I. KAFLI Um stjórn fjallskilamála. 1. gr. Sveitarfélög í Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslum mynda eitt fjallskilasvæði. Svæðið skiptist í 5 fjallskiladeildir sem eru eftirfarandi: Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur er ein fjallskiladeild. Reykhólahreppur er ein fjallskiladeild. Ísafjarðarsýslur skiptast í þrjár fjallskiladeildir. Fjallskiladeildirnar skiptast eftir sveitarfélagamörkum og eru Bolungarvíkurdeild, Ísafjarðarbæjardeild og Súðavíkurdeild. 2. gr. Sveitarstjórnir eru ábyrgar fyrir framkvæmd fjallskilamála hver í sínu sveitarfélagi. Sveitarstjórnum er heimilt að fela undirnefndum t.d. landbúnaðarnefndum eða búnaðarfélögum umsjón málaflokksins. Sveitarstjórnir geta kveðið nánar á um fjallskil í einstökum atriðum innan marka samþykktar þessarar hver í sínu umdæmi. Sveitarstjórnir tilnefna fjallskilanefnd og formann hennar. Þar sem sveitarfélag skiptist upp í fjallskiladeildir skulu sveitarstjórnir skipa tengiliði við hverja þeirra. Formenn fjallskilanefndar hverrar fjallskiladeildar fyrir sig skulu jafnframt mynda fjallskilastjórn viðkomandi svæðis og skipuleggja eftir þörfum sameiginleg fjallskil svæðisins. Þeir skulu jafnframt tryggja sér samráð við fjallskilastjóra aðliggjandi fjallskilasvæða þar sem fé gengur saman. Fjallskilastjórn svæðisins kýs sér formann. Sveitarstjórnir úrskurða um beitar- og fjallskilamál sem upp kunna að koma, hver í sínu umdæmi. II. KAFLI Um afrétti, heimalönd og upprekstur. 3. gr. Land sem fjallskilasamþykkt þessi tekur til eru öll lönd innan viðkomandi sveitarfélaga þar sem að sauðfé gengur í sumarhögum. III. KAFLI Um göngur og réttir. 4. gr. Fjallskilaskyldur er hver fjáreigandi og leggur hann til fjallskila á þann hátt sem sveitarstjórn ákveður. Skyldur er bóndi að inna af hendi fjallskil fyrir heimamenn sína og aðra sem eiga hjá honum fjallskilaskyldan fénað. Eigendur sauðlausra jarða skulu gera fjallskil eftir ákvörðun sveitarstjórnar. Sama á við um eigendur eyðijarða. 5. gr. Nú fellur sveitarfélag í eyði eða verulegur hluti þess úr byggð skal þá sveitarstjórn sjá til þess að fjallskil séu framkvæmd á eyðilöndum. Fjallskiladeild hvers svæðis skal skilgreina hvaða lönd eru talin falla undir þessa skilgreiningu og skal það endurskoðast eftir þörfum. Fjallskilanefnd skal tilnefna leitarstjóra á þau svæði og ber hann ábyrgð á smölun þeirra. 6. gr. Fjallskilum skal jafnað niður á fjallskilaskylda aðila í hlutfalli við tölu fjallskilaskylds fénaðar. Fjallskil skulu innt af hendi með vinnu eftir því sem þörf krefur og við verður komið, ella goldin í peningum eftir mati sveitarstjórnar. Heimilt er sveitarstjórnum að leggja allt að 2% á landverð allra jarða í sveitarfélaginu, þar með taldar eyðijarðir, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda, miðað við gildandi fasteignamat á hverjum tíma. 7. gr. Til að standa straum af þeim kostnaði, er af fjallskilum leiðir, skal sveitarstjórn hverrar fjallskiladeildar stofna sjóð, sem fjallskilasjóður nefnist og skal hann þá endurskoðaður á sama hátt og sveitarsjóðsreikningur og fylgja honum. Í sveitarfélögum þar sem ekki er sérstakur fjallskilasjóður skulu tekjur og gjöld vegna þessa málaflokks vera aðgreinanleg í ársreikningum sveitarfélagsins. Kostnaði sem af fjallskilum leiðir og ekki hefur verið jafnað niður á búfjáreigendur sem dagsverkum, skal greiddur úr fjallskilasjóði og/eða sveitarsjóði. Tekjur fjallskilasjóðs geta verið: | a) | Niðurjafnað gjald samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar á allt fjallskilaskylt búfé í fjallskiladeildinni og skal tala þess vera fengin úr forðagæsluskýrslum. | | b) | Andvirði óskilabúfjár. | | c) | Bætur fyrir gangnarof skv. 9. gr. þessarar fjallskilasamþykktar. | | d) | Tillag úr sveitarsjóði eftir ákvörðun sveitarstjórnar, sbr. 46. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986. | | e) | Álagt gjald á landverð jarða, sbr. 42. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986. |
