I. KAFLI
Gildissvið, markmið og orðskýringar.
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um starfsstöðvar þar sem hættuleg efni er að finna, sbr. 3. gr.
Reglugerðin gildir ekki um eftirfarandi:
- starfsstöðvar, stöðvar eða geymsluaðstöðu á vegum hers,
- hættur af völdum jónandi geislunar frá efnum,
- flutning hættulegra efna á vegum, járnbrautum, skipgengum vatnaleiðum, á sjó eða í lofti og skammtímageymslu þeirra á leiðinni í beinum tengslum við flutninginn, utan starfsstöðva sem reglugerð þessi gildir um, þ.m.t. ferming og afferming og flutningur til annarra flutningstækja eða frá þeim í skipakvíum, við bryggjur eða á röðunarsvæðum járnbrautarstöðva,
- flutning hættulegra efna í leiðslum, að dælustöðvum meðtöldum, utan starfsstöðva sem reglugerð þessi gildir um,
- nýtingu, þ.e. leit, nám og vinnslu jarðefna í námum og grjótnámum, þ.m.t. með borunum,
- leit á hafi úti að jarðefnum og nýtingu þeirra, þ.m.t. vetniskolefni,
- geymslu gass neðanjarðar á hafi úti, þ.m.t. bæði á sérhæfðum geymsluaðstöðum og stöðum þar sem einnig fer fram leit og nýting jarðefna, þ.m.t. vetniskolefnis,
- urðun úrgangs, þ.m.t. geymslu úrgangs neðanjarðar.
Þrátt fyrir e- og h-liði 2. mgr. gildir reglugerð þessi um geymslu gass neðanjarðar á landi í náttúrulegum jarðlögum, veitum, salthólfum og yfirgefnum námum, efna- og varmavinnslu og geymslu í tengslum við slíka vinnslu þar sem notuð eru hættuleg efni svo og aðstöðu fyrir förgun úrgangs, meðal annars tjarnir eða stíflur fyrir úrgang sem innihalda hættuleg efni.
2. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að gerðar séu öryggisráðstafanir til að fyrirbyggja stórslys af völdum hættulegra efna og draga úr afleiðingum þeirra fyrir heilbrigði manna og umhverfi.
3. gr.
Orðskýringar.
Í þessari reglugerð og viðaukum við hana er merking eftirfarandi orða sem hér segir:
Almenningur: Einn eða fleiri einstaklingur eða lögaðilar og samtök þeirra, félög eða hópar, eftir því sem við á samkvæmt lögum eða venju.
Áhætta: Líkur á því að tiltekin áhrif komi fram á tilteknu tímabili eða við tilteknar aðstæður.
Blanda: Blanda eða lausn sem í eru tvö eða fleiri efni.
Eftirlit: Allar aðgerðir, þ.m.t. heimsóknir í stöð, athuganir á ráðstöfunum, kerfum og skýrslum stöðvarinnar ásamt skjölum varðandi eftirfylgni, og öll nauðsynleg eftirfylgni af hálfu eða á vegum Vinnueftirlits ríkisins til að fylgjast með og stuðla að því að farið sé að reglugerð þessari í starfsstöðinni.
Geymsluaðstaða: Það að ákveðið magn hættulegra efna er að finna í vörugeymslu, í öryggisvörslu eða sem birgðir.
Hætta: Sá eðlislægi eiginleiki hættulegs efnis eða ytri aðstæðna að geta valdið heilbrigði manna eða umhverfinu skaða.
Hættulegt efni: Efni eða blanda sem tilgreind er í 1. eða 2. hluta I. viðauka, þ.m.t. í formi hráefnis, vöru, aukaafurðar, efnaleifa eða milliefnis.
Hættuleg efni eru fyrir hendi: Hættuleg efni sem eru í raun fyrir hendi í starfsstöðinni eða vænta má að séu þar, eða hættuleg efni sem skynsamlegt er að gera ráð fyrir að kunni að verða til þegar stjórnun ferla bregst, þ.m.t. við geymsluaðstöðu, í sérhverri stöð í starfsstöðinni, í magni sem jafngildir eða er meira en þröskuldsmagnið sem tilgreint er í 1. eða 2. hluta I. viðauka.
Ný starfsstöð:
- starfsstöð sem byrjað er að starfrækja eftir gildistöku reglugerðar þessarar, eða
- starfssvæði sem reglugerð þessi gildir um og breytingar hafa orðið á eftir gildistöku reglugerðar þessarar sem leiða til breytinga á birgðamagni á hættulegum efnum, eða
- starfsstöð í lægri mörkum sem verður starfsstöð í hærri mörkum, eða öfugt, eftir gildistöku reglugerðarinnar vegna breytinga sem gerðar eru á stöðvum hennar eða starfsemi sem leiða til breytinga á birgðamagni á hættulegum efnum.
Nærliggjandi starfsstöð: Starfsstöð sem staðsett er í slíkri nálægð við aðra starfsstöð að það eykur hættu á stórslysi eða afleiðingum stórslyss.
Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem rekur eða stýrir starfsstöð eða stöð sem hefur lögum samkvæmt verið falið óskorað vald til að taka ákvarðanir og sjá um fjármál vegna tæknilegrar starfsemi starfsstöðvar eða stöðvar.
Sá hluti almennings sem málið varðar: Sá hluti almennings sem verður fyrir áhrifum, sem líklegt er að verði fyrir áhrifum eða sem á hagsmuna að gæta við töku ákvörðunar um einhver þau málefni sem leita skal samráðs um samkvæmt reglugerð þessari en líta skal svo á að öll frjáls félagasamtök, sem stuðla að umhverfisvernd og starfa löglega, hafi hagsmuna að gæta.
