Eftirfarandi sameiginlegar reglur fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu grundvallast á samkomulagi eftirtalinna sveitarfélaga: Garðabæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar og Mosfellsbæjar um sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu dags. 6. mars 2020.
Reglurnar mynda sameiginlegan grunn en sveitarfélögunum er heimilt að setja sértækar reglur, gangi þær ekki gegn sameiginlegu reglunum.
Reglur þessar eru settar skv. 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breytingum, og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.
Einnig er stuðst við leiðbeiningar félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.
1. gr.
Notendur þjónustunnar.
Akstursþjónusta fatlaðs fólks er ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem uppfylla það skilyrði að fötlun þeirra falli að skilgreiningu 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, og að þeir eigi ekki rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum.
Hafi fatlaður einstaklingur átt rétt á að nota aksturþjónustu fatlaðs fólks fyrir 67 ára aldur á hann rétt á þeirri þjónustu eftir að 67 ára aldri er náð óski hann þess að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum í reglum þessum.
Umsækjandi skal uppfylla annað eða bæði eftirfarandi skilyrða:
- Er hreyfihamlaður og þarf að nota hjólastól. Skilyrði er að um sé að ræða varanlega hreyfihömlun eða hreyfihömlun sem hefur varað í þrjá mánuði eða lengur.
- Er ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar.
Með auknu upplýsingaflæði, leiðbeiningum og þjálfun munu sveitarfélögin vinna í sameiningu og í samstarfi við Strætó bs. að því að efla notendur til aukins sjálfstæðis og frekari virkni í notkun almenningssamgangna samhliða akstursþjónustu.
2. gr.
Umsóknir.
Umsókn um akstursþjónustu fatlaðs fólks skal senda til félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem umsækjandi á lögheimili. Skal hún metin á grundvelli möguleika umsækjanda til að nýta sér þjónustu almenningsvagna og/eða aðra ferðamöguleika. Geti umsækjandi nýtt sér almenningssamgöngur allt árið ber að hafna umsókninni, unnt er að samþykkja umsókn hluta úr ári sé þörf á tímabundinni akstursþjónustu.
Með umsókn skulu fylgja öll nauðsynleg gögn s.s. læknisvottorð eða greining á fötlun. Gildistími samþykktrar umsóknar skal taka mið af þörfum hvers og eins. Miða skal við að umsókn sé samþykkt til tveggja ára. Ef um varanlega hreyfihömlun er að ræða er heimilt að samþykkja umsókn ótímabundið. Upplýsa skal notanda að jafnaði tveimur mánuðum áður en samþykkt umsókn rennur úr gildi.
Ef um er að ræða verulegar breytingar á högum umsækjanda eftir að umsókn hefur verið samþykkt er heimilt að endurskoða gildistíma samþykkis fyrir akstursþjónustu.
Þegar notandi akstursþjónustu fatlaðs fólks dvelur tímabundið utan þjónustusvæðis samkvæmt reglum þessum og óskar eftir akstursþjónustu þar sem hann er staddur, er heimilt að veita hana ef fyrirliggjandi er samþykkt viðkomandi sveitarfélags um akstursþjónustu. Þá skal einnig liggja fyrir samþykki dvalarsveitarfélags um veitingu þjónustunnar. Samþykkt skal vera tímabundin, að hámarki í þrjá mánuði.
Íbúar annarra sveitarfélaga en Mosfellsbæjar, Garðabæjar, Seltjarnarnesbæjar eða Reykjavíkurborgar sem óska eftir akstursþjónustu vegna tímabundinnar dvalar geta sótt um akstursþjónustu hjá viðkomandi sveitarfélagi. Heimilt er að samþykkja slíkar umsóknir að því tilskildu að samþykki á þjónustu liggi fyrir í lögheimilissveitarfélagi og viðkomandi sveitarfélag greiði kostnað við ferðir.
Akstursþjónusta fyrir börn.
Forsjáraðilar fatlaðra barna sækja um akstur samkvæmt reglum þessum fyrir börn, t.d. vegna tómstunda, læknisferða, sjúkraþjálfunar eða til að rjúfa félagslega einangrun. Barn yngra en 6 ára skal ávallt vera í fylgd með fullorðnum einstaklingi þegar ferðast er með akstursþjónustu fatlaðs fólks. Þurfi barn bílstól er það á ábyrgð forsjáraðila að útvega hann.
Reglur þessar taka ekki til skólaaksturs barna í grunnskóla en um þann akstur gilda reglur um skólaakstur fatlaðra grunnskólabarna á höfuðborgarsvæðinu.
3. gr.
Upplýsingaöflun og samvinna.
Aðstæður umsækjanda skulu kannaðar svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn berst. Sama á við ef upplýsingar um nauðsyn á akstursþjónustu berast með öðrum hætti. Meðferð umsóknar, öflun upplýsinga og ákvörðun skal fara fram í samvinnu og samráði við umsækjanda eftir því sem unnt er, forráðamenn hans eða persónulegan talsmann eða umboðsmann hans ef við á.
