Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 770/2024

Nr. 770/2024 10. júní 2024

REGLUR
um sviðslistasjóð.

1. gr.

Hlutverk sviðslistasjóðs.

Hlutverk sviðslistasjóðs er að efla íslenskar sviðslistir og standa straum af öðrum verkefnum sem falla undir hlutverk og starfsemi á sviði sviðslista með úthlutun fjár úr sjóðnum til atvinnuhópa.

Sviðslistaráð gerir tillögur til menningar- og viðskiptaráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sjóðsins til þriggja ára.

Rannsóknamiðstöð Íslands annast alla umsýslu sviðslistasjóðs.

 

2. gr.

Auglýsing eftir umsóknum.

Sviðslistaráð sér til þess að auglýst sé með tryggilegum hætti eftir umsóknum um styrki úr sviðslistasjóði. Auglýsingu skal birta á vef ráðuneytisins og vef umsýsluaðila.

Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um tilgang og hlutverk stuðningsins, sú styrkfjárhæð sem í boði er, hvaða skilyrði umsækjandi þarf að uppfylla til að eiga rétt til styrks,

helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum og hvar eyðublöð fyrir umsóknir er að finna. Þá skal skilgreindur umsóknarfrestur og hvenær umsóknir verði afgreiddar.

Auglýst skal eftir umsóknum einu sinni á ári. Frestur til að skila inn umsókn skal vera fjórar vikur frá birtingu auglýsingar, hið minnsta.

Ef fyrir liggur ákvörðun um einstök áherslusvið við úthlutun úr sviðslistasjóði skal þess getið í auglýsingu.

 

3. gr.

Umsóknir.

Umsóknir skulu bera greinilega með sér hvernig umsækjandi hyggst verja styrknum. Umsóknum skulu fylgja meðal annars eftirtalin gögn og upplýsingar eftir því sem við á:

  1. Upplýsingar um umsækjanda og forsvarsmann.
  2. Heiti verkefnis.
  3. Upplýsingar um þátttakendur og hlutverk þeirra í verkefninu.
  4. Lýsing á verkefninu.
  5. Verk- og tímaáætlun.
  6. Fjárhagsáætlun þar sem fram koma upplýsingar um áætlaðan kostnað, helstu viðmið vegna launa, húsnæðis, kynningar- og markaðskostnaðar og efniskostnaðar, tekjur, hlutdeild annarra í kostnaði við verkefnið og styrkfé sem verkefnið hefur hlotið eða sótt um.
  7. Staðfest gögn frá samstarfsaðilum sem og önnur gögn til stuðnings umsókn.

 

4. gr.

Mat á umsóknum.

Mat á umsóknum um verkefnastyrki skal einkum byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum eftir því sem við á. Sviðslistaráð gefur út matskvarða fyrir hverja úthlutun sem birtist á vef umsýsluaðila, sbr. 2. mgr. 1. gr.:

  1. Gildi og mikilvægi verkefnisins fyrir eflingu íslenskra sviðslista.
  2. Gildi og mikilvægi verkefnisins til að stuðla að fjölbreytileika og til að koma til móts við mismunandi hópa áhorfenda.
  3. Nýsköpun s.s. á sviði leikritunar eða nýrra aðferða.
  4. Að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum sem verkefnið miðar að.
  5. Starfsferli, faglegum og/eða listrænum bakgrunni þátttakenda.
  6. Fjárhagsgrundvelli verkefnisins.

Hafi umsækjandi áður fengið styrk úr sviðslistasjóði getur sviðslistaráð óskað eftir greinargerð um framkvæmd fyrra verkefnis og ráðstöfun styrkfjárins, liggi slíkt ekki fyrir, áður en ný styrk­umsókn er afgreidd.

Sviðslistaráð getur kallað eftir frekari upplýsingum vegna umsóknar ef nauðsyn krefur.

