Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 94/2019

Nr. 94/2019 1. júlí 2019

LÖG
um endurskoðendur og endurskoðun.

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja að um störf endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja gildi skýrar reglur í því skyni að auka traust á ársreikningum og samstæðureikningsskilum endur­skoðaðra eininga.

2. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum merkir:

  1. Áritunarendurskoðandi: Endurskoðandi sem áritar reikningsskil eða samstæðureikningsskil.
  2. Eiginhagsmunaógnun: Ógnun vegna fjárhagslegra eða annarra hagsmuna sem hefur óvið­eigandi áhrif á faglegt mat endurskoðanda eða hegðun.
  3. Eining tengd almannahagsmunum:
    1. Lögaðili sem er með skráð lögheimili á Íslandi og hefur verðbréf sín skráð á skipu­legum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofn­samn­ings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
    2. Lífeyrissjóður sem hefur fullgilt starfsleyfi.
    3. Lánastofnun eins og hún er skilgreind í lögum um fjármálafyrirtæki.
    4. Félag sem hefur starfsleyfi til að reka vátryggingastarfsemi hér á landi samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
  4. Endurskoðandi: Sá sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikn­ings­skilum og öðrum fjárhagsupplýsingum, hefur löggildingu til að starfa við endur­skoðun, er á endurskoðendaskrá, sbr. 5. gr., og fullnægir að öðru leyti skilyrðum laga þessara.
  5. Endurskoðandi samstæðu: Endurskoðandi sem ber ábyrgð á endurskoðun samstæðu­reiknings­skila.
  6. Endurskoðun: Óháð og kerfisbundin öflun gagna og mat á þeim í þeim tilgangi að láta í ljós rökstutt og faglegt álit endurskoðanda á áreiðanleika þeirra og framsetningu í samræmi við lög, settar reikningsskilareglur eða önnur skilyrði sem fram koma í álitinu.
  7. Endurskoðunarfyrirtæki: Fyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi til endurskoðunarstarfa samkvæmt ákvæðum laga þessara, er á endurskoðendaskrá og fullnægir að öðru leyti skil­yrðum laganna.
  8. Endurskoðunarnefnd: Endurskoðunarnefnd skv. IX. kafla A laga um ársreikninga, nr. 3/2006.
  9. Fagleg tortryggni: Viðhorf sem felur í sér gagnrýna hugsun og að vera á varðbergi gagnvart aðstæðum sem geta gefið til kynna mögulegar rangfærslur vegna villna eða svika og gagnrýnið mat á endurskoðunargögnum með sönnunargildi.
  10. Gistiríki: Aðildarríki að Evrópska efnahagssvæðinu þar sem endurskoðandi, sem löggiltur hefur verið í heimaaðildarríki sínu, leitar eftir að fá einnig löggildingu í samræmi við 3. gr., eða aðildarríki þar sem endurskoðunarfyrirtæki, sem hlotið hefur starfsleyfi í heima­aðildar­ríki sínu, leitar eftir að fá starfsleyfi eða er með starfsleyfi í samræmi við 5. gr.
  11. Málsvarnarógnun: Ógnun sem getur skapast þegar endurskoðandi heldur fram afstöðu eða skoðun viðskiptavinar að því marki að ógnað gæti hlutlægni hans.
  12. Óhæði í ásýnd: Að forðast tengsl og aðstæður sem hafa svo mikla þýðingu að óvilhallur og upplýstur þriðji aðili væri líklegur til að álykta á grundvelli allra staðreynda og aðstæðna að heiðarleika, hlutleysi, faglegri gagnrýni fyrirtækis eða meðlims endurskoðunarteymis hafi verið stefnt í hættu.
  13. Óhæði í reynd: Hugarástand sem gerir það kleift að látið sé í ljós álit án þess að hafa orðið fyrir áhrifum sem stofna faglegu mati í hættu og gerir einstaklingi kleift að starfa af heiðar­leika og beita hlutleysi og faglegri dómgreind.
  14. Samstarfsfyrirtækjanet: Endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem hafa með sér samstarf sem miðar að hagnaðar- eða kostnaðarskiptingu, sameiginlegu eignarhaldi, sam­eigin­legum yfirráðum eða stjórn, sameiginlegri stefnu í gæðastjórnun og gæðaaðferðum og sameigin­legri viðskiptastefnu og nota sameiginlegt vörumerki eða samnýta umtalsverðan hluta faglegra úrræða.
  15. Sjálfsmatsógnun: Ógnun vegna hættu á að endurskoðandi muni ekki meta með réttum hætti niðurstöðu fyrra mats eða veittrar þjónustu af hans hálfu, eða af öðrum einstaklingi innan fyrirtækis hans eða vinnuveitenda, þegar endurskoðandi þarf síðar að leggja mat á eigin niðurstöður í tengslum við veitta þjónustu.
  16. Vinfengisógnun: Ógnun vegna langs og náins sambands við viðskiptavin eða vinnuveitanda.
  17. Þvingunarógnun: Ógnun þegar endurskoðandi er hindraður í að starfa af hlutleysi vegna þvingana, raunverulegra eða ætlaðra, þ.m.t. tilrauna til að hafa óviðeigandi áhrif á hann.

