1. gr.
Markmið.
Markmið samþykktar þessarar er að:
- Stuðla að því að meðhöndlun úrgangs í Hvalfjarðarsveit valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið.
- Hámarka endurnotkun og endurnýtingu og leggja áherslu á úrgangsforvarnir og forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs í samræmi við svokallaðan úrgangsþríhyrning.
- Veita íbúum góða þjónustu þegar kemur að úrgangsmálum.
- Mengunarbótareglan verði höfð að leiðarljósi við ákvörðun um gjaldtöku vegna meðhöndlunar úrgangs þannig að kostnaður vegna úrgangs greiðist af þeim sem ber ábyrgð á myndun hans.
2. gr.
Gildissvið.
Samþykkt þessi gildir fyrir meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. hirðu, söfnun og förgun úrgangs í Hvalfjarðarsveit.
Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Vesturlandi er lögð til grundvallar samþykkt þessari.
3. gr.
Umsjón og eftirlit.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd Hvalfjarðarsveitar er ráðgefandi fyrir sveitarstjórn, sem fer með ákvörðunarvald og ber ábyrgð á málefnum er varða meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu. Umhverfisfulltrúi fer með daglega yfirstjórn málaflokksins samkvæmt samþykkt þessari. Heilbrigðisnefnd Vesturlands hefur eftirlit með meðhöndlun úrgangs skv. 2. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 með síðari breytingum og 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs með síðari breytingum og að farið sé að samþykkt þessari.
4. gr.
Almenn ákvæði.
Meðhöndlun úrgangs í Hvalfjarðarsveit skal vera samkvæmt ákvæðum samþykktar þessarar, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.
Sveitarfélagið ber ábyrgð á sérstakri söfnun og annarri meðhöndlun úrgangs á sínu svæði og samskiptum við þá aðila sem tengjast þeim viðfangsefnum. Sveitarfélagið getur sinnt sérstakri söfnun og annarri meðhöndlun úrgangs á eigin vegum og er heimilt að fela öðrum framkvæmd söfnunar á úrgangi, rekstur grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva og förgun úrgangs. Rekstraraðilar skulu hafa starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti eða Umhverfisstofnun eftir því sem við á.
Gæta skal þess að ekki hljótist mengun af úrganginum eða annar skaði fyrir umhverfi og að úrgangurinn uppfylli þær kröfur sem settar eru og við eiga, s.s. um flokkun og takmörkun á aðskotahlutum, þannig að úrgangurinn henti til endurnýtingar.
5. gr.
Skilgreiningar.
Í samþykkt þessari er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem að neðan greinir. Að öðru leyti vísast til laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 með síðari breytingum:
Almennur úrgangur: Úrgangur annar en spilliefni.
Endurvinnsla: Hvers kyns endurnýtingaraðgerð sem felst í því að endurvinna úrgangsefni í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða í öðrum tilgangi, undir þetta fellur uppvinnsla á lífrænum efniviði, en ekki orkuvinnsla og uppvinnsla sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti eða til fyllingar.
Flokkun: Aðgreining úrgangsefna til þess að hægt sé að endurnýta úrgangsefni og koma þeim úrgangi sem ekki nýtist til viðeigandi förgunar.
Förgun: Hvers kyns aðgerð sem er ekki endurnýting, jafnvel þótt aðgerðin hafi að auki í för með sér endurheimt efna eða orku.
Heimilisúrgangur: Úrgangur sem flokkast sem:
- Blandaður úrgangur frá heimilum og úrgangur frá heimilum sem er sérstaklega safnað, þ.m.t. pappír og pappi, gler, málmar, plast, lífúrgangur, timbur, textíll, umbúðir, raf- og rafeindatækjaúrgangur, notaðar rafhlöður og rafgeymar og rúmfrekur úrgangur, þ.m.t. dýnur og húsgögn.
