Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 977/2018

Nr. 977/2018 23. október 2018

REGLUR
um meistara- og doktorsnám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um meistara- og doktorsnám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Heimilt er skv. þessum reglum að efna til meistara- og doktorsnáms í líftölfræði og faraldsfræði og eftir atvikum fleiri greinum er tengjast lýðheilsuvísindum og fallið geta undir hugtakið lýðheilsuvísindi. Jafnframt er heimilt að bjóða nám til viðbótardiplómu á meistarastigi í þessum þremur greinum. Námið er þverfaglegt og skipulagt sameiginlega af Miðstöð í lýðheilsuvísindum, félagsvísindasviði og heilbrigðisvísindasviði og einstökum deildum þeirra og eftir atvikum deildum annarra fræðasviða sem aðild kunna að eiga að náminu. Reglur um námið eru sérreglur gagnvart ákvæðum 69. gr. reglna nr. 569/2009, fyrir Háskóla Íslands, og reglum einstakra fræðasviða og deilda um fram­halds­nám. Sameiginlegar reglur Háskóla Íslands og reglur fræðasviða og deilda gilda þó eftir því sem við á ef þessar reglur hafa ekki að geyma ákvæði um einstök tilvik, þar með talið um tíma­lengd náms, einingafjölda, samsetningu náms, umsjónarkennara, leiðbeinendur og and­mæl­endur. Fyrirvarar deilda í reglum og kennsluskrá um fjárveitingar, fáanlegt kennaralið og slík atriði gilda gagnvart þeim nemendum sem skráðir eru í námið.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sbr. nánar 66. gr. reglna nr. 569/2009. Standa ber skil á upplýsingum og gögnum sem Miðstöðin kallar eftir.

2. gr.

Markmið.

Meistara- og doktorsnám í lýðheilsuvísindum, þ.m.t. líftölfræði og faraldsfræði og eftir atvikum í öðrum greinum sem fallið geta undir hugtakið lýðheilsuvísindi, er þverfaglegt nám sem miðar að því að veita fræðilega menntun á ýmsum sviðum er snerta lýðheilsu í víðum skilningi. Með náminu skal koma til móts við þarfir samfélagsins um rannsóknir, kennslu, þróun, þjónustu og stefnumótun í tengslum við lýðheilsu og efla þekkingu á því sviði.

3. gr.

Um námið.

Námið er skipulagt af Miðstöð í lýðheilsuvísindum á heilbrigðisvísindasviði í samvinnu við og í umboði þeirra fræðasviða og háskóladeilda sem aðild eiga að því. Aðild að náminu felur í sér að viðkomandi fræðasvið og deild eru bundin af reglum þessum, svo og af samkomulagi um námið, sbr. 2. mgr.

Forsetar félagsvísindasviðs og heilbrigðisvísindasviðs hafa forgöngu um að gert sé almennt sam­komu­lag fræðasviða um framkvæmd námsins og þróun þess. Í því skal kveða nánar á um með hvaða hætti deildir eigi aðild að því, skipulag námsins, fyrirkomulag námstjórna einstakra náms­greina, aðkomu akademískra starfsmanna að náminu, umsýslu þess, fjármögnun og um önnur atriði sem lúta að faglegum og fjárhagslegum samskiptum.

Deildir háskólans skuldbinda sig til að bjóða upp á þau námskeið sem tilgreind eru í lýsingum kjörsviða námsins og skal námsframboð nánar tilgreint í samningum sem Miðstöð í lýðheilsu­vísindum gerir við deildir um kjörsvið. Miðstöð í lýðheilsuvísindum á heilbrigðisvísindasviði annast umsýslu námsins, s.s. upplýsingagjöf til nemenda, tilkynningar, frágang kennsluskrár og slík atriði. Nánar skal kveðið á um í samkomulagi fræðasviða hvert hlutverk heilbrigðisvísindasviðs og Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum er.

