1. gr.
Skilgreining hugtaka.
Almennur bindireikningur: Reikningur bindiskylds aðila í Seðlabanka Íslands sem Seðlabankinn ákveður að skuli notaður til uppfyllingar á meðaltalsuppfyllingu bindiskyldu á bindiskyldutímabili.
Bindihlutfall: Hlutfall ákvarðað af peningastefnunefnd, sem margfaldað er með bindigrunni, og þannig notað til að reikna út bindifjárhæð skv. þessum reglum.
Bindiskylda: Skylda bindiskylds aðila til að eiga nánar tilgreinda bindifjárhæð, á bindireikningi í Seðlabanka Íslands, yfir binditímabil. Uppgjör bindiskyldu getur ýmist verið í formi fastrar bindiskyldu eða meðaltalsuppfyllingar.
Binditímabil: Það tímabil sem bindiskyldur aðili hefur til þess að uppfylla álagða bindiskyldu, nánar tiltekið frá og með 21. hvers mánaðar til og með 20. næsta mánaðar.
Eftirstöðvatími: Fjöldi daga sem eftir er af efndatíma skuldaliðar, talinn frá dagsetningu skýrsluskila skv. 7. gr. til fyrsta mögulega gjalddaga.
Endurhverf viðskipti: Mótvirði reiðufjár sem fengið er gegn skiptum á verðbréfum sem bindiskyldur aðili selur á ákveðnu verði með skuldbindingu um endurkaup á sama (eða svipuðu verðbréfi) á föstu verði á ákveðnum degi í framtíðinni.
Innlán: Til innlána teljast í reglum þessum fjárhæðir sem bindiskyldur aðili skuldar viðskiptavinum, þar með talin innlán með umsömdum binditíma sem og innlán sem eru uppsegjanleg eftir tilkynningu. Til innlána teljast ekki fjárhæðir sem bindiskyldur aðili skuldar viðskiptavinum vegna útgáfu framseljanlegra skuldaskjala.
Peningamarkaðsbréf: Framseljanleg skuldaviðurkenning, önnur en skuldabréf eða víxill, sem átt er viðskipti með á peningamarkaði.
Sérstakur bindireikningur: Læstur reikningur í Seðlabanka Íslands sem bindiskyldum aðila er skylt að leggja bindifjárhæð inn á vegna fastrar bindiskyldu.
Útgefin skuldabréf og víxlar: Verðbréf, önnur en hlutafé eða peningamarkaðsbréf, sem gefin eru út af bindiskyldum aðila og sem hægt er að eiga viðskipti með á eftirmarkaði.
2. gr.
Bindiskyldir aðilar.
Eftirfarandi aðilar eru bindiskyldir á grundvelli reglna þessara:
- Fjármálafyrirtæki sem hafa starfsleyfi skv. 1., 2. og 3. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
- Aðrir aðilar en skv. 1. tölul. sem á hverjum tíma er heimilt skv. lögum að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.
- Útibú erlendra fjármálafyrirtækja sem fengið hafa staðfestu og samsvarandi starfsleyfi í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 31. gr. laga nr. 161/2002 og starfa hér á landi.
- Útibú erlendra fjármálafyrirtækja með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem fengið hafa heimild Fjármálaeftirlitsins skv. 33. gr. laga nr. 161/2002 enda hafi fyrirtækið hliðstætt starfsleyfi og 1., 2. og 3. tl. 1. mgr. 4. gr. sömu laga kveður á um í heimaríkinu, starfsemin sem fyrirtækið stundar hér á landi sé sambærileg og að starfsemi fyrirtækisins sé háð sambærilegu fjármálaeftirliti og lög nr. 87/1998 kveða á um í heimaríkinu.
Bindiskylda nær ekki til fjármálafyrirtækja sem starfa á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 en sem eru bundin af ákvæðum sérlaga eða fjárlaga hverju sinni um öflun fjár til starfsemi sinnar.
