Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1361/2019

Nr. 1361/2019 19. desember 2019

SAMÞYKKT
um kattahald í Dalvíkurbyggð.

1. gr.

Gildissvið og stjórnsýsla.

Samþykkt þessi gildir um kattahald í Dalvíkurbyggð sem er á starfssviði heilbrigðisnefndar Norður­landssvæðis eystra og sætir þeim takmörkunum sem fram koma í samþykkt þessari. Sam­kvæmt lögum nr. 55/2013 um velferð dýra, fer Matvælastofnun með eftirlit og framkvæmd þeirra laga. Um kattaræktun gildir reglugerð nr. 80/2016 um velferð gæludýra.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra fer með málefni katta og kattahalds samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og hefur eftirlit með framkvæmd samþykktar þess­arar. Umhverfis- og tæknisvið Dalvíkurbyggðar, í umboði landbúnaðarráðs Dalvíkurbyggðar, fer með fram­kvæmd samþykktar þessarar, í umboði heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra, nema sérstak­­lega sé getið um eftirlit heilbrigðiseftirlits í samþykkt þessari.

2. gr.

Leyfi og bann við kattahaldi.

Kattahald er heimilað í Dalvíkurbyggð að fengnu leyfi, sbr. 3. gr., með þeim takmörkunum og að uppfylltum þeim skilyrðum, sem sett eru í samþykkt þessari.

Óheimilt er að hafa fleiri en tvo ketti, eldri en 4 mánaða, á sama heimili.

Ekki þarf að sækja um leyfi fyrir kattahaldi á lögbýlum í Dalvíkurbyggð.

Gelda skal alla fressketti þegar þeir hafa náð 6 mánaða aldri, nema þeir séu notaðir til ræktunar.

3. gr.

Leyfi til kattahalds.

Umsókn um leyfi til kattahalds skal senda umhverfis- og tæknisviði Dalvíkurbyggðar innan mánaðar frá því að köttur er tekinn inn á heimili, enda hafi samþykki skv. 4. gr. verið aflað ef við á. Heimilt er þó að halda kettlinga, sem vistaðir eru á skráningarstað móður, án skráningar þar til þeir verða 4 mánaða, enda hafi samþykkis skv. 4. gr. verið aflað ef við á. Útgáfa leyfis er háð stað­greiðslu skráningargjalds. Við útgáfu leyfis fær leyfishafi afhenta merkta plötu, sbr. 8. gr. og eintak af sam­þykkt um kattahald í Dalvíkurbyggð. Listi yfir skráða ketti í Dalvíkubyggð er aðgengilegur á heima­síðu Dalvíkurbyggðar.

Leyfi til kattahalds má veita að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

  1. Umsækjandi skal vera lögráða. Leyfið er persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda, enda er það ófrávíkjanlegt skilyrði að köttur sé skráður þar og haldinn.
  2. Að fyrir liggi samþykki sameigenda fjöleignarhúss þar sem það á við, sbr. 4. gr.
  3. Að kötturinn sé örmerktur, sbr. 8. gr.

Hafi umsækjandi ítrekað eða gróflega gerst brotlegur við samþykkt þessa eða fyrri samþykktir sama efnis eða lög um dýravelferð, er heimilt að hafna umsókn hans.

4. gr.

Kettir í fjöleignarhúsum, raðhúsum o.fl.

Þegar sótt er um leyfi til að halda kött í fjöleignarhúsi gilda ákvæði laga nr. 26/1994, um fjöl­eignar­hús, og skal leggja fram samþykki tilskilins hluta íbúðareigenda í fjöleignarhúsi. Þetta skal gert áður en köttur er tekinn inn á heimili í fjöleignarhúsi.

Ef annað er ekki tekið fram, nær samþykki skv. 1. mgr. einvörðungu til tiltekins kattar og gildir á meðan hann lifir. Heimilt er að afturkalla samþykki ef forsendur breytast verulega. Ástæður, sem réttlætt geta afturköllun eru m.a. heilbrigðisástæður og óþægindi og ónæði, sem fer verulega fram yfir það sem venjulegt og eðlilegt er.

Ef um er að ræða annars konar sameign en um getur í 1. mgr., eða nábýli af öðrum toga og sam­eigandi eða nágranni telur kattahaldið fara í bága við rétt sinn og hagsmuni, svo sem vegna ítrekaðs eða verulegs ónæðis og færi hann fram gild rök og fullnægjandi gögn því til stuðnings, getur umhverfis- og tæknisvið Dalvíkurbyggðar synjað um umbeðið leyfi eða afturkallað áður veitt leyfi.