II. KAFLI

Löggilding endurskoðenda og starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja.

3. gr.

Löggilding endurskoðenda.

    Endurskoðendaráð veitir löggildingu til endurskoðunarstarfa. Til þess að öðlast löggildingu þarf viðkomandi að fullnægja eftirtöldum skilyrðum:

  1. Eiga lögheimili hér á landi eða vera ríkisborgari aðildarríkis að Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja.
  2. Vera lögráða og hafa ekki sætt því að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.
  3. Hafa gott orðspor og vera þannig á sig kominn andlega að hann sé fær um að gegna störfum endurskoðanda.
  4. Hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskil­orðs­bundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.
  5. Hafa meistaragráðu í endurskoðun og reikningsskilum sem viðurkennd er af endur­skoð­enda­ráði.
  6. Hafa staðist sérstakt próf, sbr. 7. gr.
  7. Hafa starfað að lágmarki í þrjú ár undir handleiðslu endurskoðanda við endurskoðun árs­reikn­inga og annarra reikningsskila hjá endurskoðunarfyrirtæki með starfsleyfi.
  8. Hafa starfsábyrgðartryggingu, sbr. 8. gr.

    Heimilt er endurskoðendaráðinu að fella niður réttindi skv. 1. mgr. eða synja umsækjanda um löggildingu til endurskoðunarstarfa hafi hann:

  1. Hlotið dóm samkvæmt ákvæðum XXVI. kafla almennra hegningarlaga.
  2. Verið dæmdur í fangelsi samkvæmt ákvæðum annarra laga.
  3. Ítrekað brotið gegn ákvæðum laga um endurskoðendur, laga um ársreikninga, laga um bók­hald eða skattalaga.
  4. Sýnt af sér hegðun sem gefur ástæðu til að ætla að viðkomandi sé ekki fær um að gegna störfum sínum sem opinber sýslunarmaður á ábyrgan hátt.

    Áður en löggilding er veitt skal umsækjandi leggja fram sakavottorð.

    Víkja má frá skilyrði 2. tölul. 1. mgr. ef umsækjandi hefur haft forræði á fé sínu a.m.k. tíu undanfarin ár.

    Óski endurskoðandi sem hefur löggildingu til endurskoðunarstarfa í ríki innan Evrópska efna­hags­svæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum eftir lög­gildingu til endurskoðunarstarfa hér á landi skal hann standast sérstakt hæfnispróf í lögum og reglum um skatta- og félagarétt.

    Endurskoðendaráð getur veitt þeim einstaklingum löggildingu til endurskoðunarstarfa sem sanna að þeir hafi lokið námi og staðist próf erlendis, sem telst samsvara kröfum sem gerðar eru í 5., 6. og 7. tölul. 1. mgr., enda uppfylli þeir ákvæði 2., 3., 4. og 8. tölul. sömu málsgreinar. Slíkir aðilar skulu standast sérstakt hæfnispróf í lögum og reglum um íslenskan skatta- og félagarétt.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um málsmeðferð fyrir löggildingu endurskoðenda sem eru með löggildingu frá öðrum ríkjum.

    Endurskoðendaráð getur veitt einstaklingum sem lokið hafa annarri háskólagráðu með endur­skoðun sem kjörsvið undanþágu frá ákvæði 5. tölul. 1. mgr., enda telji endurskoðendaráð að umsækj­andi hafi næga þekkingu á þeim málefnum sem varða endurskoðendur og störf þeirra.

    Áður en löggilding er veitt skal umsækjandi heita því að viðlögðum drengskap að hann muni af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna rækja það starf sem löggildingin veitir honum rétt til að stunda og hlíta lögum og öðrum reglum sem starfið varða.

4. gr.

Starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja.

    Endurskoðun skal fara fram á vegum endurskoðunarfyrirtækis sem hefur starfsleyfi og er skráð í endurskoðendaskrá.

    Endurskoðendum er skylt að stofna félag um rekstur endurskoðunarfyrirtækis í því formi sem þeir sjálfir kjósa.

