Við greinina bætast þrír nýir stafliðir, svohljóðandi:
- að taka á móti skipulagsáætlunum og gera þær aðgengilegri öllum með stafrænum hætti,
- að vera raflínunefnd til ráðgjafar og annast gerð raflínuskipulags í þeirra umboði,
- að starfrækja landfræðilega gagna- og samráðsgátt í samræmi við ákvæði skipulagslaga.
4. gr.
Á eftir 3. mgr. 2.4. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein sem orðast svo: Um aðkomu skipulagsfulltrúa að vinnu við raflínuskipulag og eftirlit með framkvæmdum sem raflínunefnd veitir leyfi fyrir fer samkvæmt ákvæðum 7. kafla þessarar reglugerðar.
5. gr.
Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 2.7. gr. reglugerðarinnar:
- 5. mgr. orðast svo: Við gerð skipulagsáætlana skal gera grein fyrir umhverfisáhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina koma, og umhverfismati áætlunarinnar. Þegar framkvæmd sem fellur undir málsmeðferð IV. kafla laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana kallar jafnframt á skipulagsgerð á grundvelli skipulagslaga er sveitarstjórn heimilt, í samráði við framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnun, að sameina skýrslugerð um skipulagstillöguna og umhverfismat hennar og skýrslugerð um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Sama gildir um kynningu fyrir almenningi og umsagnaraðilum samkvæmt skipulagslögum og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Skal þá skipulagstillaga kynnt með þeim valkostum sem gerð er grein fyrir í umhverfismati framkvæmdar. Þegar skýrslugerð er sameinuð samkvæmt þessari málsgrein getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaraðila heimild til að vinna að umhverfismati skipulagstillögunnar.
- Við 6. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Jafnframt skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um verndarsvæði í byggð samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð.
- 7. mgr. orðast svo: Gildandi skipulagsáætlanir skulu vera í innbyrðis samræmi. Svæðisskipulag er rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Raflínuskipulag er rétthærra en svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag fyrir þá framkvæmd sem það tekur til. Þegar raflínuskipulag hefur verið samþykkt skal hver sveitarstjórn sjá til þess að framkvæmdin sé tekin upp í aðalskipulag sveitarfélagsins við næstu endurskoðun þess, þó eigi síðar en fjórum árum frá samþykkt raflínuskipulagsins í samræmi við ákvæði þess. Við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytinga á skipulagsáætlunum skulu sveitarstjórnir taka mið af gildandi landsskipulagsstefnu.
6. gr.
Úr 2. mgr. 3.2.2. gr. reglugerðarinnar falla brott orðin „, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um umhverfismat áætlana“.
7. gr.
Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 3.2.3. gr. reglugerðarinnar:
- E-liður orðast svo: tengslum við aðra áætlanagerð á svæðinu og aðliggjandi svæðum svo sem strandsvæðisskipulag og raflínuskipulag ef það liggur fyrir, hagrænar áætlanir, landsskipulagsstefnu og aðrar áætlanir um landnotkun á landsvísu, svo sem um loftslagsmál, samgöngur, orkuvinnslu, landbúnað og umhverfisvernd, verndar- og orkunýtingaráætlun, kerfisáætlun sem unnin er á grundvelli raforkulaga og aðra stefnumótun sem tengist viðfangsefninu. Lýsa þarf áhrifum þessara áætlana á skipulagsgerðina,
- Í stað „og lög um umhverfismat áætlana, þegar það á við.“ í i-lið kemur: og lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
8. gr.
Við d-lið 2. mgr. 3.3.1. gr. reglugerðarinnar bætist: sem og aðra opinbera áætlanagerð, sbr. e-lið 3.2.3. gr.,.
9. gr.
Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 3.4. gr. reglugerðarinnar:
- Í stað orðanna „Í umhverfismati svæðisskipulags skulu eftirfarandi meginatriði koma fram“ í 1. mgr. kemur: Um umhverfismat svæðisskipulags fer eftir ákvæðum laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í umhverfismati svæðisskipulags skulu jafnframt eftirfarandi meginatriði koma fram.
- 2. mgr. fellur brott.
- 3. mgr. (áður 4. mgr.) orðast svo: Geri svæðisskipulagstillaga ráð fyrir framkvæmdum sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana skal gerð grein fyrir þeim.
10. gr.
Úr 2. mgr. 4.2.2. gr. reglugerðarinnar falla brott orðin „, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um umhverfismat áætlana“.
11. gr.
Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 4.2.3. gr. reglugerðarinnar:
- E-liður orðast svo: tengslum við aðra áætlanagerð á svæðinu og aðliggjandi svæðum svo sem svæðisskipulag, strandsvæðaskipulag og raflínuskipulag, landsskipulagsstefnu og aðrar áætlanir um landnotkun á landsvísu, svo sem um loftslagsmál, samgöngur, orkuvinnslu, landbúnað og umhverfisvernd, skipulagsáætlanir aðliggjandi sveitarfélaga, verndar- og orkunýtingaráætlun, kerfisáætlun sem unnin er á grundvelli raforkulaga og aðra stefnumótun sem tengist viðfangsefninu. Lýsa þarf áhrifum þessara áætlana á skipulagsgerðina,
- I-liður orðast svo: hvernig staðið verði að umhverfismati áætlunar sbr. 4.4. gr. og lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
12. gr.
Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 4.4.1. gr. reglugerðarinnar:
- Í stað orðanna „Í umhverfismati aðalskipulags skulu eftirfarandi meginatriði koma fram“ í 1. mgr. kemur: Um umhverfismat aðalskipulags fer eftir ákvæðum laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í umhverfismati aðalskipulags skulu jafnframt eftirfarandi meginatriði koma fram.
- 2. mgr. fellur brott.
- 3. mgr. (áður 4. mgr.) orðast svo: Geri aðalskipulagstillaga ráð fyrir framkvæmdum sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana skal gerð grein fyrir þeim í skipulagstillögunni.
13. gr.
Úr 3. mgr. 5.2.2. gr. reglugerðarinnar falla brott orðin „, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um umhverfismat áætlana“.
14. gr.
Í stað tilvísana til laga um mat á umhverfisáhrifum í fyrirsögn og meginmáli 5.3.2.19. gr. reglugerðarinnar er vísað til laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
15. gr.
Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 5.4.1. gr. reglugerðarinnar:
- Við bætist ný mgr. sem verður 1. mgr. og orðast svo: Um umhverfismat deiliskipulags fer eftir ákvæðum laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í umhverfismati deiliskipulags skulu jafnframt koma fram þau meginatriði sem tilgreind eru í 2.-5. mgr.
- 6. mgr. (áður 5. mgr.) 5.4.1. gr. fellur brott.
16. gr.
Á eftir 6. kafla reglugerðarinnar bætist nýr kafli sem verður 7. kafli og breytast númer annarra kafla og greina til samræmis við það. Kaflinn orðast svo ásamt fyrirsögn:
7. KAFLI
Raflínuskipulag.
7.1. gr.
Raflínuskipulag og raflínunefnd.
7.1.1. gr.
Gildissvið.
Ákvæði þessa kafla gilda um málsmeðferð við gerð raflínuskipulags og störf raflínunefnda sem skipaðar eru af ráðherra skv. 9. gr. a. í skipulagslögum.
7.1.2. gr.
Raflínunefnd.
Um skipan raflínunefndar fer eftir ákvæðum 9. gr. a skipulagslaga.
Fulltrúar í raflínunefnd starfa í umboði þeirra sveitarfélaga og ráðherra sem tilnefna þá og ber þeim að upplýsa tilnefningaraðila um vinnu raflínunefndar og ákvarðanatöku. Formaður raflínunefndar er í forsvari fyrir nefndina.
Raflínunefnd vinnur tillögu að raflínuskipulagi í samræmi við ákvæði skipulagslaga og reglugerð þessa.
Valdsvið og verkefni raflínunefndar skal nánar afmarka í skipunarbréfi ráðherra.
7.1.3. gr.
Hlutverk Skipulagsstofnunar við gerð raflínuskipulags.
Skipulagsstofnun veitir raflínunefnd ráðgjöf og annast gerð skipulagslýsingar og tillögu að raflínuskipulagi í umboði nefndarinnar samkvæmt þeirri málsmeðferð sem kveðið er á um í skipulagslögum.
Skipulagsstofnun annast framkvæmd ákvarðana raflínunefndar og umsýslu vegna starfsemi hennar, svo sem gerð og framkvæmd verkefnisáætlunar, gagnaöflun, skipulag samráðs, auglýsingar, kynningar og undirbúning funda í samvinnu við formann. Stofnunin leggur nefndinni til fundaraðstöðu.
Skipulagsstofnun gerir kostnaðaráætlun um undirbúning og gerð raflínuskipulags og kynnir raflínunefnd og framkvæmdaraðila reglulega stöðu fjármála. Stofnunin innheimtir fyrir hönd raflínunefndar kostnað vegna skipulagsvinnunnar af framkvæmdaraðila í samræmi við gjaldskrá, sbr. 7.1.5. gr.