Komi til þess að bú bindiskylds aðila sé tekið til slita, skv. XII. kafla laga nr. 161/2002, fellur bindiskylda hans samkvæmt reglum þessum niður.
3. gr.
Bindigrunnur.
Eftirfarandi skuldaliðir mynda bindigrunn bindiskylds aðila:
- Innlán með eftirstöðvatíma til tveggja ára eða skemur.
- Útgefin skuldabréf og víxlar með eftirstöðvatíma til tveggja ára eða skemur.
- Peningamarkaðsbréf með eftirstöðvatíma til tveggja ára eða skemur.
Eftirfarandi skuldaliðir teljast ekki með í bindigrunni:
- Skuldir við Seðlabanka Íslands.
- Endurhverf viðskipti.
- Skuldir bindiskylds aðila við annan bindiskyldan aðila.
- Skuldir bindiskylds aðila vegna innstæðu á reikningi háðum sérstökum takmörkunum, sbr. 8. tölul. 2. gr. laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016.
- Skuldir bindiskylds aðila vegna innstæðu á reikningi sem stofnaður er vegna skyldu skv. ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, sbr. 2. gr. laga nr. 42/2016.
4. gr.
Bindihlutföll og skipting á uppgjöri bindiskyldu.
Peningastefnunefnd ákveður annars vegar bindihlutfall og svo það hvernig uppgjör bindiskyldu skuli skiptast á milli fastrar bindiskyldu og meðaltalsuppfyllingar skv. 6. gr. reglna þessara. Við ákvörðun sína getur peningastefnunefnd jafnframt ákveðið mismunandi bindihlutfall einstakra liða í bindigrunni, skv. 3. gr. reglna þessara.
Gera skal opinberlega grein fyrir ákvörðun peningastefnunefndar um bindihlutfall og svo því hvernig uppgjör bindiskyldu skuli skiptast. Bindiskyldum aðilum er síðan tilkynnt um bindifjárhæð til samræmis við 1. mgr. 5. gr. reglna þessara.
5. gr.
Bindifjárhæð.
Bindifjárhæð skal vera margfeldi bindigrunns og bindihlutfalls, sbr. skilgreiningar í 3. og 4. gr. reglna þessara, sem svo er skipt í bindifjárhæð fastrar bindiskyldu annars vegar og meðaltalsuppfyllingar hins vegar, við uppgjör bindingar skv. 6. gr. reglna þessara. Útreikningur bindifjárhæðar miðast við upplýsingar um meðalstöðu bindigrunns, eins og hann er reiknaður samkvæmt reglum þessum við lok síðustu tveggja mánaða, en bindiskylda skal uppfyllt alla almanaksdaga sérhvers binditímabils. Bindiskyldum aðilum skal að jafnaði tilkynnt um bindifjárhæð, og það hvernig hún skiptist milli fastrar bindiskyldu og meðaltalsuppfyllingar skv. 6. gr. reglna þessara, tveimur viðskiptadögum fyrir upphaf binditímabils.
6. gr.
Uppgjör bindingar.
Eftir ákvörðun peningastefnunefndar verður bindiskylda uppfyllt á eftirfarandi hátt:
- Föst bindiskylda.
Bindiskylda er þá uppfyllt með því að leggja bindifjárhæð inn á sérstakan bindireikning í Seðlabankanum, í upphafi binditímabils. Bindifjárhæðin er föst inn á reikningnum þar til að loknu binditímabili. Hinn 21. hvers mánaðar, eða næsta virka dag þar á eftir ef þann dag ber upp á dag sem ekki er viðskiptadagur, aðlagar Seðlabankinn bindifjárhæð miðað við næstkomandi bindiskyldutímabil með því að millifæra fjárhæð á milli almenns bindireiknings og sérstaks bindireiknings bindiskylds aðila, og getur ýmist verið um að ræða innlegg eða úttekt af reikningi, eftir því hvað við á hverju sinni.
- Meðaltalsuppfylling.
