1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um leyfi til að stunda farþegaflutninga í atvinnuskyni, eins og þeir eru skilgreindir í g–i-lið 3. gr., með bifreiðum sem eru skráðar fyrir níu farþega eða fleiri, sbr. þó a-lið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 28/2017 um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.
Þá gildir reglugerð þessi um leyfi til að stunda farmflutninga á landi í atvinnuskyni með vélknúnum ökutækjum eða samtengdum ökutækjum þar sem leyfð heildarþyngd fer yfir 3,5 tonn og leyfilegur hámarkshraði ökutækjanna er 45 km á klst. eða meiri.
Eftirtaldir farmflutningar eru undanþegnir leyfisskyldu:
- Póstflutningar sem eiga sér stað innan ramma opinberrar þjónustu.
- Flutningar á ökutækjum sem hafa orðið fyrir tjóni eða bilað.
- Farmflutningar með vélknúnum ökutækjum þar sem leyfileg þyngd með hleðslu, þ.m.t. eftirvagnar, fer ekki yfir sex tonn.
- Farmflutningar í eigin þágu með vélknúnum ökutækjum, að því tilskildu að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
- vörurnar, sem eru fluttar, verða að vera eign fyrirtækisins eða fyrirtækið verður að hafa selt, keypt, leigt út eða leigt sér vörurnar, framleitt þær, unnið úr þeim, meðhöndlað eða gert við þær,
- tilgangur ferðarinnar verður að vera sá að flytja vörur til eða frá fyrirtæki eða flytja þær annaðhvort innan fyrirtækisins eða utan þess til eigin nota,
- starfsmenn fyrirtækisins verða að aka vélknúnu ökutækjunum sem eru notuð við slíka flutninga,
- ökutækin, sem flytja vörurnar, verða að vera í eigu fyrirtækisins eða keypt með afborgunum eða tekin á leigu og í síðastnefnda tilvikinu að því tilskildu að uppfyllt séu skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/1/EB frá 18. janúar 2006 um notkun ökutækja sem leigð eru án ökumanna til vöruflutninga á vegum. Þetta ákvæði gildir ekki um notkun varabifreiðar þegar ökutækið, sem er venjulega notað, er bilað tímabundið,
- flutningurinn verður að vera viðbótarstarfsemi við heildarstarfsemi fyrirtækisins.
- Flutningar á lyfjum, læknisfræðilegum búnaði og tækjum og öðrum vörum sem eru nauðsynlegar fyrir neyðaraðstoð, einkum náttúruhamfarir.
Reglugerð þessi gildir ekki um farþegaflutninga eða farmflutninga í eigin þágu.
2. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að skapa almenn skilyrði fyrir starfsgrein farþegaflutninga á landi þar sem m.a. er tekið mið af þeim reglum sem leiða af aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Reglunum er ætlað að stuðla að aukinni fagmennsku flutningsaðila á vegum, betri menntun og hæfi og auka gæði þjónustunnar. Þá er með reglugerðinni stuðlað að auknu umferðaröryggi á vegum.
3. gr.
Orðskýringar.
Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
- Almennt rekstrarleyfi: Leyfi skv. 4. gr. sem allir sem stunda fólksflutninga gegn endurgjaldi þurfa að hafa.
- Farmflutningar í atvinnuskyni: Flutningur á hvers kyns farmi gegn endurgjaldi þegar flutningsþjónusta er seld sérstaklega og flytjandi starfar við flutningsþjónustu. Dæmi um það eru farmflutningafyrirtæki og vörubifreiðastjórar sem starfa sem verktakar við flutning á farmi.
- Farmflutningar í eigin þágu: Flutningur farms þegar ekki er innheimt sérstakt gjald fyrir flutninginn. Sem dæmi má nefna flutning iðnfyrirtækis á eigin hráefni eða aðföngum með merktum bifreiðum, svo sem flutning á gosdrykkjum, flutning með mjólkurbifreiðum og flutning verktaka sem starfa við annað en flutningsþjónustu þótt flutningurinn sé hluti af verki, t.d. verktaka við byggingar.
- Farþegaflutningar í atvinnuskyni: Flutningur fólks gegn endurgjaldi þar sem farþeginn er ekki tengdur rekstri fyrirtækisins sem sér um flutninginn.