Starfandi starfsstöð: Starfsstöð sem reglugerð nr. 160/2007, um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna, með síðari breytingum, gilti um og þessi reglugerð gildir nú um án þess að flokkun hennar sé breytt í starfsstöð í lægri mörkum eða starfsstöð í hærri mörkum.
Starfsstöð: Allt svæðið sem lýtur stjórn rekstraraðila þar sem hættuleg efni er að finna í einni stöð eða fleiri, þar á meðal í sameiginlegum eða tengdum grunnvirkjum eða starfsemi; starfsstöðvar eru annaðhvort starfsstöðvar í lægri mörkum eða starfsstöðvar í hærri mörkum.
Starfsstöð í lægri mörkum: Starfsstöð þar sem er að finna hættuleg efni í magni sem er jafnt eða meira en magnið sem tilgreint er í 2. dálki 1. hluta eða 2. dálki 2. hluta I. viðauka en minna en magnið sem fram kemur í 3. dálki 1. hluta eða 3. dálki 2. hluta I. viðauka, þar sem við á, með því að beita samlagningarreglunni sem kveðið er á um í 4. athugasemd við I. viðauka.
Starfsstöð í hærri mörkum: Starfsstöð þar sem er að finna hættuleg efni í magni sem er jafnt eða meira en magnið sem tilgreint er í 3. dálki 1. hluta eða í 3. dálki 2. hluta I. viðauka, þar sem við á, með því að beita samlagningarreglunni sem kveðið er á um í 4. athugasemd við I. viðauka.
Stórslys: Atvik á borð við stórfellt útstreymi, eldsvoða eða sprengingu sem stafar af stjórnlausri atburðarás við rekstur starfsstöðvar sem þessi reglugerð gildir um þar sem eitt eða fleiri hættuleg efni koma við sögu og stofna samstundis eða síðar heilbrigði manna eða umhverfi í mikla hættu í starfsstöðinni eða utan hennar.
Stöð: Tæknieining í starfsstöð, hvort sem er á jörðu eða undir yfirborði jarðar, þar sem hættuleg efni eru framleidd, notuð, meðhöndluð eða geymd; þ.m.t. öll tæki, mannvirki, leiðslur, vélar, verkfæri, einkajárnbrautir, skipakvíar, löndunarbryggjur vegna stöðvarinnar, hafnarbakkar, vörugeymslur eða hliðstæð mannvirki, fljótandi eða ekki, sem eru nauðsynleg rekstri stöðvarinnar.
Önnur starfsstöð: Starfssvæði sem fellur undir gildissvið reglugerðar þessarar eða starfsstöð í lægri mörkum sem verður starfsstöð í hærri mörkum, eða öfugt, eftir gildistöku reglugerðar þessarar eða síðar af öðrum ástæðum en þeim sem vísað er til í 6. mgr.
4. gr.
Almennar skyldur rekstraraðila.
Rekstraraðili skal gera allar nauðsynlegar öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir stórslys. Enn fremur skal rekstraraðili gera ráðstafanir til að unnt sé að bregðast við stórslysum svo tafarlaust megi draga sem mest úr afleiðingum þeirra fyrir heilbrigði manna og umhverfi.
Rekstraraðila er skylt að sanna fyrir Vinnueftirliti ríkisins hvenær sem þess er óskað að hann hafi gripið til nauðsynlegra ráðstafana samkvæmt reglugerð þessari, einkum í kjölfar eftirlits með starfseminni.
II. KAFLI
Tilkynningarskylda rekstraraðila.
5. gr.
Tilkynning til Vinnueftirlits ríkisins.
Rekstraraðili skal senda Vinnueftirliti ríkisins tilkynningu um hvort unnið sé með efni eða blöndu sem tilgreind er í 1. eða 2. hluta I. viðauka eða geymd í því magni sem tilgreint er í 2. og/eða 3. dálki 1. eða 2. hluta I. viðauka. Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í tilkynningunni:
- nafn og/eða viðskiptaheiti rekstraraðila og heimilisfang viðkomandi starfsstöðvar,
- skráð starfsstöð rekstraraðila ásamt heimilisfangi,
- nafn og starfsheiti þess sem ber ábyrgð á starfsstöðinni ef hann er annar en sá sem getið er í a-lið,
- upplýsingar sem nægja til að bera kennsl á hættulegu efnin og efnaflokkana sem um er að ræða eða sem líkur eru á að finnist á staðnum, þ.m.t. efni sem eru geymd eða notuð í tengslum við viðkomandi starfsemi, framleiðsluafurðir, aukaafurðir eða afganga,
- magn viðkomandi hættulegs efnis eða efna og eðlisástand þeirra,
- starfsemi eða fyrirhugaða starfsemi stöðvarinnar eða geymsluaðstöðunnar,
- næsta umhverfi starfsstöðvarinnar og þættir sem líklegir eru til að valda stórslysi eða auka afleiðingar þess, þ.m.t. upplýsingar sem eru til um nærliggjandi starfsstöðvar eða stöðvar sem reglugerð þessi gildir ekki um, svæði og framkvæmdir sem gætu valdið hættu á stórslysi, aukið hættuna eða aukið afleiðingar stórslyss ásamt keðjuverkun.
6. gr.
Tímamörk skila á tilkynningu.
Rekstraraðili skal senda Vinnueftirliti ríkisins tilkynningu skv. 5. gr. eða endurskoðað eintak hennar innan eftirfarandi tímamarka:
- hæfilega löngu áður en bygging eða rekstur hefst þegar um nýja starfsstöð er að ræða eða fyrir breytingar sem leiða til breytinga á birgðamagni hættulegs efnis,
- eins fljótt og unnt er vegna starfandi starfsstöðvar sem ekki hefur áður fallið undir samsvarandi reglur og eigi síðar en einu ári frá þeim degi sem reglugerð þessi tók gildi um viðkomandi starfsstöð.