Stjórn námsins fer yfir og afgreiðir umsóknir í umboði þeirra fræðasviða og deilda sem að náminu koma, sbr. 4. gr. Við inntöku í námið er nemandi skráður í þverfaglega námsleið í lýð­heilsu­vísindum, líftölfræði eða faraldsfræði og velur þar kjörsvið eftir því sem við á. Deildin sem nemandi braut­skráist frá (heimadeild) ræðst af því hvar lokaverkefni hans er unnið og meginhluti náms hans fer fram.

4. gr.

Stjórn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum, námsstjórnir og ráðgjafahópur.

Rektor skipar stjórn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum til þriggja ára í senn og skal hámarkstími hvers stjórnarmanns að jafnaði vera sex ár. Stjórnin er skipuð sex fulltrúum: einum samkvæmt til­nefningu hvers fræðasviðs og fulltrúa sem rektor tilnefnir og er hann formaður stjórnar. Vara­menn skulu tilnefndir fyrir hvern fulltrúa. Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Forstöðumaður Miðstöðvarinnar og verkefnisstjóri sitja fundi stjórnar og aðrir kennarar eftir því sem þörf krefur að mati stjórnar.

Stjórnin ber faglega ábyrgð á náminu í umboði fræðasviða og deilda og er forstöðumanni til ráðgjafar um allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir Miðstöðina. Hún fer með öll sameiginleg málefni námsins, skipuleggur það og hefur yfirumsjón með því. Stjórnin tryggir gæði námsins m.a. með því að yfirfara og samþykkja umsóknir, samþykkja námsáætlanir og breytingar á þeim. Hún sendir samþykktar umsóknir, ásamt rannsóknaráætlun, til rannsóknarnámsnefnda deilda eða eftir því sem kveðið er á um í reglum viðkomandi deildar. Prófdómarar eru tilnefndir samkvæmt reglum heima­deildar leiðbeinanda. Stjórnin hefur forgöngu um undirbúning samninga milli háskóladeilda og við erlenda háskóla um doktorsnám í samvinnu við Miðstöð framhaldsnáms.

Stjórn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum skipar þriggja manna námsstjórn fyrir hverja námsgrein sem undir Miðstöðina falla, að fengnum tillögum frá leiðandi kennara í viðkomandi námsgrein og að höfðu samráði við viðkomandi fræðasviðsforseta. Í námsstjórn skulu að jafnaði sitja fulltrúar þeirra deilda sem að námsgreininni koma. Skipað er til tveggja ára í senn og skal hámarkstími hvers stjórnarmanns að jafnaði vera fjögur ár.

Forstöðumaður og verkefnisstjóri Miðstöðvarinnar sitja fundi námsstjórnar, eftir því sem þurfa þykir og skulu námsstjórnir halda forstöðumanni upplýstum um starf þeirra.

Stjórnarfundir Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum skulu haldnir a.m.k. einu sinni á hverju misseri, en umfram það er skylt að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Falli atkvæði jöfn við atkvæðagreiðslu í stjórn sker atkvæði formanns úr. Stjórninni er heimilt að skipa ráðgjafahóp sér til ráðuneytis, samkvæmt tilnefningum frá deildum og samstarfsaðilum.

5. gr.

Forstöðumaður.

Rektor skipar forstöðumann Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum og varamann hans úr hópi kennara með starfsskyldu við eina af þremur námsgreinum Miðstöðvarinnar, að fenginni tilnefningu stjórnar Miðstöðvarinnar. Forstöðumaður, sem skal hafa dósentshæfi hið minnsta, er skipaður til tveggja ára í senn. Hann stýrir námsleiðunum í samráði við stjórn Miðstöðvarinnar og námsstjórnirnar, hefur eftirlit með starfseminni, fylgist með kennsluháttum og öðru sem varðar námið og samstarfi við einstakar deildir sem að því koma. Stjórnunarlegt hlutverk forstöðumanns varðandi hið þver­fræði­lega nám er þannig hliðstætt hlutverki deildarforseta. Hann er faglegur leiðtogi námsins. Forstöðu­maður á sæti á deildarfundum þeirrar deildar háskólans sem hann er ráðinn til og hefur rétt til setu sem áheyrnarfulltrúi á fundi stjórnar heilbrigðisvísindasviðs. Deildarforseti þeirrar deildar sem forstöðumaður tilheyrir er faglegur yfirmaður forstöðumanns. Kveðið er nánar á um hlutverk, umbun, ábyrgð og skyldur forstöðumanns í erindisbréfi sem rektor setur.

