1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar gilda um tilhögun í kjörfundarstofu við kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, við forsetakjör og við þjóðaratkvæðagreiðslur.
2. gr.
Kjörklefi.
Kjörklefi skal vera rúmgóður og bjartur og afmarkaður með tjaldi eða skilrúmi, þannig að kjósandi geti greitt þar atkvæði án þess að aðrir sjái til. Í kjörklefa skal vera borð eða plata sem skrifa má við og skriffæri sem kjörstjórn leggur til.
3. gr.
Aðgengi.
Tryggja skal að kjörstaður, kjörfundarstofa og kjörklefi séu aðgengileg öllum.
4. gr.
Atkvæðakassi.
Í kjörfundarstofu skal vera atkvæðakassi sem uppfyllir þær kröfur sem kveðið er á um í 2. mgr. 79. gr. kosningalaga og í reglugerð um kjörgögn, atkvæðakassa o.fl. við kosningar.
5. gr.
Upplýsingar um framboð og kosningaleiðbeiningar.
Tryggja skal að aðgengi kjósanda að upplýsingum um framboð og kosningaleiðbeiningar sé í samræmi við reglugerð um kjörgögn, atkvæðakassa o.fl. við kosningar.
6. gr.
Gildistaka og lagastoð.
Reglur þessar eru settar skv. 2. mgr. 79. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og taka þegar gildi. Við gildistöku reglna þessara falla úr gildi fyrri reglur um tilhögun í kjörfundarstofu við sveitarstjórnarkosningar frá 12. apríl 2022, nr. 433/2022.
Landskjörstjórn, 20. október 2023.
Kristín Edwald. |
|
Ólafía Ingólfsdóttir. |
Hulda Katrín Stefánsdóttir. |
|
Ebba Schram. |
Magnús Karel Hannesson. |
Ástríður Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri.
|