1. gr.
Markmið.
Markmið reglnanna er að veita leiðbeiningar um meðferð og úrlausn mála sem fallið geta bæði innan marka laga nr. 98/2019 um póstþjónustu og samkeppnislaga nr. 44/2005, og að vinna gegn hugsanlegri óvissu um valdmörk, lögsögu og verkaskiptingu milli stofnananna.
2. gr.
Starfsemi Byggðastofnunar.
Byggðastofnun hefur umsjón með framkvæmd póstmála hér á landi og hefur eftirlit með þessum málaflokki eftir því sem mælt er fyrir í lögum nr. 98/2019 og öðrum lögum sem um póstmál fjalla. Stofnunin skal framfylgja lögunum og stuðla að því að markmið þeirra náist. Verkefni Byggðastofnunar eru einkum sem hér segir:
- Að stuðla að samkeppni á sviði póstþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti.
- Að taka þátt í þróun markaðar fyrir póstþjónustu og upplýsingatækni.
- Að gæta hagsmuna almennings, m.a. að því er varðar aðgang að póstþjónustu, vernd neytenda, friðhelgi einkalífs, gagnsæi o.fl.
- Að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og ráðuneyti á sviði póstmála og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðlegum samningum á sviði póstmála.
- Að taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði póstmála.
- Annað sem lýtur að framkvæmd póstmála.
Komi upp deilur milli póstrekenda um skyldur sem leiðir af lögum um póstþjónustu getur deiluaðili beint málinu til Byggðastofnunar. Þá geta neytendur póstþjónustu, eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta, beint kvörtun til Byggðastofnunar um að hún láti málið til sína taka.
3. gr.
Starfsemi Samkeppniseftirlitsins.
Samkeppniseftirlitið framfylgir markmiðum samkeppnislaga með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang keppinauta að markaðnum. Hlutverk Samkeppniseftirlitsins felur m.a. eftirfarandi í sér:
- Að framfylgja boðum og bönnum samkeppnislaga og eftir atvikum 53. og 54. gr. EES-samningsins (samningur um evrópskt efnahagssvæði), taka afstöðu til samruna fyrirtækja og leyfa undanþágur skv. samkeppnislögum.
- Að ákveða aðgerðir gegn samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja.
- Að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.
- Að fylgjast með þróun á samkeppnis- og viðskiptaháttum á einstökum mörkuðum í íslensku viðskiptalífi og kanna stjórnunar- og eignatengsl milli fyrirtækja.
Samkeppniseftirlitið tekur ákvörðun um það hvort erindi sem berst stofnuninni gefi nægar ástæður til rannsóknar. Við afgreiðslu mála er Samkeppniseftirlitinu heimilt að raða málum í forgangsröð.
4. gr.
Verkefni Byggðastofnunar.
Eftirfarandi mál skulu að jafnaði meðhöndluð af Byggðastofnun:
- Mál varðandi lög um póstþjónustu og reglugerðir settar með stoð í þeim. Mál varðandi reglur sem Byggðastofnun er heimilað að setja.
- Mál viðvíkjandi leyfisveitingum Byggðastofnunar og túlkun leyfisbréfa.
- Mál varðandi kostnaðargreiningar og bókhaldslegan aðskilnað.
- Mál sem varða túlkun og eftirfylgni kvaða sem Byggðastofnun hefur lagt á póstrekendur sem skilgreindir hafa verið sem alþjónustuveitendur.
- Mál varðandi gjaldskrár sem Byggðastofnun er falið að samþykkja eða hefur eftirlit með.
- Mál varðandi skilmála um þjónustu gagnvart neytendum.
- Kvartanir vegna ágalla á þjónustu.
5. gr.
Verkefni Samkeppniseftirlitsins.
Eftirfarandi mál sem tengjast póststarfsemi skulu að jafnaði meðhöndluð af Samkeppniseftirlitinu:
- Mál sem varða misnotkun á markaðsráðandi stöðu, t.d. samtvinnun í viðskiptum, mismunun í verði og skilmálum, skaðleg undirverðlagning og neitun á viðskiptum.
- Ólögmætt samráð fyrirtækja og aðrar samkeppnishindranir á póstmarkaði, ásamt undanþágum frá ákvæðum samkeppnislaga.
- Rannsókn á samkeppnislegum áhrifum samruna er varða póstrekendur.
- Opinberar samkeppnishindranir á póstmarkaði.
- Önnur mál sem byggja á ákvæðum samkeppnislaga eða reglum settum með stoð í þeim lögum.
6. gr.
Framsending erinda.