- Farþegaflutningar í eigin þágu: Flutningur fólks sem ekki er innheimt gjald fyrir. Sem dæmi má nefna flutning starfsfólks til og frá vinnustað eða á milli vinnustaða ef fólksflutningabifreiðin er í eigu vinnuveitanda og ökumaður er starfsmaður hans. Einnig flutningur sjúklinga og vistmanna heilbrigðisstofnana, enda sé bifreiðin í eigu stofnunarinnar og ökumaður starfsmaður hennar.
- Gistiríki: Það ríki þar sem flutningafyrirtæki starfar og er annað en staðfesturíki þess fyrirtækis.
- Gestaflutningar: Flutningar á vegum innanlands gegn gjaldi sem flutningafyrirtækið starfrækir tímabundið í gistiríki eða, í farþegaflutningum, þegar farþegar eru sóttir og þeim skilað innan sama ríkis, í tengslum við reglubundnar ferðir milli landa, í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar, svo fremi að það sé ekki meginmarkmið þjónustunnar.
- Óreglubundnir farþegaflutningar: Aðrir farþegaflutningar en þeir sem tilgreindir eru í d- og e-lið. Með óreglubundnum flutningum er að jafnaði átt við flutning á hópi fólks sem orðið hefur til fyrir frumkvæði viðskiptavinar eða leyfishafans sjálfs. Slíkar ferðir geta verið farnar með reglulegu millibili án þess að teljast reglubundnir flutningar.
- Reglubundnir farþegaflutningar: Fastar ferðir á ákveðinni leið samkvæmt fyrirfram birtri áætlun þar sem farþegum er hleypt inn og út á leiðinni. Þjónustan er öllum opin, þ.e. almenningssamgöngur. Ökutæki sem notuð eru í reglubundnum farþegaflutningum verða ekki bundin skilyrðum hvað varðar stærð með tilliti til fjölda farþega.
- Sérstakir reglubundnir farþegaflutningar: Reglubundnir flutningar á fyrirfram ákveðnum hópi farþega þar sem aðrir farþegar eru útilokaðir. Ökutæki sem notuð eru í sérstökum reglubundnum farþegaflutningum verða ekki bundin skilyrðum hvað varðar stærð með tilliti til fjölda farþega.
- Ökumannsvottorð: Vottorð sem Samgöngustofa gefur út fyrir handhafa leyfis skv. 12. gr. reglugerðar þessarar sem ráðið hefur til sín ökumann sem er hvorki ríkisborgari á Evrópska efnahagssvæðinu né hefur þar fasta búsetu.
4. gr.
Útgáfa leyfa.
Samgöngustofa hefur með höndum útgáfu leyfa og leyfismerkja og umsjón með eftirliti samkvæmt reglugerð þessari. Leyfi má veita einstaklingum eða lögaðilum, hvort sem eru fyrirtæki, félög eða stofnanir.
5. gr.
Skilyrði leyfis.
Þeir einir sem uppfylla skilyrði þessa ákvæðis og þau sem sett eru fram í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1071/2009 um sameiginlegar reglur varðandi skilyrði sem uppfylla þarf til þess að mega starfa sem flutningsaðili á vegum og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 96/26/EB, sbr. a-lið 20. gr. reglugerðar þessarar, sbr. viðauka við sömu gerð, geta fengið almennt rekstrarleyfi fyrir farþegaflutninga á landi.
Skilyrði almenns rekstrarleyfis eru eftirfarandi:
- Hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu. Fullnægjandi fjárhagsstaða merkir að hafa aðgang að nægilegu fjármagni til að stofna fyrirtæki og tryggja öruggan rekstur þess. Fyrirtæki verður að hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda a.m.k. kr. 1.150.000 fyrir fyrsta ökutæki og kr. 640.000 á hvert ökutæki umfram það. Fjárhæðina skal uppfæra árlega í samræmi við ákvæði 7. gr. framangreindrar reglugerðar (EB) nr. 1071/2009.
- Hafa gott orðspor. Í því felst að hvorki rekstrarleyfishafi né flutningastjóri hafi verið sakfelldir eða fengið á sig sekt fyrir alvarleg eða ítrekuð brot á þeim reglum sem vísað er til 6. gr. framangreindrar reglugerðar (EB) nr. 1071/2009. Hafi brot verið smávægilegt eða liðin eru 5 ár eða meira frá uppkvaðningu dóms þá getur umsækjandi þó öðlast leyfi samkvæmt lögunum.
