1. gr.
Markmið og hlutverk.
1.1 Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, skammstafað HSL, er byggðasamlag sveitarfélaga á Suðurlandi í samræmi við 94. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, vegna samvinnu sveitarfélaganna um heilbrigðiseftirlit. Heimili byggðasamlagsins og varnarþing er að Austurvegi 65a, Selfossi.
Eftirtalin sveitarfélög eiga aðild að byggðasamlaginu:
Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skaftárhreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Ölfus og Vestmannaeyjabær.
1.2 Aðildarsveitarfélögin bera einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. í samræmi við eignarhluta. Eignarhluti hvers sveitarfélags í byggðasamlaginu skiptist innbyrðis í hlutfalli við íbúafjölda hvers sveitarfélags sem miðast við þann fjölda íbúa sem Hagstofa Íslands birtir 1. janúar ár hvert.
1.3 Um fyrirkomulag stjórnar, starfsmanna, starfssvæðis og framkvæmd starfseminnar fer skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum. Um fjármál og stjórnsýslueftirlit gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 en auk þess ber byggðasamlaginu að fylgja öðrum almennum reglum sem gilda um framkvæmd verkefna sveitarfélaga s.s. ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, upplýsingalaga nr. 140/2012 og laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.
Stjórn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. nefnist heilbrigðisnefnd Suðurlands sbr. lög nr. 7/1998 fer með yfirstjórn faglegra verkefna byggðasamlagsins og ber að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laga nr. 7/1998 og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast framkvæmd á. Nefndin skal vinna að bættu heilbrigðiseftirliti á svæði sínu, annast fræðslu fyrir almenning og efla samvinnu við önnur yfirvöld og aðila sem vinna að þessum málum. Heilbrigðisnefnd Suðurlands og eftir atvikum framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs., eins og kveðið er á um í samþykktum þessum, hafa umboð sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga til þess að taka fullnaðarákvarðanir í öllum málum er varða málaflokka á starfssviði heilbrigðisnefndar.
Stjórn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands er heimilt að gefa út ítarlegri lýsingar á verkefnum byggðasamlagsins innan heimilda skv. gildandi lögum og reglugerðum.
Valdheimildum byggðasamlagsins er nánar lýst í samþykkt þessari og ákvæðum viðeigandi laga og reglugerða. Byggðasamlagið og stjórn þess, heilbrigðisnefnd Suðurlands, hefur ekki umboð til að skuldbinda aðildarsveitarfélögin umfram það sem getið er um í samþykkt þessari.
2. gr.
Um aðalfund og aukaaðalfund Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs.
2.1 Aðalfund Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. skal halda ár hvert fyrir 1. nóvember, að jafnaði á ársþingi SASS.
2.2 Aukaaðalfund skal boða ef þörf krefur að mati heilbrigðisnefndar Suðurlands, eða ef þriðjungur aðildarsveitarfélaga krefst þess skriflega við formann heilbrigðisnefndar Suðurlands eða framkvæmdastjóra byggðasamlagsins. Sömu reglur gilda um aukaaðalfundi og reglulega aðalfundi.
2.3 Heilbrigðisnefnd Suðurlands semur dagskrá aðalfundar/aukaaðalfundar og skal hún send aðalfundarfulltrúum eigi síðar en þremur vikum fyrir fund og skulu aðildarsveitarfélög hafa tilkynnt um fulltrúa á aðalfund fyrir þann tíma. Fulltrúar skulu boða forföll svo fljótt sem verða má og boða varamann í sinn stað til setu á fundinum. Með aðalfundarboði skal senda tillögu að fjárhagsáætlun næsta árs, endurskoðaða ársreikninga, ársskýrslu heilbrigðiseftirlitsins, tillögur nefndarinnar, tillögur sem borist hafa frá aðildarsveitarfélögunum og eftir atvikum önnur mál. Með aukaaðalfundarboði skal senda upplýsingar um þau mál sem ætlunin er að taka fyrir á fundinum.
2.4 Aðalfundur mótar stefnu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. í samræmi við lög og reglugerðir sem byggðasamlagið starfar eftir og að öðru leyti. Á aðalfundi er kynnt skýrsla um liðið starfsár, endurskoðaðir reikningar og kynnt tillaga að fjárhagsáætlun auk tillögu að gjaldskrá fyrir næsta starfsár. Eftir umfjöllun aðalfundar skal heilbrigðisnefnd taka framangreint til afgreiðslu.