Ef íbúð í fjöleignarhúsi er leigð út skal leigusali upplýsa leigjanda um hvort kattahald er leyft í húsinu.

Ef íbúðareigandi í fjöleignarhúsi, sem veitt hefur leyfi fyrir ketti í annarri íbúð, selur íbúð sína helst samþykkið fyrir þann kött meðan kötturinn lifir, sbr. þó 3. mgr.

5. gr.

Skammtímaheimsóknir.

Áður en köttur er tekinn inn á heimili í fjöleignarhúsi í stuttan tíma skal afla samþykkis sam­kvæmt 4. gr.

Kettir, sem ekki eru skráðir í Dalvíkurbyggð mega ekki dveljast þar lengur en þrjá mánuði nema með leyfi umhverfis- og tæknisviðs og að fengnu samþykki samkvæmt 3. gr. sé um fjöleignarhús að ræða.

6. gr.

Kattaskrá, tilkynningarskyldra eigenda.

Upplýsingar um ketti skal skrá hjá umhverfis- og tæknisviði Dalvíkurbyggðar. Skrá skal heiti og örmerki. Þar skal einnig skrá nafn, heimilisfang og símanúmer leyfishafa.

Eiganda kattar ber að tilkynna umhverfis- og tæknisviði um aðsetursskipti. Einnig skal hann til­kynna umhverfis- og tæknisviði ef kötturinn drepst eða er fluttur úr lögsagnarumdæminu. Eig­enda­­skipti skal tilkynna með sama hætti.

7. gr.

Ábyrgð leyfishafa.

Leyfishafi ber ábyrgð á öllu því tjóni sem kötturinn kann að valda mönnum, dýrum, gróðri og munum.

8. gr.

Ormahreinsun, örmerking, merkiplata.

Skylt er að ormahreinsa ketti á hverju ári og skal Dalvíkurbyggð hafa frumkvæði að því að bjóða upp á slíka þjónustu í sveitarfélaginu ár hvert. Skal leyfishafi skila vottorði dýralæknis um orma­hreinsun kattarins til umhverfis- og tæknisviðs fyrir 31. desember ár hvert sé þess óskað.

Köttur sem sótt er um leyfi fyrir skal örmerktur af dýralækni samkvæmt stöðlum Alþjóða­staðla­skrár­ráðsins, ISO 11784 og 11785 og í samræmi við ákvæði reglugerðar um velferð gælu­dýra.

Allir heimiliskettir skulu skráðir á skrifstofu sveitarfélagsins og þar fær eigandi afhenta númeraða plötu með skráningarnúmeri kattarins. Plötunni skal koma fyrir á ól sem hengd er um háls kattarins ásamt bjöllu sem kötturinn skal ávallt bera.

9. gr.

Gjöld fyrir leyfi.

Fyrir leyfi til að halda kött skal leyfishafi greiða annars vegar leyfisgjald og hins vegar eftirlits­gjald. Gjöldum þessum er ætlað að standa undir kostnaði af kattahaldi og framkvæmd samþykktar þess­arar. Sveitarstjórn setur gjaldskrá, samkvæmt 5. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998 um holl­ustu­hætti og mengunarvarnir og skal láta birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Í gjaldskrá skal kveðið á um hand­sömunar- og vörslugjald vegna handsömunar katta sem teknir eru í vörslu á vegum Dalvíkur­byggðar vegna brota á samþykkt þessari.

Leyfisgjaldið greiðist einu sinni, við skráningu kattar. Eftirlitsgjald greiðist einnig við skrán­ingu, þ.e. hlutfallslega miðað við þann mánuð sem skráning fer fram og síðan árlega.

10. gr.

Helstu varúðar-, aðgæslu- og umgengnisskyldur.

Eigendur og umráðamenn katta skulu gæta þess vel, að kettir þeirra valdi ekki hættu, óþæg­indum, óþrifnaði eða raski ró manna.

Eigendum katta er skylt að koma í veg fyrir að kettir þeirra séu utan dyra að næturlagi, þ.e. frá kl. 24.00 að nóttu til kl. 7.00 að morgni. Sérstaklega skulu kattaeigendur gæta dýra sinna með tilliti til fuglalífs á varptímanum.

Leyfishöfum og umráðamönnum katta er skylt að fara vel með ketti og tryggja þeim góða vist og sjá til þess að þeir lendi ekki á flækingi. Að öðru leyti skal fara að ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra og reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra.

11. gr.

Óheimilir staðir.

