1. gr.
Í stað 25. gr. a. reglugerðarinnar kemur ný grein, svohljóðandi:
Þrátt fyrir ákvæði g-liðar 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2007 skal leyfisveitandi ekki afturkalla þegar útgefið rekstrarleyfi þegar umsækjandi, forsvarsmaður umsækjanda, leyfishafi eða forsvarsmaður leyfishafa skulda samanlagt allt að 20.000.000 kr. í skatta og opinber gjöld. Framangreint er háð því skilyrði að í gildi sé greiðsluáætlun milli framangreindra aðila og innheimtumanns ríkissjóðs um niðurgreiðslu skuldar. Leyfishafi skal leggja fram fullnægjandi tryggingu í formi ábyrgðaryfirlýsingar viðskiptabanka eða sparisjóðs vegna skuldar sem er umfram 10.000.000 kr. Í ábyrgðaryfirlýsingu skal koma fram að ábyrgð sé ótímabundin og nái yfir skuldir við innheimtumann ríkissjóðs umfram 10.000.000 kr. og allt að 20.000.000 kr. komi til gjaldþrots leyfishafa. Yfirlýsinguna skal afhenda leyfisveitanda til varðveislu. Komi til greiðsluskyldu samkvæmt yfirlýsingunni skal leyfisveitandi afhenda hana til innheimtumanns ríkissjóðs til innheimtu í því umdæmi þar sem starfsemi leyfishafa fer fram.
2. gr.
Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og fellur úr gildi 1. janúar 2023.
Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, 11. febrúar 2022.
Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Sigrún Brynja Einarsdóttir.
|