I. KAFLI
Meginreglur, skyldur umráðamanns.
1. gr.
Gildissvið og stjórnsýsla.
Samþykkt þessi gildir um hundahald í Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ og sætir þeim takmörkunum sem fram koma í henni.
Um almennan aðbúnað og velferð gæludýra sem og um ræktun, verslun, geymslu og leigu hunda gilda ákvæði laga nr. 55/2013 um velferð dýra og reglugerð nr. 80/2016 um velferð gæludýra. Samkvæmt lögum nr. 55/2013 um velferð dýra fer Matvælastofnun með eftirlit og framkvæmd þeirra laga.
2. gr.
Meginreglur og skyldur umráðamanns.
Umráðamaður hunds er ábyrgur fyrir umsjá hunds, sem er skráður til heimilis á lögheimili viðkomandi.
Heimilt er að halda hund í Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ að því gefnu að umráðamaður hundsins sé lögráða, hundurinn skráður í hundaskrá heilbrigðiseftirlitsins og að uppfyllt séu þau skilyrði sem sett eru í samþykkt þessari, sem og í lögum og reglugerðum sem gilda um dýrahald.
Umráðamanni ber að tryggja góða meðferð, aðbúnað og umönnun hunds í samræmi við tegund, aldur og eiginleika dýrsins, sjá nánar 18. gr. reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra.
Umráðamaður skal tryggja eftir fremsta megni að hundur sleppi ekki úr umsjá hans. Strax og umráðamaður verður þess var að hundur hafi sloppið skal hann gera ráðstafanir til að finna hundinn og handsama.
Umráðamaður skal gæta þess vel, að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði, eða raski ró fólks og dýra. Umráðamaður skal ávallt þrífa upp skít eftir sinn hund.
Umráðamaður skal gæta þess að fara ekki með hund í aðstæður sem líklegt er að ógni ró hundsins eða valdi honum vanlíðan, s.s. fjölmennar samkomur og hávaða.
Umráðamanni er skylt að hafa gilda ábyrgðartryggingu vegna hunds vegna þess tjóns sem hundurinn veldur þriðja aðila. Ábyrgðartryggingin skal ná til alls tjóns sem hundurinn kann að valda fólki, dýrum, gróðri og munum í eigu annarra en umráðamanns hundsins sjálfs. Heilbrigðiseftirlitið gerir heildarsamning við tryggingafélag eða -félög um slíka tryggingu sem tekur til allra réttilega skráðra hunda í Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ. Iðgjald skal innifalið í árlegu leyfisgjaldi, sbr. 13. gr. samþykktar þessarar. Heilbrigðiseftirlitið skal upplýsa hundaeigendur um efni hópvátryggingarsamningsins, sbr. ákvæði IX. kafla laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.
Þá skal umráðamaður hunds láta ormahreinsa hund sinn árlega og skal umráðamaður hunds varðveita hreinsunarvottorð í þrjú ár og framvísa til heilbrigðiseftirlitsins ef þess er óskað.
3. gr.
Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.
Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness í samþykkt þessari nefnt heilbrigðiseftirlitið, annast utanumhald og umsýslu vegna skráningar hunda í samræmi við samþykkt þessa. Heilbrigðiseftirlitið sér einnig um fræðslu og upplýsingagjöf til umráðamanna dýra og almennings, þ.m.t. um dýrahald í þéttbýli og þær reglur sem um það gilda hverju sinni.
Heilbrigðiseftirlitið sér um föngun og vistun hunda í óskilum, móttöku dýra í hremmingum og samskipti við aðrar stofnanir sem hafa með dýravelferð að gera, Matvælastofnun, dýraeigendur og hagsmunasamtök þeirra eftir því sem við á. Þá fer heilbrigðiseftirlitið með eftirlit með því að samþykkt þessari sé framfylgt.
Heilbrigðiseftirlitinu er heimilt að semja við þriðja aðila um föngun, móttöku, vistun og ráðstöfun hunds í óskilum. Upplýsingar um föngun, móttöku, vistun og ráðstöfun skal kynnt hundaeigendum og vera aðgengilegar á heimasíðu heilbrigðiseftirlitsins.
II. KAFLI
Skráningarskylda, umsjón og eftirlit.
4. gr.
Skráningarskylda.
Umráðamaður skal innan tveggja mánaða frá því að hann fær hund til umráða skrá hann hjá heilbrigðiseftirlitinu eða á www.island.is. Skráning tekur einungis til eins ákveðins hunds og gildir á meðan hann lifir fái hann ekki nýjan umráðamann eða flytji úr sveitarfélaginu. Skráning hunds er bundin við lögráða umráðamann og lögheimili hans. Skráning hunds er ekki framseljanleg. Eftirfarandi upplýsingar skulu liggja fyrir við skráningu:
- Nafn hunds, aldur, kyn, tegund, litur og önnur einkenni hundsins.
