I. KAFLI
Almenn atriði.
1. gr.
Hverjir eiga rétt á aðstoð.
Aðstoð samkvæmt reglum þessum er veitt erlendum ríkisborgurum utan EES sem eiga ekki lögheimili í landinu.
Aðstoðin er veitt í sérstökum tilvikum þegar fyrirsjáanlegt er að einstaklingur hefur ekki möguleika á að fara úr landi eða framfleyta sér hér á landi án aðstoðar íslenskra stjórnvalda.
Þegar kveðið er á um einstakling í reglum þessum á það jafnframt við um fjölskyldu hans, þ.e. maka, sambúðaraðila og börn, eftir því sem við á.
Dvalarsveitarfélag veitir aðstoð samkvæmt reglum þessum. Velferðarráðuneyti endurgreiðir sveitarfélaginu útlagðan kostnað.
2. gr.
Sérstök tilvik.
Aðstoð til brottfarar eða til dvalar á Íslandi er veitt í sérstökum tilvikum, sbr. 2. mgr. 1. gr., ef a.m.k. eitt af eftirfarandi atriðum á við:
- Á tímabili frá því dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða dvalarleyfi flóttamanns hefur verið veitt þar til lögheimili hefur verið skráð og viðkomandi nýtur ekki lengur þjónustu á vegum Útlendingastofnunar.
- Veitt hefur verið dvalar- og atvinnuleyfi til bráðabirgða og einstaklingur getur ekki framfleytt sér án aðstoðar þar til launagreiðsla fer fram. Aðstoð við þessar aðstæður skal aldrei veitt lengur en í einn mánuð.
- Vegna fjölskyldusameiningar á því tímabili frá því nánustu aðstandendur erlends ríkisborgara, sem hefur dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða eða stöðu flóttamanns, koma til landsins uns lögheimili hefur verið skráð.
- Beðið er eftir að ákvörðun stjórnvalda um að viðkomandi fari úr landi komi til framkvæmda. Hér er meðal annars átt við fanga sem fengið hafa reynslulausn, en ekki liggur fyrir ákvörðun um að þeir yfirgefi landið.
- Í gildi er úrskurður um farbann skv. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 eða einstaklingur getur ekki yfirgefið landið vegna meðferðar sakamáls af öðrum ástæðum.
- Umsókn um dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða dvalarleyfi sem flóttamaður hefur verið synjað og ákvörðun stjórnvalda um að yfirgefa landið getur ekki komið til framkvæmda. Einstaklingar í þessum aðstæðum geta verið ríkisfangslausir eða ríkisfang hefur ekki verið staðfest. Eftir atvikum er einstaklingum veitt dvalarleyfi og atvinnuleyfi til bráðabirgða.
- Ófyrirsjáanleg áföll í lífi einstaklings hafi átt sér stað meðan á dvöl hans stóð og/eða barn/börn eru með í för og fólkið getur ekki ferðast til heimalands af eigin rammleik.
3. gr.
Sérstök viðmið vegna fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglum þessum.
Velferðarráðuneyti setur sérstök viðmið um fjárhagsaðstoð samkvæmt reglum þessum. Viðmiðin sem birt eru sem fylgiskjal með reglum þessum skulu endurskoðuð einu sinni á ári.
II. KAFLI
Skilyrði fyrir aðstoð til farar úr landi eða vegna dvalar.
4. gr.
För úr landi.
Skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð fram að brottför úr landi og til fararinnar er að gengið hafi verið úr skugga um að einstaklingur geti hvorki framfleytt sér sjálfur né greitt fargjald. Jafnframt að hann fái ekki aðstoð til brottfarar frá ríkisfangslandi eða því landi þar sem hann á lögheimili, frá fjölskyldu, viðkomandi sendiráði hér á landi, öðru stjórnvaldi eða öðrum aðila á Íslandi.
5. gr.
Dvöl í landinu.
Sé för úr landi skv. 4. gr. ekki möguleg er greitt fyrir dvöl á Íslandi, enda séu aðstæður með þeim hætti að ekki sé annað fyrirsjáanlegt en að einstaklingur þurfi að dvelja á Íslandi um ákveðinn eða óákveðinn tíma. Jafnframt er skilyrði að fullkannað sé, innanlands sem utan, að einstaklingur getur ekki sjálfur framfleytt sér meðan á dvöl hans stendur hér á landi og ekki sé möguleiki á aðstoð frá ríkisfangslandi eða því landi þar sem hann á lögheimili, fjölskyldu, viðkomandi sendiráði hér á landi, öðru stjórnvaldi eða öðrum aðila á Íslandi.