8. gr. Hlutaðeigandi sveitarstjórn eða fjallskilanefnd skal árlega fyrir 20. ágúst, semja fjallskilaseðil þar sem mælt er fyrir um hvernig fjallskilum skuli hagað. Fjallskilaseðill skal berast eigi síðar en 15 dögum áður en fjallskil byrja þar sem kemur fram hvað hver fjáreigandi á að leggja til fjallskila á því hausti. Skal tilnefna leitarstjóra einn eða fleiri sem stjórni göngum leitarmanna og annist að leitir fari vel og skipulega fram. 9. gr. Leitarstjórar skulu vera sjálfir í göngum, nema gild forföll hamli, ber þeim þá að setja í staðinn fullgilda menn að mati fjallskilastjóra. Leitarstjóri sker úr um það hverjir séu fullgildir gangnamenn. Ber þeim að raða mönnum í göngur eftir getu þeirra og kunnugleika en forðast að óvanir gangnamenn fari á þau svæði þar sem þeim getur verið hætta búin. Leitarstjórum ber skylda til að tilkynna formanni fjallskilanefndar um gangnarof. Sá sem ekki mætir eða sendir fullgildan gangnamann í göngur á þeim stað og tíma, er honum hefur verið gert að skila gangnadagsverki, telst hafa framið gangnarof. Skal hann þá greiða fyrir gangnarof í sveitar- eða fjallskilasjóð, sem svarar einu og hálfu dagsverki eins og það er metið á hverjum tíma, eftir ákvörðun sveitarstjórnar. 10. gr. Aðalhaustleitir skulu tvær á hausti, sú fyrri vera eigi síðar en í 23. viku sumars og sú síðari eigi síðar en í 25. viku sumars. Viðkomandi sveitarstjórn eða fjallskiladeild ákveður leitardaga á sínu svæði. Þá skal smala allt það land þar sem fénaður hefur gengið á, sem mest á sama tíma. Þess skal gætt sérstaklega að leitir fari samtímis fram á samliggjandi leitarsvæðum svo eigi verði misgöngur. Skulu leitarstjórar hafa samstarf um þá tilhögun er best tryggir samræmda smölun. Sveitarstjórnir eða fjallskilanefndir geta ef þurfa þykir fyrirskipað þriðju leit og ákveðið leitardag. Fjallskilanefnd getur fyrirskipað eigendum búfjár að halda sínu fé í allt að 10 dögum innan gripheldrar girðingar eftir seinni smölun meðan fullnaðar hreinsun leitarsvæða fer fram. Ef veður eða aðrar ástæður hamla leitum, eða torvelda fulla gagnsemi þeirra að dómi leitarstjóra, getur hann að höfðu samráði við fjallskilanefnd frestað leitum þar til betur horfir. Allar breytingar á fyrirkomulagi leita, skal tilkynna aðliggjandi fjallskiladeildum. 11. gr. Hver bóndi er skyldur að hirða fé sem finnst í heimalöndum eftir að almennum fjallskilum er lokið, láta eigendur og/eða leitarstjóra vita og greiða fyrir því að það komist til réttra eigenda. Fjallskilanefnd hvers svæðis ber ábyrgð á að þessu ákvæði sé framfylgt. Um utansveitarfé tilkynnist til fjallskilanefndar sem ráðstafar því. 12. gr. Nú verður vart fjár í ógöngum og er þeim þá skylt er sér, að tilkynna það leitarstjóra viðkomandi leitarsvæðis. Sé björgun óframkvæmanleg eða of hættuleg að dómi leitarstjóra eða aðstæður það örðugar að tvöfalt verð fjárins hrökkvi ekki fyrir björgunarkostnaði, er skylt að skjóta féð, sé það unnt. Takist björgun kinda úr slíkum ógöngum, greiðir eigandi kindarinnar hálft andvirði hennar fyrir björgun en sveitarsjóður þar sem eigandi er heimilisfastur hinn hluta kostnaðarins. Náist kindur hins vegar ekki lifandi skal viðkomandi sveitarsjóður bera kostnað vegna tilraunarinnar. IV. KAFLI Um fjárréttir og viðhald. 