1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 53. gr. reglnanna:
- Fyrirsögn greinarinnar verður: Einingafjöldi, doktorsritgerðir og doktorsmálstofur.
- Á eftir 1. mgr. bætast við þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Um doktorsritgerðir gildir eftirfarandi: Samsettar doktorsritgerðir. Fjöldi greina skal að lágmarki vera þrjár. Af þessum þremur (að lágmarki) skulu tvær greinar vera samþykktar til birtingar, og þriðja greinin komin vel áleiðis í ritrýniferli, þ.e. samþykki fyrir endurvinnslu og endursendingu til ritstjórnar tímarits (e. revise and resubmit). Greinar skulu birtar í alþjóðlegum viðurkenndum tímaritum og skal birtingarvettvangur greinanna standast viðmið Scopus, Web of Science eða efsta flokks í norrænum gagnagrunnum. Doktorsritgerð sem heildstætt verk. Ef nemandi velur að skrifa eitt heildstætt verk (e. monograph) skal framlag þess verks vera sambærilegt ofantöldum kröfum. Doktorsmálstofur. Doktorsnemendur í viðskiptafræðideild þurfa meðan á doktorsnámi stendur að kynna verkefni sín að lágmarki einu sinni á ári á doktorsmálstofu deildar. Kynning verkefna á doktorsmálstofu er skylda og fá nemendur 2 ECTS-einingar fyrir hverja málstofu. Fullnægjandi námsárangri hvers árs telst ekki náð fyrr en lágmarkskrafan er uppfyllt.
2. gr.
Reglur þessar, sem háskólaráð Háskóla Íslands hefur samþykkt, eru settar samkvæmt heimild í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. 68. og 69. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Reglurnar hafa verið samþykktar af viðskiptafræðideild, stjórn félagsvísindasviðs og Miðstöð framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi.
Háskóla Íslands, 7. júní 2022.
Jón Atli Benediktsson.
|