Skipulagsstofnun annast rekstur vefs fyrir kynningu raflínuskipulags og umhverfismats þess, auk þess sem þar skal birta upplýsingar um starfandi raflínunefndir, yfirstandandi vinnu við gerð raflínuskipulags og gildandi raflínuskipulag. Þar skal jafnframt birta fundargerðir raflínunefnda.
7.1.4. gr.
Hlutverk skipulagsfulltrúa.
Skipulagsfulltrúi annast í umboði raflínunefndar eftirlit með framkvæmdum í flutningskerfi raforku í sveitarfélaginu sem nefndin hefur veitt framkvæmdaleyfi fyrir.
Raflínunefnd greiðir af innheimtu framkvæmdaleyfisgjaldi fyrir vinnu skipulagsfulltrúa við eftirlit.
Kveðið skal nánar á um hlutverk skipulagsfulltrúa, greiðslu kostnaðar og nánara fyrirkomulag eftirlitsins með framkvæmdum í flutningskerfi raforku í samstarfssamningi raflínunefndarinnar og viðkomandi sveitarstjórnar. Kostnaður við slíkt eftirlit skal greiddur af leyfishafa sem hluti framkvæmdaleyfisgjalds, sbr. 20. gr. skipulagslaga.
7.1.5. gr.
Gjaldskrá vegna kostnaðar við gerð raflínuskipulags.
Ráðherra setur að fenginni tillögu Skipulagsstofnunar gjaldskrá vegna kostnaðar við gerð raflínuskipulags, sbr. 4. mgr. 20. gr. skipulagslaga. Þeir kostnaðarþættir sem falla þar undir eru m.a. vinna sérfræðinga og aðkeypt sérfræðiþjónusta, yfirferð á gögnum máls, vettvangsferðir, auglýsingar og kynningar, starfsemi raflínunefndar og utanumhald Skipulagsstofnunar um vinnu nefndarinnar og vinna við gerð skipulagstillögu og umhverfismatsskýrslu.
Við undirbúning tillögu að gjaldskrá skv. 1. mgr. skal Skipulagsstofnun hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og framkvæmdaraðila.
7.2. gr.
Starfshættir raflínunefnda.
7.2.1. gr.
Boðun og dagskrá funda.
Formaður raflínunefndar boðar til fundar með rafrænu fundarboði eða öðrum sannanlegum hætti með viku fyrirvara hið minnsta og ákveður dagskrá í samráði við Skipulagsstofnun. Dagskrá fundar skal fylgja fundarboði og þau gögn sem eru nauðsynleg til að fulltrúar í raflínunefnd geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem þar eru tilgreind. Jafnframt skal koma fram hvort gestir eru boðaðir á fundinn.
Fulltrúar í raflínunefnd eiga rétt á að tekið verði á dagskrá fundar raflínunefndar hvert það málefni sem varðar gerð raflínuskipulagsins.
Að jafnaði skal gefa fulltrúum í raflínunefnd kost á þátttöku í gegnum fjarfundarbúnað á fundum nefndarinnar. Formaður stýrir fundum samkvæmt dagskrá. Fundargerðir skulu jafnan lagðar fram til samþykktar í lok fundar.
Halda skal fund í raflínunefnd ef að minnsta kosti tveir fulltrúar í nefndinni óska þess eða telji formaður þess þörf. Skal þá boðað til hans eins fljótt og kostur er.
Skipulagsstofnun veitir raflínunefnd aðstoð og sitja starfsmenn stofnunarinnar fundi raflínunefndar eftir þörfum.
7.2.2. gr.
Afgreiðsla mála í raflínunefnd.
Fundur raflínunefndar er ályktunarhæfur ef meiri hluti nefndarinnar tekur þátt í fundi. Samþykki meiri hluta raflínunefndar þarf til að afgreiða einstök mál, sbr. þó 2. mgr. Falli atkvæði jafnt skal slíkum ágreiningi vísað til ráðherra, sbr. 3. mgr. 9. gr. a. í skipulagslögum.
Einróma samþykki þarf vegna afgreiðslu endanlegrar tillögu að raflínuskipulagi, sbr. 3. mgr. 11. gr. d. í skipulagslögum.
7.3. gr.
Undirbúningur raflínuskipulags, kynning og samráð.
7.3.1. gr.
Skipulagslýsing og kynning hennar.
Þegar vinna við gerð tillögu að raflínuskipulagi hefst tekur raflínunefnd saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram kemur hvaða áherslur verði við skipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur, valkosti, fyrirliggjandi stefnu stjórnvalda og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart stjórnvöldum, almenningi og öðrum hagsmunaaðilum og hvernig staðið verður að umhverfismati skipulagsáætlunar.