6. gr.

Akademískir starfsmenn námsins.

Akademískir starfsmenn námsins eru ráðnir til tiltekinnar deildar fræðasviðs Háskóla Íslands með starfsskyldu við eina eða fleiri af námsgreinum Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum. Akademískir starfs­menn námsins sækja reglubundna kennarafundi í Miðstöðinni í viðkomandi námsgrein. Þeir hafa jafnframt aðsetur í deildinni sem þeir eru ráðnir til og er sú deild skilgreind sem þeirra heima­deild og sitja þeir deildarfundi hennar og hafa þar atkvæðisrétt. Nánar er kveðið á um skyldur og réttindi starfsmanna í samningi heimadeildar og Miðstöðvarinnar sem forseti viðkomandi fræða­sviðs stað­festir. Í samningi komi m.a. fram hvar kennarinn sækir þjónustu varðandi rannsóknir, aðstoðar­kennara o.þ.h. Kennsluskylda akademískra starfsmanna námsins er við Miðstöð í lýðheilsu­vísindum og við heimadeild samkvæmt hlutföllum sem getið er um í ráðn­ingar­samningi. Aðrar skyldur eru samsvarandi starfsmönnum heimadeildar og nýtur starfs­maður sömu réttinda og þeir hvað það varðar.

II. KAFLI

Ákvæði um meistaranám í lýðheilsuvísindum
og um nám til viðbótardiplómu á meistarastigi.

7. gr.

Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur fyrir meistaranámið er til 15. apríl fyrir innritun á haustmisseri, en frestur erlendra umsækjenda er til 1. febrúar. Heimili stjórn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum innritun á vormisseri skal sá umsóknarfrestur vera til 15. október. Stjórnin getur veitt undanþágu frá þessum tíma­setningum ef sérstaklega stendur á.

8. gr.

Meðferð umsókna.

Umsóknum merktum „Lýðheilsuvísindi“ skal skilað til nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á vef skólans. Eftir skráningu gagna í nemendaskrá sér Miðstöð í lýðheilsuvísindum um úrvinnslu þeirra. Viðeigandi námsstjórn námsgreinar fjallar um og afgreiðir umsóknir til stjórnar Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum og ber að líta til gæða þeirra og inntökuskilyrða. Umsókn skal fylgja námsáætlun, þar með talið áform um kjörsvið og fyrirhuguð valnámskeið. Ferli umsókna um nám til viðbótardiplómu og meistaranám í lýðheilsuvísindum er eftirfarandi:

  1. Stúdent sækir um inngöngu í námið á rafrænu eyðublaði á vef háskólans. Skrifstofa Mið­stöðvar í lýðheilsuvísindum vinnur úr umsóknum og sendir til viðeigandi námsstjórnar, sbr. 4. gr.
  2. Greint skal frá því hvort umsækjandi hyggst sækja um fjárstuðning í tengslum við námið (t.d. til Rannsóknanámssjóðs, fyrirtækja eða stofnana). Liggi fyrir drög að umsókn til sjóða skulu þau fylgja umsókninni. Ef rannsóknarverkefni er unnið utan deilda Háskóla Íslands skal fylgja með yfirlýsing fyrirtækis eða stofnunar sem verkefnið er unnið hjá. Þessi yfirlýsing skal staðfesta þátttöku fyrirtækis eða stofnunarinnar í verkefninu.
  3. Afgreiðslu umsóknar skal að jafnaði vera lokið og henni svarað skriflega innan sex vikna frá því að umsóknarfrestur rennur út. Umsókn er synjað ef hún uppfyllir ekki gæðakröfur.
  4. Nemandi sem stjórn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum og viðkomandi deild/fræðasvið hefur samþykkt í meistaranám eða nám til viðbótardiplómu skal snúa sér til nemendaskrár og ganga frá skráningu og greiðslu skrásetningargjalds komandi háskólaárs. Um skráningu og greiðslu skrásetningargjalds fer eftir sameiginlegum reglum Háskóla Íslands.

