Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1196/2019

Nr. 1196/2019 18. desember 2019

REGLUR
um viðskipti á millibankamarkaði í íslenskum krónum.

1. gr.

Aðild að viðskiptum á millibankamarkaði í íslenskum krónum.

Eftirfarandi fjármálafyrirtæki geta orðið aðilar að viðskiptum á millibankamarkaði í íslenskum krónum:

  1. Fjármálafyrirtæki (lánastofnanir) sem fengið hafa starfsleyfi skv. 1., 2. og 3. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
  2. Útibú erlendra fjármálafyrirtækja sem fengið hafa staðfestu og samsvarandi starfsleyfi og tilgreint er í 1. tl. hér að framan í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 31. gr. laga nr. 161/2002 og starfa hér á landi.
  3. Útibú erlendra fjármálafyrirtækja með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem fengið hafa heimild Fjármálaeftirlitsins skv. 33. gr. laga nr. 161/2002, enda hafi fyrirtækið hliðstætt starfsleyfi og 1., 2. og 3. tl. 1. mgr. 4. gr. sömu laga kveður á um í heimaríkinu, starf­semin sem fyrirtækið hyggst stunda hér á landi sé sambærileg og að starfsemi fyrir­tækisins sé háð sambærilegu fjármálaeftirliti í heimaríkinu og lög nr. 87/1998 kveða á um.

Hver sá, sem æskir þess að verða aðili í viðskiptum á millibankamarkaði skv. reglum þessum, skal sækja um það skriflega til Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn sendir skriflegt svar við umsókn innan tveggja vikna frá því að hún berst. Samþykki bankinn umsóknina tilkynnir hann það aðilum á markaðnum í síðasta lagi fimm viðskiptadögum áður en aðild umsækjanda tekur gildi.

2. gr.

Skyldur aðila vegna tilboða og viðskipta.

Markaðsaðilum er skylt að gefa upp bindandi inn- og útlánstilboð ef annar aðili óskar þess. Tilboð aðila skulu taka til eftirfarandi lánstíma og lágmarksfjárhæða:

Eins dags inn- eða útlán, lágmarksfjárhæð 300 m.kr.
Einnar viku inn- og útlán, lágmarksfjárhæð 100 m.kr.
Eins mánaðar inn- og útlán, lágmarksfjárhæð 100 m.kr.
Þriggja mánaða inn- og útlán, lágmarksfjárhæð 100 m.kr.
Sex mánaða inn- og útlán, lágmarksfjárhæð 50 m.kr.

Tilboð eru bindandi svo fremi að lánalínur, sbr. 9. gr. þessara reglna, séu ekki fullnýttar. Ef aðili óskar eftir viðskiptum fyrir hærri fjárhæð en tilgreind er að framan, er mótaðila í sjálfsvald sett hvort hann vill eiga slík viðskipti. Aðila, sem gert hefur tilboð, sem leitt hefur til viðskipta, er ekki skylt að gera sama mótaðila tilboð aftur fyrr en 10 mínútur hafa liðið frá fyrri viðskiptum.

Markaðsviðskipti Seðlabankans annast samskipti við aðila á millibankamarkaði.

3. gr.

Markaðstími.

Viðskipti á millibankamarkaði í íslenskum krónum fara fram frá kl. 9.15 til 16.00 hvern við­skipta­dag.

4. gr.

Vaxtatilboð inn- og útlána.

Aðilar skuldbinda sig til þess að uppfæra reglulega skuldbindandi vaxtatilboð á inn- og útlánum á millibankamarkaði. Vexti skal uppfæra eigi sjaldnar en á 10 mínútna fresti. Skuldbindandi vaxta­tilboð skulu vera sýnileg Seðlabankanum og þátttakendum á markaði í upplýsingakerfi eða –kerfum sem þátttakendur koma sér saman um og Seðlabankinn samþykkir.

5. gr.

Upplýsingaskylda.

Aðili, sem gefið hefur upp vexti er leitt hafa til inn- eða útlánsviðskipta, skal tilkynna það Seðla­bankanum, eigi síðar en við lok markaðar. Þar skal koma fram mótaðili, fjárhæð, lánstími, gildis­dagur og vextir.

Aðili skal, hvenær sem Seðlabankinn óskar þess, greina frá eða afhenda bankanum hverjar þær upplýsingar sem tengjast millibankamarkaði og viðskiptum á honum og Seðlabankinn telur nauð­synlegt að afla við framkvæmd reglna þessara. Þátttakendum ber einnig að veita Seðlabankanum upplýsingar um viðskipti og annað það sem líklegt er til þess að hafa umtalsverð áhrif á markaðinn.

6. gr.

Skráning Seðlabankans á vöxtum á millibankamarkaði.

Seðlabankinn skráir millibankavexti í íslenskum krónum (REIBOR og REIBID) með hliðsjón af vaxtatilboðum aðila. Hvern viðskiptadag milli kl. 11.15 og 11.30 skoðar Seðlabankinn tilboð allra aðila, reiknar út meðaltal innlánsvaxta og útlánsvaxta og birtir millibankavexti á þeim grundvelli. Séu þátttakendur fjórir eða færri skal reikna út einfalt meðaltal tilboða fyrir hvern lánstíma. Séu þátttakendur fimm eða fleiri skal við útreikning meðaltals tilboða sleppa hæsta og lægsta tilboði í inn- og útlán fyrir hvern lánstíma.

