Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 370/2022

Nr. 370/2022 30. mars 2022

REGLUR
um vaxtaviðmið á ótryggðum innlánum í íslenskum krónum.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglna þessara er að lýsa birtingu vaxtaviðmiðs vegna tiltekinna ótryggðra innlána upplýsingaskyldra aðila og skyldum þessara sömu aðila svo slík birting sé möguleg af hálfu Seðla­bankans. Um skil og meðferð gagna í tengslum við birtingu íslensks vaxtaviðmiðs fer eftir reglum þessum.

 

2. gr.

Skilgreining hugtaka.

Peningamarkaðsinnlán: Innlán í íslenskum krónum þar sem samið er um fjárhæð, föst vaxta­kjör, innlánstíma og er öll fjárhæðin bundin allan innlánstímann, sem getur verið frá einum sólar­hring til 12 mánaða.

Upplýsingaskyldir aðilar: Viðskiptabankar sem fengið hafa starfsleyfi skv. 1. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Vaxtaviðmið eða Icelandic Króna Overnight (IKON): Vegið meðaltal vaxta á ótryggðum inn­lánum hjá upplýsingaskyldum aðilum í viðskiptum yfir nótt, þ.e. viðskiptum frá einum viðskipta­degi til þess næsta.

Viðskiptadagur: Virkur afgreiðsludagur viðskiptabanka og sparisjóða frá mánudegi til föstudags.

 

3. gr.

Hlutverk Seðlabanka Íslands.

Seðlabankinn fer með umsjón birtingar á vaxtaviðmiði og skilgreinir hlutverk sitt og hvernig innra eftirliti með birtingu vaxtaviðmiðs er háttað. Skal Seðlabankinn birta þessar upplýsingar á heima­síðu sinni (www.sedlabanki.is).

 

4. gr.

Upplýsingaskylda.

Á grundvelli 1. mgr. 32. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands skulu upplýsingaskyldir aðilar daglega skila til Seðlabankans upplýsingum um öll viðskipti vegna peningamarkaðsinnlána sam­kvæmt skilgreiningu í 2. gr. Seðlabankinn getur óskað eftir úttekt eða staðfestingu innri endur­skoð­anda upplýsingaskylds aðila varðandi gæði og áreiðanleika innsendra gagna. Upplýsingaskil skulu vera á hverju því formi sem Seðlabankinn óskar.

Upplýsingar skulu berast Seðlabankanum eigi síðar en kl. 08.30 hvern dag vegna næsta viðskipta­dags á undan.

Seðlabankinn getur einnig á hverjum tíma kallað eftir ítarlegri upplýsingum um peningamark­aðs­innlán eða önnur atriði sem gera bankanum kleift að birta gögn um vaxtaviðmið. Slíkar upp­lýsingar geta t.d. kallað á að upplýsingaskyldir aðilar þurfi að leiðrétta innsend gögn.

Upplýsingaskyldir aðilar skulu tryggja að starfsmenn þeirra, sem annast upplýsingaskil fyrir þeirra hönd, hafi næga þekkingu og reynslu. Þeir skulu jafnframt tilnefna tengiliði vegna samskipta sinna við Seðlabankann.

Seðlabankinn, sem umsjónaraðili með birtingu vaxtaviðmiðs, skal ásamt upplýsingaskyldum aðilum yfirfara aðferðir við gagnaskil til bankans ár hvert og eftir atvikum móta tillögur að breyttu fyrirkomulagi. Á þessum vettvangi getur Seðlabankinn jafnframt beint tilmælum til upplýs­inga­skyldra aðila um breytta framkvæmd gagnaskila.

 

5. gr.

Útreikningur vaxtaviðmiðs.

Vaxtaviðmið er reiknað út sem vegið meðaltal vaxta í daglegum viðskiptum upplýsingaskyldra aðila. Vextirnir eru vegnir saman með samningsfjárhæð.

