Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1623/2022

Nr. 1623/2022 30. desember 2022

SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn Hvalfjarðarsveitar, nr. 692/2022.

1. gr.

27. gr. a samþykktarinnar orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Framsal sveitarstjórnar til fastanefnda á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála.

Í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð getur sveitarstjórn ákveðið í samþykkt þessari eða með sérstökum viðauka við hana, að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum sveitarfélagsins fullnaðarafgreiðslu tiltekinna mála ef:

  1. lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn því,
  2. þau varða ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið er á um í fjárhagsáætlun, og
  3. þau víkja ekki frá stefnu sveitarstjórnar í veigamiklum málum.

Fastanefndum sem taldar eru upp í 39. gr. samþykktar þessarar, er heimil fullnaðarafgreiðsla á grundvelli ákvæða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins eða í sérstökum viðauka við hana, mál á verksviði þeirra.

Ályktanir nefnda teljast tillögur til sveitarstjórnar, enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir, hafi viðkomandi nefnd ekki verið falin sérstaklega fullnaðarákvörðun um mál.

Beiðni um endurupptöku skal beint til sveitarstjóra nema annað sé tekið fram í samþykkt þessari eða viðauka og fer um endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Við birtingu ákvörðunar skal kynnt að um fullnaðarafgreiðslu sé að ræða á grundvelli heimildar í 42. gr. sveitarstjórnarlaga og samþykktar þessarar. Að öðru leyti skal gæta að ákvæðum 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

2. gr.

2. töluliður 1. mgr. 39. gr. samþykktarinnar orðast svo:

Fjölskyldu- og frístundanefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Fjölskyldu- og frístunda­nefnd fer með lögbundin verkefni sem tengjast málaflokkum sem undir hana falla. Um er að ræða verkefni félagsmálanefndar skv. 5. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, jafn­réttis­mál skv. 13. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 151/2020, verkefni á sviði húsnæðis­mála, sbr. ákvæði laga um húsnæðismál nr. 44/1998, ákvæði laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016 og laga um almennar íbúðir nr. 52/2016, málefni fatlaðs fólks samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, málefni aldraðra, sbr. ákvæði laga nr. 125/1999, málefni innflytjenda, sbr. ákvæði laga nr. 116/2012, verkefni v/dag­gæslu í heima­húsum, sbr. reglugerð nr. 907/2005 auk verkefna á sviði forvarna. Fjölskyldu- og frístundanefnd er einnig falin yfirstjórn barnaverndarþjónustu samkvæmt 1. mgr. 12. gr. barna­verndarlaga nr. 80/2002. Fjölskyldu- og frístundanefnd hefur umsjón með styrkveitingum og samskiptum sveitar­félagsins við einstaklinga og félög vegna frístundamála. Fjölskyldu- og frístundanefnd fylgist með að starfsemi íþrótta- og æskulýðsstarfs sé samkvæmt ákvæðum æskulýðslaga nr. 70/2007. Fjölskyldu- og frístundanefnd skal hlutast til um mótun, setningu og endurskoðun forvarnarstefnu og skipulag forvarnarstarfs. Fjölskyldu- og frístundanefnd hefur umsjón með frístunda- og íþrótta­málum á vegum sveitarfélagsins, m.a. skoðun á framboði tóm­stunda- og félagsstarfs í sveitar­félaginu. Fjölskyldu- og frístundanefnd hefur umsjón með rekstri vinnuskóla í Hvalfjarðar­sveit og íþróttamannvirkjum og sundlaugum sem falla undir umsjón frístunda- og menningar­fulltrúa sveitar­félagsins.