2.5 Aðalfundir og aukaðalfundir Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. eru ályktunarhæfir hafi löglega verið til þeirra boðað og einfaldur meirihluti aðalfundarfulltrúa er mættur, þó sbr. greinar 4.1, 9.3 og 9.4.
3. gr.
Um val á aðalfundarfulltrúum aðildarsveitarfélaganna.
3.1 Á aðalfundi og aukaaðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. eiga sæti:
- Einn fulltrúi, sbr. grein 3.2, fyrir aðildarsveitarfélag sem hefur 200 íbúa eða færri.
- Tveir fulltrúar, sbr. grein 3.2, fyrir aðildarsveitarfélag sem hefur 201 til 500 íbúa.
- Þrír fulltrúar, sbr. grein 3.2, fyrir aðildarsveitarfélag sem hefur yfir 501 íbúa.
- Einn fulltrúi, sbr. grein 3.2, fyrir aðildarsveitarfélag með 1.000 íbúa eða fleiri, til viðbótar við þá þrjá fulltrúa sem kveðið er um í 3. tölulið þessa ákvæðis, fyrir hvert byrjað þúsund íbúa.
Miðað skal við íbúafjölda sveitarfélags þann 1. janúar sama ár og fundur er haldinn.
Heilbrigðisnefndarmönnum og framkvæmdastjórum aðildarsveitarfélaga er heimilt að sitja aðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands en hafa eingöngu málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema þeir séu kjörnir fulltrúar aðildarsveitarfélaganna, samkvæmt framangreindu.
Sveitarstjórnarmönnum aðildarsveitarfélaga, sem ekki eru kjörnir til setu á aðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs., og starfsmönnum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. er heimilt að sitja aðalfundi sem áheyrnarfulltrúar með málfrelsi og rétt til setu í starfsnefndum aðalfundar/aukaaðalfundar er fjalla um málefni á sviði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. en hafa ekki atkvæðisrétt.
Hver fulltrúi aðildarsveitarfélags á aðalfundi eða aukaaðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. skv. 1.-4. tölulið fer með eitt atkvæði. Aðrir fundarmenn hafa ekki atkvæðisrétt.
3.2 Fulltrúar aðildarsveitarfélaga á aðalfundi byggðasamlagsins geta verið framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaga, sveitarstjórnarmenn aðildarsveitarfélaga og varamenn þeirra. Sveitarstjórnarmaður missir hæfi til þess að vera fulltrúi aðildarsveitarfélags á næsta aðalfundi eftir að hann hættir setu í sveitarstjórn aðildarsveitarfélags. Sveitarstjórn aðildarsveitarfélags tilnefnir fulltrúa og jafnmarga varafulltrúa aðildarsveitarfélags á aðalfundi og aukaaðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs.
4. gr.
Um kosningar á aðalfundi og aukaaðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs.
4.1 Á aðalfundi eða aukaaðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða fulltrúa aðildarsveitarfélaga á fundi. Samþykkt byggðasamlagsins verður þó aðeins breytt á aðalfundi eða aukaaðalfundi með samþykki 2/3 hluta atkvæða fulltrúa aðildarsveitarfélaga.
4.2 Stjórn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs., heilbrigðisnefnd Suðurlands, skal skipuð í samræmi við ákvæði 45. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 með síðari breytingum.
Á aðalfundi byggðasamlagsins, í kjölfar hverra sveitarstjórnarkosninga, skulu 5 fulltrúar aðildarsveitarfélaga kosnir í stjórn byggðasamlagsins þ.e. heilbrigðisnefnd Suðurlands, til 4 ára og jafnmargir til vara sem taka sæti aðalmanna á fundum stjórnar ef um forföll er að ræða.
Einn fulltrúi í heilbrigðisnefnd Suðurlands skal tilnefndur af samtökum atvinnurekenda á eftirlitssvæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. og einn fulltrúi til vara. Þá eiga náttúruverndarnefndir sveitarfélaga á eftirlitssvæðinu rétt á að tilnefna einn fulltrúa í nefndina til viðbótar og einn til vara, en hann hefur ekki atkvæðisrétt við afgreiðslu mála í nefndinni.