- Nafn, kennitala og lögheimili umráðamanns og annað það sem skráningar form tekur til.
- Örmerkjanúmer hunds, sbr. ákvæði í reglugerð nr. 80/2016 um velferð gæludýra.
Umráðamaður skal staðfesta við skráningu að hann uppfylli öll skilyrði fyrir hundahaldi samkvæmt samþykkt þessari, þ.m.t. að ákvæði 5. gr. séu uppfyllt, ef um fjöleignarhús er að ræða.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að halda hvolpa, sem vistaðir eru á skráningarstað móður, án skráningar þar til þeir verða 16 vikna.
Umráðamanni ber að tilkynna heilbrigðiseftirlitinu um aðsetursskipti með pósti á netfangið [email protected] og skal það gert eins fljótt og kostur er og eigi síðar en tveimur mánuðum frá breytingum.
Fyrrum umráðamaður skal afskrá hund hjá heilbrigðiseftirlitinu eða á www.island.is ef hundurinn fær nýjan umráðamann.
Flytji hundur úr sveitarfélagi eða drepist skal umráðamaður afskrá hann.
Hundar í umsjá dýramiðlunar sem samþykkt er af heilbrigðiseftirlitinu eru undanþegnir skráningar- og eftirlitsgjöldum á meðan unnið er að heimilisleit fyrir þá. Dýramiðlun er starfsemi hvort sem er í sjálfboðavinnu eða í atvinnuskyni sem tekur við og miðlar heimilislausum dýrum í vistun eða heimili.
Birta skal lista á vefsíðu heilbrigðiseftirlitsins, www.heilbrigdiseftirlit.is þar sem kemur fram heimilisfang þar sem hundur er haldinn.
Greiða skal leyfisgjald skv. 13. gr. í samræmi við gildandi gjaldskrá.
5. gr.
Hundahald í fjöleignarhúsum.
Um hundahald í fjöleignarhúsum fer samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994. Áður en hundur sem stendur til að halda í fjöleignarhúsi er skráður ber eiganda að tryggja að hundahaldið sé í samræmi við ákvæði þeirra laga og reglur viðkomandi húsfélags.
6. gr.
Hundar ekki skráðir á svæði heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar eða Seltjarnarness.
Hundar, sem ekki eru skráðir á svæði heilbrigðiseftirlitsins, mega dvelja í sveitarfélögunum án skráningar þar, en þó ekki lengur en fjóra mánuði á almanaksári. Ef fyrir liggur að hundur mun dveljast lengur en fjóra mánuði innan lögsagnarumdæmis þeirra sveitarfélaga sem tilheyra heilbrigðiseftirlitinu, þá skal hundur skráður hjá heilbrigðiseftirlitinu, sbr. 4. gr.
Um skammtímaheimsóknir hunda í hús gildir ákvörðun eigenda einbýlis- og fjöleignarhúsa hverju sinni og/eða reglur viðkomandi húsfélags auk laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.
7. gr.
Hundar á lögbýlum og þjónustuhundar.
Hunda á lögbýlum skal skrá en þeir eru undanþegnir árlegu leyfisgjaldi fyrir allt að tvo hunda. Hundar á lögbýlum mega vera lausir á landi þeirra. Að öðru leyti gilda önnur ákvæði samþykktarinnar um hunda á lögbýlum.
Skrá skal þjónustuhunda sem nýttir eru til atvinnustarfsemi svo sem sérþjálfaða leiðsögu- og hjálparhunda, björgunarhunda, löggæsluhunda og hunda í landbúnaði. Þeir eru undanþegnir árlegu leyfisgjaldi.
8. gr.
Hundar í óskilum og hættulegir hundar.
Hafi hundur sloppið frá umráðamanni og hann ekki náð hundinum eða hundur finnst og umráðamaður er ókunnur ber heilbrigðiseftirlitið ábyrgð á að taka við dýrinu og vista. Sé hundur merktur, skal umráðamanni tilkynnt um handsömunina svo fljótt sem auðið er.
Vitji umráðamaður ekki hunds innan viku frá því að honum var tilkynnt um handsömun hans eða ef umráðamaður finnst ekki innan tveggja vikna er heilbrigðiseftirlitinu heimilt að ráðstafa hundinum til nýs umráðamanns, dýramiðlunar eða selja hann fyrir áföllnum kostnaði í samræmi við 24. gr. laga um velferð dýra. Séu framangreind úrræði fullreynd er heilbrigðiseftirlitinu heimilt að láta aflífa hundinn.
