Samkvæmt 3. mgr. 81. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra staðfest stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðland í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð. Einnig hefur ráðherra staðfest eftirfarandi reglur um dvöl og umferð sem settar hafa verið fram í stjórnunar- og verndaráætluninni í samræmi við 2. mgr. 81. gr. laga nr. 60/2013:
1. gr.
Óheimilt er að dreifa framandi tegundum innan friðlandsins.
2. gr.
Kvikmyndataka og ljósmyndun skal ekki trufla dýralíf innan friðlandsins og truflun við aðra gesti skal vera í lágmarki. Afla skal leyfis Umhverfisstofnunar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem hafa í för með sér hættu á jarðraski, truflun á dýralífi eða upplifun gesta innan verndarsvæðisins, s.s. vegna kvikmyndagerðar, viðburða og samkomuhalds. Stofnuninni er heimilt að setja skilyrði þegar slík leyfi eru veitt.
3. gr.
Hjólreiðar eru heimilar á stígum innan friðlandsins en taka skal tillit til annarra vegfarenda.
4. gr.
Hundar og gæludýr skulu vera í taumi og undir tryggri stjórn innan friðlandsins þannig að þau trufli síður dýralíf og gesti.
5. gr.
Óheimilt er að lenda þyrlum og öðrum mönnuðum loftförum innan friðlandsins nema að fengnu leyfi frá Umhverfisstofnun. Undanskilið banninu eru leitar- og björgunaraðgerðir og starfsemi Landhelgisgæslunnar, sbr. lög nr. 60/1998 og reglugerð nr. 1185/2012.
6. gr.
Notkun ómannaðra loftfara er óheimil yfir friðlandinu á tímabilinu frá 1. maí til 15. júlí til verndar dýralífi. Undanskilið banninu eru leitar- og björgunaraðgerðir og starfsemi Landhelgisgæslunnar, sbr. lög nr. 60/1998 og reglugerð nr. 1185/2012.
7. gr.
Óheimilt er að tjalda eða nota tjaldvagna, fellihýsi, húsbíla og annan sambærilegan búnað innan friðlandsins. Landeigendum er heimilt að leyfa tjöldun á sínu landi.
Stjórnunar- og verndaráætlunin öðlast þegar gildi.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 20. desember 2021.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Sigríður Auður Arnardóttir.
|