Við afgreiðslu umsóknar skal starfsmaður félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags bjóða umsækjanda ráðgjöf ef þörf er á og veita upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kanna að eiga annars staðar. Þá skal starfsmaður félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags einnig upplýsa umsækjanda um þær skyldur sem kunna að hvíla á honum vegna umsóknar um akstursþjónustu.
Persónulegur talsmaður skal leggja fram samkomulag við umsækjanda, sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2011 um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Umboðsmaður skal framvísa skriflegu umboði.
Félagsþjónusta viðkomandi sveitarfélags skal taka ákvörðun í máli svo fljótt sem unnt er og tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun tekin.
4. gr.
Niðurstaða og rökstuðningur synjunar.
Kynna skal niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skal umsækjandi, forráðamaður eða talsmaður umsækjanda fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með vísan til viðeigandi ákvæða þessara reglna eða sérstakra reglna sveitarfélags umsækjanda.
Þar skal jafnframt kynntur réttur hans til að fara fram á að ákvörðunin verði endurskoðuð á vettvangi sveitarfélagsins. Beiðni um endurskoðun skal koma fram innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda/forráðamanni/talsmanni barst vitneskja um ákvörðunina.
Ákvörðun sveitarfélagsins skal kynnt umsækjanda skriflega og honum jafnframt kynntur réttur hans til málskots til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 5. gr. reglna þessara.
5. gr.
Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Umsækjandi getur skotið ákvörðun félagsþjónustu sveitarfélags síns til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að tilkynning barst um ákvörðunina. Kæra telst fram komin innan kærufrests ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist úrskurðarnefndinni eða verið póstlögð áður en fresturinn er liðinn.
6. gr.
Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum.
Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi.
Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.
Ökumenn og aðrir starfsmenn akstursþjónustu fatlaðs fólks skulu skrifa undir yfirlýsingu um trúnað. Trúnaðarskylda helst þótt látið sé af starfi.
7. gr.
Þjónustutími.
Þjónustutími er skilgreindur í þjónustulýsingu sameiginlegrar akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu.
Miðað er við að ferðir hefjist innan þjónustutíma.
8. gr.
Réttur til þjónustu.
Akstursþjónusta skal taka mið af þörfum hvers og eins. Félagsþjónustu hvers sveitarfélags er heimilt að setja þak á fjölda ferða til þess að bregðast við sértækum aðstæðum.
Notkunarheimildir fyrir sameiginlega akstursþjónustu skal senda Strætó bs. sem skráir þær í aksturskerfi fyrirtækisins.
Notkun annarra ferðaúrræða, m.a. akstursþjónustu Blindrafélagsins er stjórnað af hverju sveitarfélagi fyrir sig.
9. gr.
Pantanir/afpantanir í aksturskerfi Strætó bs.
Notendur skrá pantanir sínar á netinu, í smáforriti, með tölvupósti eða gegnum síma þjónustuvers Strætó bs. Tekið er á móti símapöntunum í þjónustuveri á auglýstum opnunartíma þjónustuvers, en á netinu, í smáforriti og með tölvupósti má panta allan sólahringinn.
Notendur skulu veita upplýsingar fyrirfram um fastar ferðir næstu vikur eða mánuði t.d. vegna vinnu eða skólagöngu til að þjónustuaðilar geti leitað hagræðis við skipulagningu ferða.
Ekki er hægt að tryggja þjónustu vegna hópferða nema þær séu pantaðar fyrir kl. 16.00 daginn fyrir áformaða ferð, sé ferð áformuð um helgi skal pöntun hafa borist fyrir kl. 12.00 á föstudegi. Hópur telst vera fimm einstaklingar eða fleiri en hver notandi greiðir eftir sem áður fyrir sig.
Afpöntun ferða skal fara fram með a.m.k. 2 klst. fyrirvara, að öðrum kosti telst ferðin með í uppgjöri bæði gagnvart sveitarfélagi og notanda. Mæti notandi ekki á upphafsstað ferðar á tilsettum tíma telst ferðin einnig með í uppgjöri gagnvart sveitarfélagi og notanda.
Tilhögun pantana, skráninga og afpantana skal nánar útfærð í þjónustulýsingu.
10. gr.
Tilhögun ferða.
Ferð er skilgreind í reglum þessum sem akstur frá A til B innan þjónustusvæðisins. Akstursþjónustan byggist á samnýtingu ökutækja þannig að fleiri en einn notandi ferðast að jafnaði saman.
Notendur þurfa að vera tilbúnir til brottfarar í anddyri brottfararstaðar eða við hann 5 mínútum fyrir og þar til 10 mínútum eftir pantaðan/áætlaðan komutíma bíls skv. tilkynningu í smáforriti.
Við sérstakar aðstæður skulu bílstjórar aðstoða notendur í og úr bifreið og frá og að anddyri sé þess þörf. Bílstjórar skulu aðstoða notendur með farangur sem nauðsynlegur er notendum, þó ekki lengra en í anddyri. Skal þá miðað við að notandi hafi ekki meiri farangur en hægt er að bera í einni ferð í eða úr bílnum.
