1. gr.
Markmið og gildissvið.
Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um samræmdar reglur til starfrækslu loftbelgja sem:
skráðir eru í aðildarríki EES, nema lögbundið eftirlitshlutverk hafi verið falið þriðja ríki og þeir séu ekki notaðir af EES flugrekanda; eða skráðir eru í þriðja ríki en notaðir af flugrekanda sem fellur undir eftirlit EES-ríkis, eða notaðir af flugrekanda með staðfestu eða búsetu innan Evrópska efnahagssvæðisins sem notar þá til flugs inn til, innan eða út frá EES.
Reglugerðin gildir ekki um starfrækslu tjóðraðra loftbelgja.
2. gr.
Lögbært yfirvald.
Samgöngustofa telst lögbært yfirvald samkvæmt reglugerð þessari og sér um framkvæmd hennar.
3. gr.
Innleiðing.
Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirfarandi reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka EES-samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/395 frá 13. mars 2018 um ítarlegar reglur um starfrækslu loftbelgja samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn nr. 116/2018 frá 31. maí 2018. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 72 frá 8. nóvember 2018, bls. 378-403.
4. gr.
Refsiákvæði.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.
5. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 28. gr., 80. gr., 85. gr. a., 31. gr., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 og öðlast þegar gildi.
Reglugerðin kemur til framkvæmda 8. apríl 2019. Skírteini Samgöngustofu um starfrækslu loftbelgja sem gefin hafa verið út fyrir 8. apríl 2019 halda gildi sínu fram til 8. október 2019.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 28. nóvember 2018.
F. h. r.
Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir.
Jónas Birgir Jónasson.
|