Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 33/2025

Nr. 33/2025 6. janúar 2025

REGLUR
ríkisskattstjóra um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018 og lögum nr. 68/2023.

1. gr.

Gildissvið.

Telji ríkisskattstjóri aðila hafa gerst brotlegan við ákvæði laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og/eða laga nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna, eða reglugerða, reglna eða ákvarðana ríkisskattstjóra sem á þeim byggja er heimilt að ljúka máli með sátt, enda hafi aðilinn eftir atvikum látið af háttsemi eða gert viðeigandi úrbætur eða í sátt felist að aðili skuli framkvæma viðeigandi úrbætur.

Heimild til sáttargerðar tekur ekki til meiriháttar brota gegn ákvæðum laganna eða brota gegn fyrri sátt aðila við ríkisskattstjóra, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Brot telst meðal annars meiri­háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins.

 

2. gr.

Inntak sáttar.

Í sátt felst að aðili gengst við að hafa brotið gegn tilgreindum ákvæðum laganna eða reglugerða, reglna eða ákvarðana embættisins, upplýsir að fullu um brotið og eftir atvikum samþykkir að greiða tiltekna sektargreiðslu.

Sátt er bindandi fyrir aðila og ríkisskattstjóra þegar báðir aðilar hafa samþykkt og staðfest efni hennar með undirritun sinni, þ.m.t. rafrænni undirritun, innan frests skv. 4. mgr. 4. gr.

 

3. gr.

Ákvörðun sektarfjárhæðar.

Ríkisskattstjóri skal ákvarða hver yrði ætluð fjárhæð stjórnvaldssektar að teknu tilliti til 44. gr. a laga nr. 140/2018 og/eða 2. mgr. 30. gr. laga nr. 68/2023.

Ríkisskattstjóri metur á hvaða stigi mál er við gerð sáttar. Sé máli lokið með sátt á fyrri stigum getur lækkun sektarfjárhæðar numið allt að 50% af ætlaðri fjárhæð stjórnvaldssektar. Sé máli lokið með sátt á síðari stigum getur lækkun sektarfjárhæðar numið allt að 30% af ætlaðri fjárhæð stjórn­valds­sektar. Mál telst ávallt vera á síðari stigum ef aðila hefur verið tilkynnt um fyrirhugaða beitingu þvingunarúrræða og/eða viðurlaga.

 

4. gr.

Málsmeðferð.

Ríkisskattstjóri skal vekja athygli aðila á því að heimilt sé að ljúka máli með sátt samkvæmt heimild í 47. gr. laga nr. 140/2018 og/eða 31. gr. laga nr. 68/2023 og að um sáttargerð fari eftir reglum þessum, enda sé talið að málsatvik liggi ljós fyrir og séu að öðru leyti með þeim hætti að sátt komi til álita.

Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með sátt, skal ríkisskattstjóri upplýsa aðila um rétt hans til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn að því marki að ekki skarist á við ákvæði 1. mgr. 2. gr.

Í sáttargerð skal meðal annars koma fram dagsetning, nafn aðila, kennitala, heimilisfang, númer máls hjá ríkisskattstjóra, lýsing á broti, tilvísun til laga og reglna, sú skylda sem lögð verður á aðila með sátt, t.a.m. greiðsla á tilgreindri sektarfjárhæð og viðurlög við broti á sátt.

Óski aðili eftir að ljúka máli með sátt, og ríkisskattstjóri fellst á beiðnina, skal ríkisskattstjóri senda aðila sáttargerð til samþykktar. Aðili skal undirrita og senda sáttargerðina til ríkisskattstjóra innan tiltekins frests. Ríkisskattstjóri undirritar því næst sáttargerðina og sendir aðila afrit, ásamt kröfu vegna greiðslu sektar þar sem veittur er 30 daga greiðslufrestur frá dagsetningu sáttargerðar.

Verði ekki af sátt, eða ef sátt er felld úr gildi, sbr. 5. gr., getur ríkisskattstjóri tekið málið fyrir að nýju og ákvarðað sekt samkvæmt almennum reglum sem gilda um sektarákvarðanir með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum.

 

5. gr.

Brot gegn sátt.

Aðili telst brjóta gegn sáttargerð ef hann t.d. greiðir ekki tímanlega sektarfjárhæð, gefur eða reynist hafa gefið rangar upplýsingar um málsatvik, leynir upplýsingum sem máli skipta, hefur aftur brotlega háttsemi eða gerir ekki þær úrbætur sem áður var krafist eða gengist var undir.

Verði aðili uppvís að því að brjóta gegn sáttargerð getur ríkisskattstjóri fellt sáttina úr gildi, tekið málið til meðferðar á ný og eftir atvikum ákvarðað aðila viðurlög fyrir það brot sem um ræðir.

 

6. gr.

Birting sáttar.

Þegar sáttargerð er orðin bindandi fyrir aðila, sbr. 2. mgr. 2. gr., skal hún birt á heimasíðu Skattsins í samræmi við þá stefnu sem ríkisskattstjóri hefur birt samkvæmt 53. gr. laga nr. 140/2018 og 36. gr. laga nr. 68/2023.

 

7. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 47. gr. laga nr. 140/2018 og 31. gr. laga nr. 68/2023, öðlast gildi við birtingu. Jafnframt falla úr gildi reglur ríkisskattstjóra nr. 1132/2020, um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018.

 

Reykjavík, 6. janúar 2025.

 

Snorri Olsen ríkisskattstjóri.


B deild - Útgáfud.: 20. janúar 2025