Berist annarri stofnuninni erindi sem bersýnilega snertir ekki valdsvið hennar, en líklegt þykir að það geti fallið undir valdsvið hinnar stofnunarinnar, skal það framsent eins fljótt og unnt er.
7. gr.
Markatilvik.
Verði annarri stofnuninni kunnugt um mögulegt rannsóknarefni sem samkvæmt lögum getur fallið undir valdsvið beggja stofnananna, og ekki er skýrt samkvæmt reglum þessum hvor þeirra skuli taka málið til meðferðar, skal gera hinni stofnuninni grein fyrir málinu og afhenda henni þau erindi og gögn sem til er að dreifa. Stofnanirnar leiða til lykta hvor taki afstöðu til mögulegs rannsóknarefnis. Við mat á því skal m.a. hafa eftirfarandi til hliðsjónar:
Að hlutverki hvorrar stofnunar málefnið fellur betur.
Hvor stofnunin hafi skýrari lagaheimildir til að leiða málið til lykta.
Hvor stofnunin hafi virkari úrræði.
Aðilar sem ekki vita hvert beri að beina erindi geta borið fram fyrirspurn til annarrar hvorrar stofnunarinnar um það undir hvora stofnunina mál heyri. Þær skulu taka slíka fyrirspurn til umfjöllunar skv. 1. mgr. eins fljótt og auðið er.
8. gr.
Samskipti við meðferð mála.
Við meðferð mála leita stofnanirnar sjónarmiða hjá hinni stofnuninni í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Að auki leita stofnanirnar að jafnaði sjónarmiða eða upplýsa hvor aðra um verkefni sem til meðferðar eru og leita e.a. eftir sjónarmiðum. Á þetta m.a að jafnaði við um samruna á póstmarkaði sem er til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu, andmælaskjöl sem Samkeppniseftirlitið gefur út vegna rannsókna, sem og sáttarviðræður í tengslum við rannsóknir Samkeppniseftirlitsins. Á sama hátt upplýsir Byggðastofnun og e.a. leitar umsagnar Samkeppniseftirlitsins um rannsóknir og aðgerðir sem varða samkeppni.
9. gr.
Þátttaka annarrar stofnunar í verkefnum hinnar.
Önnur stofnunin getur tekið þátt í verkefnum hinnar, enda falli þátttakan að lögbundnum verkefnum hennar. Á þessum forsendum getur t.d. önnur stofnunin lagt mat á tiltekna þætti í verkefni hinnar stofnunarinnar, sem síðan er lagt til grundvallar við úrlausn verkefnisins, enda sé rannsóknarregla stjórnsýslulaga uppfyllt.
10. gr.
Sjálfstæði og hagsmunaárekstrar.
Ákvarðanir annarrar stofnunarinnar takmarka ekki og breyta ekki ákvörðunum hinnar, nema lög heimili.
Gæta skal þess að samskipti samkvæmt þessum reglum torveldi ekki lagaskyldur Samkeppniseftirlitsins og Byggðastofnunar til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir við úrlausn mála á verksviði þeirra, bæði í ásýnd og reynd. Skal þess m.a. gætt að samskiptin skapi vettvang til skoðanaskipta þar sem mismunandi almannahagsmunum, sem kunna að einhverju leyti að skarast, er gefið fullnægjandi rými.
11. gr.
Umgjörð samskipta.
Forstjórar Byggðastofnunar og Samkeppniseftirlitsins hafa umsjón með framkvæmd þessara reglna. Þeir eiga með sér fundi og koma á og fylgjast með samskiptum starfsmanna í einstökum málum eða verkefnasviðum. Tíðni samskipta og funda fer eftir þörfum hverju sinni.
12. gr.
Birting og gildistaka.
Reglur þessar eru settar af Byggðastofnun og Samkeppniseftirlitinu samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 98/2019 um póstþjónustu.
Reglur þessar skulu birtar í Stjórnartíðindum sem og á heimasíðum Byggðastofnunar og Samkeppniseftirlitsins. Reglurnar eru til leiðbeiningar og skulu stofnanirnar og aðilar sem starfa á póstmarkaði taka mið af þeim frá birtingu þeirra í Stjórnartíðindum.
Reglur þessar leysa af hólmi eldri reglur Póst- og fjarskiptastofnunar (nú Fjarskiptastofu) og Samkeppniseftirlitsins um meðferð og úrlausn fjarskipta- og póstmála nr. 1001/2019.
Reykjavík, 1. febrúar 2022.
Samkeppniseftirlitið. |
Byggðastofnun. |
|
|
Páll Gunnar Pálsson. |
Arnar Már Elíasson. |
|