FORSETI ÍSLANDS gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
I. KAFLI
Breyting á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum.
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
- Við bætast fjórar nýjar skilgreiningar, í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
- Dreifingaraðili: einstaklingur eða lögaðili sem býður raf- og rafeindatæki fram á markaði. Jafnframt getur dreifingaraðili talist vera framleiðandi samkvæmt skilgreiningu á framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja.
- Endurvinnsla skipa: starfsemi í skipaendurvinnslustöð sem miðar að sundurhlutun skipa, algerri eða að hluta til, til að endurheimta efnisþætti og efni til uppvinnslu, til undirbúnings fyrir endurnotkun eða til endurnotkunar, um leið og séð er til þess að haldið sé utan um efni, bæði hættuleg og önnur, og felur jafnframt í sér ýmsa tengda starfsemi, svo sem geymslu og meðhöndlun efnisþátta og efna á staðnum, en ekki frekari vinnslu þeirra eða förgun í aðskilinni aðstöðu.
- Miðlari úrgangs: hvert það fyrirtæki sem sér um endurnýtingu eða förgun úrgangs fyrir hönd annarra, þ.m.t. miðlarar sem taka ekki slíkan úrgang í vörslu sína.
- Seljandi úrgangs: hvert það fyrirtæki sem á eigin ábyrgð kaupir úrgang og selur hann síðan aftur, þ.m.t. þeir seljendur sem taka ekki úrganginn í vörslu sína.
- Skilgreiningin Framleiðandi og innflytjandi raf- og rafeindatækja orðast svo: aðili sem, óháð þeirri sölutækni sem er notuð,
- framleiðir raf- og rafeindatæki undir eigin heiti eða vörumerki eða lætur hanna eða framleiða raf- og rafeindatæki og markaðssetur undir eigin heiti eða vörumerki, í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð,
- endurselur raf- og rafeindatæki undir eigin heiti eða vörumerki, sem aðrir birgjar framleiða í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð; endursöluaðili telst þó ekki vera framleiðandi ef vörumerki framleiðandans er á tækjabúnaðinum eins og kveðið er á um í i. lið,
- setur raf- og rafeindatæki frá öðru ríki á markað í atvinnuskyni í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð,
- selur raf- og rafeindatæki með fjarsamskiptamiðlum beint til notenda yfir landamæri, eða
- flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr landinu í atvinnuskyni.
- Skilgreiningin Rekstrarúrgangur orðast svo: úrgangur frá framleiðslu, þjónustu, verslun og öðrum rekstri, annar en heimilisúrgangur.
2. gr.
Á eftir 1. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Sveitarstjórn skal senda Umhverfisstofnun upplýsingar um útgáfu og veigamiklar endurskoðanir á svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á því formi sem stofnunin leggur til.
3. gr.
Á eftir 1. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Skyldur framleiðanda úrgangs eða handhafa úrgangs til að endurnýta eða farga úrgangi falla að jafnaði ekki niður þó að úrgangur hafi verið fluttur til opinberra aðila eða einkaaðila.
4. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 19. gr. laganna:
- Á eftir orðinu „uppruna“ í 2. málsl. kemur: eftir atvinnugreinaflokkum og sveitarfélögum.
- Í stað 6. málsl. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Umhverfisstofnun skal tryggja að birtar séu á vefnum tölulegar upplýsingar fyrir landið í heild sem byggjast á skýrslum rekstraraðila til að uppfylla alþjóðlega samninga. Jafnframt skal Umhverfisstofnun annast öflun og miðlun upplýsinga um tegundir úrgangs og magn, uppruna og ráðstöfun úrgangs eftir sveitarfélögum. Umhverfisstofnun er heimilt að innheimta gjald fyrir vinnslu tölulegra upplýsinga sem byggjast á skýrslum rekstraraðila fyrir einstök sveitarfélög.
5. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
- Á eftir orðunum „fræða almenning um“ í 1. mgr. kemur: úrgangsforvarnir og.
- Á eftir orðunum „gerð upplýsingaefnis um“ í 2. mgr. kemur: úrgangsforvarnir og.
6. gr.
Í stað orðsins „ráðherra“ í 3. mgr. 26. gr. laganna kemur: úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
7. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
- 4. málsl. fellur brott.
- Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Til að tryggja yfirsýn og framkvæmd laga þessara og reglugerða um flutning úrgangs milli landa skal Umhverfisstofnun útbúa eftirlitsáætlun til þriggja ára í senn. Ákvæði upplýsingalaga og laga um upplýsingarétt um umhverfismál taka ekki til eftirlitsáætlunarinnar fyrr en að loknum gildistíma hennar. Um eftirlit, sýnatöku, skilgreiningu eftirlitsferða og skoðana og eftirlitsáætlanir skal kveða nánar á í reglugerð.
8. gr.
Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Umhverfisstofnun er heimilt að stöðva flutning úrgangs milli landa þegar í stað þegar grunur leikur á að flutningur úrgangs uppfylli ekki skilyrði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Umhverfisstofnun er heimilt að taka ákvörðun til bráðabirgða um stöðvun flutnings úrgangs í þessum tilvikum án þess að veita aðila andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, en skal í stað þess veita honum færi á að koma sjónarmiðum sínum að um leið og ákvörðun til bráðabirgða hefur verið tekin. Umhverfisstofnun metur í kjölfarið hvort um ólöglegan flutning úrgangs er að ræða í samræmi við ákvæði þetta þegar allar upplýsingar í málinu liggja fyrir. Leita skal aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd úrræðisins.
9. gr.