Bindiskylda er þá uppfyllt á almennum bindireikningi. Seðlabankinn tilkynnir skriflega um hvaða reikningur í bankanum sé almennur bindireikningur. Bindiskyldir aðilar skulu sjá til þess að innstæða þeirra á bindireikningi í Seðlabankanum, þar með talið vegna aðlögunar skv. 1. tölul., sé að meðaltali á hverju binditímabili eigi lægri en tilkynnt bindifjárhæð.
Sé innstæða á almennum bindireikningi bindiskylds aðila ekki nægjanleg til aðlögunar á bindifjárhæð fastrar bindiskyldu, vegna nýs bindiskyldutímabils, reiknar Seðlabankinn dagsektir, skv. 1. mgr. 2. gr. reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, á þá fjárhæð sem á vantar svo að innstæða sérstaks bindiskyldureiknings nái tilskilinni bindifjárhæð. Sé innstæða á almennum bindireikningi að meðaltali á binditímabili lægri en tilskilin bindifjárhæð vegna meðaltalsuppfyllingar reiknar Seðlabankinn dagsektir, skv. 1. mgr. 2. gr. reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, á þá fjárhæð sem á vantar að meðalinnstæða bindiskyldureiknings nái tilskilinni bindifjárhæð. Skulu viðurlögin skv. þessari málsgrein skuldfærð á viðskiptareikning viðkomandi aðila að liðnum að minnsta kosti sjö dögum frá því að ákvörðun um dagsektir var kynnt aðila sbr. 3. mgr. 6. gr. um beitingu viðurlaga í formi dagsekta. Um ákvörðun dagsekta, kæruheimild og innheimtu gilda eftir því sem við geta átt ákvæði 6., 7. og 8. gr. reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta.
Peningastefnunefnd ákveður vexti á bindifjárhæð, bæði vegna fastrar bindiskyldu og meðaltalsuppfyllingar.
7. gr.
Skýrsluskil.
Sundurliðunarblað vegna útreiknings bindiskyldu frá bindiskyldum aðilum þar sem fram koma upplýsingar um bindigrunn í samræmi við skilgreiningar í 3. og 4. gr. reglna þessara skal hafa borist Seðlabankanum eigi síðar en 11. dag hvers mánaðar eða næsta dag þar á undan ef skiladag ber upp á almennan frídag bankamanna.
Vanræki bindiskyldur aðili að skila sundurliðunarblaði vegna útreiknings bindiskyldu til Seðlabankans innan þeirra tímamarka, sem greind eru í 1. mgr. þessarar greinar, er bankanum heimilt að úrskurða bindifjárhæð á grundvelli bindifjárhæðar þess binditímabils sem þá er í gildi, eftir sömu skiptingu sem þá gildir milli fastrar bindiskyldu og meðaltalsuppfyllingar, auk 20% álags, og skal sú tala mynda bindifjárhæðina fyrir það binditímabil sem þá fer í hönd.
Bindiskyldur aðili skal yfirfara aðferðir við skýrslugerð bindiskyldu að minnsta kosti einu sinni á ári og senda Seðlabankanum skriflega yfirlýsingu þar um. Á grundvelli þess getur Seðlabankinn beint tilmælum til bindiskylds aðila um betri framkvæmd skýrsluskila.
8. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 2. mgr. 11. gr., sbr. 1. mgr. 24. gr., 1. mgr. 29. gr. og 38. gr., laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Fyrsta bindiskyldutímabil samkvæmt reglunum skal hefjast 21. júní 2018. Fram að þeim degi skulu reglur um bindiskyldu nr. 870 frá 30. september 2015 halda gildi sínu, hvað varðar uppgjör á bindiskyldu, og milligöngu vegna hennar; en falla úr gildi við upphaf fyrsta bindiskyldutímabils samkvæmt reglum þessum. Reglur þessar voru ræddar og samþykktar á fundi peningastefnunefndar þann 4. júní 2018.
Reykjavík, 4. júní 2018.
Seðlabanki Íslands,
|
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
|
Sigríður Logadóttir aðallögfræðingur.
|
|