Hafi óskráður hundur verið handsamaður skal hann skráður, sbr. 4. gr., og afhentur umráðamanni að því loknu eins fljótt og auðið er. Heimilt er að taka tillit til þess í gjaldskrá hvort handsamaður hundur sé skráður hjá heilbrigðiseftirlitinu, sbr. 4. gr., eða öðru sveitarfélagi. Um áfallinn kostnað vegna handsömunar og/eða vistunar vísast til gjaldskrár hverju sinni.
Hafi heilbrigðiseftirlitið ástæðu til að ætla að hundur sé hættulegur eða hafi valdið líkamstjóni, s.s. með biti, getur heilbrigðiseftirlitið gert kröfu um að umráðamaður hunds láti hundinn undirgangast skapgerðamat. Matið skal framkvæmt af sérfróðum aðila, s.s. dýralækni eða öðrum aðila sem heilbrigðiseftirlitið telur til þess bæran. Heimilt er að leita yfirmats ef eftir því er óskað. Allur kostnaður af matinu skal greiddur af umráðamanni.
Leiði skapgerðarmat í ljós að hundur telst hættulegur, getur heilbrigðiseftirlitið gert kröfu til þess að hundur verði aflífaður.
Verði umráðamaður ekki við kröfum sem heilbrigðiseftirlitið gerir samkvæmt þessari grein, getur heilbrigðisnefnd Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, ákveðið að hundur undirgangist skapgerðamat og/eða verði aflífaður.
Bannað er að árásarþjálfa hunda nema í löggæsluskyni.
III. KAFLI
Lausaganga, taumskylda og óheimilir staðir.
9. gr.
Taumskylda og sérstakar takmarkanir.
Taumskylda er á öllu svæði heilbrigðiseftirlitsins nema annað sé tekið fram og skal virða hana.
Heimilt er að vera með hunda í taumi á göngustígum sveitarfélaganna, þ.m.t. almenningsgörðum, í Heiðmörk, nema á brunnsvæðum, á hesthúsasvæðum, en ávallt í fylgd umráðamanns eða einstaklings sem ætla má að hafi vald á hundinum.
Óheimilt er að fara með hunda á útivistarsvæði á skilgreindum varpstöðum fugla innan sveitarfélags, fólkvanga eða á friðuðu svæði, á varptíma þeirra frá 1. maí-15. ágúst.
Óheimilt er að láta hunda vera lausa innan marka þéttbýlis, nema þjónustuhunda sem nýttir eru til atvinnustarfsemi svo sem sérþjálfaða leiðsögu- og hjálparhunda, björgunarhunda, löggæsluhunda og hunda í landbúnaði, þegar þeir eru að störfum í gæslu umráðamanns.
Sé hundur tjóðraður skal hann vera undir eftirliti umráðamanns eða einstaklings sem ætla má að hafi vald á hundinum. Þegar hundur er tjóðraður á lóð, skal taumurinn ekki vera lengri en svo að komast megi óhindrað framhjá hundi að aðaldyrum húss. Hundur skal ekki vera tjóðraður nema í skamman tíma í senn.
10. gr.
Lausagöngustaðir.
Heimilt er að sleppa hundum lausum í þar til gerð hundagerði og á þeim svæðum sem skilgreind eru sem lausagöngusvæði af sveitarfélögunum. Þá er lausaganga heimil á auðum svæðum s.s. útmörk utan skipulagðrar íbúðarbyggðar, utan akvega, reiðstíga og skipulagðra göngustíga.
Heilbrigðiseftirlitið í samráði við sveitarfélögin getur heimilað lausagöngu hunda utan þessara svæða tímabundið, t.d. í tengslum við sérstaka viðburði eða verkefni.
Lausaganga skal alltaf vera undir umsjá eiganda eða einstaklings sem ætla má að hafi vald á hundinum.
11. gr.
Óheimilir staðir.
Ekki má hleypa hundum inn í húsrými, s.s. skóla, leikvelli, íþróttavelli eða þá staði, sem um getur í 1. mgr. 19. gr., sbr. fylgiskjal 3, í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002, nema í tilvikum þar sem heilbrigðisnefnd hefur heimilað, sbr. 1. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar. Heimilt er að fara með hunda inn í íþróttamannvirki, heilbrigðisstofnanir eða snyrtistofur þegar og þar sem starfsemin er sérstaklega ætluð dýrum. Einnig eru hundar heimilaðir í strætó og á þeim veitingastöðum sem við á, sbr. ákvæði sömu greinar.