9. gr.

Inntökuskilyrði.

Til að innritast í meistaranám þarf umsækjandi að hafa lokið BS- eða BA-prófi eða öðru háskóla­námi sem metið er jafngilt fyrsta háskólaprófi. Stjórn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum metur próf frá öðrum skólum en Háskóla Íslands. Stjórnin getur sett sér sérstök viðmið um inntöku inn í námið, sem falla að reglum Háskóla Íslands.

10. gr.

Einingafjöldi og tímalengd náms.

Meistaranám í lýðheilsuvísindum og greinum sem undir það hugtak falla, sbr. 1. gr., er 120 einingar (ECTS). Miðað skal við að lengd námsins sé tvö ár (fjögur misseri). Hámarksnámstími til meist­ara­prófs er sex misseri frá því stúdent var skrásettur í námið. Stjórn Miðstöðvar í lýð­heilsu­vísindum er heimilt, að höfðu samráði við viðkomandi deild, að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Við brautskráningu skal stúdent sýna fram á að hann hafi verið skráður og greitt skráningargjald allan námstímann, eða samkvæmt nánari reglum sem háskól­inn kann að setja.

Nám til viðbótardiplómu er 30 einingar að loknu BS- eða BA-prófi eða öðru háskólanámi sem metið er jafngilt fyrsta háskólaprófi og skal miða við að diplómanámið sé tvö misseri í hlutanámi. Hámarksnámstími er þrjú misseri frá því stúdent var skrásettur í námið. Stjórn er heimilt, að höfðu samráði við viðkomandi deild, að veita undanþágu frá þessum tímamörkum, þegar sérstaklega stendur á. Við námslok skal stúdent sýna fram á að hann hafi verið skráður og greitt skrán­ingar­gjald allan námstímann, eða samkvæmt nánari reglum sem háskólinn kann að setja.

11. gr.

Námsleiðir, framvinda og samsetning náms.

Námið skal fela í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og þátttöku í námskeiðum á fram­halds­námsstigi. Þungamiðja meistaranámsins er rannsóknar- eða þróunarverkefni innan lýðheilsu­vísinda og ritgerð sem byggist á því. Stærð verkefnisins er ákveðin í rannsóknaráætlun á 2. misseri náms og skal vera minnst 30 einingar en mest 60 einingar. Aðrar einingar fást með þátttöku í nám­skeiðum, málstofum eða lesnámskeiðum.

Allir nemendur í meistaranámi þurfa að hafa lokið tilteknum skyldunámskeiðum, þ.e. skyldukjarna, til að útskrifast með MPH-gráðu í lýðheilsuvísindum, MS í faraldsfræði eða MS í líftölfræði við Háskóla Íslands. Námskeið í skyldukjarna eru tilgreind í kennsluskrá. Stjórn Miðstöðvar í lýð­heilsu­vísindum mótar reglur um það hvort og þá hvernig fyrra nám getur komið í stað skyldu­námskeiða. Við lok fyrsta misseris skal nemandi hafa valið sér leiðbeinanda fyrir rann­sóknar­verkefni og veitir kennari Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum aðstoð við valið. Þá skal liggja fyrir lýsing á rann­sóknar­verkefni og áætlun um framkvæmd þess undir lok 2. misseris. Stjórn Mið­stöðvarinnar fjallar um lýsinguna og áætlunina, að fengnum tillögum námsstjórnar viðkomandi náms­greinar, áður en þær eru sendar til fastanefndar hlutaðeigandi deildar/fræðasviðs til stað­fest­ingar.

12. gr.

Námskeið í grunnnámi sem hluti af framhaldsnámi.

Námskeið í framhaldsnámi skulu að jafnaði vera sérstök framhaldsnámskeið við Háskóla Íslands eða aðrar viðurkenndar stofnanir. Nemendum í meistaranámi er heimilt að taka námskeið í grunn­námi sem hluta af framhaldsnámi, enda sé það nauðsynleg undirstaða hins þverfaglega náms að mati stjórnar Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum. Miðað skal við að námskeið úr grunnnámi nemi ekki fleiri einingum en 12 af 120. Miðað skal við að lágmarkseinkunn úr námskeiðum í grunnnámi sé 6,0.

