Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1655/2023

Nr. 1655/2023 18. desember 2023

REGLUGERÐ
um sóttvarnavottorð og sóttvarnaundanþágu fyrir skip.

1. gr.

Heilbrigðisnefnd, í samráði við Samgöngustofu, hefur heilbrigðiseftirlit með skipum og gefur út sóttvarnavottorð og vottorð um sóttvarnaundanþágu fyrir skip samkvæmt ákvæðum alþjóða­heilbrigðis­reglugerðarinnar, sem birt var í C-deild Stjórnartíðinda sbr. auglýsing nr. 3/2020. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum XIV. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Vottorð skulu vera á ensku og í samræmi við fyrirmynd í fylgiskjali 1 og gilda í sex mánuði hið mesta. Framlengja má gildistíma vottorðs um sóttvarnaundanþágu um einn mánuð annars vegar ef ekki er unnt að framkvæma skoðun og engar vísbendingar eru um sýkingu eða mengun eða hins vegar ef ekki er unnt að beita tilskildum sóttvarnaráðstöfunum í viðkomandi höfn.

Heimilt er að veita vottorð um sóttvarnaundanþágu fyrir skip í þeim höfnum sem tilgreindar eru í töflu 1 í fylgiskjali 2. Eingöngu er heimilt að veita sóttvarnavottorð fyrir skip í þeim höfnum sem tilgreindar eru í töflu 2 í fylgiskjali 2.

Við framkvæmd reglugerðarinnar skal fylgja ákvæðum alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar.

 

2. gr.

Vakni grunur um hættu fyrir heilsu manna um borð og ekki eru til staðar gild vottorð um sóttvarna­undanþágu eða sóttvarnavottorð fyrir skip er heilbrigðisnefnd, að höfðu samráði við Sam­göngu­stofu, heimilt að skoða skipið og getur í kjölfarið gripið til eftirfarandi aðgerða:

  1. Ef engar vísbendingar eru um hættu fyrir heilsu manna getur heilbrigðisnefnd gefið út vott­orð um sóttvarnaundanþágu fyrir skipið.
  2. Ef vart verður við hættu fyrir heilsu manna skal heilbrigðisnefnd tilkynna sóttvarnalækni um hana og með fullnægjandi hætti grípa til sóttvarnaráðstafana eða sjá til þess að til þeirra verði gripið svo hún geti gefið út sóttvarnavottorð fyrir skipið. Ef aðstæður eru þess eðlis að ekki er unnt að ná fullnægjandi árangri við sóttvarnaráðstafanir, að mati heilbrigðisnefndar, skal gera athugasemd um það í sóttvarnavottorði skipsins. Nauðsynlegt er að ljúka sóttvarna­ráðstöf­unum áður en nýtt sóttvarnaundanþáguvottorð er veitt.

Útgerð eða umboðsmaður skips greiðir kostnað vegna eftirlits og útgáfu vottorðs um sóttvarna­undanþágu eða útgáfu sóttvarnavottorðs.

 

3. gr.

Heilbrigðisnefnd skal senda Samgöngustofu upplýsingar um útgáfu á vottorði um sóttvarna­undanþágu og sóttvarnavottorð en upplýsingar um sóttvarnavottorð skal einnig senda sóttvarna­lækni, ásamt upplýsingum um gildistíma þeirra.

 

4. gr.

Reglugerð þessi gildir um skip, stærri en 200 brúttótonn, sem sigla milli landa. Reglugerð þessi gildir ekki um skip eða báta undir 200 brúttótonnum s.s. fiskiskip, lystisnekkjur, björgunarbáta, hafnsögubáta, vitaskip, varðskip, dráttarskip og dýpkunarskip.

 

5. gr.

Um valdsvið, beitingu þvingunarúrræða og viðurlaga samkvæmt reglugerð þessari fer sam­kvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

 

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og meng­unarvarnir til innleiðingar á ákvæðum alþjóða heilbrigðisreglugerðarinnar (IHR 2005) varðandi vottorð um sóttvarnaundanþágu fyrir skip og sóttvarnavottorð fyrir skip, að höfðu samráði við innviða­ráðuneyti, hvað hlutverk Samgöngustofu varðar, og heilbrigðisráðuneyti, hvað hlutverk sóttvarna­læknis varðar. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga er varðar hlutverk heilbrigðisnefnda samkvæmt reglugerð þessari. Reglugerðin tekur þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi 55. gr. a., fylgiskjal 4 og fylgiskjal 5 reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002.

 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 18. desember 2023.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Stefán Guðmundsson.

 

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 4. janúar 2024