13. gr. Sveitarstjórnir í samráði við fjallskilanefndir ákveða hvar lögréttir skuli vera. Sveitarstjórnir og fjallskilanefndir sjá um byggingu og viðhald lögrétta og sundurdráttarrétta. Kostnaður við nýbyggingu og viðhald greiðist úr fjallskilasjóði viðkomandi sveitarfélags eða úr sveitarsjóði ef fjallskilasjóður er ekki til staðar. Sveitarstjórn skal sjá til þess að vélknúnum ökutækjum sé fært að lögrétt og aðstaða sé góð til að koma réttarfé á bíla og fjárvagna. Sveitarstjórn ber að sjá um, að til sé á hverjum réttarstað hæfilega stór rétt og nægilegt dilkarými við hverja rétt, svo og að réttinni sé vel við haldið, sbr. 49. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986. Dilkar í fjárréttum skulu vera svo rúmgóðir að enginn þurfi að hleypa út fé fyrr en sundurdrætti er lokið. Skylt er að sjá utansveitarmönnum fyrir nægilegu dilkrými, þá skal vera aðstaða til að einangra sjúkar kindur. Ómerkingum, óskilafé og línubrjótum skulu ætlaðir sérstakir dilkar. Fjallskiladeildum er heimilt að setja upp færanlegar réttir til notkunar á þeim stöðum sem engar réttir eru fyrir og þeim stöðum sem eru komnir í eyði. Kostnað af þeim skal fjallskilasjóður bera. Sveitarstjórn má leyfa að fjallsöfn séu rekin í heimaréttir til sundurdráttar en setur þá ákveðin fyrirmæli um hvernig skuli með sjúkt fé og óskilafé farið. 14. gr. Hver aukarétt og/eða heimarétt heyrir undir aðalrétt sömu fjallskiladeildar. Úrtíningsfé úr aukaréttum og heimaréttum skal rekið eða flutt til aðalréttar af mönnum sem sveitarstjórn hefur til þess kvatt. Einnig getur sveitarstjórn ákveðið að dregið skuli upp í hverri rétt. Vegna hættu á dreifingu sauðfjársjúkdóma getur sveitarstjórn bannað flutning milli rétta. Enginn má reka eða flytja fé frá rétt fyrr en úrtíningur hefur verið að fullu sundur dreginn, nema réttarstjóri leyfi. 15. gr. Sundurdráttur í réttum skal hafinn svo fljótt sem unnt er. Draga skal eftir markaskrám eftir því sem þörf krefur. Með ómerkinga og annan óskilapening skal farið samkvæmt VIII. kafla laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986. V. KAFLI Um mörk og markaskrár. 16. gr. Fjármörk eru: Örmerki, eyrnamerki, brennimörk og plötumerki í eyra. Hver fjáreigandi er skyldur að hafa glöggt mark á fé sínu. Skylt er hverjum fjáreiganda að hafa bæjarnúmer samkvæmt landsmarkaskrá í fé sínu. 17. gr. Sauðfé skal draga eftir mörkum. Merkið helgar markeiganda kind, nema sannist að annar eigi. Enginn má draga sér kind, sem eigi ber hans rétta mark. Við sönnun á eign kindar er örmerki rétthæst, þar næst brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnarmark. 18. gr. Um rétt til fjármarka, skráningar þeirra og birtingu fer eftir lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986. VI. KAFLI Almenn ákvæði. 19. gr. Sýslumaður sker úr ágreiningi milli sveitarstjórna út af fjallskilamálum. Þá heyra undir úrskurð hans allar kærur og kröfur á hendur sveitarstjórnum, er snerta fjallskilamál. Enn fremur geta einstakir aðilar lagt slík ágreiningsmál undir úrskurð sýslumanns. 20. gr. Brot gegn ákvæðum þessarar fjallskilasamþykktar geta varðað sektum og skal fara með mál út af þeim að hætti laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. 21. gr. Samþykkt þessi sem samin hefur verið að tilhlutan Búnaðarsambands Vestfjarða og í samstarfi við bæjarstjórnir/sveitarstjórnir Vesturbyggðar, Tálknafjarðarhrepps, Reykhólahrepps, Ísafjarðarbæjar, Súðavíkurhrepps og Bolungarvíkurkaupstaðar, staðfestist hér með samkvæmt 3. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Falla þá úr gildi allar eldri fjallskilasamþykktir viðkomandi sveitarfélaga. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 14. ágúst 2012. F. h. r. Óskar Páll Óskarsson. Hrafn Hlynsson. |