- Hafa viðeigandi starfshæfni. Til að uppfylla skilyrði um starfshæfni skal umsækjandi hafa lokið námskeiði á vegum Samgöngustofu, sbr. 8. gr. Prófuð skal þekking umsækjanda á þeim sviðum sem greinina varðar. Vegna þessa skal Samgöngustofa útbúa námskrá að höfðu samráði við hagsmunaaðila sem að greininni standa og í samræmi við 8. gr. framangreindrar reglugerðar (EB) nr. 1071/2009. Þátttökugjald skal tilgreint í námskránni. Heimilt er að veita undanþágu frá námskeiði eða einstökum hlutum þess ef umsækjandi getur sýnt fram á að hafa lokið prófi í einhverri þeirra greina sem um getur í námskrá.
- Hafa starfsstöð hér á landi sem er virk og traust. Þaðan skal starfseminni vera stjórnað og þar skulu öll grunnviðskiptaskjöl er varða reksturinn vera geymd og aðgengileg, sbr. 5. gr. framangreindrar reglugerðar (EB) nr. 1071/2009.
Við mat á því hvort skilyrði samkvæmt ákvæði þessu séu uppfyllt tekur Samgöngustofa mið af þeim gögnum sem tilgreind eru í 7. gr. Samgöngustofa getur gefið út bráðabirgðaleyfi til umsækjanda til allt að eins árs á meðan sótt er námskeið til að fullnægja skilyrði um viðeigandi starfshæfni, skv. 3. tl. 2. mgr.
Almennt rekstrarleyfi skal gilda í fimm ár og vera óframseljanlegt. Skilyrðum skv. 2. mgr. verður leyfishafi að fullnægja á leyfistímanum. Leyfishafi skal tilkynna til Samgöngustofu þegar í stað um fyrirhugaðar breytingar sem varða hina leyfisskyldu starfsemi.
Tilkynna skal til Samgöngustofu öll ökutæki sem tilheyra rekstri leyfishafa.
Þrátt fyrir ákvæði 3. tl. 2. mgr. getur Samgöngustofa heimilað umsækjanda að starfa sem flutningsaðili á landi að því tilskildu að hann tilkynni um tilnefningu annars aðila sem fullnægir kröfum 2. og 3. tl. 2. mgr. enda sjái hinn síðarnefndi um daglegan rekstur fyrirtækisins.
6. gr.
Flutningastjóri.
Ef umsækjandi um rekstrarleyfi er lögaðili skal starfa þar flutningastjóri. Hann skal uppfylla skilyrðin sem sett eru fram í 6. gr. laga nr. 28/2017 um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.
Samgöngustofa gefur út vottorð um starfshæfni til flutningastjóra. Vottorð skal vera í samræmi við ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1071/2009 um sameiginlegar reglur varðandi skilyrði sem uppfylla þarf til þess að mega starfa sem flutningsaðili á vegum og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 96/26/EB, sbr. III. viðauka við sömu gerð.
Tilkynna skal til Samgöngustofu án tafar þegar flutningastjóri hættir störfum og í síðasta lagi innan 4 vikna. Innan þriggja mánaða skal tilkynna um nýjan flutningastjóra og skal sá leggja fram viðeigandi gögn, sbr. 6. gr. laga nr. 28/2017 um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.
7. gr.
Framlagning gagna.
Þegar sótt er um rekstrarleyfi skal umsækjandi leggja fram eftirtalin gögn:
- áritaðan ársreikning eða staðfest skattframtal,
- skriflega yfirlýsingu frá innheimtuaðila ríkis og viðkomandi sveitarfélags þess efnis að umsækjandi sé í skilum með opinber gjöld,
- staðfestingu á starfshæfni,
- sakavottorð,
- staðfesting frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra um að búið sé að tilkynna atvinnurekstur með íslenskri kennitölu,
- listi yfir ökutæki sem tilheyra rekstrinum og, í þeim tilvikum þegar sótt er um almennt rekstrarleyfi til farþegaflutninga, hafa leyfisskoðun,
- afrit af síðustu leyfisskoðun bifreiða í þeim tilvikum þegar sótt er um almennt rekstrarleyfi til farþegaflutninga.
Samgöngustofa leggur mat á þau gögn sem umsókn fylgja og er henni heimilt að óska eftir frekari gögnum gerist þess þörf. Umsókn er því aðeins gild að öll framangreind gögn fylgi umsókn og skulu þau ekki vera eldri en þriggja mánaða.
