1. gr.
Með vísan til þess að alvarlegt afbrigði af fuglainflúensuveiru hefur verið staðfest í villtum fuglum og alifuglum hér á landi, hefur ráðherra ákveðið, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, að fyrirskipa eftirfarandi ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að hindra útbreiðslu og til að afstýra hættu og tjóni af völdum sjúkdómsins.
2. gr.
Öllum þeim sem halda alifugla og aðra fugla, er skylt að fylgja eftirfarandi reglum:
- Fuglahús og umhverfi þeirra:
- Fuglarnir skulu hafðir inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum.
- Tryggja skal góðan aðskilnað milli alifugla og villtra fugla.
- Hús og gerði skulu fuglaheld.
- Tryggja skal að ekkert í umhverfi fuglahúsanna laði að villta fugla.
- Setja skal hatta á allar lóðréttar loftræstitúður á fuglahúsum, nema þar sem um er að ræða útblástur vélrænnar loftræstingar.
- Setja skal fuglanet fyrir allar loftræstitúður, op og glugga á fuglahúsum.
- Umgengni og umhirða:
- Öllum óviðkomandi skal bannaður aðgangur að fuglahúsum.
- Allir sem sinna fuglunum skulu nota hlífðarfatnað (galla og stígvél), sem eingöngu er notaður þar, og skulu þeir einnig þvo og sótthreinsa hendur fyrir og eftir umhirðu fuglanna.
- Fóður og drykkjarvatn:
- Fóður og drykkjarvatn fuglanna má ekki vera aðgengilegt villtum fuglum.
- Drykkjarvatnsból skulu vel frágengin þannig að ekki berist í þau yfirborðsvatn og fugladrit.
- Flutningar:
- Sýningarhald og aðrar samkomur með fugla er bannað.
- Ekki skal flytja fugla milli staða nema vitað sé að heilsufar fugla á báðum stöðum sé gott.
- Skrá skal alla flutninga á fuglum, hvenær flutningarnir fóru fram og hvert og hvaðan þeir voru fluttir. Skráin skal vera aðgengileg Matvælastofnun ef hún óskar eftir henni.
- Úrgangur:
- Farga skal öllum úrgangi úr fuglahúsum þannig að ekki stafi smithætta af honum fyrir alifugla og aðra fugla í haldi.
3. gr.
Eldi sem er vottað samkvæmt reglum um lífræna framleiðslu skal ekki missa vottun vegna þeirra krafna sem settar eru fram í auglýsingu þessari.
Tilkynna skal til Matvælastofnunar um veika og dauða villta fugla, nema augljóst sé að þeir hafi drepist af slysförum, svo sem flug á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla. Jafnframt skulu fuglaeigendur tilkynna Matvælastofnun ef þeir verða varir við óeðlileg dauðsföll eða grunsamleg veikindi í fuglum sínum. Stofnunin tekur sýni og lætur rannsaka þau, ef ástæða er til að mati stofnunarinnar.
4. gr.
Matvælastofnun hefur eftirlit með framkvæmd þessara reglna og getur veitt undanþágur frá þeim við sérstakar aðstæður, að því tilskildu að sóttvarnir séu nægilega tryggðar með öðrum hætti að mati stofnunarinnar.
5. gr.
Verði eigandi eða umráðamaður alifugla ekki við tilmælum Matvælastofnunar um aðgerðir samkvæmt auglýsingu þessari getur ráðherra með vísan til 21. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, fyrirskipað bótalausa förgun eða eyðingu fuglanna að fengnum tillögum Matvælastofnunar.
Brot gegn auglýsingu þessari varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Meðferð mála út af brotum gegn auglýsingunni fara samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
6. gr.
Auglýsing þessi er sett með vísan til 8. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, og tekur þegar gildi.
Matvælaráðuneytinu, 11. desember 2024.
F. h. r.
Kolbeinn Árnason.
Iðunn María Guðjónsdóttir.
|