Á eftir x-lið 43. gr. laganna kemur nýr stafliður, svohljóðandi, og breytist röð liða samkvæmt því: umbúðir og umbúðaúrgang, þ.m.t. um merkingar og auðkenningarkerfi umbúðaefna, kröfur um samsetningu umbúða og möguleika á endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu þeirra, töluleg markmið um úrgangsforvarnir, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu umbúða og umbúðaúrgangs og töluleg markmið fyrir notkun burðarplastpoka.
10. gr.
Á eftir 44. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 44. gr. a og 44. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
a. (44. gr. a.)
Móttaka lítilla raf- og rafeindatækja í verslunum.
Í verslunum þar sem sölusvæði raf- og rafeindatækja er a.m.k. 400 m² skal tekið á móti litlum raf- og rafeindatækjum, með ekkert ytra mál yfir 25 cm, án endurgjalds og skilyrða.
b. (44. gr. b.)
Óheimil förgun án viðeigandi meðhöndlunar.
Allur raf- og rafeindatækjaúrgangur sem er safnað skal meðhöndlaður á viðeigandi hátt í samræmi við gildandi reglur. Óheimilt er að farga söfnuðum raf- og rafeindatækjaúrgangi án viðeigandi meðhöndlunar.
11. gr.
Á eftir 2. mgr. 50. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Erlendum framleiðanda raf- og rafeindatækja, sbr. i.–iii. lið skilgreiningar á framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja í 3. gr., er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa sinn hér á landi með skriflegu umboði sem skal vera ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
Framleiðandi raf- og rafeindatækja sem selur raf- og rafeindatæki með fjarsamskiptamiðlum beint til notenda í öðru EES-ríki skal tilnefna viðurkenndan fulltrúa í því ríki með skriflegu umboði sem skal vera ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans samkvæmt tilskipun 2012/19/ESB.
12. gr.
Orðin „skilakerfa eða“ í 1. málsl. 3. mgr. 51. gr. laganna falla brott.
13. gr.
Við 53. gr. laganna bætast tveir nýir stafliðir, i- og j-liður, svohljóðandi:
- þau raf- og rafeindatæki sem undanþegin eru ákvæðum laga þessara vegna sérstakra aðstæðna,
- þær lágmarkskröfur sem gilda við aðgreiningu notaðra raf- og rafeindatækja og raf- og rafeindatækjaúrgangs við flutning úr landi.
14. gr.
1. mgr. 56. gr. laganna orðast svo:
Handhafar spilliefna, og seljendur og miðlarar úrgangs ef við á, skulu halda skrár um magn og gerð spilliefna og tilgreina ráðstöfun þeirra.
15. gr.
Á eftir XI. kafla laganna kemur nýr kafli, XII. kafli, Endurvinnsla skipa, með tveimur nýjum greinum, 64. gr. a og 64. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytast númer kafla samkvæmt því:
a. (64. gr. a.)
Útgáfa starfsleyfis.
Starfsemi þar sem fram fer endurvinnsla skipa skal hafa gilt starfsleyfi.
Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir starfsemi þar sem fram fer endurvinnsla skipa yfir 500 brúttótonnum. Skal starfsleyfið vera til fimm ára í senn, en að öðru leyti gilda ákvæði 14.–17. gr. um útgáfu starfsleyfa eftir því sem við á.
Umhverfisstofnun samþykkir endurvinnsluáætlanir skipa áður en endurvinnsla hefst.
Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga veita starfsleyfi fyrir starfsemi þar sem fram fer endurvinnsla skipa undir 500 brúttótonnum samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
b. (64. gr. b.)
Reglugerð og gjaldskrá um endurvinnslu skipa.
Ráðherra skal, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, setja reglugerð um endurvinnslu skipa og veitingu starfsleyfis. Í reglugerðinni skal m.a. fjallað um til hvaða skipa reglur um endurvinnslu ná, kröfur til eigenda þeirra skipa, endurvinnsluáætlanir skipa, skipaendurvinnslustöðvar og aðrar kröfur og skilyrði sem útgefandi telur nauðsynlegar og samrýmast markmiðum reglugerðarinnar, svo sem kröfur um bestu aðgengilegu tækni.
Ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni stofnunarinnar vegna endurvinnslu skipa. Upphæð gjalda skal taka mið af kostnaði við veitta þjónustu og verkefni.
16. gr.
7. mgr. 66. gr. laganna fellur brott.
17. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 67. gr. laganna:
- 1. mgr. orðast svo:
Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara, reglugerða settra samkvæmt þeim eða samþykkta sveitarfélaga sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
- 3. mgr. fellur brott.
18. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna:
- 5. tölul. orðast svo: Tilskipun 2012/19/ESB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang sem vísað er til í lið 32fa í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 195/2015.
- 6. tölul. fellur brott.
- Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1257/2013 um endurvinnslu skipa og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1013/2006 og tilskipun 2009/16/EB.
II. KAFLI
Breyting á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, með síðari breytingum.
19. gr.
4. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Til viðbótar skilagjaldi skal með sama hætti taka umsýsluþóknun fyrir hverja umbúðaeiningu úr stáli, áli, gleri og plastefni og skal fjárhæð hennar án virðisaukaskatts vera 5,50 kr. fyrir umbúðir úr stáli, 0,20 kr. fyrir umbúðir úr áli, 5,30 kr. fyrir umbúðir úr gleri stærri en 500 ml, 3,90 kr. fyrir umbúðir úr gleri 500 ml og minni, 3,20 kr. fyrir umbúðir úr lituðu plastefni og 1,30 kr. fyrir umbúðir úr ólituðu plastefni.
20. gr.
Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi nema a-liður 4. gr. og b-liður 7. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2018.
Gjört í Reykjavík, 14. júní 2017.
Guðni Th. Jóhannesson. (L. S.)
Björt Ólafsdóttir.
|