Ef tilskilin gögn fylgja ekki umsókn eða ef ekki er orðið við beiðni um frekari gögn er Samgöngustofu heimilt að hafna umsókn.
8. gr.
Námskeið.
Þeir sem sækja um rekstrarleyfi þurfa að hafa lokið námskeiði á vegum Samgöngustofu, sbr. 3. tl. 2. mgr. 5. gr. Námskeið samkvæmt ákvæði þessu skulu vera í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1071/2009 um sameiginlegar reglur varðandi skilyrði sem uppfylla þarf til þess að mega starfa sem flutningsaðili á vegum og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 96/26/EB, sbr. viðauka I við sömu gerð, sbr. a-lið 20. gr. reglugerðar þessarar.
9. gr.
Upplýsingar um leyfishafa.
Samgöngustofu er heimilt að birta lista á heimasíðu sinni yfir leyfishafa og þau ökutæki sem leyfishafar nota, til upplýsinga fyrir neytendur.
10. gr.
Rekstur sérútbúinna bifreiða.
Samgöngustofa skal veita leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða, sem m.a. eru ætlaðar til aksturs utan þjóðvega og eru notaðar í tengslum við ferðaþjónustu. Umsækjandi skal jafnframt hafa almennt rekstrarleyfi til fólksflutninga frá Samgöngustofu.
Til að öðlast leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða þarf bifreiðin að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Bifreiðin rúmi ekki fleiri en átta farþega.
- Bifreiðin falli undir skilgreiningu á torfærubifreið í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.
- Hjólbarðastærð bifreiðarinnar skal vera að lágmarki 780 mm.
- Bifreiðin skal uppfylla kröfur sem gerðar eru til breyttra, sérútbúinna bifreiða í skoðunarhandbók ökutækja, s.s. um slökkvitæki og sjúkrakassa.
- Bifreiðin skal standast leyfisskoðun árlega, sbr. skoðunarhandbók um leyfisskoðun.
- Ökutækið skal vera merkt rekstraraðila. Merking skal vera sýnileg og auðlesanleg.
Leyfi skal gilda gilda í fimm ár þó aldrei lengur en sem nemur gildistíma almenna rekstrarleyfisins til farþegaflutninga. Leyfið er óframseljanlegt.
11. gr.
Ferðaþjónustuleyfi.
Samgöngustofu er heimilt að gefa út ferðaþjónustuleyfi til farþegaflutninga í ferðaþjónustu.
Til að öðlast ferðaþjónustuleyfi þarf umsækjandi að hafa almennt rekstrarleyfi skv. 5. gr. og rekstrarleyfi sem ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa skv. lögum um skipan ferðamála. Leyfið skal nota í tengslum við ferðaþjónustu.
Ökutæki ferðaþjónustuleyfishafa skulu uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Ökutækið rúmi ekki fleiri en átta farþega.
- Ökutækið skal búið þriggja punkta öryggisbeltum, slökkvitæki og sjúkrakassa.
- Ökutækið skal standast leyfisskoðun árlega, skv. sömu kröfum og gerðar eru til sérútbúinna ökutækja, sbr. skoðunarhandbók um leyfisskoðanir.
- Ökutækið skal vera merkt rekstraraðila. Merking skal vera sýnileg og auðlesanleg.
Ökutækið skal skrá í notkunarflokkinn „Ökutæki með ferðaþjónustuleyfi“.
Leyfið skal gilda í fimm ár þó aldrei lengur en sem nemur gildistíma almenna rekstrarleyfisins til farþegaflutninga. Leyfið er óframseljanlegt.
12. gr.
Bandalagsleyfi og ökumannsvottorð.
Þeir sem hafa almennt leyfi skv. 4. gr. geta sótt um bandalagsleyfi til Samgöngustofu til að stunda farþegaflutninga á milli ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða innanlands í þeim ríkjum eða milli Íslands og Færeyja.
Samgöngustofa veitir slík leyfi á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir flutninga með hópbifreiðum milli landa og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 561/2006, vegna farþegaflutninga, sbr. c-lið 20. gr. reglugerðar þessarar og á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1072/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir farmflutninga á vegum milli landa, vegna farmflutninga, sbr. b-lið 20. gr. reglugerðar þessarar.
Bandalagsleyfi er gefið út á nafn viðkomandi flutningafyrirtækis og er ekki framseljanlegt. Bandalagsleyfi skal gefið út til tíu ára í senn og skal vera endurnýjanlegt að uppfylltum skilyrðum.