III. KAFLI
Aðstoð sem er endurgreidd.
6. gr.
Með aðstoð til brottfarar úr landi er átt við fjárhagsaðstoð til framfærslu, greiðslu fyrir húsnæði fram að brottför og greiðslu ferðakostnaðar frá landinu. Með ferðakostnaði er átt við heildarkostnað, þar með talið flugfargjald, ferð að brottfararstað og eftir atvikum nauðsynlega vasapeninga fyrir tilfallandi kostnaði meðan á ferðinni stendur.
Með aðstoð vegna dvalar í landinu er átt við fjárhagsaðstoð vegna framfærslu og greiðslu fyrir húsnæði, sbr. 3. gr.
Þjónusta túlka skal notuð þegar þörf krefur.
Kappkosta skal að halda ferða- og dvalarkostnaði samkvæmt ákvæði þessu í lágmarki.
IV. KAFLI
Málsmeðferð.
7. gr.
Upphaf máls.
Einstaklingur sækir um aðstoð hjá því sveitarfélagi þar sem hann dvelur. Málsmeðferð fer eftir lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og stjórnsýslulögum.
Við veitingu fjárhagsaðstoðar skal farið eftir viðmiðum velferðarráðuneytis, sbr. 3. gr.
8. gr.
Þörf á aðstoð metin.
Félagsþjónusta viðkomandi sveitarfélags ákveður hvort aðstoð fellur undir reglur þessar og metur þörf á aðstoð, þar á meðal samkvæmt viðmiðum 3. gr. Áður en ákvörðun er tekin aflar félagsþjónustan upplýsinga um stöðu umsækjanda hjá Útlendingastofnun. Þá sér félagsþjónustan um að afla upplýsinga um viðkomandi einstakling hjá sendiráði eða ræðismanni ríkisfangslands og gengur úr skugga um að skilyrði 4. og 5. gr. séu uppfyllt.
9. gr.
Barnafjölskyldur.
Þegar aðstoð er ákveðin skal sérstakt tillit tekið til barnafjölskyldna. Leitað skal eftir áliti og aðstoð barnaverndaryfirvalda eftir því sem við á í samræmi við barnaverndarlög, nr. 80/2002. Þegar börn eru ein á ferð skal ævinlega hafa samband við barnaverndaryfirvöld sem taka málið til meðferðar í samvinnu við Útlendingastofnun.
10. gr.
Samþykki velferðarráðuneytis.
Félagsþjónusta viðkomandi sveitarfélags sækir um endurgreiðslu úr ríkissjóði til velferðarráðuneytis á þar til gerðu umsóknarformi. Aðstoð skal ekki veitt fyrr en samþykkið liggur fyrir. Í undantekningartilvikum þegar ekki er unnt að fá samþykki ráðuneytisins, svo sem vegna helgidaga, skal greiðsla engu að síður eiga sér stað, en þó aldrei fyrir lengri tíma en eina viku.
11. gr.
Framkvæmd heimferðar.
Félagsþjónustan afhendir viðkomandi einstaklingi farseðil og vasapeninga vegna fararinnar. Sé þörf á aðstoð lögreglu við förina veitir hún fylgd til flugvallar eða á annan brottfararstað.
12. gr.
Endurgreiðsla úr ríkissjóði.
Sveitarfélag skal senda velferðarráðuneyti yfirlit yfir útlagðan kostnað vegna einstaklinga sem reglur þessar taka til á þar til gerðu eyðublaði. Yfirlitið skal miðast við tímabilið frá 1. nóvember til 31. október hvert ár.
Þær greiðslur sem velferðarráðuneytið hefur samþykkt að endurgreiða, sbr. 10. gr., skulu greiddar félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags einu sinni á ári.
V. KAFLI
Gildistaka.
13. gr.
Reglur þessar, sem settar eru með stoð í 1. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum, taka þegar gildi.
Velferðarráðuneytinu, 8. febrúar 2016.
Eygló Harðardóttir
félags- og húsnæðismálaráðherra.
Bolli Þór Bollason.
Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)