Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 88/2020

Nr. 88/2020 24. janúar 2020

REGLUR
um tryggilega varðveislu fjármuna sem greiðslustofnun móttekur.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um greiðslustofnanir sem fengið hafa leyfi til starfrækslu greiðsluþjónustu skv. II. kafla laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

 

2. gr.

Skylda til að varðveita fjármuni með tryggilegum hætti.

Greiðslustofnun sem veitir einhverja þá þjónustu sem talin er upp í 4. gr. laga um greiðslu­þjónustu skal varðveita fjármuni sem hún hefur tekið við frá notendum greiðsluþjónustu eða öðrum greiðsluþjónustuveitanda með tryggilegum hætti. Varðveisla fjármuna greiðslustofnana samkvæmt þessari grein telst tryggileg ef hún samræmist ákvæðum 3. og 4. gr. þessara reglna.

 

3. gr.

Fjárhagslegur aðskilnaður.

Fjármunum sem greiðslustofnun tekur við frá einstaklingum eða lögaðilum skal haldið skýrt aðgreindum frá fjármunum í eigu greiðslustofnunar eða annarra en notenda greiðsluþjónustu. Fjár­munir sem mótteknir hafa verið frá notendum greiðsluþjónustu eða frá öðrum greiðsluþjónustu­veitendum skulu teljast sértökukröfur í þrotabú greiðslustofnunar komi til gjaldþrots. Um rétthæð þeirra fer skv. 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., enda sýni eigandi fjármuna fram á eignarrétt sinn að þeim.

Til fjármuna skv. 1. mgr. þessarar greinar teljast fjármunir notenda greiðsluþjónustu sem greiðslu­stofnun hefur í sinni vörslu og viðtakandi greiðslu, þ.m.t. annar greiðsluþjónustuveitandi, hefur ekki fengið greidda við lok næstkomandi virks dags eftir viðtöku fjármunanna.

 

4. gr.

Ráðstafanir til varðveislu fjármuna.

Fjármunir skv. 1. mgr. 3. gr. skulu lagðir inn á reikning, sem er skýrt merktur til aðgreiningar frá reikningum sem notaðir eru fyrir fjármuni í eigu greiðslustofnunar. Ef fjármunum er varið í öruggar, seljanlegar og áhættulitlar eignir skulu þær jafnframt auðkenndar með skýrum hætti til að tryggja fjárhagslegan aðskilnað, skv. 1. mgr. 3. gr.

Með öruggum, seljanlegum og áhættulitlum eignum skv. 1. mgr. er átt við:

  a) lausafjáreignir sem falla undir stig 1 skv. reglum Seðlabanka Íslands um lausafjárhlutfall lánastofnana eða
  b) eignaliði sem falla undir einn af flokkunum sem settir eru fram í 1. mgr. 336. gr. reglu­gerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, sbr. 56. gr. reglugerðar um varfærnis­kröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja, nr. 233/2017, þar sem gjald fyrir tiltekið áhættufjármagn er 1,6% að hámarki, að undanskildum öðrum fullgildum liðum eins og þeir eru skilgreindir í 4. mgr. sama ákvæðis.

Til öruggra, seljanlegra og áhættulítilla eigna skv. 1. mgr. teljast einnig fjárfestingar í verð­bréfa­sjóðum (UCITS), sem fjárfesta eingöngu í eignum sem tilgreindar eru í 2. mgr. þessarar greinar. Fjármála­eftirlitið getur veitt greiðslustofnun undanþágu til að fjárfesta í fjárfestingarsjóðum ef fjárfestingarstefna þeirra heimilar eingöngu fjárfestingu í eignum sem tilgreindar eru í 2. mgr. þessarar greinar. Skilyrði fyrir að slík undanþága sé veitt er að um innlausn hlutdeildarskírteina við­kom­andi fjárfestingarsjóðs gildi ávallt sambærilegar reglur og varðandi innlausn hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða (UCITS).

Fjárfestingar greiðslustofnana í öruggum, seljanlegum og áhættulitlum eignum skv. 2. og 3. mgr., kunna að sæta takmörkun samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, svo tryggt sé að greiðslu­stofnun búi á hverjum tíma yfir nægjanlegu lausu fé til að mæta skuldbindingum gagnvart viðskipta­­vinum.

 

5. gr.

Yfirlýsing um samtölu tryggilega varðveittra fjármuna.

Greiðslustofnun skal ársfjórðungslega senda Fjármálaeftirlitinu, á þar til gerðu eyðublaði, sem Fjármála­eftirlitið lætur í té, yfirlýsingu um stöðu sérmerkts reiknings í banka. Í yfirlýsingunni skulu jafnframt koma fram upplýsingar um heildarvirði öruggra, seljanlegra og áhættulítilla eigna sem fjárfest er í á grundvelli 4. gr. og upplýsingar um hvar eignir sem fjárfest er í skv. 2. og 3. mgr. 4. gr. eru varðveittar.

Yfirlýsingin skal vera staðfest af löggiltum endurskoðanda tvisvar á ári, samhliða hálfsárs­uppgjöri og við gerð ársreiknings.

Samtala tryggilega varðveittra fjármuna skv. 4. gr. skal ekki vera lægri en staða fjármuna í vörslu greiðslustofnunar samkvæmt bókhaldi fyrirtækisins.

 

6. gr.

Gildistaka.

Með reglum þessum eru innleidd ákvæði 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB, um greiðsluþjónustu á innri markaðnum.

Reglur þessar eru settar með heimild í 3. mgr. 18. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla þá úr gildi reglur um tryggilega varðveislu fjármuna greiðslu­stofn­ana, nr. 323/2014.

 

Seðlabanka Íslands, 24. janúar 2020.

 

Ásgeir Jónsson.

Unnur Gunnarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 6. febrúar 2020