7. gr.
Breytingar sem skal tilkynna.
Rekstraraðili skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins áður en eftirfarandi breytingar eru gerðar:
- um aukningu á magni hættulegs efnis eða verulegrar minnkunar þess, eða verulega breytingu á eðli eða eðlisástandi þess frá því sem fram kemur í tilkynningunni sem rekstraraðili hefur sent skv. 5. gr. eða verulega breytingu á ferlunum þar sem það er notað,
- um breytingar á starfsstöð eða stöð sem gæti haft verulegar afleiðingar með tilliti til stórslysahættu,
- um varanlega lokun starfsstöðvarinnar eða niðurlagningu hennar eða
- um breytingar gerðar á atriðum sem um getur í a-, b- eða c-liðum 5. gr.
III. KAFLI
Áætlun um stórslysavarnir, öryggisstjórnunarkerfi, keðjuverkandi áhrif o.fl.
8. gr.
Áætlun um stórslysavarnir og öryggisstjórnunarkerfi.
Rekstraraðili starfsstöðvar í lægri mörkum eða hærri mörkum skal gera áætlun um stórslysavarnir og veita upplýsingar um öryggisstjórnunarkerfi skv. III. viðauka. Hann skal jafnframt sjá til þess að hún sé framkvæmd með viðeigandi aðferðum samkvæmt reglugerð þessari, þar á meðal hvað varðar öryggisstjórnunarkerfi skv. III. viðauka.
Áætlun um stórslysavarnir skal vera skrifleg og kröfurnar sem gerðar eru í henni vera í samræmi við umfang stórslysahættunnar sem starfsstöðinni fylgir. Áætlunin skal vera til þess fallin að tryggja mikla vernd fyrir heilbrigði manna og umhverfi. Í henni skulu koma fram almenn markmið og meginreglur rekstraraðila í sambandi við aðgerðir til varnar gegn stórslysahættum, um hlutverk og ábyrgð stjórnenda og skuldbindingar um stöðugar endurbætur á vörnum gegn stórslysahættu ásamt því hvernig tryggja megi mikla vernd.
9. gr.
Tímamörk skila á áætlun um stórslysavarnir.
Rekstraraðili skal senda Vinnueftirliti ríkisins áætlun um stórslysavarnir og upplýsingar um öryggisstjórnunarkerfi skv. 1. mgr. 8. gr. innan eftirfarandi tímamarka:
- hæfilega löngu áður en bygging eða rekstur hefst þegar um nýja starfsstöð er að ræða eða fyrir breytingar sem leiða til breytinga á birgðamagni hættulegs efnis,
- eins fljótt og unnt er vegna starfandi starfsstöðvar sem ekki hefur áður fallið undir samsvarandi reglur og eigi síðar en einu ári frá þeim degi sem reglugerð þessi tók gildi um viðkomandi starfsstöð.
10. gr.
Keðjuverkandi áhrif.
Við gerð áætlunar um stórslysavarnir og öryggisstjórnunarkerfiskv. 8. og 9. gr. eða öryggisskýrslu skv. IV. kafla skal tekið mið af nærliggjandi starfsemi, þ.e. hvort hún geti aukið líkur á stórslysi eða valdið keðjuverkandi áhrifum vegna staðsetningar eða nálægðar við geymsluaðstöður með hættuleg efni eða starfsemi þar sem slík efni eru til staðar.
Vinnueftirlit ríkisins skal nýta upplýsingar sem rekstraraðilar veita stofnuninni skv. II. og IV. kafla eða stofnunin aflar í eftirlitsferðum til að kortleggja allar starfsstöðvar í lægri mörkum og starfsstöðvar í hærri mörkum eða hópa starfsstöðva þar sem hætta á stórslysum eða afleiðingum slíkra slysa er aukin vegna staðsetningar þeirra og nálægðar og birgðamagns þeirra hættulegu efna sem þar eru.
Hafi Vinnueftirlit ríkisins aðrar upplýsingar til viðbótar þeim sem rekstraraðili sendi stofnuninni á grundvelli g-liðar 5. gr. skal stofnunin upplýsa viðkomandi rekstraraðila um þær sé það talið nauðsynlegt þannig að rekstraraðili geti sinnt skyldum sínum samkvæmt ákvæði þessu.
Rekstraraðilar nærliggjandi starfsstöðva sem Vinnueftirlit ríkisins hefur kortlagt skv. 2. mgr. skulu:
- skiptast á nauðsynlegum upplýsingum þannig að þeir geti tekið tillit til eðlis og umfangs heildaráhættunnar af stórslysi í áætlunum sínum um stórslysavarnir, öryggisstjórnunarkerfum, öryggisskýrslum og innri neyðaráætlunum eftir því sem við á,
- hafa samvinnu sín á milli við að upplýsa almenning og aðra á nærliggjandi svæði og við að upplýsa almannavarnanefnd þess sveitarfélags sem starfsstöð er í og Vinnueftirlit ríkisins svo unnt sé að gera viðbragðsáætlun utan starfsstöðvar, sbr. 18. gr.
11. gr.
Endurskoðun á áætlun um stórslysavarnir.
Rekstraraðili skal reglulega endurskoða áætlun um stórslysavarnir skv. 8. gr. og ef nauðsyn krefur uppfæra áætlunina á a.m.k. fimm ára fresti nema ákvæði 22. gr. um breytingar á stöð, starfsstöð eða geymsluaðstöðu eigi við. Rekstraraðili skal senda Vinnueftirliti ríkisins endurskoðaða eða uppfærða áætlun um stórslysavarnir og upplýsingar um öryggisstjórnunarkerfi án ástæðulauss dráttar.
