Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 834/2013

Nr. 834/2013 4. september 2013
SAMÞYKKT
um búfjárhald í Hörgársveit.

1. gr.

Samþykkt þessi er sett til að tryggja skipulag, stjórnun og eftirlit með búfjárhaldi í Hörgársveit, m.a. til að koma í veg fyrir ágang búfjár á eignarlönd manna og lóðir íbúa og einnig til verndar gróðri í sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn fer með framkvæmd þessarar samþykktar, en getur falið nefndum á vegum sveitarfélagsins framkvæmdina að hluta eða öllu leyti og/eða umsögn um þau atriði sem krefjast úrlausnar á hverjum tíma.

2. gr.

Með búfjárhaldi samkvæmt samþykkt þessari er átt við nautgripa-, hrossa-, sauðfjár-, svína-, kanínu-, loðdýra-, geita- og alifuglahald, sbr. 2. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.

3. gr.

Búfjárhald í þéttbýli í Hörgársveit er óheimilt að öðru leyti en því sem segir í 4. gr. Afmörkun þéttbýlis fer eftir aðalskipulagi, sbr. fylgiskjöl 1 og 2.

4. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. er sveitarstjórn heimilt að veita leyfi fyrir kanínu- og alifuglahaldi, þó ekki karlkyns alifuglum, í þéttbýli í Hörgársveit.

5. gr.

Sá sem hyggst sækja um leyfi til búfjárhalds samkvæmt 4. gr. skal senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar. Í umsókninni skal tilgreina tegund búfjár, fjölda þess og húsakost og annað er máli kann að skipta um öryggi þess og vörslu. Telji sveitarstjórn að umsækjandi uppfylli þau skilyrði sem krafist er samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum veitir hún skriflegt leyfi. Leyfið er gefið út á nafn og kennitölu og er ekki framseljanlegt.

Um leyfið gilda ákvæði þessarar samþykktar og er það uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert. Ef leyfishafi brýtur ítrekað gegn lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl. eða samþykkt þessari og sinnir ekki kröfum um úrbætur, má afturkalla leyfið með viku fyrirvara.

6. gr.

Óheimilt er að halda búfé nema hafa fyrir það hús sem samræmist reglugerðum og öðrum stjórnvaldsreglum um aðbúnað búfjár. Sama gildir um allt umhverfi húsanna. Leyfishafi ber einn ábyrgð á því að hann hafi beitiland og fóður fyrir búfé sitt. Honum er skylt að gefa búfjáreftirlitsmanni upplýsingar um búfjáreign og heyfeng og sýna honum búfé og aðstöðu þegar þess er óskað.

7. gr.

Öllum umráðamönnum hrossa og nautgripa í sveitarfélaginu, á lögbýlum og utan þeirra, er skylt að hafa hross og nautgripi í vörslu, þ.e. að gripirnir gangi ekki lausir utan afgirtra heimalanda, frá 1. janúar til 1. júlí ár hvert, þannig að ekki verði ágangur af þeim í eignarlöndum annarra.

8. gr.

Hvern þann búfénað sem sleppur úr vörslu, sbr. 7. gr., skal handsama og færa í örugga vörslu. Eiganda skal tilkynnt um gripi sína og gert að sækja þá og greiða áfallinn kostnað, svo sem vegna tjóns og kostnað við handsömun. Um ráðstöfun gripa fer eftir lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl. og öðrum gildandi lögum og stjórnvaldsreglum á hverjum tíma eftir því sem við á.

9. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.

10. gr.

Samþykkt þessi sem er samin og samþykkt af sveitarstjórn Hörgársveitar, að tillögu fjallskilanefndar sveitarfélagsins, staðfestist hér með samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., til að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi samþykkt nr. 713/2010, um búfjárhald í Hörgárbyggð. Einnig falla úr gildi allar aðrar reglur og samþykktir, sem hafa verið settar um lausagöngu búfjár innan þess svæðis, sem Hörgársveit nær yfir.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir sem við gildistöku þessarar samþykktar eiga eða hafa í umsjón sinni búfé sem fellur undir ákvæði 3. gr. um leyfisskyldu skulu sækja um leyfi til búfjárhalds til sveitarstjórnar innan tveggja mánaða frá gildistöku samþykktarinnar.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 4. september 2013.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Kristinn Hugason.

Sigríður Norðmann.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 18. september 2013