Óheimilt er að hleypa hundum inn í húsnæði matvælafyrirtækja, sbr. reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli, og reglugerð nr. 405/2004 um náttúrulegt ölkelduvatn og átappað lindarvatn. Víkja má frá fyrirmælum samþykktar þessarar sem banna eða takmarka umferð og dvöl hunda um tiltekna staði þegar um er að ræða þjónustuhunda sem nýttir eru til atvinnustarfsemi svo sem sérþjálfaða leiðsögu- og hjálparhunda, björgunarhunda, löggæsluhunda og hunda í landbúnaði.
12. gr.
Bannaðar hundategundir.
Óheimilt er að halda hund í Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ eða Seltjarnarnesbæ af tegund sem Matvælastofnun hefur bannað innflutning á.
IV. KAFLI
Gjaldtaka.
13. gr.
Fyrir skráningu hunds skal eigandi greiða gjald sem rennur til heilbrigðiseftirlitsins, árlegt leyfisgjald. Allir skráðir hundar skulu vera ábyrgðartryggðir og skal ábyrgðartryggingin vera innifalin í árlegu leyfisgjaldi, sbr. 2. gr. þessarar samþykktar. Gjöldum þessum er ætlað að standa undir kostnaði heilbrigðiseftirlitsins af hundahaldi og framkvæmd samþykktar þessarar. Sveitarfélögin setja gjaldskrá samkvæmt ákvæðum 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og mega gjöld aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.
Leyfisgjald skal greitt 1. mars með eindaga 1. apríl ár hvert. Kostnaður við handsömun, geymslu og aflífun hunda skal greiddur samkvæmt gildandi gjaldskrá hverju sinni.
V. KAFLI
Stjórnsýsla, kæruheimildir, refsiviðurlög og lagatilvísanir.
14. gr.
Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.
Heilbrigðisnefnd Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness fer með málefni hunda og hundahalds samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og hefur eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar. Heilbrigðiseftirlitið fer með framkvæmd samþykktar þessarar í umboði heilbrigðisnefndar og ber ábyrgð á þeim verkefnum sem því eru falin skv. þessari samþykkt.
Heilbrigðiseftirlitið fer með málefni heilbrigðisnefndar skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 3. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og samkvæmt samþykktum um heilbrigðiseftirlit fyrir Garðabæ, Hafnarfjörð, Kópavog, Mosfellsbæ og Seltjarnarnes.
Stjórnvaldsákvarðanir sem heilbrigðiseftirlitið tekur á grundvelli þessarar samþykktar, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settra samkvæmt þeim eru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
15. gr.
Aðstoð lögreglu.
Heilbrigðiseftirlitið getur, ef þörf krefur, leitað atbeina lögreglu við að framfylgja samþykkt þessari og ákvörðunum teknum á grundvelli hennar.
Heilbrigðiseftirlitinu ber að leitast eftir samstarfi við lögreglu um framkvæmd samþykktar þessarar, eftir því sem við á.
16. gr.
Þvingunarúrræði og afturköllun leyfa.
Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Sveitarstjórn er heimilt að afturkalla skráningu dýra ef vanhöld verða á tryggingum eða greiðslu leyfisgjalds sem og ef eigandi hefur brotið gegn samþykkt þessari. Einnig er heimilt að afturkalla allar skráningar telji sveitarfélagið það nauðsynlegt í þágu hollustuhátta og öryggis. Jafnframt getur sveitarfélagið, telji það og héraðsdýralæknir brýna þörf á, af sömu ástæðu bannað eða takmarkað gæludýrahald í dreifbýli.
Ef skráður eigandi eða umráðamaður hunds vanrækir skyldur sínar eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum samþykktar þessarar eða öðrum reglum sem gilda um hundahald getur sveitarstjórn bannað viðkomandi að halda hund og látið fjarlægja hundinn. Skráðum eiganda dýrs er skylt að greiða kostnað sem leiðir af brotum á samþykkt þessari.
17. gr.
Lagaheimild.
Samþykkt þessi staðfestist hér með skv. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla úr gildi samþykkt um hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000, samþykkt um hundahald í Seltjarnarneskaupstað nr. 579/2008 með síðari breytingum og samþykkt um hundahald í Mosfellsbæ nr. 332/1998 með síðari breytingum.
Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu, 21. nóvember 2022.
F. h. r.
Íris Bjargmundsdóttir.
Trausti Ágúst Hermannsson.
|