Vaxtaviðmið er reiknað og birt fyrir viðskipti sem eru til einnar nætur, þ.e. frá einum viðskipta­degi til þess næsta. Seðlabankinn getur einnig reiknað og birt vaxtaviðmið fyrir aðrar tímalengdir.

Berist engar upplýsingar um viðskipti frá upplýsingaskyldum aðilum, hvort sem það er vegna tæknilegra ástæðna eða engin viðskipti hafa átt sér stað, birtir Seðlabankinn vaxtagildi gærdagsins ásamt nánari skýringum þar um. Hafi verið gerð breyting á vöxtum Seðlabankans á þeim degi sem engar upplýsingar bárust er tekið tillit til þeirra breytinga við birtingu vaxtaviðmiðs.

 

6. gr.

Birting vaxtaviðmiðs.

Seðlabankinn skráir vaxtaviðmið á grundvelli þeirra upplýsinga sem berast frá upplýsinga­skyldum aðilum. Vaxtaviðmið skulu skráð með þremur (3) aukastöfum. Seðlabankinn skal á hverjum degi, eigi síðar en kl. 11.00, birta skráð vaxtaviðmið á heimasíðu bankans vegna viðskipta næsta viðskipta­­dags á undan.

Seðlabankinn birtir einnig upplýsingar um heildarveltu og fjölda viðskipta fyrir þau vaxta­viðmið sem hann birtir.

Seðlabankinn birtir vaxtaviðmið þó ekki berist upplýsingar um viðskipti nema frá hluta af upplýs­inga­skyldum aðilum.

 

7. gr.

Leiðrétting vaxtaviðmiðs.

Komi í ljós villa eða frávik í upplýsingum frá upplýsingaskyldum aðilum á tímabilinu frá kl. 08.30 til kl. 11.00 á þeim degi er vaxtaviðmið er birt af Seðlabankanum og villan nemur að lágmarki tveggja (2) punkta áhrifum á birt vaxtaviðmið, skal Seðla­bankinn leiðrétta og birta vaxtaviðmið með sérstakri tilkynningu eigi síðar en kl. 13.00 á þeim sama degi. Eftir birtingu á leiðréttu vaxtaviðmiði kl. 13.00, verður það ekki leiðrétt frekar þrátt fyrir að nýjum eða breyttum gögnum hafi verið skilað inn af hálfu upplýsingaskyldra aðila.

Seðlabankinn birtir í lok hvers ársfjórðungs yfirlit yfir villur og frávik í upplýsingaskilum, hvort sem þær hafa leitt til breytinga á birtum vaxtaviðmiðum eða ekki.

 

8. gr.

Viðurlög o.fl.

Vanræki upplýsingaskyldur aðili að veita Seðlabankanum upplýsingar á grundvelli 4. gr. reglna þessara, eða komi í ljós að upplýsingaskyldur aðili hefur ítrekað veitt rangar eða misvísandi upp­lýsingar, getur bankinn beitt úrræðum samkvæmt ákvæðum laga nr. 92/2019. Þá getur Seðla­bankinn jafnframt útilokað viðkomandi frá frekari þátttöku skv. reglunum. Sú ákvörðun skal tilkynnt öðrum upplýsingaskyldum aðilum og jafnframt birt á heimasíðu bankans.

Seðlabankinn skal upplýsa upplýsingaskylda aðila með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara ef tekin verður ákvörðun um að hætta birtingu vaxtaviðmiðs á grundvelli reglna þessara eða breyta regl­unum að öðru leyti.

 

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 2. mgr. 46. gr. laga nr. 92/2019, öðlast gildi 1. apríl 2022.

 

Seðlabanka Íslands, 30. mars 2022.

 

  Ásgeir Jónsson 
seðlabankastjóri.
Rannveig Júníusdóttir,
frkvstj. skrifstofu bankastjóra.

                                                    

                                                        


B deild - Útgáfud.: 31. mars 2022