    Meiri hluti atkvæðisréttar í endurskoðunarfyrirtæki skal vera í höndum endurskoðenda eða endur­skoðunarfyrirtækja sem hlotið hafa viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í aðildar­ríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

    Í endurskoðunarfyrirtæki skal meiri hluti stjórnarmanna vera endurskoðendur eða fulltrúar endurskoðunarfyrirtækja. Ef stjórnarmenn eru tveir skal a.m.k. annar þeirra vera endurskoðandi eða fulltrúi endurskoðunarfyrirtækis.

    Endurskoðunarfyrirtæki skal hafa formlegt gæðakerfi til að tryggja gæði endurskoðunarinnar og gæði starfa endurskoðanda, sbr. 18. gr.

    Endurskoðunarfyrirtæki skal tryggja að nöfn og heimilisföng eigenda fyrirtækisins séu aðgengileg almenningi.

    Sækja skal um starfsleyfi fyrir endurskoðunarfyrirtæki til endurskoðendaráðs að uppfylltum ákvæðum þessarar greinar. Jafnframt ber fyrirtækinu að tilkynna endurskoðendaráði án tafar ef það uppfyllir ekki lengur eitthvert þessara ákvæða og skila inn löggildingarskírteini.

    Ef ætla má að endurskoðunarfyrirtæki muni ekki vera fært um að framkvæma endur­skoð­unar­verkefni á viðunandi hátt má neita endurskoðunarfyrirtæki um starfsleyfi og skráningu í endur­skoð­enda­skrá skv. 5. gr.

    Endurskoðunarfyrirtæki sem óskað hefur eftir að leggja inn starfsleyfi eða hefur verið svipt starfsleyfi getur einungis fengið það aftur ef kröfur um veitingu starfsleyfis eru uppfylltar eða orsök sviptingar er ekki lengur til staðar, útrunnin eða afturkölluð.

    Endurskoðendaráð fellir úr gildi starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis ef fyrirtækið uppfyllir ekki lengur skilyrði laga þessara eða reglugerða settra á grundvelli þeirra.

    Endurskoðendaráð fellir úr gildi starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis neiti það að sæta gæða­eftirliti skv. 31. gr.

    Falli starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis niður eða hafi það verið svipt starfsleyfi skal endur­skoð­unar­fyrirtækið tekið út af endurskoðendaskrá skv. 5. gr. og er því þá óheimilt að gefa í skyn að fyrirtækið sé skráð endurskoðunarfyrirtæki.

    Ráðherra setur reglugerð um málsmeðferð fyrir veitingu starfsleyfa til endurskoðunarfyrirtækja sem skráð eru í öðru EES-ríki.

    Ráðherra er heimilt að mæla í reglugerð nánar fyrir um starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja.

5. gr.

Endurskoðendaskrá.

    Endurskoðendaráð birtir opinbera skrá yfir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi til endurskoðunarstarfa, enda séu ákvæði 3. og 4. gr. uppfyllt.

    Endurskoðandi sem starfar við endurskoðun skal skrá félag sitt sem endurskoðunarfyrirtæki í endurskoðendaskrá.

    Ráðuneytið setur nánari reglur um skráninguna og hvaða upplýsingar skulu koma fram í skránni.

    Endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki skulu auðkennd með sérstöku númeri í opinberu skránni.

    Endurskoðunarfyrirtæki sem fær skráningu skv. 1. mgr. má ekki hafa verið tekið til gjald­þrota­skipta né ímynd þess beðið verulegan hnekki svo draga megi í efa hæfni þess til að upp­fylla þær kröfur sem gerðar eru til endurskoðunar í lögum þessum. Endurskoðunarfyrirtæki sem hlotið hefur skráningu skal án tafar tilkynna endurskoðendaráði ef skilyrði þessarar málsgreinar eru ekki upp­fyllt.

    Endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki skv. 1. mgr. skulu, án ástæðulausra tafa, tilkynna endurskoðendaráði ef breytingar verða á þeim upplýsingum sem fram koma í skránni.

    Hafi endurskoðandi lagt inn starfsleyfi sitt eða það verið fellt niður skal nafn hans fellt út af skrá, sbr. 1. mgr. Sama á við um endurskoðunarfyrirtæki sem uppfyllir ekki lengur skilyrði 5. mgr. þessarar greinar og/eða skilyrði 4. gr.

    Endurskoðendaráð skal auglýsa löggildingu endurskoðenda og skráningu endurskoð­unar­fyrirtækja í Lögbirtingablaði. Sama á við ef skráning fellur niður, sbr. 10. gr.