2. mgr. 39. gr. samþykktarinnar orðast svo:

Á fyrsta eða öðrum fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum kýs sveitarstjórn fulltrúa sveitarfélagsins í eftirtaldar samstarfsnefndir:

  1. Dvalar- og hjúkrunarheimilið Höfði. Einn fulltrúi og annar til vara í stjórn Dvalar- og hjúkrunar­heimilisins Höfða skv. samningi við samstarfssveitarfélög.
  2. Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands. Einn fulltrúi í fulltrúaráð, skv. lögum nr. 68/1994 um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands.
  3. Faxaflóahafnir sf. Einn aðalmaður og annar til vara í stjórn Faxaflóahafna sf. skv. ákvæðum félagssamnings og skv. hafnalögum nr. 61/2003.
  4. Byggðasafnið í Görðum. Vegna málefna Byggðasafnsins í Görðum. Einn fulltrúi og annar til vara í menningar- og safnanefnd Akraneskaupstaðar, sbr. skipulagsskrá Byggðasafnsins í Görðum.
  5. Heilbrigðisnefnd. Einn fulltrúi og annar til vara í sameiginlega heilbrigðisnefnd Vesturlands skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.
  6. Hitaveitufélag Hvalfjarðar sf. Einn fulltrúi í stjórn og annar til vara, samkvæmt sam­þykktum félagsins.
  7. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samkvæmt samþykktum Sambands íslenskra sveitarfélaga kýs sveitarstjórn aðal- og varafulltrúa á landsþing sambandsins.
  8. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi. Sveitarstjórn kýs aðal- og varafulltrúa í stjórn og á aðalfund samkvæmt lögum samtakanna.
  9. Vatnsveitufélag Hvalfjarðar sf. Kosið er í stjórn félagsins til eins árs í senn í samræmi við ákvæði sameignarfélagssamnings.
  10. Yfirnefnd fjallskilamála. Einn fulltrúi og annar til vara.
  11. Þróunarfélag Grundartanga ehf. Einn fulltrúi tilnefndur til setu í stjórn og annar til vara.
  12. Snorrastofa. Einn fulltrúi tilnefndur til setu og annar til vara.
  13. Umdæmisráð barnaverndar. Skal skipað þremur ráðsmönnum til fimm ára í senn samkvæmt 14. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
  14. Öldungaráð. Í öldungaráði sitja sjö fulltrúar. Þrír kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitar­stjórnarkosningum og þrír tilnefndir af félagi eldri borgara, auk eins fulltrúa frá heilsugæsl­unni. Kjörtímabil ráðsins er hið sama og sveitarstjórnar.
  15. Samráðshópur um málefni fatlaðs fólks. Í samráðshópnum sitja sex fulltrúar. Þrír kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír tilnefndir af hagsmunasamtökum fatlaðs fólks.
  16. Sjálfseignarstofnunin Grundarteigur. Einn fulltrúi tilnefndur í stjórn samkvæmt 4. gr. skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar.

 

3. gr.

46. gr. a samþykktarinnar orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Framsal sveitarstjórnar til starfsmanna til fullnaðarafgreiðslu mála.

Sveitarstjórn er heimilt að fela einstökum starfsmönnum fullnaðarafgreiðslu mála með sömu skilyrðum og nefnd eru í 27. gr. a samþykktar þessarar. Sveitarstjórn og hlutaðeigandi fastanefnd skal hafa eftirlit með afgreiðslu mála samkvæmt ákvæði þessu. Sveitarstjórn skal setja skýrar reglur í samþykkt um stjórn eða í sérstakan viðauka með samþykkt um fullnaðarafgreiðslu.

Samþykkt þessari fylgir viðauki um fullnaðarafgreiðslu mála vegna barnaverndarþjónustu, sbr. 3. mgr. 12. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2008, sbr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

 

4. gr.

Við samþykktina bætist nýr viðauki, viðauki I, um fullnaðarafgreiðslu mála vegna barna­verndar­þjónustu sem birtur er með samþykkt þessari.

 

5. gr.

Samþykkt þessi sem sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur sett samkvæmt ákvæðum 9. gr. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

 

Innviðaráðuneytinu, 30. desember 2022.

 

F. h. r.

Aðalsteinn Þorsteinsson.

Hafdís Gísladóttir.

 

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 30. desember 2022