Ekki er beðið á meðan notandi sinnir erindi sínu. Bílstjórum er ekki heimilt að sinna sendiferðum fyrir notendur.
Notanda sem ekið er til læknis er heimilt að hringja eftir akstri til baka að viðtali loknu, enda hafi það ekki verið vitað fyrirfram hve viðtalið tæki langan tíma.
Akstursþjónusta fatlaðs fólks er sérhæfð þjónusta og þurfa notendur því að vera viðbúnir töfum eða breytingum á áætlun, svo sem vegna færðar og umferðartafa á annatímum.
Tilhögun ferða skal nánar útfærð í þjónustulýsingu.
11. gr.
Aðrir farþegar og aðstoðarmenn.
Notanda er heimilt að hafa með sér einn farþega, enda greiði notandinn þá sama gjald fyrir hann. Börn undir grunnskólaaldri í fylgd með fötluðum foreldrum greiða ekkert.
Telji félagsþjónusta sveitarfélags að notandi geti ekki ferðast einsamall og þarfnist aðstoðarmanns skal það skráð inn í aksturskerfið. Telji Strætó bs., að fenginni umsögn verktaka, að notandi geti ekki ferðast einsamall getur Strætó bs. óskað eftir að aðstoðarmaður fylgi viðkomandi. Kostnaður vegna aðstoðarmanns skal greiddur af viðkomandi sveitarfélagi og greiðir hann ekki fargjald.
12. gr.
Gjald og þjónustusvæði.
Fargjöld notenda fyrir akstursþjónustu, þ.e. fyrir fasta ferð, tilfallandi ferð og aðra farþega, taka mið af almenningssamgöngum og eru ákvörðuð í gjaldskrá hvers sveitarfélags.
Fargjald fyrir tilfallandi ferðir sem pantaðar eru samdægurs er hærra en fyrir fastar ferðir.
Fargjald fyrir aðra farþega er það sama og fyrir notandann, hvort sem um er að ræða fasta ferð eða tilfallandi ferð.
Þjónustusvæði akstursþjónustunnar er Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur, Seltjarnarnes, Reykjavík (þ.m.t. Kjalarnes) og Mosfellsbær.
13. gr.
Öryggi.
Ökutæki, ökumenn og aðrir starfsmenn akstursþjónustu fatlaðs fólks skulu uppfylla ákvæði gildandi laga og reglugerða um starfsemina auk þess sem hafa ber hliðsjón af leiðbeiningum félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.
Ökumaður sem sinnir akstursþjónustu fatlaðs fólks skal hafa aukin ökuréttindi, sótt skyndihjálparnámskeið og önnur þau námskeið sem sérstaklega eru ætluð bifreiðastjórum fólksflutningabíla. Fyrir ráðningu ökumanns skal liggja fyrir sérstakt sakavottorð eða heimild veitt af hans hálfu til öflunar sérstaks sakavottorðs og upplýsinga úr sakaskrá.
Ökumaður þarf einnig að sitja námskeið um þjónustu við fatlað fólk, til þess að vera vel búinn undir það verkefni að sinna ólíkum notendum og til að auka skilning og hæfni við þjónustuna.
Óheimilt er að ráða starfsmann til aksturs eða annarrar þjónustu fyrir fatlað fólk sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.
14. gr.
Málsmeðferð.
Um málsmeðferð fer skv. XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
15. gr.
Heimildir til ákvarðana samkvæmt reglum þessum.
Ákvarðanir um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk samkvæmt reglum þessum, sem og sérstökum reglum sveitarfélags, eru teknar í viðkomandi sveitarfélagi.
16. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar kveða á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita og eru settar með stoð í 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breytingum og III. kafla laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Reglur þessar öðlast gildi hinn 1. júlí 2020.
Reglur þessar koma í stað sameiginlegra reglna fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu, sem samþykktar voru 10. maí 2014.
Með reglum þessum falla úr gildi reglur Reykjavíkurborgar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks nr. 292/2018 sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar hinn 22. febrúar 2018 og á fundi borgarráðs hinn 6. mars 2018.
Tillögur að breytingum á reglum þessum skulu lagðar fyrir sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga sem eru aðilar að þeim og taka þær gildi þegar allar hlutaðeigandi sveitarstjórnir hafa samþykkt þær.
Samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar, 20. febrúar 2020.
Samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, 4. mars 2020.
Samþykkt af velferðarráði Reykjavíkurborgar, 12. febrúar 2020 og borgarráði, 20. febrúar 2020.
Samþykkt í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar, 12. febrúar 2020.
Kópavogi, 6. mars 2020.
F.h. Garðabæjar, |
F.h. Reykjavíkurborgar, |
|
|
Gunnar Einarsson bæjarstjóri. |
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. |
|
|
|
|
F.h. Seltjarnarnesbæjar, |
F.h. Mosfellsbæjar, |
|
|
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri. |
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. |
|