Leyfishafi skal hafa frumrit í vörslu sinni, og jafnmörg staðfest, rétt endurrit og ökutækin, sem eru notuð til farþegaflutninga á grundvelli bandalagsleyfisins, eru mörg og leyfishafi hefur til umráða, hvort sem hann er fullgildur eigandi eða ræður yfir þeim með öðrum hætti, einkum með kaupsamningi, leigusamningi eða kaupleigusamningi.
Samgöngustofa getur afturkallað bandalagsleyfi ef skilyrði skv. 2. mgr. eru ekki lengur uppfyllt. Bandalagsleyfi skal vera í samræmi við viðauka II með framangreindri reglugerð (EB) nr. 1073/2009.
Samgöngustofa gefur út ökumannsvottorð hér á landi fyrir handhafa leyfis til farmflutninga, sbr. k-lið 3. mgr. Ökumannsvottorð er gefið út á grundvelli framangreindrar reglugerðar (EB) nr. 1072/2009.
13. gr.
Akstursskrá vegna óreglubundinna farþegaflutninga.
Flutningafyrirtæki í óreglubundnum farþegaflutningum sem ekki hefur staðfestu hér á landi skal halda og geyma í ökutækinu akstursskrá í samræmi við ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir flutninga með hópbifreiðum milli landa og um breytingu á reglugerð nr. 561/2006, sbr. c-lið 20. gr. reglugerðar þessarar. Akstursskráin er útgefin og vottuð af lögbæru yfirvaldi í heimaríki og ber að framvísa henni ef þess er óskað.
Ef um er að ræða sérstakar áætlunarferðir skal samningur flutningafyrirtækis og skipuleggjanda flutninganna eða staðfest, rétt endurrit, gilda sem akstursskrá.
14. gr.
Gestaflutningar í farþegaflutningum.
Þeim aðilum sem annast farþegaflutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins gegn gjaldi og hafa fengið útgefið bandalagsleyfi, er heimilt að stunda gestaflutninga hér á landi sé um að ræða sérstakar áætlunarferðir, óreglubundna flutninga eða reglubundna flutninga eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir flutninga með hópbifreiðum milli landa og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 561/2006, sbr. c-lið 20. gr. reglugerðar þessarar.
Þeir flutningsaðilar sem vilja starfa hér á landi skv. 1. mgr. skulu fara eftir gildandi lögum og reglum hér á landi varðandi eftirfarandi atriði:
- skilyrði sem gilda um flutningssamninginn,
- stærð og þyngd ökutækja,
- kröfur varðandi flutninga á tilteknum hópum farþega, s.s. skólabörnum, börnum og hreyfihömluðum,
- aksturs- og hvíldartíma,
- virðisaukaskatt á flutningaþjónustu.
Beita skal sömu viðurlögum í gildandi lögum og reglum varðandi flutningafyrirtæki í gestaflutningum og beitt er gegn innlendum aðilum í sama rekstri. Tilkynna skal lögbæru yfirvaldi í heimaríki flutningsaðila um brot hans.
15. gr.
Gestaflutningar í farmflutningum.
Þeim aðilum sem annast farmflutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins gegn gjaldi og hafa fengið útgefið bandalagsleyfi, er heimilt að stunda gestaflutninga hér á landi eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1072/2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir farmflutninga á vegum milli landa, sbr. b-lið 20. gr. reglugerðar þessarar.
Þeir flutningsaðilar sem vilja starfa hér á landi skv. 1. mgr. skulu fara eftir gildandi lögum og reglum hér á landi varðandi eftirfarandi atriði:
- skilyrði sem gilda um flutningssamninginn,
- stærð og þyngd ökutækja,
- kröfur varðandi flutninga á tilteknum vörum í tilteknum flokkum, einkum á hættulegum vörum, matvælum sem eru viðkvæm fyrir skemmdum og dýrum á fæti,
- aksturs- og hvíldartíma,
- virðisaukaskatt á flutningaþjónustu.
Beita skal sömu viðurlögum í gildandi lögum og reglum varðandi flutningafyrirtæki í gestaflutningum og beitt er gegn innlendum aðilum í sama rekstri. Tilkynna skal lögbæru yfirvaldi í heimaríki flutningsaðila um brot hans.
16. gr.
Leyfisskoðun og leyfismerkingar vegna farþegaflutninga.
