfélagið Hornafjörður gefur út árlega og birtir á vef sveitarfélagsins.

Í endurvinnslutunnuna fara blöð, pappi, ál og plast.

Í ílátið undir lífrænan úrgang fer matarúrgangur annað en hrámeti úr dýraríkinu.

7. gr.

Úrgangur frá fyrirtækjum og stofnunum.

Allir rekstraraðilar í sveitarfélaginu, þ.m.t. gististaðir, skulu flokka úrgang og setja í viðeigandi ílát á sama hátt og heimili.

Húsráðandi atvinnuhúsnæðis sem ekki hefur ílát, skal skila úrgangi á söfnunarstöð sveitarfélagsins. Taka skal gjald fyrir þjónustu við þá á flokkunarstöð sveitarfélagsins samkvæmt gjaldskrá sveitar­félagsins.

Sorpílát og umgengni við þau, svo og flutningur á úrgangi frá fyrirtækjum, skal vera í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisnefndar og samkvæmt reglugerð nr. 737/2003, um meðhöndlun úrgangs. Stað­setning gáma fyrir rekstrarúrgang skal vera í samræmi við ákvarðanir bæjarstjórnar eða ákvæði deiliskipulags. 

8. gr.

Sorpgeymslur og gerði.

Ganga skal þannig frá sorpílátum, sorpgeymslum og sorpgerðum að þau valdi ekki óþrifum eða óþægindum. Halda skal þeim við eftir þörfum og þau hreinsuð reglulega. Sorpgeymslur og -gerði má eingöngu nota til geymslu úrgangs.

Sorpgeymslur skulu vera á jarðhæð og standa sem næst aðkomu að lóð. Þar sem fleiri en eitt sorpílát eru við hús skulu ílát geymd á einum stað en ekki dreift um lóð.

Halda skal greiðfærri leið að sorpílátum og hreinsa burt snjó á vetrum. Þegar hundur er tjóðraður á lóð eða laus á lóð innan hundheldrar girðingar skal tryggja að komast megi óhindrað að sorpílátum til losunar.

Að öðru leyti er vísað til byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og reglugerðar nr. 737/2003, um með­höndlun úrgangs.

9. gr.

Flokkun úrgangs.

Draga skal eftir föngum úr myndun úrgangs. Úrgang sem til fellur skal endurnota eftir föngum. Úrgangur sem ekki verður endurnotaður skal flokkaður til endurnýtingar eða endurvinnslu eins og kostur er.

Þar sem breytingar geta orðið á endurnýtingarmöguleikum geta leiðbeiningar um flokkun breyst. Sveitarfélagið skal í samvinnu við samstarfsaðila í málaflokknum og heilbrigðisnefnd halda uppi fræðslu um flokkun og endurnýtingu til íbúa og lögaðila í sveitarfélaginu sem og ferðamanna og gesta.

Í sorpílát fyrir almennan heimilisúrgang má aðeins setja það sem ekki er hægt að endurnýta og endurvinna og sem fellur daglega til við venjulegt heimilishald. Í lífræna hólfið skal setja matar­afganga.

Í sorpílát fyrir endurvinnsluefni skal setja plast, pappír, dósir, ál og annan endurvinnanlegan úrgang í samræmi við nánari fyrirmæli sem kunna að verða sett um flokkun úrgangs.

Annan úrgang er óheimilt að setja í sorpílát.

10. gr.

Söfnunarstöð.

Allur úrgangur sem ekki er heimilt að setja í sorpílát fyrir almennan heimilisúrgang og ílát fyrir endurvinnsluefni skal fluttur til móttöku- og flokkunarstöðvar. Þetta gildir bæði um úrgang frá heimilum og lögaðilum.

Á Höfn er söfnunarstöð fyrir flokkaðan úrgang, Gáran, að Álaleiru 2. Þar er tekið á móti flokkuðum úrgangi frá heimilum og fyrirtækjum samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins hverju sinni.

Til söfnunarstöðvarinnar, Gárunnar, skal skila eftirfarandi: Spilliefnum, og öðrum hættulegum úrgangi, timbri, brotamálmum, rafmagns- og rafeindatækjum sem og öðrum grófum úrgangi. Lyfjum skal skila í apótek.

Í dreifbýli er móttaka fyrir lífrænan úrgang og móttaka fyrir járn og timbur á auglýstum tímum.

Óheimilt er að losa annan úrgang á söfnunar- og móttökustöðvum en þá flokka sem tilgreindir eru með merkingum á viðkomandi stöð.

Garðaúrgangi og jarðvegsefni, þ.m.t. grjóti og múrbroti, skal komið á sérmerktan losunarstað sem umhverfisfulltrúi sveitarfélagsins vísar á.

Glerbrotum og öðrum oddhvössum úrgangi skal pakka inn ef þeir fara í almennt sorp en æskilegt er að skila þeim til söfnunar- og flokkunarstöðvar. 

11. gr.

Gjaldtaka.

Sveitarfélagið Hornafjörður innheimtir gjald fyrir förgun úrgangs í samræmi við ákvæði 1. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Þá innheimtir sveitarfélagið gjald fyrir alla aðra meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laganna. Gjöldin skulu ákvörðuð og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er samkvæmt ákvæðum 23. gr. sömu laga og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Gjöld mega aldrei vera hærri en nemur þeim raunkostnaði sem verður til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, svo og við veitta þjónustu og framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Sveitarstjórn er heimilt að haga gjaldskrá fyrir sorphirðugjöld með þeim hætti að það hvetji íbúa til að draga úr magni úrgangs sem til fellur og fer til urðunar.

Heimilt er að leggja gjöld þessi á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem nýtur þjónustunnar.

Gjöld skal miða við kostnað við losun eða hirðingu sorphirðuíláta og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun hverju sinni, hvort sem um er að ræða flokkaðan eða óflokkaðan úrgang. Heimilt er að innheimta sorphirðugjöld hjá fyrirtækjum og stofnunum samkvæmt magni úrgangs.

Gjöld fyrir förgun og hirðu á blönduðum og flokkuðum úrgangi innheimtast með fasteignagjöldum og á sömu gjalddögum.

Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda. Í gjaldskránni skal vísa til þessarar samþykktar.

12. gr.

Refsiviðurlög.

Með brot á samþykkt þessari skal farið samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og 68. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

13. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi sem er sett samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. ákvæði 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, staðfestist hér með og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 390/2016 um meðhöndlun úrgangs í Sveitarfélaginu Hornafirði.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 16. febrúar 2018.

F. h. r.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Laufey Helga Guðmundsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 2. mars 2018