Vaxtatilboð aðila á millibankamarkaði eru aðeins tekin með í útreikning millibankavaxta Seðla­bankans hafi þeir samþykkt línur meirihluta markaðsaðila, sbr. 9 gr. þessara reglna. Seðla­bankinn getur ákveðið að sleppa vaxtatilboðum aðila í vaxtaútreikningi.

Seðlabankinn birtir skráða millibankavexti og heildarviðskipta á millibankamarkaði með krónur á vefsíðu sinni.

7. gr.

Aðferð við útreikning og samskipti.

Við útreikning vaxtafjárhæðar er notuð aðferðin raun/360. Tilboð skulu sett fram með ein­földum vöxtum. Við gerð samnings um innlán og útlán koma aðilar sér saman um vexti, upphafs­fjárhæð, fjárhæð vaxta, lokafjárhæð, gildisdag og gjalddaga.

8. gr.

Vaxtabil í tilboðum.

Hámark vaxtabils milli inn- og útlána í tilboðum markaðsaðila til eins mánaðar eða lengri tíma er 100 punktar. Ekki er skilgreint hámarksvaxtabil í tilboðum með styttri tímalengdir. Enginn aðili skal að staðaldri verðleggja sig út af markaðnum með óhagstæðum tilboðum. Seðlabankinn fylgist með vaxtabili í tilboðum þátttakenda og getur svipt þátttakanda aðild að markaðnum, sbr. 12. gr. telji bankinn að atferli þátttakanda sé óeðlilegt á markaðnum.

9. gr.

Lánalínur.

Aðilar semja um lánalínur sín á milli. Tilkynna skal Seðlabankanum um fjárhæð lánalína og breytingar á þeim. Ef markaðsaðili neitar að taka við innláni skal umsvifalaust tilkynna það til Seðlabankans. Það sama gildir ef markaðsaðili neitar að veita lán og þær lánalínur sem samþykktar voru milli viðkomandi markaðsaðila eru ekki fullnýttar. Telji Seðlabanki Íslands að markaðsaðili standi ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt reglum þessum getur bankinn svipt hann aðild að markaðnum sbr. 12. gr. þessara reglna.

10. gr.

Gildisdagur viðskipta.

Sé ekki samið um annað þá gildir að fyrir inn- og útlán í einn dag og viku er afhendingardagur og fyrsti vaxtadagur sami dagur og samningurinn er gerður (T+0). Fyrir inn- og útlán í aðrar tímalengdir sbr. 2. gr., gildir tveggja daga regla (T+2) fyrir afhendingu og útreikning vaxta.

11. gr.

Samskipti og siðareglur.

Aðilar skulu sjá til þess að starfsmenn þeirra, sem annast viðskipti á millibankamarkaði, hafi næga þekkingu til að annast viðskipti. Aðilar skulu hafa yfir að ráða fullnægjandi innri eftirlits­kerfum til að meta og stýra áhættu í millibankaviðskiptum. Aðilar skulu tilkynna Seðlabankanum fyrirfram hverjir sinna viðskiptum á millibankamarkaði fyrir þeirra hönd, svo og ef starfsemi aðila tekur breytingum eða skipt er um yfirmenn viðskipta aðila á millibankamarkaði. Aðilar skulu til­nefna tengiliði vegna samskipta við Seðlabankann og skal við það miðað að þeir séu yfirmenn við­skipta þeirra á milli­banka­markaði. Seðlabankinn skal reglulega boða til funda tengiliða, þar sem fjallað verði um leikreglur markaðarins. Aðilar skulu stuðla að heilbrigðum viðskiptaháttum.

Aðilar skulu fylgjast með öllum vísbendingum um óeðlilegt atferli að því er varðar umfang, tíðni og frágang viðskipta og tilkynna Seðlabankanum um slíkt verði þeir þess áskynja og ennfremur um hvaðeina annað sem óeðlilegt gæti talist.

12. gr.

Uppsögn þátttöku og viðurlög.

Aðili, sem hyggst segja upp aðild að millibankamarkaði samkvæmt reglum þessum, skal til­kynna Seðlabanka Íslands þá ákvörðun skriflega með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara.

Telji Seðlabanki Íslands að aðili standi ekki við skuldbindingar samkvæmt reglum þessum getur bankinn svipt hann samstundis aðild að millibankaviðskiptum. Sú ákvörðun skal tilkynnt öllum aðilum. Tilboð og viðskipti slíks aðila á millibankamarkaði í íslenskum krónum teljast þá ekki lengur gild millibankaviðskipti.

13. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 38. gr., sbr. 2. mgr. 4. gr. og 29. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, öðlast gildi hinn 1. janúar 2020. Jafnframt falla þá úr gildi reglur nr. 805 frá 21. september 2009.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Auk þess sem segir í 2. gr. reglna þessara er markaðsaðilum skylt að tiltaka, meðal bindandi inn- og útlánstilboða, annars vegar níu mánaða inn- og útlán að lágmarksfjárhæð 50 m.kr., og hins vegar tólf mánaða inn- og útlán að lágmarksfjárhæð 50 m.kr. Bráðabirgðaákvæði þetta fellur úr gildi frá og með 1. júlí 2020.

Reykjavík, 18. desember 2019.

Seðlabanki Íslands,

  Rannveig Sigurðardóttir
aðstoðarseðlabankastjóri.
 Sturla Pálsson
framkvæmdastjóri.

                                                      

                                                       


B deild - Útgáfud.: 19. desember 2019