IV. KAFLI
Öryggisskýrsla.
12. gr.
Öryggisskýrsla.
Rekstraraðili starfsstöðvar í hærri mörkum, sbr. 4. mgr. 3. gr., skal gera öryggisskýrslu með það að markmiði að:
- sýna fram á að áætlun um stórslysavarnir og öryggisstjórnunarkerfi til að innleiða hana hafi verið framfylgt í samræmi við upplýsingarnar í III. viðauka,
- sýna fram á að hættan á stórslysum hafi verið greind ásamt sviðsmyndum mögulegra stórslysa og að nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að fyrirbyggja slík slys og draga úr afleiðingum þeirra fyrir heilbrigði manna og umhverfi,
- sýna fram á að tekið sé fullnægjandi tillit til öryggis og áreiðanleika við hönnun, byggingu, rekstur og viðhald hvers kyns stöðva, geymsluaðstöðu, tækja og grunnvirkja sem tengjast starfsemi sem getur falið í sér hættu á stórslysum í starfsstöðinni,
- sýna fram á að neyðaráætlun fyrir starfsstöð hafi verið gerð og að upplýsingar hafi verið veittar sem gera kleift að gera viðbragðsáætlun utan starfsstöðvar,
- láta Vinnueftirliti ríkisins í té nægilegar upplýsingar til að það geti tekið ákvarðanir um staðsetningu nýrrar starfsemi eða framkvæmda í grennd við starfandi starfsstöð.
Í öryggisskýrslu skulu vera a.m.k. öll þau gögn og allar þær upplýsingar sem tilgreindar eru í II. viðauka við reglugerð þessa auk upplýsinga um þá aðila sem komu að gerð skýrslunnar.
13. gr.
Sameining öryggisskýrslna.
Heimilt er að sameina öryggisskýrslur, kafla úr öryggisskýrslum eða aðrar jafngildar skýrslur, sem unnar eru á grundvelli annarrar löggjafar, í eina öryggisskýrslu skv. 12. gr. til að komast hjá óþarfa tvítekningu upplýsinga og tvíverknaði hjá rekstraraðila eða Vinnueftirliti ríkisins, enda sé öllum kröfum þessarar reglugerðar fullnægt að mati Vinnueftirlitsins.
14. gr.
Tímamörk skila á öryggisskýrslu.
Rekstraraðili skal senda Vinnueftirliti ríkisins öryggisskýrslu innan eftirfarandi tímamarka:
- hæfilega löngu áður en bygging eða rekstur hefst þegar um nýja starfsstöð er að ræða eða fyrir breytingar sem leiða til breytinga á birgðamagni á hættulegu efni,
- eins fljótt og unnt er vegna starfandi starfsstöðvar sem ekki hefur áður fallið undir samsvarandi reglur og eigi síðar en einu ári frá þeim degi sem reglugerð þessi tók gildi um viðkomandi starfsstöð.
15. gr.
Viðbrögð Vinnueftirlits ríkisins.
Áður en rekstraraðili hefur byggingu eða rekstur eða í tilvikum, sem um getur í b-lið 14. gr. og 1. mgr. 16. gr., skal Vinnueftirlit ríkisins innan hæfilegs tíma frá móttöku skýrslunnar:
- tilkynna rekstraraðila niðurstöður athugunar sinnar á öryggisskýrslunni, eftir að farið hefur verið fram á frekari upplýsingar ef þurfa þykir, eða
- banna að rekstur hefjist á starfsstöð eða að honum sé haldið áfram í samræmi við 33. gr.
16. gr.
Endurskoðun öryggisskýrslu.
Rekstraraðili skal endurskoða öryggisskýrslu skv. 12. gr. reglulega og ef nauðsyn krefur uppfæra skýrsluna ekki sjaldnar en á fimm ára fresti nema ákvæði 22. gr. um breytingar á stöð, starfsstöð eða geymsluaðstöðu eigi við.
Rekstraraðilinn skal einnig endurskoða öryggisskýrsluna og uppfæra hana ef nauðsyn krefur eftir stórslys í starfsstöðinni eða að beiðni Vinnueftirlits ríkisins þegar réttlætanlegt er á grundvelli nýrra staðreynda eða nýrrar tækniþekkingar varðandi öryggismál, þ.m.t. þekkingar sem leiðir af greiningu slysa eða, eins og framast er unnt, vegna tilvika þar sem legið hefur við stórslysi og vegna þróunar á þekkingu varðandi áhættumat. Rekstraraðila er ávallt heimilt að endurskoða öryggisskýrslu og uppfæra hana af eigin frumkvæði.
Rekstraraðili skal senda Vinnueftirliti ríkisins endurskoðaða eða uppfærða öryggisskýrslu skv. 1. eða 2. mgr. án ástæðulauss dráttar.
V. KAFLI
Neyðaráætlanir innan starfsstöðvar og viðbragðsáætlanir utan starfsstöðva.
17. gr.
Neyðaráætlun innan starfsstöðvar.
Rekstraraðili starfsstöðvar í hærri mörkum, sbr. 4. mgr. 3. gr., skal gera neyðaráætlun um ráðstafanir sem grípa skal til innan starfsstöðvar með það að markmiði að:
- halda óhöppum í skefjum og hafa stjórn á þeim til þess að lágmarka áhrif þeirra og draga úr þeim skaða sem þau valda heilbrigði manna, umhverfi og eignum,
- innleiða nauðsynlegar ráðstafanir til þess að vernda heilbrigði manna og umhverfi fyrir áhrifum stórslysa,
- koma nauðsynlegum upplýsingum til almennings og þeirra þjónustuaðila eða stjórnvalda sem málið varðar á svæðinu,
- umhverfið sé endurbætt og hreinsað í kjölfar stórslyss.
