1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. reglnanna:
- Í stað orðanna „fimm deildir“ í 1. málsl. 6. gr. koma orðin: fjórar deildir.
- Orðin „framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum“ í 1. málsl. 6. gr. falla brott.
2. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. reglnanna:
- Á eftir 4. málsl. 12. gr. bætist við nýr málsliður, svohljóðandi: Deild er heimilt að skipa sérstakar námsnefndir fyrir einstakar námsbrautir.
3. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. reglnanna:
- 15. gr. fellur brott, ásamt fyrirsögn.
4. gr.
16. gr. reglnanna orðast svo:
Hjúkrunarfræðideild er fagleg grunneining sem stendur fyrir og ber ábyrgð á kennslu og rannsóknum á sviði hjúkrunarfræði og veitingu prófgráða við námslok. Auk starfsemi á sviði hjúkrunarfræði fer fram við hjúkrunarfræðideild þverfaglegt framhaldsnám í heilbrigðisvísindum og fagnám fyrir starfandi sjúkraliða. Brautarstjórar bera faglega ábyrgð á þverfaglegu framhaldsnámi í heilbrigðisvísindum og fagnámi starfandi sjúkraliða í umboði deildarfundar. Til viðbótar við námsnefnd í hjúkrunarfræði, sbr. 12. gr., eru skipaðar sérstakar námsnefndir fyrir þverfaglegt framhaldsnám í heilbrigðisvísindum og fagnám fyrir starfandi sjúkraliða.
Deildarfundur fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum hjúkrunarfræðideildar, sbr. 7. gr. reglna þessara og skulu deildarfundir haldnir mánaðarlega að jafnaði. Auk þeirra sem tilgreindir eru í 7. gr. hafa stundakennarar, sem fara með umsjón námskeiða, setu- og atkvæðisrétt á deildarfundum og einnig akademískt starfsfólk deildarinnar sem ekki heyrir undir a-lið 7. gr. auk verkefnastjóra deildarinnar.
Deildarforseti leiðir starf deildarinnar í umboði deildarfundar og er ábyrgur gagnvart deildinni, starfsfólki hennar og fræðasviðinu, sbr. 9. gr. Deildarforseti stjórnar jafnframt námi í hjúkrunarfræði.
Við deildina starfar deildarráð, sbr. 8. gr. Í deildarráði situr deildarforseti eða staðgengill hans í fjarveru deildarforseta, formaður námsnefndar í hjúkrunarfræði, brautarstjóri fagnáms fyrir starfandi sjúkraliða, brautarstjóri þverfaglegs framhaldsnáms í heilbrigðisvísindum, einn fulltrúi fastráðinna kennara sem kosinn er á deildarfundi, verkefnastjórar klínísks náms og einn fulltrúi stúdenta, tilnefndur af aðildarfélagi Stúdentafélags Háskólans á Akureyri til eins árs í senn. Jafnframt situr fulltrúi sviðsskrifstofu fundi með tillögurétt en án atkvæðisréttar. Falli atkvæði fundar jafnt ræður atkvæði deildarforseta.
Hjúkrunarfræðideild veitir kennslu til eftirtalinna prófgráða:
BS-prófs í hjúkrunarfræði. Viðbótardiplómu í hjúkrunarfræði. MS-prófs í hjúkrunarfræði. Fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða – grunndiplóma. Viðbótardiplómu í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun. Viðbótardiplómu í heilbrigðisvísindum. MS-prófs í heilbrigðisvísindum.
Auk þess býður Háskólinn á Akureyri upp á nám til doktorsgráðu í heilbrigðisvísindum.
Við skipulagningu náms í hjúkrunarfræðideild er tekið mið af lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012, lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008.
Jafnframt er tekið mið af því að hver nemandi geti fengið nám sitt metið til sérfræðiviðurkenningar, sjá meðal annars reglugerð nr. 512/2013 um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi, reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, reglugerð nr. 1127/2012 um menntun, réttindi og skyldur sjúkraþjálfara og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi og reglugerð nr. 1088/2012 um menntun, réttindi og skyldur félagsráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi.
Hjúkrunarfræðideild setur nánari reglur um námið og skulu þær koma fram í kennsluskrá.
5. gr.
Reglur þessar sem samþykktar voru í háskólaráði 29. febrúar 2024 eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og reglna nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri. Reglurnar öðlast gildi frá 1. júlí 2024.
Háskólanum á Akureyri, 29. febrúar 2024.
Eyjólfur Guðmundsson rektor.
|