FORSETI ÍSLANDS gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
- Í stað orðanna „2. mgr.“ í 1. mgr. kemur: 2. og 3. mgr.
- Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er félagi skv. 1. mgr. 1. gr. heimilt að semja ársreikning og, ef við á, samstæðureikning á ensku, enda hafi félagið af því mikilsverða hagsmuni, svo sem vegna erlendrar fjármögnunar eða viðskiptasambanda. Semji félag ársreikning og, ef við á, samstæðureikning á ensku skal hann þýddur á íslensku og skal í skýringum með íslensku útgáfunni koma fram að um sé að ræða íslenska þýðingu á þeim reikningi sem samþykktur var á hluthafafundi félagsins.
- 3. málsl. 2. mgr. orðast svo: Hafi félag fengið heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skulu allar fjárhæðir í þeim reikningi sem sendur er ársreikningaskrá til varðveislu og birtingar vera í sömu mynt.
2. gr.
Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 7. gr.“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: 3. mgr. 7. gr.
3. gr.
Á eftir 2. mgr. 109. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Gögn sem send eru ársreikningaskrá til birtingar skulu vera á íslensku. Sé ársreikningur saminn á ensku skv. 2. mgr. 7. gr. skal hann sendur ársreikningaskrá á íslensku og ensku.
4. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda fyrir reikningsár sem hófst 1. janúar 2017 eða síðar.
Gjört á Bessastöðum, 14. nóvember 2018.
Guðni Th. Jóhannesson. (L. S.)
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
|