1. gr.
Samkvæmt 7. gr. reglugerðar um fasteignaskatt nr. 1160/2005, sbr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, getur Múlaþing veitt styrki vegna fasteigna þar sem rekin er, án þess að vera í ágóðaskyni, menningar-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstarfsemi.
2. gr.
Félagasamtök geta sótt um og fengið styrk hjá sveitarfélaginu vegna álagningar fasteignaskatts á húsnæði í þeirra eigu, sem nýtt er til ofangreindrar starfsemi. Styrkurinn nemur mismun á álagningu fasteignaskatts samkvæmt C-flokki sem lagður er á slíkt atvinnuhúsnæði og álagningu á viðkomandi húsnæði samkvæmt A-flokki. Af umræddu húsnæði greiðir eigandi því fasteignaskatt eins og um íbúðarhúsnæði væri að ræða.
3. gr.
Umsóknum skal skila til Múlaþings fyrir 31. janúar ár hvert. Í umsókninni komi fram lýsing á starfsemi sem fer að jafnaði fram í húsnæðinu og frávikum frá henni ef þau eru til staðar. Ef það húsnæði sem sótt eru um styrk fyrir er leigt út t.d. til veisluhalds, verslunarstarfsemi, dansleikjahalds eða ferðaþjónustu, reiknast styrkurinn sem ákveðið hlutfall af nýtingu hússins. Heimilt er sveitarfélaginu að óska eftir frekari skýringum og gögnum hjá umsækjanda sem sýna fram á nýtingu húsnæðisins.
4. gr.
Af atvinnuhúsnæði sem sveitarfélagið er leigjandi að undir ofangreinda starfsemi greiðist fullur fasteignaskattur, enda skal gert ráð fyrir því í forsendum við útreikning húsaleigunnar.
5. gr.
Halda skal skrá yfir það húsnæði sem nýtur umræddra styrkja og skal hún lögð fyrir og staðfest af byggðarráði í upphafi hvers árs.
6. gr.
Reglur þessar öðlast þegar gildi.
Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 9. febrúar 2022.
Egilsstöðum, 14. febrúar 2022.
Björn Ingimarsson sveitarstjóri.
|