13. gr.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi.

Sérhver meistaranemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara úr hópi fastra akademískra starfsmanna Háskóla Íslands sem hann ráðfærir sig við um skipulag námsins, val námskeiða og leiðbeinanda með rannsóknarverkefni, ef við á, og annað sem tengist náminu. Umsjónarkennari ásamt nemanda leggur fram áætlun um rannsóknarverkefni sem stjórn Miðstöðvar í lýðheilsu­vísindum samþykkir. Umsjónarkennari og leiðbeinandi eru að jafnaði sami maðurinn. Nemanda er heimilt að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda enda uppfylli hann kröfur þessara reglna. Ef umsjónar­kennari og leiðbeinandi eru ekki sami maðurinn, þá hefur umsjónarkennari umsjón með náminu og er ábyrgur fyrir því að það sé í samræmi við kröfur viðkomandi deildar, en leiðbeinandi sér um að leiðbeina nemanda í rannsóknarverkefni.

14. gr.

Kröfur til umsjónarkennara og leiðbeinanda.

Umsjónarkennari skal vera akademískur starfsmaður í fullu starfi við Háskóla Íslands og að öðru jöfnu koma úr þeirri deild þar sem meginhluti náms fer fram og sem nemandi mun brautskrást frá að námi loknu. Ef leiðbeinandi kemur ekki úr þeim hópi skal hann að jafnaði hafa lokið doktorsprófi á viðkomandi fræðasviði. Gæta þarf þess að verkefni nemandans sé á sérsviði leiðbeinandans.

15. gr.

Meistaranámsnefndir.

Meistaranámsnefndir eru skipaðar þremur sérfróðum mönnum, þar á meðal eru leiðbeinandi og umsjónarkennari. Ef megináherslan í meistaranámi er á námskeið með 30 eininga rann­sóknar­verkefni er ekki nauðsynlegt að skipa nefnd um hvern nemanda. Umsjónarkennari tryggir þá að námsframvinda sé í samræmi við námsáætlun og er hann jafnframt ábyrgur fyrir faglegum gæðum námsins. Námsstjórnir fjalla um tilnefningar í meistaranámsnefndir áður en þær fara til fastanefndar hlutaðeigandi deildar/fræðasviðs til staðfestingar. Hlutverk meistara­náms­nefndar er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við námsáætlun, svo og að tryggja fagleg gæði rannsóknarvinnunnar í samræmi við reglur. Meistaranámsnefnd fundar a.m.k. tvisvar með nemandanum á námstímanum og leiðbeinandi skilar framvinduskýrslu til skrifstofu Mið­stöðvar í lýðheilsuvísindum við lok 3. og 4. misseris. Stjórnin getur vikið frá ákvæðum þessarar greinar ef sérstaklega stendur á.

16. gr.

Prófdómarar.

Forseti fræðasviðs skipar prófdómara að fengnum tillögum fastanefndar viðkomandi deildar/fræða­sviðs eða eftir reglum viðkomandi útskriftardeildar. Prófdómari og meistaranámsnefnd prófa meist­ara­nema og leggja mat á lokaverkefnið. Prófdómari skal ekki vera tengdur rann­sóknar­verkefninu.

17. gr.

Námsmat og meistarapróf.

Þegar ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats staðfest námsferilsyfirlit nemanda. Um einkunnir gilda ákvæði samkvæmt reglum fyrir Háskóla Íslands. Í meistaraprófi fyrir 60 eininga lokaverkefni flytur nemandi fyrirlestur um lokaverkefnið ef reglur deildar kveða á um það, en að honum loknum er nemandinn prófaður. Prófdómari, ásamt meistaranámsnefnd, meta frammistöðu nemanda og úrskurða hvort nemandi hafi staðist prófið. Ef lokaverkefni er 30 einingar er skipaður prófdómari sem metur frammistöðu nemanda og úrskurðar hvort nemandi hafi staðist prófið.