- Blandaður úrgangur af öðrum uppruna og úrgangur af öðrum uppruna sem er sérstaklega safnað og er svipaður að eðli og samsetningu úrgangi frá heimilum.
Úrgangur frá framleiðslu, landbúnaði, skógrækt, fiskveiðum, rotþróm, fráveitukerfum, þ.m.t. seyra, úr sér gengin ökutæki eða byggingar- og niðurrifsúrgangur flokkast ekki sem heimilisúrgangur.
Lífrænn úrgangur: Úrgangur sem er niðurbrjótanlegur af örverum með eða án tilkomu súrefnis, t.d. lífúrgangur, sláturúrgangur, fiskúrgangur, ölgerðarhrat, húsdýraúrgangur, timbur, lýsi, garðyrkjuúrgangur, pappír, pappi og seyra.
Lífúrgangur: Lífbrjótanlegur garðaúrgangur, matar- og eldhúsúrgangur frá heimilum, skrifstofum, heildsölum, smásölum, veitingastöðum, mötuneytum og veisluþjónustufyrirtækjum, og sambærilegur úrgangur frá vinnslustöðvum matvæla.
Meðhöndlun úrgangs: Söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim hefur verið lokað.
Sérstök söfnun: Söfnun þar sem úrgangsflokkum er haldið aðskildum eftir tegundum og eðli til að auðvelda tiltekna meðhöndlun, svo sem undirbúning fyrir endurnotkun eða endurvinnslu.
Spilliefni: Úrgangur sem inniheldur efni sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfið hvort sem þau eru óblönduð eða hluti af öðrum efnum, vörum eða umbúðum sem komist hafa í snertingu við spilliefni, sbr. reglugerð um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs.
Urðun: Varsla úrgangs á eða í landi sem ekki felur í sér frekari vinnslu hans eða nýtingu um fyrirsjáanlega framtíð.
Úrgangsforvarnir: Ráðstafanir sem gerðar eru áður en efni, efnisviður eða vara er orðin að úrgangi og draga úr:
- magni úrgangs, þ.m.t. með endurnotkun vara eða framlengingu á notkunartíma vara,
- neikvæðum áhrifum á umhverfið og heilbrigði manna vegna úrgangs sem hefur myndast,
- innihaldi skaðlegra efna.
Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem handhafi úrgangs ákveður að losa sig við, ætlar að losa sig við eða er gert að losa sig við.
6. gr.
Söfnun heimilisúrgangs.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar ákveður tíðni söfnunar á heimilisúrgangi og skal sú ákvörðun kynnt íbúum, einnig ef um breytingar er að ræða, með hæfilegum fyrirvara. Sorphirðudagatal þar sem fram kemur hvenær úrgangi er safnað skal vera aðgengilegt á heimasíðu sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn sér til þess að upplýsingum og fræðslu um úrgangsmál sé miðlað til íbúa t.d. á heimasíðu sveitarfélagsins.
Skylt er að flokka a.m.k. í eftirfarandi úrgangstegundir: pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang og textíl. Spilliefnum er safnað reglulega og söfnun þeirra auglýst sérstaklega.
Öll íbúðarhús í sveitarfélaginu skulu búin grunneiningu íláta (fjögur ílát) sem sveitarfélagið leggur til og húsráðanda er skylt að nota. Húsráðandi getur óskað eftir stærri eða fleiri ílátum á sinn kostnað. Í þessi ílát má aðeins setja heimilisúrgang sem sérstaklega er safnað í samræmi við merkingar ílátanna, svo sem pappír og pappa, plast og lífúrgang, annan blandaðan (óflokkaðan) heimilisúrgang af öðrum uppruna, þó ekki garðaúrgang, grjót, timbur eða rekstrarúrgang, gler, málma, textíl, notaðar rafhlöður eða rafgeyma, né rúmfrekan úrgang eins og húsgögn. Óheimilt er að setja spilliefni eða lyf í ílátin, heita ösku, glóð eða annan hættulegan úrgang.