Heilbrigðisnefnd Suðurlands skiptir með sér verkum og velur sér formann og varaformann. Varaformaður tekur sæti formanns á fundi ef formaður forfallast.
Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jafnt í nefndinni. Hafi varaformaður tekið sæti formanns ræður atkvæði hans úrslitum ef atkvæði falla jafnt í nefndinni.
4.3 Aðalfundur kýs starfsnefndir fundarins og menn í starfsnefndir sem starfa að ákveðnum málefnum milli funda, samkvæmt sérstakri samþykkt aðalfundarins.
4.4 Fundargerðir og fundarsamþykktir aðalfundar skal færa í sérstaka gerðabók og jafnframt gerð grein fyrir öðru því sem gerist á aðalfundi. Fundargerð skal lesin upp í fundarlok og staðfest af fundarmönnum. Heimilt er að fela fundarstjóra og fundarritara að ganga frá fundargerðinni. Setja skal heilbrigðisnefnd Suðurlands sérstök aðalfundarsköp sem aðalfundur þarf að samþykkja.
5. gr.
Um heilbrigðisnefnd Suðurlands og starfslið Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs.
5.1 Heilbrigðisnefnd Suðurlands er málsvari byggðasamlagsins á milli aðalfunda og fylgir fram samþykktum nefndarfunda og aðalfundar. Heilbrigðisnefndin vinnur að stefnumarkandi málum og gerir tillögur um ný mál er leggja skal fyrir aðalfund til ákvörðunar. Heilbrigðisnefndin fer jafnframt með yfirstjórn á rekstri byggðasamlagsins og ber ábyrgð á að rekstur sé innan þeirra fjárheimilda samþykktrar fjárhagsáætlunar fyrir byggðasamlagið.
5.2 Heilbrigðisnefndarfundi skal halda eftir þörfum en eigi sjaldnar en 6 sinnum á ári. Nefndarmenn skulu boðaðir á fundi heilbrigðisnefndar með a.m.k. einnar viku fyrirvara með sannanlegum hætti. Nefndarmenn skulu staðfesta móttöku fundarboðs og tilkynna um forföll svo fljótt sem verða má. Forfallist nefndarmaður á fund skal aðalmaður sem forfallast boða varamann í sinn stað. Nefndarfundur er ályktunarhæfur ef löglega var til hans boðað og ef meirihluti nefndarinnar er mættur.
5.3 Heilbrigðisnefnd ræður framkvæmdastjóra, markar starfssvið hans og launakjör og gerir við hann skriflegan ráðningarsamning. Aðra starfsmenn ræður framkvæmdastjóri og veitir þeim lausn frá starfi. Heimild heilbrigðisnefndar þarf að liggja fyrir, ef um fjölgun stöðugilda er að ræða og skal heilbrigðisnefndin tryggja að aukin útgjöld séu samþykkt af hálfu aðildarsveitarfélaganna. Um starfskjör starfsmanna byggðasamlagsins fer samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og ráðningarsamnings.
5.4 Framkvæmdastjóri veitir Heilbrigðiseftirliti Suðurlands bs. forstöðu og annast framkvæmd málefna eftir því sem heilbrigðisnefnd ákveður og hefur á hendi fjármálastjórn og starfsmannastjórn. Framkvæmdastjóri á sæti á aðalfundi og heilbrigðisnefndarfundum.
5.5 Framkvæmdastjóri skal að jafnaði boða heilbrigðisnefndarfundi í samráði við formann nefndarinnar. Telji formaður stjórnar að óeðlilegur dráttur sé á fundarboðun, getur hann hlutast til um fundarboðunina. Framkvæmdastjóra er skylt að leggja fyrir heilbrigðisnefnd öll meiri háttar erindi og nýmæli.
5.6 Heilbrigðisnefnd mótar starfsmanna- og launastefnu fyrir Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bs. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að starfsmanna- og launastefnu sé fylgt.
6. gr.
Um embættisafgreiðslur Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs.
6.1 Framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. er heimilt að gefa út eftirfarandi starfsleyfi samkvæmt heimild í 10. gr. laga nr. 58/2019 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum (stjórnvaldssektir o.fl.) sbr. 48. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir:
- Framkvæmdastjóra er heimilt að gefa út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem talinn er upp í X. viðauka reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit með síðari breytingum, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 með síðari breytingum. Skriflegar athugasemdir skulu þó berast heilbrigðisnefnd, sem afgreiðir þær.