Lýsingin skal hljóta samþykki raflínunefndar áður en hún er send til umsagnar og kynnt. Leita skal umsagnar um lýsinguna hjá framkvæmdaraðila, hlutaðeigandi sveitarfélögum og umsagnaraðilum og kynna hana fyrir almenningi. Umsagnarfrestur skal vera eigi skemmri en fjórar vikur frá birtingu auglýsingar.
Kynna skal lýsingu fyrir almenningi í skipulagsgátt, á vef um raflínuskipulag og með öðrum áberandi hætti, svo sem með birtingu auglýsingar í víðlesnu dagblaði, með dreifibréfi eða á auglýstum íbúafundi. Þá skal kynna lýsingu á vefsíðu hlutaðeigandi sveitarfélaga. Í kynningu á lýsingu skal upplýst hvert skila megi ábendingum um efni lýsingarinnar og innan hvaða tímafrests.
Raflínunefnd skal birta yfirlit yfir framkomnar umsagnir við lýsinguna á vef um raflínuskipulag og hafa þær til hliðsjónar við gerð tillögu að raflínuskipulagi, en ekki er skylt að svara þeim með formlegum hætti.
7.3.2. gr.
Gerð tillögu að raflínuskipulagi.
Við gerð tillögu að raflínuskipulagi skal taka mið af landsskipulagsstefnu, ákvæðum raforkulaga, gildandi stefnu um flutningskerfi raforku og samþykktri kerfisáætlun. Jafnframt skal hafa hliðsjón af skipulagsáætlunum sveitarfélaga sem framkvæmdin varðar og gæta samræmis við aðrar opinberar áætlanir. Einnig ber að taka mið af stjórnvaldsfyrirmælum, öðrum lögum og lögbundnum ákvörðunum um landnotkun eftir því sem við á.
Framkvæmdaraðili skal veita raflínunefnd þær upplýsingar sem nefndin óskar eftir um fyrirhugaða raflínuframkvæmd, svo sem um leiðarval og þær rannsóknir sem liggja þar að baki, tæknileg atriði framkvæmdar og það samráð sem framkvæmdaraðili hefur átt við hagsmunaaðila.
Um breytingu á raflínuskipulagi fer eins og um nýtt raflínuskipulag væri að ræða. Ekki er þó skylt að taka saman lýsingu skv. 7.3.1. gr.
7.3.3. gr.
Framsetning tillögu að raflínuskipulagi.
Tillaga að raflínuskipulagi skal sett fram í skipulagsgreinargerð og á skipulagsuppdrætti. Í greinargerð raflínuskipulags er forsendum þess lýst og samræmi þess við aðra stefnumótun stjórnvalda sem nær til viðkomandi framkvæmdar.
Um gerð og framsetningu raflínuskipulags gilda að öðru leyti ákvæði 12. gr. skipulagslaga ásamt ákvæðum 4.5. gr. og 8.1. gr. reglugerðar þessarar um framsetningu aðalskipulags og uppdrátta.
Í titli raflínuskipulags skal koma fram að um raflínuskipulag sé að ræða og skal titillinn vera lýsandi fyrir skipulagssvæði og eftir atvikum skipulagstímabil. Þar til raflínuskipulag hefur verið endanlega samþykkt skulu skipulagsgögn merkt sem tillaga.
Nákvæmni skipulagsuppdráttar skal að jafnaði vera í mælikvarða á bilinu 1:20.000 til 1:50.000. Á uppdráttum skal samhengi við næsta nágrenni koma skýrt fram.
Raflínuskipulag skal unnið á samræmdu stafrænu formi og skal Skipulagsstofnun gera það aðgengilegt með stafrænum hætti.
7.3.4. gr.
Auglýsing tillögu að raflínuskipulagi.
Tillaga að raflínuskipulagi skal gerð og kynnt ásamt umhverfismatsskýrslu í samræmi við 14. og 15. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, þar sem gefin er lýsing og mat á valkostum sem raflínunefnd hafði til skoðunar við undirbúning raflínuskipulags. Ef álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar skal kynna alla kosti sem voru til umfjöllunar í umhverfismatsskýrslu, þar með talinn aðalvalkost framkvæmdaraðila.
Raflínunefnd skal auglýsa tillögu að raflínuskipulagi með áberandi hætti, svo sem í dagblaði sem gefið er út á landsvísu. Tillagan skal einnig auglýst í skipulagsgátt og á vef fyrir raflínuskipulag, sem og í Lögbirtingablaðinu.