18. gr.

Skil og frágangur meistararitgerða.

Meistaraprófsritgerð skal leggja fram fyrir meistaraprófsnefnd og prófdómara minnst þremur vikum fyrir áætlaðan prófdag. Að auki skal skila fjórum eintökum til skrifstofu Miðstöðvar í lýðheilsu­vísindum. Af þeim eintökum er eitt sent til heimadeildar leiðbeinanda. Nemendur bera ábyrgð á að skila rafrænu eintaki í gagnasafn Skemmu sem Landsbókasafn Íslands – Háskóla­bóka­safn rekur. Við frágang lokaverkefnis og meðferð heimilda skal nemandi fylgja reglum þeirrar deildar sem hann brautskráist frá, þ.e. heimadeildar leiðbeinanda. Koma skal skýrt fram að verkefnið sé unnið í lýðheilsuvísindum og við þá deild sem nemandinn brautskráist frá. Í formála skal geta samstarfs­aðila og þeirra sjóða sem styrkt hafa verkefnið, ef það á við. Ritgerð skal vera á íslensku eða ensku, en útdráttur á báðum tungumálum skal fylgja. Æskilegt er að ritgerð 60 eininga verkefnis hafi verið send til birtingar í viðurkenndu vísindatímariti.

19. gr.

Tengsl við aðra háskóla.

Hluta meistaranáms má taka við aðra háskóla eða viðurkenndar rannsókna- eða vísindastofnanir.

20. gr.

Lærdómstitill.

Meistarapróf samkvæmt þessum reglum veitir rétt til lærdómstitilsins Master of Public Health (MPH), Master of Science in Epidemiology (MS) eða Master of Science in Biostatistics (MS).

III. KAFLI

Ákvæði um doktorsnám í lýðheilsuvísindum.

21. gr.

Um doktorsnám í lýðheilsuvísindum.

Markmið doktorsnáms í lýðheilsuvísindum og þeim greinum sem undir það hugtak falla, sbr. 1. gr., er að veita doktorsnemum vísindalega þjálfun og búa þá undir vísindastörf, t.a.m. háskólakennslu eða sérfræðingsstörf hjá vísindalegum rannsóknastofnunum.

Doktorsnámið fer fram á faglegri ábyrgð stjórnar Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum og hlutaðeigandi deildar sem brautskráir doktorsnemann. Doktorsnemi skal ljúka tilteknum námskeiðum í lýð­heilsu­vísindum samkvæmt ákvörðun hlutaðeigandi námsstjórnar hverju sinni. Liggja skal fyrir að stjórn Mið­stöðvar í lýðheilsuvísindum og námsstjórn námsgreinar sem í hlut á telji nauðsynlega aðstöðu og sérþekkingu fyrir hendi, í samræmi við gildandi viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands. Hafa ber samráð við Miðstöð framhaldsnáms um fagleg skilyrði, framkvæmd námsins og önnur atriði, sbr. 66. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Fastanefnd hlutaðeigandi deildar/fræðasviðs skipar þrjá til fimm sérfróða menn í doktorsnefnd fyrir doktorsnemann samkvæmt tilnefningu þeirrar deildar sem brautskráir nemandann að námi loknu og skal a.m.k. einn þeirra starfa utan viðkomandi deildar. Námsstjórnir námsgreina fjalla um til­nefningar í doktorsnefndir áður en þær fara til fastanefndar viðkomandi deildar/fræðasviðs til stað­fest­ingar. Hlutverk doktorsnefndar er hliðstætt hlutverki meistaranámsnefndar. Hún kveður doktors­efni á sinn fund eftir því sem þurfa þykir meðan á náminu stendur og prófar doktorsnemann í almennri fræðilegri þekkingu og rannsóknaraðferðum á viðkomandi sviði. Slíkt próf skal fara fram um miðbik námsins. Áður en til doktorsvarnar getur komið skilar doktorsnefnd doktorsnemans í samvinnu við doktorsnámsnefnd hlutaðeigandi deildar/fræðasviðs rökstuddu áliti til deildar um það hvort veita skuli doktorsefni kost á að leggja ritgerð fram til doktorsvarnar. Reglur hlutaðeigandi fræða­sviðs/deildar um doktorsnám gilda að því marki sem ekki er kveðið á um einstök tilvik í reglum þessum.

