Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 560/2016

Nr. 560/2016 22. júní 2016

SAMÞYKKT
um búfjárhald í Ísafjarðarbæ.

1. gr.

Tilgangur samþykktar þessarar er að kveða á um skipulag og stjórnun búfjárhalds, vörslu gripa og handsömun þeirra í samræmi við ákvæði laga um búfjárhald nr. 38/2013 og laga um velferð dýra nr. 55/2013, koma í veg fyrir ágang á lóðir íbúa og vernda gróður í sveitarfélaginu. Bæjarstjórn getur falið umhverfis- og framkvæmdanefnd bæjarins framkvæmd málaflokksins og umhverfis­fulltrúa vald til leyfisveitinga á grundvelli 5. og 7. gr.

2. gr.

Hefðbundið búfjárhald, s.s. nautgripa, hrossa, svína, sauðfjár, kanína, geitfjár, loðdýra og alifugla, er heimilt á lögbýlum í Ísafjarðarbæ. Um örugga vörslu graðpenings gilda ákvæði 6. gr. laga nr. 38/2013 um búfjárhald. Hlutist Ísafjarðarbær til um handsömun og vörslu á grundvelli þessarar greinar er heimilt að innheimta kostnað af umsjónarmanni búfjár samkvæmt auglýstri gjaldskrá.

3. gr.

Lausaganga stórgripa er bönnuð í Ísafjarðarbæ. Umráðamönnum stórgripa í sveitarfélaginu er skylt að hafa þá í vörslu innan gripaheldra girðinga skv. reglugerð um girðingar nr. 748/2002.

4. gr.

Öll lausaganga búfjár innan girðinga sem umlykja þéttbýliskjarna Ísafjarðarbæjar samkvæmt fylgiskjali með samþykkt þessari, er bönnuð. Þéttbýlissvæðin eru Hnífsdalur, Ísafjörður, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Gangi búfé laust innan girðinga skal umsjónarmanni tilkynnt um það, sé vitað hver hann er, og hann fenginn til að sækja gripina. Að öðrum kosti skulu starfsmenn Ísafjarð­ar­bæjar reka féð út fyrir girðingu. Þurfi að handsama og taka í vörslu fé skal farið eftir 24. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Við ítrekuð brot eða ef umsjónarmaður hefur ekki hirt um að sækja gripi sína innan tíu daga er heimilt að sekta fyrir áföllnum kostnaði og/eða svipta við­komandi, ef um er að ræða eiganda búfjár utan lögbýlis, leyfi til búfjárhalds.

5. gr.

Bæjarstjórn getur veitt leyfi til að halda allt að 10 hænur í öruggu aðhaldi í þéttbýli, en hanar eru þar með öllu bannaðir. Sá sem vill stunda hænsnahald í þéttbýli skal senda skriflega umsókn til sveitarfélagsins á þar til gerðu eyðublaði. Í umsókninni skal gera grein fyrir fjölda hænsna sem halda skal, tegund hænsnfugla, hvaða húsnæði er til umráða og öðru sem máli kann að skipta fyrir öryggi þeirra og vörslu. Umhverfisfulltrúi tekur við og afgreiðir umsóknir um leyfi til hænsnahalds í þéttbýli. Hann hefur einnig umboð til að taka á brotum, kanna aðstöðu og krefjast úrbóta ef þörf þykir. Verði leyfishafi ekki við þeim kröfum má afturkalla leyfið án fyrirvara.

6. gr.

Allt búfjárhald á lögbýlum er háð leyfi og eftirliti Matvælastofnunar.

7. gr.

Búfjárhald utan lögbýla (frístundabúskapur) er háð leyfi bæjarstjórnar. Sá sem hyggst sækja um leyfi skal senda skriflega umsókn á þar til gerðu eyðublaði.

Óheimilt er að halda búfé, nema hafa fyrir það hús sem samrýmist reglugerðum um aðbúnað búfjár. Sama gildir um allt umhverfi húsanna. Leyfishafi ber einn ábyrgð á því að hann hafi beitiland og fóður fyrir allt sitt búfé og skal tryggja góða meðferð þess.

Gangi búfé úti á vetrarbeit skal eigandi eða umráðamaður þess ábyrgjast nægilegt fóður, viðunandi skjól og örugga vörslu. Allt búfé skal einstaklingsmerkt eigendum sínum samkvæmt lögum og reglum.

Telji bæjarstjórn að umsækjandi uppfylli þau skilyrði, sem krafist er samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum, veitir hún leyfið. Leyfið er gefið út á nafn og er ekki framseljanlegt. Leyfið er háð samþykkt þessari og er uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert. Ef leyfishafi brýtur ítrekað gegn lögum um búfjárhald nr. 38/2013 eða samþykkt þessari, má svipta hann leyfi til búfjárhalds með þriggja mánaða fyrirvara.

8. gr.

Ætli landeigandi að friða afmarkaða landspildu fyrir ágangi búfjár skal hann tilkynna það umhverfis­fulltrúa og skila umsögn Búnaðarsambands Vestfjarða um að friðun sé raunhæf m.t.t. girðinga. Landeigandi greiðir kostnað af slíkri úttekt en sveitarfélagið auglýsir umrædda friðun í Stjórnar­tíðindum. Umráðamaður lands skal fyrir 15. júní ár hvert framvísa til sveitarstjórnar umsögn Búnaðarsambandsins um að vörslulína sé fullnægjandi. Hægt er að fella friðun úr gildi ef vörslu­línur halda ekki. Komist búfé inn á friðað land skal farið eftir 9. gr. laga um búfjárhald nr. 38/2013 varðandi handsömun og vörslu. Verði sveitarfélagi afhent féð til vörslu skal umsjónar­maður dýrsins greiða kostnað í samræmi við 24. gr. laga um velferð dýra nr. 55/2013.

9. gr.

Um fjallskil af búfé og landi í Ísafjarðarbæ er farið eftir lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. með síðari breytingum, svo og ákvæðum í gildandi fjallskilasamþykktum með síðari breyt­ingum.

10. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum. Með mál út af brotum skal farið að hætti laga um með­ferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga um búfjárhald nr. 38/2013.

11. gr.

Samþykkt þessi, sem samþykkt hefur verið af bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, staðfestist hér með samkvæmt 4. gr. laga um búfjárhald nr. 38/2013 og lögum um velferð dýra nr. 55/2013. Samþykktin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt um búfjárhald í Ísafjarðarbæ nr. 998/2001 frá 20. desember 2001.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 22. júní 2016.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ólafur Friðriksson.

Rebekka Hilmarsdóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 24. júní 2016