Hafi umsækjandi ekki lokið verkefni sem áður hefur verið styrkt innan 30 mánaða frá úthlutun getur sviðslistaráð hafnað nýrri umsókn á þeim forsendum.

Langtímaverkefni eru ekki útilokuð frá styrkveitingum uppfylli þau öll ofangreind atriði og eru ekki miðuð til rekstrar fyrirtækja né annarra hópa.

 

5. gr.

Ákvörðun um styrkveitingar.

Sviðslistaráð tekur ákvörðun um styrkveitingar úr sviðslistasjóði á grundvelli faglegs mats á umsóknum og hefur eftirlit með því að styrkir séu notaðir til þess sem getið var í umsóknum.

 

6. gr.

Tilkynning um afgreiðslu umsóknar.

Umsýsluaðili tilkynnir umsækjendum skriflega um afgreiðslu umsókna þeirra. Umsækjendum um styrki til verkefna, sem fallist er á að styrkja, skal jafnframt tilkynnt um skilyrði sem styrkveiting er bundin, eftirlit sem henni fylgir og viðurlög ef út af bregður.

Sviðslistaráð annast greiðslu styrkja. Viðtaka styrkfjár felur í sér viðurkenningu á að styrkþegi fallist á þau skilyrði sem styrkveiting er bundin.

Styrkir skulu greiddir út sem hér segir:

Styrkir allt að upphæð 3.000.000 kr. eru greiddir út í einni greiðslu eftir undirritun skilmála.
Styrkir að upphæð 3.000.001 kr. til 9.000.000 kr. eru greiddir út í tveimur greiðslum, 80% eftir undirritun skilmála og 20% eftir að lokaskýrsla hefur verið samþykkt.
Styrkir hærri en 9.000.000 kr. eru greiddir út í þremur greiðslum, 50% eftir undirritun skil­mála, 30% eftir að frumsýningardagur er staðfestur og 20% eftir að lokaskýrsla hefur verið samþykkt.
Upplýsingar um styrkveitingar skulu birtar á vef umsýsluaðila og á vef ráðuneytisins.

Á öllu útgefnu efni, auglýsingum o.s.frv. sem tengist hinu styrkta verkefni skal koma fram að það er styrkt af sviðslistaráði. Styrkþegi skal sjá til þess að samstarfsaðilar geri slíkt hið sama.

 

7. gr.

Niðurfelling styrkja.

Verði brestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða að önnur skilyrði sem styrkveiting kann að vera bundin komi ekki fram innan eðlilegra tímamarka, skal sviðslistaráð fjalla um málið og taka ákvörðun um hvort styrkur verði felldur niður.

Að öðru jöfnu skulu styrkþegar nýta styrki sína innan 30 mánaða frá úthlutun. Ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var, má krefjast þess að styrkur­inn verði endurgreiddur í heild eða að hluta.

Áður en ákvörðun samkvæmt 1. og 2. mgr. er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa við­horfi sínu til málsins.

 

8. gr.

Eftirlit.

Styrkþegar skulu skila lokaskýrslu um verkefnið og fjárhagsuppgjöri eigi síðar en 2 mánuðum eftir lok þess. Í uppgjörinu skal tiltaka kostnað og tekjur vegna verkefnisins. Lokaskýrslan og fjár­hags­uppgjörið skulu staðfest af styrkþega og óháðum skoðunarmanni eða endurskoðanda. Styrkþegi ber ábyrgð á að skila skattayfirvöldum fjárhagsuppgjöri og að öll gögn sem uppgjör byggir á séu varðveitt í a.m.k. fimm ár.

 

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 17. gr. laga um sviðslistir, nr. 165/2019, öðlast þegar gildi. Við gildistöku þeirra falla brott reglur um sviðslistasjóð, nr. 868/2020.

 

Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, 10. júní 2024.

 

F. h. r.

Arna Kristín Einarsdóttir.

Marta Nordal.


B deild - Útgáfud.: 1. júlí 2024