Óheimilt er að hleypa köttum inn í húsrými eða á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3 með reglu­gerð nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. 19. gr. reglugerðarinnar, nema í þeim tilvikum sem til­­greind eru í ákvæði sömu greinar reglugerðarinnar. Einnig er óheimilt að hleypa köttum inn á staði þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd, sbr. reglugerð nr. 103/2010 um gildis­töku reglu­gerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli. Ekki má heldur hleypa köttum inn í húsnæði vatnsveitna sbr. reglugerð um neysluvatn og ölkeldu­vatn. Framan­greindir staðir skv. 1. ml. eru m.a. eftirfarandi:

  1. Heilbrigðis- og meðferðarstofnanir, svo sem lækna- og tannlæknastofur, sjúkrahús, aðgerða­­stofur og sjúkraþjálfun.
  2. Skólar og leikvellir.
  3. Fangelsi.
  4. Íþróttastöðvar, íþróttahús, baðstaðir og heilsuræktarstöðvar.
  5. Snyrtistofur, nuddstofur, sólbaðsstofur og húðflúrstofur.
  6. Samkomustaðir, svo sem kirkjur, leikhús, tónleikasalir, söfn og kvikmyndahús.
  7. Gististaðir í flokki II, III og IV samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtana­hald.
  8. Mötuneyti.
  9. Sumarbúðir fyrir börn.
  10. Almenningssamgöngutæki.

Heimilt er þó að fara með gæludýr inn á staði þar sem er starfsemi sérstaklega ætluð dýrum, en það getur t.d. verið íþróttamannvirki, heilbrigðisstofnanir og snyrtistofur fyrir dýr.

Heimilt er, að fenginni beiðni hlutaðeigandi stofnunar og með samþykki heilbrigðisnefndar, að veita undanþágu til að halda ketti á heilbrigðis- og meðferðarstofnunum.

12. gr.

Lausir kettir, handsömun, geymsla, aflífun, kostnaður.

Umhverfis- og tæknisvið Dalvíkurbyggðar skal gera ráðstafanir til útrýmingar á villi- eða flæk­ings­köttum. Í því skyni er heimilt að koma fyrir búrum, agni eða sambærilegum tækjum til að fanga ketti.

Fangaða ketti skal færa í sérstaka kattageymslu og auglýsa handsömunina og gera ráðstafanir til að hafa upp á eiganda þeirra. Verði kattar ekki vitjað innan viku frá auglýsingu er heimilt að ráðstafa honum til nýs eiganda, selja hann gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta.

Köttur sem ekki er einstaklingsmerktur í samræmi við 22. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, telst vera hálfvillt dýr. Hafi hálfvilltur (ómerktur) köttur verið handsamaður og eigandi hans gefið sig fram, er óheimilt að afhenda köttinn fyrr en að lokinni skráningu, örmerkingu, greiðslu eftirlits­gjalds og áfallins kostnaðar. Kostnaður við handsömun, örmerkingu, fóðrun, geymslu, auglýsingu eða aflífun kattar skal að fullu greiddur af eiganda.

13. gr.

Lögregluaðstoð.

Umhverfis- og tæknisvið Dalvíkurbyggðar getur ef þörf krefur leitað atbeina lögreglu við að fram­fylgja samþykkt þessari og ákvörðunum teknum á grundvelli hennar. Heilbrigðisnefnd getur sett nánari reglur um framkvæmd samþykktar þessarar.

14. gr.

Viðurlög.

Um valdsvið og þvingunarúrræði vísast til XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og meng­unar­varnir.

Eigendur eða umráðamenn katta sem brjóta gegn ákvæðum samþykktar þessarar skulu sæta skrif­legri áminningu og gefinn hæfilegur frestur til úrbóta. Ef eigandi eða umráðamaður kattar van­rækir skyldur sínar eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum samþykktar þessarar eða öðrum reglum sem gilda um kattahald getur sveitarstjórn bannað viðkomandi að halda kött og látið fjarlægja köttinn.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi laga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri máls­meðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um málskot fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

15. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi staðfestist hér með skv. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og meng­unar­­varnir til þess að öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 17/2013 um katta­hald í Dalvíkurbyggð.

Ákvæði til bráðabirgða.

Eigendur sem halda ketti við gildistöku samþykktarinnar skulu skrá þá innan sex mánaða frá gildistöku. Sú skráning er gjaldfrjáls.

Þeim sem halda fleiri ketti en tvo er skylt að skrá þá innan sex mánaða og hafa þeir þá leyfi til að halda þá á heimili sínu á meðan þeir lifa.

1. mgr. 12. gr. samþykktar þessarar tekur gildi sex mánuðum eftir gildistöku samþykktarinnar.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 19. desember 2019.

F. h. r.

Steinunn Elna Eyjólfsdóttir.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 9. janúar 2020