Í auglýsingu skal tilgreina hvar tillagan er til sýnis og hve lengi og skal sá tími ekki vera skemmri en athugasemdafrestur. Í auglýsingu skal hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skal vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar. Tekið skal fram að athugasemdir skuli berast í skipulagsgátt.
Leita skal umsagnar um tillögu að raflínuskipulagi hjá framkvæmdaraðila, hlutaðeigandi sveitarfélögum og umsagnaraðilum.
7.4. gr.
Afgreiðsla og gildistaka raflínuskipulags.
7.4.1. gr.
Afgreiðsla raflínuskipulags.
Þegar frestur til athugasemda er liðinn skal raflínunefnd fjalla um tillögu að raflínuskipulagi á nýjan leik. Við afgreiðslu tillögunnar skal hafa hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og athugasemdum sem borist hafa við tillöguna og umhverfismatsskýrslu. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Ákveði nefndin að breyta tillögunni í grundvallaratriðum skal hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik skv. 7.3.4. gr.
Endanleg tillaga raflínunefndar ásamt athugasemdum og umsögn nefndarinnar um þær skal send hlutaðeigandi sveitarstjórnum til umsagnar. Afstaða sveitarstjórnar til tillögunnar skal send raflínunefnd innan fjögurra vikna frá því að sveitarstjórn barst tillagan. Sé sveitarstjórn mótfallin tillögunni skal sú niðurstaða rökstudd.
Tillaga að raflínuskipulagi skal tekin aftur til umfjöllunar í raflínunefnd þegar afstaða þeirra sveitarfélaga sem hún nær til liggur fyrir. Komist nefndin að sameiginlegri niðurstöðu skal tillagan send ráðherra til staðfestingar, ásamt athugasemdum sem bárust á kynningartíma, umsögnum hlutaðeigandi sveitarstjórna og afstöðu nefndarinnar til þeirra, innan átta vikna frá því að umsögn sveitarstjórna lá fyrir. Jafnframt skal nefndin senda tillögu sína ásamt umsögn til þeirra aðila sem gerðu athugasemdir á fyrri stigum tillögugerðar og auglýsa niðurstöðu nefndarinnar.
Komist raflínunefnd ekki að sameiginlegri niðurstöðu um samþykkt tillögunnar innan átta vikna frá því að afstaða sveitarfélaganna lá fyrir skal auglýstri tillögu vísað til ráðherra sem tekur ákvörðun um val á valkosti og hvaða skilyrðum framkvæmdin skuli háð í skilmálum skipulagsins. Ráðherra skal við ákvörðunina hafa hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og athugasemdum við tillöguna og umhverfismatsskýrsluna og taka mið af gildandi landsskipulagsstefnu. Ráðherra skal einnig taka mið af ákvæðum raforkulaga, gildandi stefnu stjórnvalda um flutningskerfi raforku og samþykktri kerfisáætlun. Þegar niðurstaða ráðherra liggur fyrir skal nefndin samræma skipulagstillöguna ákvörðun ráðherra og senda hana ráðherra til staðfestingar innan fjögurra vikna frá því að niðurstaða ráðherra lá fyrir. Náist ekki samkomulag um einstakar afgreiðslur nefndarinnar skal slíkum ágreiningi einnig vísað til ráðherra, sbr. 7.2.2. gr.
7.4.2. gr.
Gildistaka raflínuskipulags.
Ráðherra hafnar raflínuskipulagi eða staðfestir það skv. 7.4.1. gr. Við yfirferð tillögunnar metur ráðherra hvort á henni séu form- eða efnisgallar. Ef ráðherra telur að á tillögunni sé form- eða efnisgalli skal hann gefa raflínunefnd færi á að koma að athugasemdum áður en hann tekur ákvörðun um afgreiðslu tillögunnar. Staðfest raflínuskipulag skal auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og tekur gildi við birtingu auglýsingarinnar.
7.4.3. gr.
Réttaráhrif raflínuskipulags.
Raflínuskipulag er rétthærra en svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag fyrir þá framkvæmd sem það tekur til. Þá er stefna samkvæmt raflínuskipulagi bindandi við gerð svæðisskipulags, aðalskipulags og deiliskipulags og við útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa.
Þegar raflínuskipulag hefur verið samþykkt skal hver sveitarstjórn sjá til þess að framkvæmdin sé tekin upp í aðalskipulag sveitarfélagsins við næstu endurskoðun þess, þó eigi síðar en fjórum árum frá samþykkt raflínuskipulagsins í samræmi við ákvæði þess.
17. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 45. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, öðlast gildi við birtingu.
Innviðaráðuneytinu, 26. júní 2024.
Svandís Svavarsdóttir.