1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar gilda um nánari framkvæmd laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga hvað varðar:
- Kröfur um viðskiptavaktarsamninga og viðskiptavaktarkerfi, skv. 26. og 84. gr. laganna.
- Tímabundna stöðvun viðskipta með fjármálagerninga og töku þeirra úr viðskiptum skv. 57. og 93. gr. laganna.
- Snið og tímasetningu tilkynninga og birtingar á tímabundinni stöðvun viðskipta með fjármálagerninga og töku þeirra úr viðskiptum, skv. 57. og 93. gr. laganna.
- Ákvörðun um mikilvægi markaðar með tilliti til seljanleika í tengslum við tilkynningar um tímabundna stöðvun viðskipta skv. 83. og 93. gr. laganna.
- Hlutfall óframkvæmdra tilboða miðað við viðskipti í því skyni að koma í veg fyrir ótilhlýðilegar viðskiptaaðstæður, skv. 85. gr. laganna.
- Skylda til að halda skrá um viðeigandi gögn að því er varðar tilboð með fjármálagerninga, skv. 25. gr. MiFIR.
- Skýrslugjöf um viðskipti til lögbærra yfirvalda, skv. 26. gr. MiFIR.
2. gr.
Tilvísanir.
Áætlun um viðskiptavakt: Tilvísanir í reglum þessum til áætlunar um viðskiptavakt skv. 17. og 48. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til áætlunar um viðskiptavakt skv. 26. og 84. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Beinn rafrænn aðgangur: Tilvísanir í reglum þessum til beins rafræns aðgangs eins og hann er skilgreindur í 41. lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til beins rafræns aðgangs eins og hann er skilgreindur í 5. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Bindandi skriflegur samningur: Tilvísanir í reglum þessum til bindandi skriflegs samnings eins og um getur í b-lið 3. mgr. 17. gr. og 2. mgr. 48. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til skriflegs samnings skv. 2. tölulið 1. mgr. 26. gr. og 84. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Pöruð miðlaraviðskipti: Tilvísanir í reglum þessum til paraðra miðlaraviðskipta (e. matched principal trading), sbr. 38. tölulið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB, skal skilja sem tilvísun til jafnaðra eigin viðskipta skv. 27. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Skylda til að mynda seljanleika: Tilvísanir í reglum þessum til skyldu verðbréfafyrirtækja að mynda seljanleika með reglubundnum og fyrirsjáanlegum hætti eins og mælt er fyrir um í a-lið 3. mgr. 17. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til 1. töluliðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Viðskipti fyrir eigin reikning: Tilvísanir í reglum þessum til viðskipta fyrir eigin reikning skv. 6. tölulið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísun til viðskipta fyrir eigin reikning skv. 70. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Viðskipti sem draga úr áhættu: Tilvísanir í reglum þessum til viðskipta sem draga úr áhættu á hátt sem unnt er að mæla hlutlægt í samræmi við 57. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísun til áhættustýringarskv. 100. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Framseljanlegt verðbréf í skilningi a-liðar 44. liðar 1. mgr. 4. gr. MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til framseljanlegra verðbréfa í skilningi a-liðar 44. töluliðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til verðbréfa skv. a-lið 63. töluliðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Framseljanlegt verðbréf í skilningi b-liðar 44. liðar 1. mgr. 4. gr. MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til framseljanlegra verðbréfa í skilningi a-liðar 44. töluliðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til verðbréfa skv. b-lið 63. töluliðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Verðbréf skv. c-lið 44. liðar 1. mgr. 4. gr. MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til verðbréfs samkvæmt c-lið 44. liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til verðbréfs samkvæmt c-lið 63. töluliðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Verðbréfafyrirtæki sem fellur undir 1. mgr. 4. gr. MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til verðbréfafyrirtækis sem fellur undir 1. mgr. 4. gr.tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til verðbréfafyrirtækis með starfsleyfi skv. lögum nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
3. gr.
Innleiðing reglugerða.
Með reglum þessum öðlast gildi hér á landi eftirfarandi reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (ESB) sem birtar eru í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 72 frá 11. nóvember 2021, bls. 1-6, 12-15 og 41-46, nr. 78 frá 9. desember 2021 bls. 323-336 og 345-363, og nr. 4. frá 17. janúar 2022 bls. 1-30 og 39-46, með þeim aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2019 sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 88 frá 31. október 2019, bls. 7-19, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest:
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/566 frá 18. maí 2016 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla fyrir hlutfall óframkvæmdra tilboða miðað við viðskipti í því skyni að koma í veg fyrir ótilhlýðilegar viðskiptaaðstæður.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/569 frá 24. maí 2016 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla fyrir tímabundna stöðvun viðskipta með fjármálagerninga og töku þeirra úr viðskiptum.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/570 frá 26. maí 2016 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla til að ákvarða um mikilvægi markaðar með tilliti til seljanleika í tengslum við tilkynningar um tímabundna stöðvun viðskipta.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/578 frá 13. júní 2016 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla sem tilgreina kröfurnar um viðskiptavaktarsamninga og viðskiptavaktarkerfi.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/580 frá 24. júní 2016 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla til að halda utan um viðeigandi gögn að því er varðar tilboð með fjármálagerninga.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/590 frá 28. júlí 2016 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um skýrslugjöf um viðskipti til lögbærra yfirvalda.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/1005 frá 15. júní 2017 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar snið og tímasetningu tilkynninga og birtingar á tímabundinni stöðvun viðskipta með fjármálagerninga og töku þeirra úr viðskiptum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga.
4. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 3. mgr. 26. gr., 6. mgr. 57. gr., 5. mgr. 83. gr., 4. mgr. 84. gr., 3. mgr. 85. gr. og 9. mgr. 93. gr. og 17. og 18. tölulið 2. mgr. 145. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga, taka gildi þegar í stað. Á sama tíma falla úr gildi reglur nr. 1424/2021 um umgjörð viðskipta með fjármálagerninga.
Seðlabanka Íslands, 24. febrúar 2022.
|
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. |
Rannveig Júníusdóttir framkvæmdastjóri. |
|