Flokkaður úrgangur skal meðhöndlaður þannig að hann blandist ekki öðrum úrgangsflokkum. Flokkaðan úrgang skal geyma og meðhöndla þannig að gæði hans við væntanlega endurnýtingu skerðist sem minnst. Úrgang sem getur fokið skal geyma þannig að hann fjúki ekki. Meðhöndlun úrgangs má ekki valda lyktaróþægindum, draga til sín meindýr eða skapa hreinlætisvandamál. Óheimilt er að skilja eftir eða geyma rusl, garðaúrgang eða annan úrgang á víðavangi, götum, gangstígum, við sorpgáma eða á opnum svæðum í sveitarfélaginu. Sama á við um númerslausar bifreiðar, vélar, báta, kerrur, vinnuvélar, lausamuni og önnur tæki. Glerbrotum og öðrum oddhvössum hlutum, sem hætta er á að skaði þá sem meðhöndla úrgang eða sorpílát, skal pakkað inn eða gengið frá þeim á annan tryggilegan hátt.
Húsráðandi skal gæta þess að ílát séu hrein, vel við haldið og að ekki sé hætta á að þau fjúki. Festingar íláta mega ekki hamla losun þeirra. Gott aðgengi skal vera að ílátunum og skal húsráðandi moka snjó frá þeim ef þörf krefur vegna söfnunar. Auðvelt skal vera að keyra ílátin að söfnunartæki og miða skal við að ekki þurfi að draga ílátin lengra en 20 metra að lóðamörkum/aðkomu söfnunarbíls. Sorpílát skulu jafnan standa lokuð og ekki fyllt meira en svo að auðveldlega megi loka þeim.
Ef sorpílát skemmast eða hverfa vegna þess að það hefur ekki verið gengið nægilega vel frá tunnum, t.d. undir skýli eða að festingar vantar, innheimtir Hvalfjarðarsveit raunkostnað á hvert sorpílát samkvæmt reikningi frá verktaka.
7. gr.
Söfnun heimilisúrgangs frá frístundahúsnæði.
Húsráðendur frístundahúss sjá sjálfir um að koma heimilisúrgangi frá sér í gáma eða ker sem sveitarfélagið leigir og sér um að losa eftir þörfum. Í þessi ílát má aðeins setja heimilisúrgang sem sérstaklega er safnað í samræmi við merkingar ílátanna, svo sem pappír og pappa, plast og annan blandaðan (óflokkaðan) heimilisúrgang af öðrum uppruna, þó ekki garðaúrgang, grjót, timbur eða rekstrarúrgang, gler, málma, textíl, notaðar rafhlöður eða rafgeyma, né rúmfrekan úrgang eins og húsgögn. Óheimilt er að setja spilliefni í ílátin, heita ösku eða glóð.
8. gr.
Rekstrarúrgangur.
Rekstraraðilum er skylt að flokka þann úrgang sem til fellur hjá þeim í samræmi við lög, reglugerðir og kröfur sveitarfélagsins. Þeir bera ábyrgð á því að úrgangur sem til fellur í starfsemi þeirra sé meðhöndlaður í samræmi við lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim og skulu standa straum af kostnaði vegna þess. Samkomulag um söfnun, aðra meðferð og förgun úrgangs er á milli rekstraraðila og framkvæmdaraðila söfnunar.
Rekstraraðilar skulu sjálfir sjá um að koma úrgangi sem fellur til við reksturinn í viðeigandi meðhöndlun. Rekstraraðilar skulu fylgja kröfum sem gerðar eru um flokkun tiltekinna úrgangsflokka frá blönduðum úrgangi og eftir því sem við á kröfum um sorpgerði og geymslur. Óheimilt er að geyma rekstrarúrgang á lóðum lengur en nauðsynlegt getur talist.
9. gr.
Grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar.
Grenndarstöðvar taka á móti flokkuðum úrgangi frá frístundahúsum, sbr. 7.gr.
Í samræmi við markmið laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003 fer fram sérstök söfnun á gleri, textíl og málmum (niðursuðudósum og þess háttar) á grenndarstöð sem staðsett er við þéttbýliskjarnann í Melahverfi, miðsvæðis í sveitarfélaginu.
Að minnsta kosti einu sinni á ári er komið fyrir stærri ílátum fyrir rúmfrekari úrgang eins og húsgögn, garðaúrgang og timbur. Er það auglýst sérstaklega á heimasíðu sveitarfélagsins, eða á annan áberandi hátt.
Íbúar í Hvalfjarðarsveit geta losað sig við úrgang á gámastöðinni Gámu, að Höfðaseli 16 á Akranesi eða í móttökustöðina við Sólbakka í Borgarnesi. Greitt er fyrir losun á öllum úrgangi samkvæmt gjaldskrá viðkomandi móttökustöðvar.
10. gr.
Gjaldtaka.
Sveitarstjórn skal innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við ákvæði 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Þá er sveitarstjórn heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem eins og fræðslu og kynningarmál. Gjaldið skal sett og innheimt samkvæmt gjaldskrá með heimild í 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Skylt er að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs. Sveitarfélaginu er þó heimilt að færa innheimtu gjalda á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að markmiðum laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er sveitarfélaginu heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu til þess að innheimta allt að 50% af heildarkostnaði sveitarfélagsins til 1. janúar 2025 en 25% eftir það.
Gjöld skulu lögð á hverja fasteignareiningu sem nýtir framangreinda þjónustu.
Heimilt er að leggja sérstakt gjald á eigendur lögbýla sem halda búfé á jörð sinni vegna söfnunar og förgunar dýraleifa.
Gjöld mega aldrei vera hærri en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, svo og við veitta þjónustu og framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 2. ml. 5. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998. Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda. Í gjaldskránni skal vísa til þessarar samþykktar. Sveitarstjórn er heimilt að haga gjaldskrá fyrir meðhöndlun og förgun úrgangs með þeim hætti að það hvetji til að draga úr magni úrgangs sem fer til urðunar.
11. gr.
Kvartanir, ábendingar og kærur.
Hafi húsráðandi fram að færa kvörtun vegna hirðingar úrgangs, skal hann koma henni skriflega, eða á annan skýran hátt, á framfæri við skrifstofu Hvalfjarðarsveitar.
Skylt er að setja allan úrgang sem safnað er við húsnæði í viðeigandi ílát. Að öðrum kosti er þjónustuverktaka heimilt að skilja úrganginn eftir.
Brjóti húsráðandi ákvæði samþykktar þessarar um meðferð og geymslu úrgangs skal framkvæmdaraðili söfnunar tilkynna það til skrifstofu Hvalfjarðarsveitar, sem skora skal á húseigandann að bæta ráð sitt. Bæti húsráðandi ekki úr innan hæfilegs frests er framkvæmdaaðili söfnunar ekki skyldugur til að taka úrgang hjá viðkomandi fyrr en úr hefur verið bætt. Sé um ítrekað brot að ræða skal skrifstofa Hvalfjarðarsveitar tilkynna það til heilbrigðisnefndar Vesturlands sem gera skal viðeigandi ráðstafanir.
Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt samþykkt þessari til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011.
12. gr.
Valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög.
Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sbr. XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Um viðurlög fer samkvæmt XIX. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.
13. gr.
Gildistaka.
Samþykkt þessi er samþykkt af sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar og staðfestist hér með samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, til þess að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 582/2008, um meðhöndlun úrgangs í Hvalfjarðarsveit.
Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu, 22. febrúar 2023.
F. h. r.
Íris Bjargmundsdóttir.
Trausti Ágúst Hermannsson.
|