1. gr.
Efni og gildissvið.
Reglugerð þessi mælir fyrir um starfrækslu ómannaðra loftfara og ómannaðra loftfarskerfa. Reglugerðin gildir um flug ómannaðra loftfara (dróna) á Íslandi og innan íslenskrar lofthelgi.
Lögreglu, Landhelgisgæslu, Almannavörnum og viðbragðsaðilum á þeirra vegum er heimilt að víkja frá kröfum sem snúa að umsókn um leyfi og framkvæmd áhættumats í störfum sínum þegar aðstæður krefjast þess.
2. gr.
Lögbært yfirvald og framkvæmd.
Samgöngustofa er lögbært yfirvald samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar.
3. gr.
Sérstakar takmarkanir á flugi ómannaðra loftfara.
- Óheimilt er að fljúga ómönnuðum loftförum innan 150 metra fjarlægðar frá viðkvæmum opinberum innviðum s.s. orkuverum og tengivirkjum, Alþingi, forsetabústöðum, ráðuneytum, sendiráðum, lögreglustöðvum, fangelsum og sjúkrahúsum, án heimildar eigenda eða umráðenda.
- Um flug í grennd við íbúðarhúsnæði eða annars staðar þar sem fólk dvelst og finnst fyrir gilda almennar reglur um vernd eignarréttar, friðhelgi einkalífs og persónuvernd.
- Óheimilt er að fljúga ómönnuðum loftförum án leyfis rekstraraðila flugvalla á flugvöllum og innan flugvallasvæða og innan bannsvæða ómannaðra loftfara umhverfis áætlunarflugvelli. Innan bannsvæða umhverfis áætlunarflugvelli er þó leyfilegt að fljúga án sérstaks leyfis rekstraraðila ef ómannaða loftfarinu er flogið undir hæð hæstu hindrana, innan 50 metra við flugferil loftfarsins. Við flugbrautir annarra flugvalla en áætlunarflugvalla skal gæta fyllsta öryggis og sýna ýtrustu varkárni. Ómönnuð loftför skulu ávallt víkja fyrir annarri flugumferð. Bannsvæði umhverfis flugvelli skulu auglýst á heimasíðu Samgöngustofu og í Flugmálahandbók Íslands (AIP).
- Fylgja skal fyrirmælum, takmörkunum og banni flugumferðarþjónustudeilda, lögreglu, Landhelgisgæslunnar, Samgöngustofu sem og annarra yfirvalda um flug fjarstýrðra loftfara á tilteknum svæðum.
- Samgöngustofa skal útfæra og auglýsa höft og bönn fyrir flug ómannaðra loftfara í Flugmálahandbók Íslands og á vef stofnunarinnar.
4. gr.
Tryggingar.
Þeir sem starfrækja ómannað loftfar yfir 20 kg flugtaksmassa eða í undirflokki A2, sérstökum flokki og vottuðum flokki samkvæmt ákvæðum reglugerðar (ESB) 2019/947 skulu taka og viðhalda vátryggingu til greiðslu skaðabóta gagnvart þriðja aðila.
5. gr.
Brot.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum eða fangelsi allt að fimm árum, sbr. 253. gr. laga um loftferðir nr. 80/2022.
6. gr.
Innleiðing.
Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirtaldar gerðir með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/945 frá 12. mars 2019 um ómönnuð loftfarskerfi og umráðendur ómannaðra loftfarskerfa frá þriðja landi, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2023 frá 28. apríl 2023, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 62 frá 31. ágúst 2023, bls. 336-375.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/947 frá 24. maí 2019 um reglur og verklagsreglur fyrir starfrækslu ómannaðra loftfara, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2023 frá 28. apríl 2023, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 62 frá 31. ágúst 2023, bls. 541-567.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/639 frá 12. maí 2020 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2019/947 að því er varðar staðlaðar sviðsmyndir fyrir flug í eða úr augsýn, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2023 frá 28. apríl 2023, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 62 frá 31. ágúst 2023, bls. 893-923.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/746 frá 4. júní 2020 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2019/947 að því er varðar frestun á framkvæmd tiltekinna ráðstafana í tengslum við COVID-19 heimsfaraldurinn, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2023 frá 28. apríl 2023, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 62 frá 31. ágúst 2023, bls. 924-925.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/1058 frá 27. apríl 2020 um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) 2019/945 að því er varðar innleiðingu tveggja nýrra flokka ómannaðra loftfarskerfa, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2023 frá 28. apríl 2023, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 62 frá 31. ágúst 2023, bls. 390-416.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1166 frá 15. júlí 2021 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2019/947 að því er varðar frestun á þeirri dagsetningu sem staðlaðar sviðsmyndir fyrir flug í eða úr augsýn fjarflugmanns koma til framkvæmda, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 140/2023 frá 28. apríl 2023, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 62 frá 31. ágúst 2023, bls. 1171-1172.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2022/425 frá 14. mars 2022 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2019/947 að því er varðar frestun umbreytingardagsetninga vegna notkunar tiltekinna ómannaðra loftfarskerfa í „opna“ flokknum og frestun þeirrar dagsetningar sem staðlaðar sviðsmyndir fyrir flug í eða úr augsýn fjarflugmanns koma til framkvæmda, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2023 frá 28. apríl 2023, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 62 frá 31. ágúst 2023, bls. 1173-1174.
7. gr.
Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 72. gr. laga um loftferðir, nr. 80/2022, öðlast þegar gildi. Samhliða fellur úr gildi reglugerð nr. 990/2017 um starfrækslu fjarstýrðra loftfara.
Ákvæði til bráðabirgða.
Undanþágur sem gefnar hafa verið út á grundvelli reglugerðar nr. 990/2017 um starfrækslu fjarstýrðra loftfara halda gildi sínu til 1. maí 2025.
Innviðaráðuneytinu, 19. nóvember 2024.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Ingilín Kristmannsdóttir.
|