Í neyðaráætlun innan starfsstöðvar skulu vera allar þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 1. tölul. IV. viðauka við reglugerð þessa.
18. gr.
Viðbragsáætlun utan starfsstöðvar.
Almannavarnanefnd þess sveitarfélags sem starfsstöð er í skal láta gera viðbragðsáætlun utan starfsstöðva í hærri mörkum, sbr. 4. mgr. 3. gr., í samráði við samráðsnefnd um stórslysavarnir í iðnaði, sbr. 2. og 3. mgr. 51. gr. a laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, í því skyni að tryggja öryggi starfsmanna, almennings og umhverfis þegar stórslys af völdum hættulegra efna ber að höndum. Við gerð viðbragðsáætlana utan starfsstöðva skal farið eftir leiðbeiningum í reglugerð nr. 323/2010, um efni og gerð viðbragðsáætlana.
Í viðbragðsáætlun utan starfsstöðvar skv. 1. mgr. skulu vera allar þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 2. tölul. IV. viðauka við reglugerð þessa. Sérstaklega þarf að huga að því hvernig unnt er að efla samvinnu um björgunaraðargerðir á sviði almannavarna ef til meiri háttar neyðarástands kemur.
Rekstraraðili starfsstöðvar í hærri mörkum, sbr. 4. mgr. 3. gr., skal veita viðkomandi almannavarnanefnd og Vinnueftirliti ríkisins allar nauðsynlegar upplýsingar þannig að unnt sé að gera viðbragðsáætlun utan starfsstöðvar skv. 1. mgr. eftir því sem við á.
Gera skal viðbragðsáætlun utan starfsstöðva innan tveggja ára frá því að upplýsingar skv. 3. mgr. hafa borist viðkomandi almannavarnanefnd og Vinnueftirlit ríkisins.
19. gr.
Samráð við gerð neyðar- og viðbragðsáætlana.
Neyðaráætlun innan starfsstöðvar skv. 17. gr. skal samin og uppfærð í samráði við starfsmenn starfsstöðvarinnar, þ.m.t. viðeigandi undirverktaka sem gerðir eru langtímasamningar við.
Við gerð eða breytingar á viðbragðsáætlun um ráðstafanir sem grípa skal til utan starfsstöðva, sbr. 18. gr., skal haft samráð við þann hluta almennings sem málið varðar snemma í vinnsluferlinu og þeim gefið færi á að gefa álit sitt.
20. gr.
Skilafrestir á neyðaráætlun og upplýsingum til Vinnueftirlits ríkisins.
Rekstraraðili skal gera neyðaráætlun um ráðstafanir innan starfsstöðvar og veita Vinnueftirliti ríkisins nauðsynlegar upplýsingar skv. 3. mgr. 18. gr. í samræmi við svofelld tímamörk:
- hæfilega löngu áður en bygging eða rekstur hefst þegar um nýja starfsstöð er að ræða eða fyrir breytingar sem leiða til breytinga á birgðamagni á hættulegu efni,
- eins fljótt og unnt er vegna starfandi starfsstöðvar sem ekki hefur áður fallið undir samsvarandi reglur og eigi síðar en einu ári frá þeim degi sem reglugerð þessi tók gildi um viðkomandi starfsstöð.
21. gr.
Prófun og endurskoðun neyðar- og viðbragðsáætlana.
Rekstraraðili skal reglulega endurskoða og prófa neyðaráætlun innan starfsstöðvar skv. 17. gr. í því skyni að hún sé í sem bestu samræmi við aðstæður á starfsstöðinni og eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
Almannavarnanefnd þess sveitarfélags sem starfsstöð er í skal sjá til þess að viðbragðsáætlun utan starfsstöðvar skv. 18. gr. sé reglulega endurskoðuð og prófuð eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
Við endurskoðun skv. 1. eða 2. mgr. skal taka tillit til þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á starfsstöðvum eða opinberri neyðarþjónustu sem og nýrrar tækniþekkingar og þekkingar á viðbrögðum við stórslysum.
22. gr.
Breytingar á stöð, starfsstöð eða geymsluaðstöðu.
Ef fyrirhugað er að breyta stöð, starfsstöð, geymsluaðstöðu, eða gera breytingar á vinnslu, eðlisástandi eða magni hættulegra efna, sem gæti haft verulegar afleiðingar hvað varðar stórslysahættu eða gæti gert það að verkum að starfsstöð í lægri mörkum verði starfsstöð í hærri mörkum eða öfugt, skal rekstraraðili endurskoða og uppfæra, ef nauðsyn krefur, tilkynninguna skv. 5. gr., áætlunina um stórslysavarnir skv. 8. gr., öryggisstjórnunarkerfið skv. III. viðauka, sbr. einnig 8. gr., og öryggisskýrsluna skv. 12. gr. Enn fremur skal rekstraraðili upplýsa Vinnueftirlit ríkisins nákvæmlega um þessar uppfærslur áður en breytingarnar eru gerðar.
VI. KAFLI
Upplýsingar fyrir almenning.
23. gr.
Aðgangur almennings að upplýsingum.
Rekstraraðili skal hafa þær upplýsingar sem tilgreindar eru í V. viðauka við reglugerð þessa aðgengilegar almenningi, þar á meðal rafrænt.
24. gr.
Upplýsingaskylda starfsstöðva í hærri mörkum.
Rekstraraðili starfsstöðvar í hærri mörkum, sbr. 4. mgr. 3. gr., skal reglulega veita þeim hluta almennings sem málið varðar aðgengilegar og skýrar upplýsingar um öryggisráðstafanir og hvernig eigi að bera sig að verði stórslys af völdum hættulegra efna. Þar skulu koma fram þær upplýsingar sem tilgreindar eru í V. viðauka við reglugerð þessa.
