1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. auglýsingarinnar:
- Fyrsti málsl. 2. mgr. verður svohljóðandi: Húsnæði líkamsræktarstöðva skal vera lokað almenningi.
- Annar málsl. 2. mgr. fellur brott.
- Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein svohljóðandi:
Sund- og baðstöðum er heimilt að hafa opið. Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. um fjöldatakmörkun má gestafjöldi á sund- og baðstöðum aldrei vera meiri en helmingur af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. Sé hámarksfjöldi gesta ekki skráður í starfsleyfi skal miða gestafjölda við helming þess fjölda sem fataskiptirými gerir ráð fyrir. Börn fædd árið 2015 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda. Eldri börn skal telja með þrátt fyrir ákvæði 8. gr. Ákvæði 1. mgr. 4. gr. um nálægðatakmörk gildir ekki á sundlaugasvæði en taka skal mið af því og koma til móts við viðkvæma hópa eins og kostur er. Sóttvarnalæknir gefur út nánari leiðbeiningar um sund- og baðstaði vegna COVID-19. Ákvæði þetta tekur einnig til baðstaða í náttúrunni eftir því sem við á.
2. gr.
Auglýsing þessi, sem sett er með heimild í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, tekur gildi 18. maí 2020.
Heilbrigðisráðuneytinu, 14. maí 2020.
Svandís Svavarsdóttir.
|