1. gr. Samþykkt þessi er sett til að tryggja skipulag, stjórnun og eftirlit með búfjárhaldi í sveitarfélaginu Eyjafjarðarsveit með ákvæðum um vörsluskyldu og ábyrgð umráðamanna búfjárins. Sveitarstjórn í samráði við landbúnaðar- og atvinnumálanefnd og fjallskilanefnd Eyjafjarðarsveitar, fer með eftirlit með framkvæmd þessarar samþykktar. 2. gr. Með búfé í samþykkt þessari er átt við alifugla, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé og svín, sbr. 2. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl. Búfjárhald er heimilt að fengnu leyfi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar. 3. gr. Sá sem hyggst sækja um leyfi til búfjárhalds samkvæmt 2. gr. skal senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar. Í umsókninni skal tilgreina tegund búfjár, fjölda, húsakost og annað er máli kann að skipta um öryggi og vörslu búfjárins. Telji sveitarstjórn að umsækjandi uppfylli þau skilyrði, sem krafist er samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum, veitir hún leyfið. Leyfið skal gefið út á nafn og er ekki framseljanlegt. Búfé sem haldið er í Eyjafjarðarsveit eftir 10. janúar ár hvert skal vera á búfjáreftirlitsskýrslu Eyjafjarðarsveitar. Umráðamaður búfjár sem heldur búfé á eyðijörð eða landi þar sem ekki er föst búseta skal tilgreina umsjónarmann, sbr. 14. gr. laga nr. 103/2002. Þeir, sem halda búfé í Eyjafjarðarsveit samkvæmt búfjáreftirlitsskýrslum við gildistöku samþykktar þessarar hafa leyfi til búfjárhalds í Eyjafjarðarsveit við gildistöku samþykktarinnar. 4. gr. Skilyrði fyrir búfjárhaldi í Eyjafjarðarsveit eru að allir þeir sem búfjárhald stunda, jafnt á lögbýlum sem utan þeirra, uppfylli ákvæði gildandi laga og stjórnvaldsreglna um búfjárhald, aðbúnað búfjár, sjúkdómavarnir, afréttamál o.fl. 5. gr. Vörsluskylda er á öllu búfé neðan fjallsgirðinga allt árið og er búfjárhaldið neðan fjallsgirðinganna að öllu leyti á ábyrgð umráðamanns búfjárins. Umráðamaður búfjár skal ábyrgjast að búfé í umsjá hans sé haldið innan afmarkaðs svæðis og gangi ekki laust utan þess, sbr. reglugerð nr. 59/2000, um vörslu búfjár. Vörsluhólf skulu afmörkuð með gripheldum girðingum, sbr. reglugerð nr. 748/2002, um girðingar, svo og náttúrulegum farartálmum sem koma í veg fyrir frjálsa för búfjár og ber umráðamaður búfjárins ábyrgð á að það sé gert. Umráðamaður lands annars vegar og eigendur/notendur sameiginlegs beitilands hins vegar skulu sjá til þess að fjallsgirðingar/samgirðingar milli sameiginlegs beitilands og heimalands séu gripheldar frá 10. júní til 10. janúar, sbr. einnig 2. mgr. 11. gr. girðingarlaga nr. 135/2001, með síðari breytingum. Vanræki framangreindir aðilar skyldu til að halda girðingum gripheldum þrátt fyrir áskoranir er sveitarfélaginu heimilt að lagfæra girðingarnar á kostnað viðkomandi, sbr. 7. gr. fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð nr. 173/2011. 6. gr. Umráðamaður lands ofan fjallsgirðingar skal gæta þess að beitarálag á land sem hann hefur umráð yfir sé ekki meira en land þolir, sbr. III. kafla laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, og 9. gr. fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð nr. 173/2011. Nýti umráðamaður ekki að fullu land það sem hann hefur fyrir eigið búfé er honum heimilt að leyfa öðrum afnot af því að því marki sem beitarþol leyfir. Ef um óskipt land er að ræða verða sameigendur einnig að veita leyfi fyrir slíkri heimild. Umráðamanni lands ber að tilkynna til sveitarstjórnar hverjum hann heimilar beit og fyrir hvaða fjölda búfjár, sbr. 8. gr. laga nr. 6/1986, sbr. einnig ákvæði í 7. gr. fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð nr. 173/2011. Sleppa skal búfé á það svæði sem heimild til þess gildir um. 7. gr. Beitartímabil á sameiginlegt beitiland skal hefjast 10. júní ár hvert en ljúka um göngur á haustin vegna beitar sauðfjár, hefjast 20. júní ár hvert en ljúka 1. október sama ár vegna beitar nautgripa, og hefjast 20. júní ár hvert og ljúka 10. janúar á næsta ári vegna beitar hrossa. Sveitarstjórn getur breytt ákvörðun um hvenær reka megi búfé á sameiginlegt beitiland, sbr. 11. gr. fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð nr. 173/2011. 8. gr. Allt búfé skal einstaklingsmerkt eigendum sínum samkvæmt reglugerð nr. 200/1998, um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, með síðari breytingum og reglugerð nr. 289/2005, um merkingar búfjár, með síðari breytingum. 9. gr. Um fjallskil gilda ákvæði fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð nr. 173/2011, sbr. m.a. ákvæði V. kafla fjallskilasamþykktarinnar. Fjallskilanefnd Eyjafjarðarsveitar leggur á fjallskil í samræmi við lög, stjórnvaldsreglur og þær verklagsreglur sem á hverjum tíma gilda um álagningu dagsverka og/eða fjallskilagjald og á það jafnt við um smölun stórgripa og sauðfjár. 10. gr. Nú rís ágreiningur um upprekstrarrétt eða notkun sameiginlegs beitilands og má þá vísa málinu til umfjöllunar sveitarstjórnar. Skal þá ef sveitarstjórn tekst ekki að miðla málum vísa ágreiningnum til sýslumanns er úrskurðar í málinu, sbr. 9. og 10. gr. laga nr. 6/1986. Um ágang búfjár skal fara eftir ákvæðum fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð nr. 173/2011 og IV. kafla laga nr. 6/1986. 11. gr. Brot gegn samþykkt þessari, eða lögum og stjórnvaldsreglum sem settar eru með heimild í þeim, varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl. Ef leyfishafi brýtur gegn samþykkt þessari, lögum nr. 103/2002 eða viðeigandi stjórnvaldsreglum, getur sveitarstjórn afturkallað leyfi viðkomandi til búfjárhalds í lögsagnarumdæmi Eyjafjarðarsveitar, að undangenginni viðvörun og tilkynningu um afturköllun leyfis. 12. gr. Samþykkt þessi sem samin er og samþykkt af sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar staðfestist hér með samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., og öðlast þegar gildi. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 10. júní 2013. | F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, | Kristinn Hugason. |
Sigríður Norðmann. |