Rekstraraðili starfsstöðvar í hærri mörkum, sbr. 4. mgr. 3. gr., skal afhenda almenningi, sé þess krafist, öryggisskýrslu skv. 12. gr. og skrá yfir hættuleg efni með þeim undantekningum sem fram koma í lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál. Í þeim tilvikum sem ekki er unnt að afhenda öryggisskýrslu í heild skal afhenda samantekt sem ekki er á tæknimáli, þar sem fram koma a.m.k. almennar upplýsingar um stórslysahættu og möguleg áhrif á heilbrigði manna og umhverfi komi til stórslyss.
Rekstraraðili starfsstöðvar í hærri mörkum, sbr. 4. mgr. 3. gr., skal eigi sjaldnar en á fimm ára fresti koma upplýsingum skv. 1. mgr. til allra bygginga og svæða sem aðgengileg eru almenningi, þ.m.t. skóla og sjúkrahúsa, sem og allra nálægra starfsstöðva ef um er að ræða starfsstöðvar sem falla undir 10. gr. Jafnframt skal þetta ávallt gert samhliða endurskoðun öryggisskýrslu skv. 16. gr.
25. gr.
Endurskoðun upplýsinga fyrir almenning.
Rekstraraðili skal reglulega uppfæra upplýsingarnar skv. 23. og 24. gr. og þá sérstaklega þegar gerðar eru breytingar á stöð, starfsstöð eða geymsluaðstöðu, sbr. 22. gr.
26. gr.
Upplýsingaskylda Vinnueftirlits ríkisins gagnvart almenningi.
Vinnueftirlit ríkisins skal afhenda almenningi, sé þess krafist, innsendar öryggisskýrslur skv. 12. gr. og skrá yfir hættuleg efni með þeim undantekningum sem fram koma í lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, og 1. mgr. 13. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
VII. KAFLI
Viðbrögð við stórslysum.
27. gr.
Framkvæmd neyðar- og viðbragðsáætlana.
Rekstraraðili skal virkja neyðaráætlun eða viðbragðsáætlun á grundvelli V. kafla án tafar þegar stórslys verður eða þegar stjórnlaus atburðarás á sér stað sem ætla má að geti valdið stórslysi.
28. gr.
Tilkynning um stórslys.
Ef stórslys á sér stað í starfsstöð er rekstraraðila skylt að tilkynna það tafarlaust slökkviliði og lögreglu. Lögregla skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins, Umhverfisstofnun og yfirstjórn almannavarna á viðkomandi stað um slysið. Afhenda skal upplýsingar um aðstæður við slysið, hættuleg efni sem um er að ræða, gögn sem tiltæk eru til að meta áhrif slyssins á menn og umhverfi og neyðarráðstafanir sem gripið er til um leið og þær liggja fyrir.
29. gr.
Upplýsingar sem rekstraraðila ber að veita í kjölfar stórslyss.
Rekstraraðila ber að láta Vinnueftirliti ríkisins og lögreglu í té eftirfarandi upplýsingar um leið og þær liggja fyrir:
- aðstæður er slysið átti sér stað,
- hættuleg efni sem um er að ræða,
- gögn sem tiltæk eru til að meta áhrif slyssins á heilbrigði manna, umhverfi og eignir,
- neyðarráðstafanir sem gripið var til.
Rekstraraðili skal upplýsa Vinnueftirlit ríkisins um fyrirhugaðar ráðstafanir til að draga úr áhrifum slyssins til meðallangs og langs tíma og til að koma í veg fyrir að slíkt slys endurtaki sig.
Rekstraraðili skal uppfæra upplýsingarnar skv. 2. og 3. mgr. ef frekari rannsóknir leiða í ljós nýjar staðreyndir sem breyta fyrri upplýsingum eða þeim ályktunum sem dregnar voru af þeim.
30. gr.
Stjórnvaldsráðstafanir í framhaldi af stórslysi.
Samráðsnefnd um stórslysavarnir í iðnaði skal:
- tryggja að gerðar séu allar þær bráðaráðstafanir, ráðstafanir til meðallangs og/eða langs tíma sem kunna að reynast nauðsynlegar,
- safna með eftirliti, rannsókn eða öðrum viðeigandi hætti þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að ljúka megi greiningu á slysinu, hvort sem er á sviði tækni, skipulags eða stjórnunar,
- setja fram tilmæli um forvarnarráðstafanir í framtíðinni,
- upplýsa þann hluta almennings er málið varðar um slysið og, ef við á, um þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að draga úr afleiðingum þess.
Vinnueftirlit ríkisins skal tryggja að rekstraraðili grípi til allra nauðsynlegra ráðstafana til úrbóta.
Vinnueftirlit ríkisins skal tilkynna velferðarráðuneytinu og Eftirlitsstofnun EFTA um stórslys sem falla að viðmiðunum í VI. viðauka og afhenda eftirtaldar upplýsingar:
- hvenær slysið varð (dagur, tími) og hvar, nafn rekstraraðila og heimilisfang starfsstöðvarinnar sem á í hlut,
- stutta lýsingu á aðstæðum á slysstað, þar á meðal á þeim hættulegu efnum sem um er að ræða og fyrstu áhrifum slyssins á heilbrigði manna og umhverfi,
- stutta lýsingu á neyðarráðstöfunum sem gerðar voru og á þeim varúðaraðgerðum sem nauðsynlegt er að grípa til án tafar til þess að koma í veg fyrir sams konar slys,
- niðurstöður greiningar þeirra og ráðleggingar,
- almennar upplýsingar um þau stjórnvöld sem hafa upplýsingar sem máli skipta um stórslys og gætu verið til ráðgjafar, meðal annars ef hliðstætt slys ber að höndum í öðrum löndum.
