1. gr.
Á eftir 8. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, 8. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Skyldur ferðamanns frá hááhættusvæði.
Þrátt fyrir 7. og 8. gr. er ferðamanni, sem hefur dvalið meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum á hááhættusvæðum skv. 2. mgr., hvort sem hann hefur tengsl við Ísland eða ekki, bólusettur eða ekki, með sögu um fyrri sýkingu af völdum COVID-19 eða ekki, skylt að fara í PCR-sýnatöku á landamærastöð eða annars staðar þar sem sóttvarnalæknir ákveður við komuna til landsins og síðan í sóttkví þangað til niðurstöður liggja fyrir úr annarri PCR-sýnatöku sem skylt er að undirgangast og framkvæma skal 5 dögum eftir komu til landsins. Börn fædd 2016 og síðar eru undanskilin þessum reglum.
Til hááhættusvæða teljast eftirfarandi ríki:
- Botsvana
- Esvatíní
- Lesótó
- Mósambík
- Namibía
- Simbabve
- Suður-Afríka
Ferðamanni samkvæmt þessu ákvæði er enn fremur skylt að forskrá sig, sbr. 1. mgr. 8. gr. og framvísa neikvæðu COVID-19 prófi, sbr. 1. málsl. b-liðar 2. mgr. 8. gr. Ferðamenn með tengsl við Ísland eru undanþegnir skyldu að framvísa neikvæðu COVID-19 prófi samkvæmt þessu ákvæði.
2. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 13. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breytingum, tekur þegar gildi.
Heilbrigðisráðuneytinu, 27. nóvember 2021.
Svandís Svavarsdóttir.
Ásta Valdimarsdóttir.
|