22. gr.

Umsóknarfrestur.

Heimilt er að taka við umsóknum um doktorsnám allt árið um kring.

23. gr.

Inntökuskilyrði.

Stúdent sem lokið hefur MPH-prófi í lýðheilsuvísindum eða MS-prófi í faraldsfræði eða líftölfræði með fyrstu einkunn frá Háskóla Íslands, eða samsvarandi prófi frá öðrum háskóla, getur sótt um aðgang að doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Ef undirbúningur doktorsnemans er ekki jafngildur þeim undirbúningi sem meistarapróf á sérsviðinu á að tryggja, skal gera kröfur um frekara nám eftir því sem ástæða þykir til. Því skal doktorsnemi að jafnaði ljúka með því að sækja námskeið á viðkomandi sérsviði. Stjórn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum, að höfðu samráði við doktorsnámsnefnd hlutaðeigandi fræðasviðs/deildar, metur hvenær doktorsefni hefur uppfyllt þessar forkröfur. Ef stúdent hyggst hefja doktorsnám strax að loknu meistaraprófi getur hann sótt um það áður en hann lýkur prófi, ef fyrir liggur staðfesting viðkomandi háskóladeildar um að hann muni væntanlega ljúka náminu með fullnægjandi árangri áður en doktorsnám hefst. Doktorsnám getur enginn hafið fyrr en inntökuskilyrðum hefur verið fullnægt til hlítar.

24. gr.

Meðferð umsókna.

Stjórn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum fjallar um umsóknir um doktorsnám, að fengnum tillögum við­komandi námsstjórna, áður en þær eru sendar til fastanefndar viðkomandi deildar/fræðasviðs til stað­festingar. Telji stjórn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum forsendur til þess að umsækjandi geti stundað námið hefur hún forgöngu um gerð einstaklingsbundins samnings um framkvæmd þess með aðild hlutaðeigandi háskóladeilda og eftir atvikum erlendra háskóla. Í þeim samningi skal kveðið á um inntak og tilhögun námsins, framkvæmd rannsóknarverkefnis og fjármögnun. Enn fremur skal þar fjallað um skipan leiðbeinenda og önnur atriði skv. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

25. gr.

Skil og frágangur doktorsritgerða.

Reglur um doktorsnám einstakra deilda kveða á um skilafrest lokaverkefnis og um fjölda eintaka lokaverkefnis, kostnað vegna þeirra og skil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Koma skal skýrt fram að verkefnið sé unnið við Háskóla Íslands og tilgreina skal leiðbeinendur, fræðasvið, deild og rannsóknastofnun, ef við á. Í formála skal geta samstarfsaðila og þeirra sjóða sem styrkt hafa verkefnið, ef það á við. Ritgerð má vera á ensku og háskóladeild getur veitt manni leyfi til að tala ensku við doktorspróf. Hverri doktorsritgerð skal fylgja útdráttur á íslensku og ensku.

26. gr.

Lærdómstitill.

Doktorspróf samkvæmt þessum reglum veitir rétt til lærdómstitilsins Doctor of Philosophy, philosophiae doctor, (Ph.D), í lýðheilsuvísindum, líftölfræði eða faraldsfræði.

IV. KAFLI

Önnur ákvæði.

27. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði með heimild í 3. mgr. 18. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Reglurnar hafa verið samþykktar af viðkomandi fræðasviðum, háskóladeildum og Miðstöð framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur um meistara- og doktorsnám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, nr. 213/2011. Auk birtingar í B-deild Stjórnartíðinda, í samræmi við 1. mgr. 28. gr. laga nr. 85/2008, skal birta reglurnar í kafla þverfræðilegs náms í kennsluskrá og á heimasíðu Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum á vef Háskóla Íslands.

Háskóla Íslands, 23. október 2018.

Jón Atli Benediktsson.

Þórður Kristinsson.


B deild - Útgáfud.: 7. nóvember 2018