- Framkvæmdastjóra er heimilt að gefa út starfsleyfi til stofnana og fyrirtækja í samræmi við 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 með síðari breytingum.
- Framkvæmdastjóra er heimilt að gefa út starfsleyfi fyrir hönd nefndarinnar í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustu er varða matvæli með síðari breytingum og ganga að fullu frá þeim milli funda ef skilyrði starfsleyfis eru uppfyllt.
- Framkvæmdastjóra er heimilt að gefa út tóbakssöluleyfi fyrir hönd nefndarinnar skv. lögum nr. 6/2002 um tóbaksvarnir og ganga frá þeim milli funda ef skilyrði fyrir sölu tóbaks eru uppfyllt.
6.2 Framkvæmdastjóri sér um að gefa umsagnir um rekstrarleyfi fyrir veitinga- og gististaði skv. 10. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 með síðari breytingum í umboði heilbrigðisnefndar samkvæmt heimild í 48. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
6.3 Framkvæmdastjóra er falið að svara erindum og bréfum f.h. nefndarinnar. Framkvæmdastjóri sér jafnframt um að vinna umsagnir um teikningar og skipulagstillögur frá sveitarstjórnum sem og samþykktir sveitarfélaga skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 með síðari breytingum.
6.4 Framkvæmdastjóri getur ávallt vísað málum skv. 6.1 – 6.3 til afgreiðslu heilbrigðisnefndar. Ef ætla má að aðili máls muni ekki sæta niðurstöðu framkvæmdastjóra skal hann vísa málinu til afgreiðslu heilbrigðisnefndar. Um mál sem orka tvímælis, t.d. umsóknir um starfsleyfi þar sem skilyrði eru ekki uppfyllt, en mál þola ekki bið, er framkvæmdastjóra falið að afgreiða mál að höfðu samráði við formann heilbrigðisnefndar, svo framarlega sem þessir aðilar eru sammála um afgreiðsluna. Jafnframt er heimilt að leita samþykkis heilbrigðisnefndar með tölvupósti í einstaka málum ef tilefni er til. Ella skal kalla saman heilbrigðisnefndarfund.
6.5 Framangreindar afgreiðslur framkvæmdastjóra skulu lagðar fram til kynningar á næsta reglulega fundi heilbrigðisnefndar.
7. gr.
Um rekstur og fjármál.
7.1 Ákvarðanir um lántökur, húsnæðismál eða mál er varða útgjöld umfram samþykkta fjárhagsáætlun byggðasamlagsins þarfnast staðfestingar sveitarstjórna allra aðildarsveitarfélaganna í formi viðauka við fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs.
7.2 Heilbrigðiseftirliti Suðurlands bs. er heimilt að semja við einkaaðila, sbr. 100. gr sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, um framkvæmd á þjónustu og/eða öðrum verkefnum í tengslum við lögbundið eftirlitshlutverk HSL. Samningur við einkaaðila skv. framangreindu skal vera í samræmi við 2. mgr. 100. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 en samningurinn skal vera skriflegur og verkefnið afmarkað með skýrum hætti auk endurgjalds fyrir vinnuna. Áður en samningur er gerður skal áætlun um kostnað liggja fyrir í samþykktri fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. eða viðauka við fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. sem staðfestur hefur verið af stjórn byggðasamlagsins.
Samningsgerð við einkaaðila skal rúmast innan ákvæða laga nr. 7/1998.
7.3 Heilbrigðiseftirliti Suðurlands bs. er heimilt að semja við einstök aðildarsveitarfélög eða samtök sveitarfélaga, s.s. SASS, um umsjón afmarkaðra verkefna er tengjast þjónustu við byggðasamlagið, s.s. launavinnslu, bókhaldsþjónustu eða fjármálaumsýslu.