Tilkynning og afhending upplýsinga skv. 3. mgr. skal fara fram eins fljótt og auðið er og í síðasta lagi innan árs frá dagsetningu slyssins og nota til þess þar til gerðan gagnagrunn. Þegar aðeins er unnt að veita bráðabirgðaupplýsingar í gagnagrunninn skv. d-lið 3. mgr. innan þessara tímamarka skal uppfæra upplýsingarnar þegar niðurstöður frekari greininga og ráðlegginga liggja fyrir. Þá er heimilt að fresta upplýsingagjöf sem um getur í d-lið 3. mgr. til að unnt sé að ljúka dómsmálum þegar slík upplýsingagjöf kann að hafa áhrif á málsmeðferðina.
VIII. KAFLI
Eftirlit og eftirlitsáætlun.
31. gr.
Eftirlit.
Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
Vinnueftirlit ríkisins skipuleggur kerfisbundið eftirlit með starfsstöðvum sem reglugerð þessi gildir um.
Eftirlitið skal hæfa viðeigandi tegund starfsstöðvar og eiga sér stað án tillits til þess hvort Vinnueftirlitinu hafa borist öryggisskýrslur eða aðrar skýrslur frá viðkomandi starfsstöð. Það skal nægja til skipulegrar og kerfisbundinnar athugunar á kerfum sem notuð eru í starfsstöðinni, hvort sem um er að ræða tæknibúnað, skipulag eða stjórnun, til þess að unnt sé að tryggja sérstaklega að:
- rekstraraðili geti sýnt fram á að hann hafi gripið til viðeigandi ráðstafana til að fyrirbyggja stórslys vegna mismunandi starfsemi innan starfsstöðvarinnar,
- rekstraraðili geti sýnt fram á að hann hafi gripið til viðeigandi úrræða til að draga úr afleiðingum stórslysa, jafnt á staðnum sem utan hans,
- gögn og upplýsingar sem er að finna í öryggisskýrslu skv. 12. gr. eða öðrum innsendum skýrslum innihaldi fullnægjandi lýsingu á aðstæðum í starfsstöðinni,
- áætlun um stórslysavarnir og neyðaráætlun innan starfsstöðvar séu fullnægjandi,
- upplýsingar hafi verið birtar almenningi í samræmi við ákvæði VI. kafla.
32. gr.
Eftirlitsáætlun.
Vinnueftirlit ríkisins skal gera eftirlitsáætlanir sem taka til allra starfsstöðva sem reglugerð þessi gildir um. Eftirlitsáætlanir geta verið landsbundnar, svæðisbundnar eða staðbundnar og þær ber að endurskoða reglulega og uppfæra eftir því sem við á.
Hver eftirlitsáætlun skal ná yfir eftirfarandi:
- almennt mat á viðkomandi öryggismálum,
- landfræðilegt svæði sem eftirlitsáætlunin nær til,
- skrá yfir starfsstöðvar sem áætlunin nær til,
- skrá yfir hópa starfsstöðva þar sem keðjuverkun gæti átt sé stað skv. 10. gr.,
- skrá yfir starfsstöðvar þar sem einstakir ytri áhættuþættir eða upptök hættu kunna að auka hættu á stórslysi eða auka afleiðingar þess,
- aðferðir við kerfisbundið eftirlit, þ.m.t. áætlanir fyrir slíkt eftirlit skv. 3. mgr.,
- aðferðir við ókerfisbundið eftirlit skv. 5. mgr.,
- ákvæði um samstarf milli mismunandi eftirlitsyfirvalda ef við á.
Vinnueftirlit ríksins skal, á grundvelli eftirlitsáætlana fyrir mismunandi gerðir starfsstöðva, gera reglulega áætlanir um kerfisbundið eftirlit í öllum starfsstöðvum, þ.m.t. tíðni heimsókna í stöðvarnar. Tímabilið milli tveggja heimsókna í röð í hverja stöð skal ekki vera lengra en eitt ár fyrir starfsstöðvar í hærri mörkum, sbr. 4. mgr. 3. gr., og þrjú ár fyrir starfsstöðvar í lægri mörkum, sbr. 3. mgr. 3. gr., nema að Vinnueftirlit ríkisins hafi gert eftirlitsáætlun sem byggist á kerfisbundnu mati skv. 4. mgr. á stórslysahættum í viðkomandi starfsstöðvum.
Kerfisbundið mat á hættum fyrir viðkomandi starfsstöðvar skal miðast við a.m.k. eftirfarandi viðmið:
- möguleg áhrif viðkomandi starfsstöðva á heilbrigði manna og umhverfi,
- skrár sem staðfesta að farið sé að kröfum reglugerðar þessarar.
Eftirlitsheimsóknir sem ekki eru hluti af eftirlitsáætlun skulu fara fram eins fljótt og unnt er til að kanna alvarlegar kvartanir, alvarleg slys og tilvik þar sem legið hefur við stórslysi og tilvik þar sem ekki er farið að tilskildum ákvæðum í reglugerð þessari.
Innan fjögurra mánaða eftir hverja eftirlitsheimsókn skal Vinnueftirlit ríkisins tilkynna rekstraraðila um niðurstöður eftirlitsins og allar nauðsynlegar aðgerðir sem grípa skuli til. Stofnunin skal sjá til þess að rekstraraðilinn grípi til allra þeirra nauðsynlegu aðgerða innan hæfilegs tíma eftir móttöku tilkynningarinnar. Leiði eftirlit í ljós alvarlegt tilvik þess að ekki sé farið að ákvæðum reglugerðar þessarar mun viðbótareftirlitsheimsókn fara fram innan sex mánaða.