Leyfishafi skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Hann skal gæta þess að ökutæki, séu ætíð í góðu ásigkomulagi, hljóti gott viðhald og eftirlit og fullnægi kröfum sem gerðar eru um þau í lögum eða reglugerðum.
Ökumaður leyfishafa skal bera auðkenni frá honum sem sýna að hann sé starfsmaður leyfishafa.
Leyfishafi skal uppfylla gæða- og tæknikröfur Samgöngustofu, sbr. skoðunarhandbók um leyfisskoðun. Við leyfisskoðun ökutækja fá leyfishafar leyfisskoðunarmiða í framrúðu ökutækis. Leyfishafi skal hafa afrit leyfis í ökutækjum sínum.
17. gr.
Eftirlit og leyfisgjöld.
Gjald fyrir útgáfu leyfa og eftirlit með því að skilyrði þeirra séu uppfyllt, útgáfu vottorða og aðra umsýslu skal greiða til Samgöngustofu samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar sem ráðherra staðfestir.
Gjöldunum er ætlað að standa undir leyfisveitingum og eftirliti í samræmi við VI. kafla laga nr. 28/2017 um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.
18. gr.
Viðurlög.
Brot gegn lögum nr. 28/2017 um farþegaflutninga og farmflutninga á landi og reglugerð þessari geta varðað sektum og/eða tímabundinni niðurfellingu, afturköllun eða sviptingu leyfis, nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.
19. gr.
Kæruheimild.
Ákvörðunum Samgöngustofu samkvæmt lögum þessum verður skotið til ráðherra. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
20. gr.
Innleiðing.
Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirtaldar reglugerðir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka EES-samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1071/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur varðandi skilyrði sem uppfylla þarf til þess að mega starfa sem flutningsaðili á vegum og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 96/26/EB, ásamt viðaukum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2014 frá 16. maí 2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 36 frá 12. júní 2014, bls. 274-294.
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1072/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir farmflutninga á vegum milli landa, ásamt viðaukum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2014 frá 16. maí 2014, um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 36 frá 12. júní 2014, bls. 137-152.
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir flutninga með hópbifreiðum milli landa og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 561/2006, ásamt viðaukum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2014 frá 16. maí 2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 36 frá 12. júní 2014, bls. 295-312.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 611/2012 frá 9. júlí 2012 um breytingu á II. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir flutninga með hópbifreiðum milli landa, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 89/2014 frá 16. maí 2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 36 frá 12. júní 2014, bls. 153.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 612/2012 frá 9. júlí 2012 um breytingu á II. og III. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1072/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir farmflutninga á vegum milli landa, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 89/2014 frá 16. maí 2014, um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 36 frá 12. júní 2014, bls. 154.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 613/2012 frá 9. júlí 2012 um breytingu á III. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1071/2009 um sameiginlegar reglur varðandi skilyrði sem uppfylla þarf til þess að mega starfa sem flutningsaðili á vegum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 89/2014 frá 16. maí 2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 36 frá 12. júní 2014, bls. 155.
- Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/992/ESB frá 17. desember 2009 um lágmarkskröfur vegna gagna sem á að færa inn í rafræna landsskrá yfir flutningafyrirtæki á vegum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2014 frá 16. maí 2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 36 frá 12. júní 2014, bls. 156.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1213/2010 frá 16. desember 2010 um sameiginlegar reglur varðandi samtengingu rafrænna landsskráa yfir flutningafyrirtæki á vegum, ásamt viðauka, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2014 frá 16. maí 2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 36 frá 12. júní 2014, bls. 160-168.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 361/2014 frá 9. apríl 2014 um ítarlegar reglur um beitingu reglugerðar nr. 1073/2009 að því er varðar skjöl vegna farþegaflutninga milli landa með hópbifreiðum og um niðurfellingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2121/98, ásamt viðaukum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2015 frá 11. júní 2015 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 46 frá 20. ágúst 2015, bls. 193-209.
21. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 2. mgr. 1. gr., 3. mgr. 5. gr., 3. mgr. 6. gr., 3. mgr. 10. gr., 4. mgr. 11. gr., 2. mgr. 32. gr. og 34. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017, öðlast gildi 1. júní 2017. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um fólksflutninga á landi, nr. 528/2002 og reglugerð um leyfi til að stunda farmflutninga á landi nr. 100/2006.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 29. maí 2017.
Jón Gunnarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
|