7.4 Heilbrigðiseftirliti Suðurlands bs. er óheimilt að skuldbinda aðildarsveitarfélögin umfram það sem getið er í samþykkt þessari, það sem kveðið er á um í samþykktri fjárhagsáætlun byggðasamlagsins og kveðið er á um í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
7.5 Heilbrigðisnefndin skal fyrir 1. nóvember ár hvert gera tillögu að fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár þar á eftir, innan fjárhagsramma sem sveitarfélögin hafa sett, og senda hana til umfjöllunar á aðalfundi. Stjórn byggðasamlagsins hefur heimild aðildarsveitarfélaganna til þess að afgreiða fjárhagsáætlun byggðasamlagsins og viðauka við hana á löglega boðuðum fundum ef fjárhagsáætlun eða viðauki við hana er í samræmi við fjárhagsáætlanir aðildarsveitarfélaganna. Þá fer um fjárhagsáætlun byggðasamlagsins eftir 46. gr. laga nr. 7/1998.
7.6 Heilbrigðisnefndin staðfestir ársreikninga Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. fyrir ár hvert og miðast reikningsárið við almanaksárið. Reikningar byggðasamlagsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem heilbrigðisnefndin ræður til starfsins. Senda skal fullgerðan ársreikning, staðfestan af heilbrigðisnefnd Suðurlands og áritaðan af endurskoðanda til aðildarsveitarfélaga fyrir 1. júní ár hvert. Að öðru leyti fer um umboð heilbrigðisnefndar í samræmi við reglur laga nr. 7/1998 og lög nr. 138/2011.
8. gr.
Um gjaldskrá.
8.1 Við kostnaðarskiptingu skal miða við að allar tekjur af eftirlitsskyldri starfsemi á svæðinu renni í sameiginlegan sjóð til greiðslu rekstrarkostnaðar heilbrigðiseftirlits á svæðinu. Aðildarsveitarfélögin greiða kostnað við heilbrigðiseftirlit á eftirlitssvæði byggðasamlagsins í hlutfalli við íbúafjölda hvers sveitarfélags miðað við 1. janúar ár hvert vegna starfsemi byggðasamlagsins ef lög heimila ekki gjaldtöku og ef tekjur vegna eftirlitsskyldrar starfsemi standa ekki undir kostnaði við slíkt eftirlit.
9. gr.
Um úrsögn og slit.
9.1 Um úrsögn aðildarsveitarfélags úr byggðasamlaginu og slit byggðasamlagsins fer skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, að öðru leyti en því sem kveðið er á um í samþykkt þessari.
9.2 Úrsögn. Einstök aðildarsveitarfélög geta með tveggja ára fyrirvara sagt upp aðild að Heilbrigðiseftirliti Suðurlands bs. eins og nánar er kveðið á um í ákvæði þessu. Óski aðildarsveitarfélag þess að ganga úr byggðasamlaginu skal samþykkt ákvörðun sveitarstjórnar viðkomandi aðildarsveitarfélags tilkynnt formanni heilbrigðisnefndar Suðurlands og framkvæmdastjóra með skriflegum og sannanlegum hætti eigi síðar en 6 (sex) mánuðum fyrir næsta áætlaða aðalfund. Tilkynning um úrsögn skal vera rökstudd og ástæður úrsagnarinnar tilgreindar. Berist tilkynning um úrsögn með of stuttum fyrirvara fyrir aðalfund er heimilt að fresta umfjöllun um hana til næsta aðalfundar eða aukaaðalfundar.
Við úrgöngu úr byggðasamlaginu á sveitarfélag engan endurkröfurétt vegna stofnkostnaðar eða annars kostnaðar vegna starfsemi byggðasamlagsins. Við innlausn á eignarhlut sveitarfélagsins skulu þau sveitarfélög, sem eftir standa í byggðasamlaginu, greiða sveitarfélaginu, sem gengur úr byggðasamlaginu, nettó hluta bókfærðra eigna skv. síðasta birta ársreikningi byggðasamlagsins, í samræmi við eignarhlut sveitarfélagsins sem gengur út. Sveitarfélögin greiða fyrir eignarhlutann í sömu hlutföllum og eignarhluti þeirra verður í byggðasamlaginu.
