1. gr.
Markmið, gildissvið og umsjón.
Samþykkt þessi er sett til að tryggja skipulag og stjórnun búfjárhalds, vörslu gripa og handsömun þeirra í samræmi við ákvæði laga um búfjárhald nr. 38/2013, laga um velferð dýra nr. 55/2013, koma í veg fyrir ágang búfjár á lóðir íbúa og vernda gróður í sveitarfélaginu og 32. gr. lögreglusamþykktar fyrir sveitarfélög í umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Í þessari samþykkt er með búfjárhaldi átt við nautgripa-, hrossa-, svína-, sauðfjár-, geita-, loðdýra‑, kanínu- og alifuglahald, sbr. lög nr. 38/2013 um búfjárhald og gildandi reglugerðir er snúa að viðkomandi dýrategundum.
Samþykkt þessi tekur til þéttbýlis í Suðurnesjabæ, þ.e. þéttbýliskjarnanna Garðs og Sandgerðis og kemur afmörkun fram í meðfylgjandi myndum, sjá fylgiskjal 1 og fylgiskjal 2.
Framkvæmda- og skipulagsráð fer með framkvæmd þessarar samþykktar í umboði bæjarstjórnar og felur skipulags-og umhverfissviði að vinna samkvæmt henni, að svo miklu leyti sem hún er ekki falin öðrum samkvæmt lögum.
Með umráðamanni búfjár í samþykkt þessari er átt við eiganda búfjár eða aðila sem er ábyrgur fyrir fóðrun, aðbúnaði og vörslu þess í samræmi við samþykkt þessa eða samkvæmt samningi milli aðila, sbr. 9. tölul. 3. gr. laga nr. 38/2013 um búfjárhald.
2. gr.
Takmörkun á búfjárhaldi.
Búfjárhald er óheimilt í þéttbýli í Suðurnesjabæ, eins og það er afmarkað samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins, með eftirfarandi undantekningum:
- Unnt er að sækja um leyfi skv. 3. gr. til búfjárhalds fyrir ákveðnar tegundir búfjár, svo sem fyrir hænsni og kanínur. Heimildin nær til þess að hafa að jafnaði allt að 10 hænsni sem séu í öruggu hænsnagerði. Hanar eru með öllu bannaðir í þéttbýli í sveitarfélaginu. Einnig er heimilt að hafa allt að 5 kanínur yngri en 12 mánaða, í öruggu kanínugerði. Sveitarfélagið getur veitt sérstaka heimild í öðrum tilvikum að gættu jafnræði og gagnsæi.
- Unnt er að sækja um leyfi skv. 3. gr. til búfjárhalds, án þeirra takmarkana sem getið er í a-lið, á þeim svæðum innan þéttbýlis sem tilgreind eru í meðfylgjandi fylgiskjölum (afmörkun II). Umrædd svæði eru í skipulagi skilgreind sem opin svæði með hverfisvernd að hluta þar sem ekki eru áform um þéttingu byggðar.
Lausaganga búfjár er í öllum tilvikum óheimil í þéttbýli sveitarfélagsins.
3. gr.
Umsókn og skilyrði leyfis.
Hver sem vill fá leyfi til búfjárhalds innan þéttbýlis Suðurnesjabæjar, sbr. 2. gr., skal senda um það umsókn á þar til gerðu eyðublaði til skipulags- og umhverfissviðs.
Í umsókn skal gera grein fyrir fjölda búfjár, tegund þess, hvaða húsnæði sé til umráða og annað er máli kann að skipta um öryggi þess og vörslu. Leyfi skal einungis veitt þeim sem getur tryggt örugga vörslu búfjárins allan ársins hring, á viðunandi beitilandi og í gripahúsum og innan gripheldrar girðingar. Umráðamaður skal hafa tilkynnt um búfjárhald til Matvælastofnunar, ef um tilkynningarskylt dýrahald er að ræða, sbr. ákvæði laga nr. 55/2013 um velferð dýra, og uppfylla kröfur laga nr. 38/2013 um búfjárhald og laga nr. 55/2013 um velferð dýra og reglugerða settra á grundvelli laganna.
Telji Suðurnesjabær að umsækjandi uppfylli þau skilyrði sem krafist er, skal sveitarfélagið veita leyfi. Leyfið er gefið út á nafn og er ekki framseljanlegt. Heimilt er að veita leyfi til allt að fimm ára í senn. Leyfið er háð ákvæðum í samþykkt þessari og er uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert.
Óski leyfishafi búfjár eftir því að halda annan búfénað en þann sem um getur í leyfisbréfi, fjölga búfénaði eða óska eftir yfirtöku búfjárhalds sem leyfi hefur verið veitt fyrir, skal sótt um nýtt leyfi.
4. gr.
Handsömun búfjár og kostnaður.
Berist Suðurnesjabæ tilkynning um lausagöngu búfjár eða starfsmenn sveitarfélagsins verða þess áskynja hefur Suðurnesjabær forgöngu um að láta handsama ágangsgripi.
Sveitarfélagið telst umráðamaður þess búfjár sem það handsamar og skal það vera í umsjón sveitarfélagsins þar til umráðamaður vitjar þess.
Ef umráðamaður vitjar ekki búfjárins innan viku frá því að honum var tilkynnt um handsömun þess eða ef umráðamaður finnst ekki innan tveggja vikna er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa dýrunum til nýs eiganda, selja þau gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta.
Suðurnesjabæ er heimilt að innheimta hjá umsjónarmanni búfjár kostnað vegna handsömunar þess, samkvæmt auglýstri gjaldskrá. Er sá kostnaður tryggður með lögveði í búfénu.
5. gr.
Eftirlit og viðurlög.
Ef leyfishafi brýtur ítrekað gegn lögum um búfjárhald nr. 38/2013 eða samþykkt þessari, má svipta hann leyfi til búfjárhalds með fjögurra vikna fyrirvara.
Brot gegn samþykkt þessari varða sektum eða fangelsi ef þau eru framin af ásetningi. Um brot á samþykkt þessari fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 38/2013 um búfjárhald.
6. gr.
Gildistaka.
Samþykkt þessi, sem var samþykkt af bæjarstjórn Suðurnesjabæjar 3. maí 2023, er sett með heimild í 4. gr. laga um búfjárhald nr. 38/2013 og lögum um velferð dýra nr. 55/2013 og öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þeir sem eiga eða hafa í umsjá sinni búfé sem fellur undir ákvæði til leyfisveitingar, skulu sækja um leyfi til búfjárhalds hjá Suðurnesjabæ innan 12 mánaða frá gildistöku samþykktarinnar.
Suðurnesjabæ, 12. júní 2023,
Magnús Stefánsson bæjarstjóri.
Fylgiskjöl. (sjá PDF-skjal)
|