Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 994/2013

Nr. 994/2013 8. nóvember 2013
REGLUGERÐ
um skýrsluskil vegna viðskipta með sjávarafla.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til aðila sem stunda viðskipti með afla og forsvarsmanna útgerða vegna viðskipta með afla eða afurðir vinnsluskipa.

2. gr.

Skýrsluskil.

Aðilar samkvæmt 1. gr. skulu gera skýrslur og standa skil á þeim skýrslum til Fiskistofu, allt samkvæmt nánari fyrirmælum reglugerðar þessarar. Skýrslum skal skila á eyðublaði sem Fiskistofa gefur út eða með öðrum hætti sem Fiskistofa samþykkir.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka svo sem hér segir:

  1. Kaupandi afla: Aðili sem kaupir afla hvort sem er til vinnslu eða endursölu, þ.m.t. kaup aðila á afla af eigin skipum.
  2. Afli: Allur sjávarafli sem skylt er að koma með að landi skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða.
  3. Afurð: Sjávarafli sem meira hefur verið gert að en blóðga, slægja eða hausa.
  4. Vinnsluskip: Skip þar sem frekari vinnsla fer fram en blóðgun, slæging eða hausun.
  5. Vinnsluaðili: Aðili sem annast hvers konar vinnslu afla, aðra en blóðgun, slægingu eða hausun.
  6. Fiskmarkaður: Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla.

4. gr.

Vigtarskýrsla.

Kaupandi afla skal mánaðarlega skila til Fiskistofu vigtarskýrslu yfir móttekinn afla. Sér­stök skýrsla skal gerð vegna hvers söluaðila.

Í vigtarskýrslu skal færa eftirfarandi upplýsingar:

  1. Nafn og kennitölu seljanda.
  2. Nafn og kennitölu kaupanda.
  3. Afhendingardag.
  4. Fisktegund.
  5. Ástand afla, (slægt, hausað, ísað, heilfryst, hæft/óhæft).
  6. Magn tegundar.
  7. Kílóverð tegundar.

Ætli kaupandi afla öðrum aðila að annast vinnslu aflans skal tilgreina vinnsluaðila.

Ef afli/afurð er keypt/-ur beint af fiskiskipi skal jafnframt skrá:

  1. Nafn skips.
  2. Skipaskrárnúmer.
  3. Veiðarfæri.
  4. Veiðisvæði.
  5. Löndunarhöfn.
  6. Löndunardag.

Ef afli er keyptur fyrir milligöngu fiskmarkaðar á uppboði þarf ekki að gera grein fyrir verði þess afla í vigtarskýrslu.

5. gr.

Ráðstöfunarskýrsla.

Kaupandi afla skal mánaðarlega skila einni skýrslu sem tilgreinir ráðstöfun keypts afla samkvæmt samanlögðum vigtarskýrslum hans.

Í ráðstöfunarskýrslu skal færa eftirfarandi upplýsingar:

  1. Nafn kaupanda.
  2. Nafn starfsstöðvar.
  3. Ástand afla (slægt, hausað, ísað, heilfryst).
  4. Fisktegund.
  5. Magn tegundar.
  6. Vinnsluaðferð.
  7. Birgðir í upphafi tímabils.
  8. Fiskkaup á tímabilinu.
  9. Sölu óunnins afla (magn):
    1. Til vinnslustöðvar.
    2. Til útflutnings í gám.
    3. Til útflutnings með flugfrakt.
  10. Sölu til neyslu innanlands (magn).
  11. Birgðastöðu í lok tímabils.

Ef kaupandi framselur afla skal hann skila skýrslu þar sem greint er frá nafni og kenni­tölu kaupanda afla, afhendingardegi, fisktegund, magni og ástandi afla við sölu.

6. gr.

Kaupandi afla skal eigi síðar en 20. hvers mánaðar senda Fiskistofu skýrslur skv. 4. og. 5. gr. vegna undanfarandi mánaðar.

7. gr.

Vinnsluskip.

Útgerð vinnsluskipa skal eigi síðar en 30 dögum eftir að vinnsluskip lýkur veiðiferð og kemur til hafnar senda Fiskistofu skýrslu um magn og verð afla og einstakra afurða sem voru afrakstur veiðiferðar.

Hafi afli/afurðir ekki verið seldur/-ar eða ekki liggur fyrir samningur við kaupanda um verð afla/afurða skal verð þeirra áætlað í samræmi við kjarasamning við áhöfn vinnslu­skipsins. Endanlegar upplýsingar um verð skal senda Fiskistofu eigi síðar en 15 dögum eftir sölu.

8. gr.

Fiskmarkaður.

Fiskmarkaður skal mánaðarlega og eigi síðar en 15. hvers mánaðar senda Fiskistofu skýrslu með upplýsingum um seldan afla á uppboði í síðastliðnum mánuði. Þar skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar um einstök viðskipti:

  1. Nafn fiskmarkaðar og kennitala.
  2. Nafn seljanda.
  3. Nafn skips og skipaskrárnúmer.
  4. VSK-númer seljanda.
  5. Nafn löndunarhafnar.
  6. Löndunardagur.
  7. Söludagur.
  8. Fisktegund.
  9. Ástand afla, (slægt, hausað, ísað, heilfryst, hæft/óhæft).
  10. Nafn útgerðaraðila.
  11. Gerð veiðarfæris.
  12. Heiti veiðisvæðis.
  13. Nafn kaupanda.
  14. Magn tegundar.
  15. Kílóverð tegundar.

9. gr.

Veiðivottorð til að staðreyna löglegan uppruna afla og afurða.

Þegar ætlunin er að flytja afla eða afurðir af íslensku veiðiskipi inn á markað Evrópu­sambandsins skal Fiskistofa staðfesta veiðivottorð, sbr. viðaukann „Veiðivottorð Fiski­stofu“ sem birtur er með reglugerð þessari. Í veiðivottorði skulu koma fram auk upp­lýs­inga um aflann eða afurðina, nafn skips, skipaskrárnúmer, veiðisvæði, lönd­unar­dagur, útgerðaraðili, löndunarhöfn og ákvörðunarstaður aflans eða afurðarinnar.

Útflytjandi er ábyrgur fyrir útgáfu vottorðsins og skal senda Fiskistofu allar nauðsynlegar upplýsingar til staðfestingar á því.

Fiskistofa sér um útgáfu og staðfestingu veiðivottorða samkvæmt þessari grein.

10. gr.

Skýrslur útflytjanda óunnins afla.

Útflytjandi óunnins afla skal mánaðarlega senda til Fiskistofu skýrslu á því formi sem Fiskistofa ákveður, um sölu á aflanum, þar sem tilgreint er magn hverrar fisktegundar, söluverð eftir tegundum, ásamt skipaskrárnúmeri veiðiskips og löndunardegi. Ennfremur skal hann senda Fiskistofu afrit af viðkomandi sölunótum.

11. gr.

Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum, skv. VI. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og IV. kafla laga nr. 57/1996, um umgengni um nytja­stofna sjávar, með síðari breytingum.

Fiskistofu er heimilt að undangenginni skriflegri aðvörun að stöðva útgáfu og staðfestingu veiðivottorða skv. 9. gr. til útflytjenda sem vanrækt hafa skýrsluskil skv. 10. gr.

12. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 16. gr. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og 30. gr. laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi frá sama tíma reglugerð nr. 910/2001, um skýrsluskil vegna viðskipta með afla, með síðari breytingum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 8. nóvember 2013.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Kristján Freyr Helgason.

Brynhildur Benediktsdóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 8. nóvember 2013