Tilkynning um úrsögn skal tekin fyrir á næsta aðalfundi stjórnar þar sem hún skal rædd og reynt að leita lausna. Ef samkomulag næst ekki um áframhaldandi aðild sveitarfélags sem óskar úrgöngu úr byggðasamlaginu skal stjórn byggðasamlagsins senda erindi þess efnis til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Úrganga úr byggðasamlaginu skal taka gildi við lok reikningsárs tveimur árum eftir aðalfundinn þegar tilkynning um úrsögnina var tekin fyrir með því skilyrði að viðkomandi sveitarfélag sé skuldlaust við byggðasamlagið að því gefnu að umhverfis- og auðlindaráðuneyti hafi ekki gert athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á eftirlitssvæðum. Sveitarfélagið sem gengur úr byggðasamlaginu ber ábyrgð á skuldbindingum þess í samræmi við eignarhluta sinn þar til úrganga hefur tekið gildi en eftir það tímamark ber viðkomandi sveitarfélag ekki ábyrgð á skuldbindingum byggðasamlagsins, nema um það sé sérstaklega samið. Sé um að ræða langtímaskuldbindingar byggðasamlagsins s.s. vegna ákvarðana sem teknar voru áður en úrgangan tók gildi ber sveitarfélagið ábyrgð á þeim með öðrum aðildarsveitarfélögum í samræmi við samþykktir þessar, nema um annað sé samið.
9.3 Slit. Tillaga aðildarsveitarfélags um slit byggðasamlagsins þarf að berast formanni heilbrigðisnefndar og framkvæmdastjóra eigi síðar en 6 (sex) mánuðum fyrir næsta áætlaðan aðalfund stjórnar byggðasamlagsins. Tillagan skal vera rökstudd og ástæður hennar tilgreindar. Tillagan skal tekin fyrir á næsta aðalfundi stjórnar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. þar sem hún er rædd og atkvæði greidd um hana.
Tillaga um slit byggðasamlagsins skal kynnt í stjórn byggðasamlagsins á löglega boðuðum aðalfundi og skal stjórn vísa ákvörðun um slitin til sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna. Við slit byggðasamlagsins ganga eignir byggðasamlagsins eða eftir atvikum skuldir til sveitarfélaganna í samræmi við eignarhluta hvers sveitarfélags eins og hann var 1. janúar á því ári sem slit byggðasamlagsins fara fram.
9.4 Tillögur um breytingar á eftirlitssvæði HSL til stækkunar, s.s. um nýtt aðildarsveitarfélag, skulu lagðar fyrir aðalfund. Tillaga um breytingar á eftirlitssvæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. til stækkunar skulu berast formanni heilbrigðisnefndar eigi síðar en 3 (þremur) mánuðum fyrir aðalfund byggðasamlagsins, sem skal upplýsa aðildarsveitarfélög án tafar um tillöguna.
Tillaga um breytingar á eftirlitssvæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. skv. fyrrgreindu telst samþykkt ef a.m.k. 2/3 hlutar fulltrúa með atkvæðisrétt á aðalfundi samþykkja tillöguna á löglegum aðalfundi byggðasamlagsins.
9.5 Úrganga, slit og stækkun eftirlitssvæðis Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. eru háð ákvæði 3. mgr. 45. gr. laga nr. 7/1998 og koma því ekki endanlega til framkvæmda fyrr en með samþykki ráðherra eða með breytingu ráðherra á eftirlitssvæðum með reglugerð.
Að öðru leyti fer um úrgöngu úr byggðasamlaginu og slit þess eftir ákvæði 95. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
10. gr.
Um breytingar á samþykkt og gildistökuákvæði.
10.1 Breyta má samþykkt þessari á aðalfundi ár hvert og skulu tillögur um breytingar á samþykkt fylgja fundarboði. Tillögur til breytinga á samþykkt skulu sendar heilbrigðisnefnd Suðurlands minnst þremur vikum fyrir aðalfund.
10.2 Breyting á samþykkt þessari telst samþykkt, ef hún nýtur stuðnings 2/3 hluta fulltrúa aðildarsveitarfélaga á löglegum aðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs.
10.3 Endurskoða skal samþykkt þessa ef eitthvert aðildarsveitarfélaganna ber upp breytingatillögu við formann heilbrigðisnefndar, s.s vegna breytinga á verkefnum eða lögum er varða starfsumhverfi byggðasamlagsins. Samþykkt þessi öðlast gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda.
Þannig samþykkt á aðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. 29. október 2021 Um leið fellur úr gildi samþykkt nr. 848/2020 um Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.
Selfossi, 1. nóvember 2021.
F.h. heilbrigðisnefndar Suðurlands,
Sigrún Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri.
|