Rekstraraðili skal veita Vinnueftirliti ríkisins alla nauðsynlega aðstoð til að eftirlit geti farið fram og safna upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að Vinnueftirlitið geti uppfyllt skyldur sínar að því er varðar reglugerð þessa. Einkum svo að stofnunin geti metið að fullu möguleika á stórslysi og ákvarðað umfang mögulegra aukinna líkinda eða aukins alvarleika stórslyss og tekið til greina efnin sem kunna að þarfnast aukinnar athygli vegna eðlisástands þeirra og að teknu tilliti til aðstæðna eða staðsetningar.
Vinnueftirlit ríkisins skal koma nauðsynlegum upplýsingum sem stofnunin fær skv. 7. mgr. til viðkomandi almannavarnanefndar til að nýta við gerð viðbragðsáætlunar utan starfsstöðvar skv. 18. gr.
33. gr.
Rekstrarstöðvun.
Óheimilt er að halda áfram starfsemi eða hefja rekstur í hverri þeirri starfsstöð, stöð eða geymsluaðstöðu eða hluta þeirra þar sem mikið skortir á að ráðstafanir rekstraraðila til að fyrirbyggja stórslys vegna hættulegra efna og draga úr afleiðingum þeirra séu fullnægjandi. Vinnueftirlit ríkisins skal í þessu skyni meðal annars taka tillit til alvarlegra tilvika, þar sem ekki er gripið til nauðsynlegra aðgerða sem tilgreind eru í eftirlitsskýrslu.
Vinnueftirlit ríkisins getur stöðvað rekstur eða bannað að rekstur hefjist í starfsstöð, stöð eða geymsluaðstöðu, eða hluta þeirra ef rekstraraðili hefur ekki skilað innan tilskilins tíma tilkynningu, skýrslum eða öðrum upplýsingum sem skylt er að standa skil á samkvæmt reglugerð þessari.
IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.
34. gr.
Gerð og framkvæmd landsskipulagsstefnu og/eða skipulagsáætlana.
Við gerð og framkvæmd landsskipulagsstefnu og skipulagsáætlunar samkvæmt skipulagslögum, nr. 123/2010, skalt taka mið af stórslysahættu af völdum hættulegra efna, í samræmi við reglugerð þessa. Þetta á einkum við þegar velja á stað fyrir nýja starfsstöð, breyta á stöð, starfsstöð eða geymsluaðstöðu skv. 22. gr. og þegar velja á flutningaleiðir.
Við skipulag landsvæða þarf að taka mið af stórslysahættu í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eða þar sem því verður ekki komið við draga úr hættu fyrir menn og umhverfi auk þess sem fullnægjandi vegalengd skal vera á milli starfsstöðva sem falla undir reglugerð þessa og staða sem eru einstakir frá náttúrunnar hendi. Um gerð landsskipulagsstefnu og/eða skipulagsáætlunar fer samkvæmt skipulagslögum, nr. 123/2010.
35. gr.
Upplýsingaskipti.
Vinnueftirlit ríkisins skal eigi síðar en 30. september 2019, og á fjögurra ára fresti eftir það afhenda Eftirlitsstofnun EFTA, sbr. VI. viðauka, skýrslu um framkvæmd þessarar reglugerðar og afhenda eftirfarandi upplýsingar um starfsstöðvar sem falla undir gildissvið hennar:
- nafn eða viðskiptaheiti rekstraraðila og fullt heimilisfang starfsstöðvar sem á í hlut,
- starfsemi starfsstöðvarinnar.
Vinnueftirlit ríkisins skal senda afrit af skýrslunum til velferðarráðuneytisins.
36. gr.
Kæruheimild.
Um kæruheimild á grundvelli þessarar reglugerðar fer skv. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
37. gr.
Refsiákvæði.
Brot á ákvæðum þessarar reglugerðar geta varðað viðurlögum skv. 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
X. KAFLI
Gildistaka.
38. gr.
Reglugerðin er sett samkvæmt heimild í 43. gr., 3. mgr. 51. gr., 5. mgr. 51. gr. a, 4. mgr. 65. gr., 3. mgr. 65. gr. a og 4. mgr. 66. gr. a laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og að höfðu samráði við samráðsnefnd um stórslysavarnir í iðnaði og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, til innleiðingar á tilskipun 2012/18/ESB um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 96/82/EB sem vísað er til í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 193/2015.
39. gr.
Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 160/2007, um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 33/2009.
Ákvæði til bráðabirgða.
Rekstraraðilar sem hafa sent Vinnueftirliti ríkisins tilkynningu á grundvelli 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 160/2007, um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna, með síðari breytingu, þurfa ekki að senda inn nýjar tilkynningar ef upplýsingar í tilkynningunum eru í samræmi við 5. gr. og eru óbreyttar.
Rekstraraðilar sem sendu Vinnueftirliti ríkisins áætlun um stórslysavarnir á grundvelli 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 160/2007, um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna, með síðari breytingu, þurfa ekki að senda inn nýja áætlun ef upplýsingarnar í áætluninni eru í samræmi við 8. gr. þessarar reglugerðar og eru óbreyttar.
Rekstraraðilar sem hafa sent Vinnueftirliti ríkisins öryggisskýrslu á grundvelli 12. og 13. gr. reglugerðar nr. 160/2007, um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna, með síðari breytingu, þurfa ekki að gera slíkt aftur, ef upplýsingarnar í öryggisskýrslunni eru í samræmi við 12. gr. þessarar reglugerðar og eru óbreyttar. Breytingar á öryggisskýrslu til að uppfylla skilyrði 12. gr. skal afhenda Vinnueftirliti ríkisins án ástæðulauss dráttar.
Velferðarráðuneytinu, 15. nóvember 2017.
Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra.
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.
VIÐAUKAR (sjá PDF-skjal)
|