    Endurskoðendaráð gefur út löggildingarskírteini til handa endurskoðendum og endurskoð­unar­fyrirtækjum.

    Fyrir löggildingu skal endurskoðandi greiða gjald í ríkissjóð samkvæmt lögum um aukatekjur ríkis­sjóðs, nr. 88/1991.

6. gr.

Réttur til að nota hugtakið endurskoðandi eða endurskoðun.

    Öðrum en endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum skv. 1. mgr. 5. gr. er ekki heimilt að nota hugtökin endurskoðandi eða endurskoðun í starfs- eða firmaheiti sínu. Þá er óheimilt að vekja þá trú að aðili, sem hefur ekki fengið löggildingu sem endurskoðandi eða er án gildra réttinda, sé endurskoðandi með notkun starfsheitis, firmanafns eða með öðrum misvísandi hætti. Ákvæði þetta nær þó ekki til starfsheitis innri endurskoðenda í fyrirtækjum, enda séu störf þeirra hluti af innra stjórnendaeftirliti viðkomandi fyrirtækis.

    Ef endurskoðendaráði berast upplýsingar um að einstaklingur, sem hefur ekki fengið löggildingu til endurskoðendastarfa, stundi eða gefi í skyn að hann stundi slíka starfsemi eða að endurskoðandi fullnægi ekki lengur lögmætum skilyrðum til löggildingar sem endurskoðandi en starfi þó áfram sem slíkur skal endurskoðendaráð vekja athygli viðkomandi á brotinu og ef hann ekki bregst við skal endurskoðendaráð taka brotið til viðeigandi meðferðar. Sama á við ef gefið er í skyn að fyrirtæki sem ekki er skráð í endurskoðendaskrá sé endurskoðunarfyrirtæki.

7. gr.

Próf og prófnefnd.

    Endurskoðendaráð skipar þriggja manna prófnefnd endurskoðenda sem heldur próf fyrir þá sem sækja um löggildingu til endurskoðunarstarfa. Prófnefndin skal skipuð til fjögurra ára í senn.

    Próf til löggildingar skal ná til þeirra greina bóknáms og verkmenntunar sem helst varða endur­skoðendur og störf þeirra.

    Í reglugerð, sem ráðherra setur að fengnum tillögum endurskoðendaráðs, skal meðal annars kveðið nánar á um skilyrði til próftöku, prófgreinar, framkvæmd prófa og lágmarksárangur til að standast þau.

    Próf skulu að jafnaði haldin árlega.

    Kostnaður vegna prófa, þ.m.t. þóknun til prófnefndarmanna, greiðist með próftökugjaldi sem endurskoðendaráð ákveður.

8. gr.

Starfsábyrgðartrygging.

    Endurskoðanda er skylt að hafa starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur heimild til að veita þjónustu hér á landi vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans samkvæmt lögum þessum. Tryggingarskyldan fellur niður ef endurskoðandi leggur inn löggildingu sína, sbr. 1. mgr. 11. gr.

    Endurskoðendaráð setur reglur um lágmarksfjárhæð tryggingar skv. 1. mgr. og hámark eigin áhættu vátryggingartaka.

    Endurskoðandi skal fyrir 15. janúar ár hvert senda endurskoðendaráði staðfestingu þess að hann hafi gilda starfsábyrgðartryggingu.

    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um starfsábyrgðartryggingu endurskoðenda.

9. gr.

Endurmenntun.

    Endurskoðanda er skylt að afla sér endurmenntunar sem tryggir að hann viðhaldi reglulega fræðilegri þekkingu, faglegri hæfni og faglegum gildum.

    Endurmenntunin skal að lágmarki svara til 20 klukkustunda á ári og samtals 120 klukkustunda á hverju þriggja ára tímabili. Endurskoðendaráð getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstakar ástæður gefa tilefni til þess. Endurmenntunartímabil endurskoðanda sem fær löggildingu í fyrsta sinn hefst 1. janúar árið eftir að löggilding er veitt.

    Endurmenntun skv. 1. mgr. skal á hverju þriggja ára tímabili ná a.m.k. til eftirtalinna sviða og skal lágmark endurmenntunar á hverju sviði vera:

  1. endurskoðun í 30 klukkustundir,
  2. reikningsskil og fjármál í 20 klukkustundir,
  3. skatta- og félagaréttur í 15 klukkustundir og
  4. siðareglur og fagleg gildi í 10 klukkustundir.

    Endurskoðandi skal halda skrá um endurmenntun sína og skal honum vera unnt að staðfesta endurmenntun í a.m.k. 60 klukkustundir á hverju þriggja ára tímabili en að lágmarki skulu 10 klukkustundir í endurmenntun hvers árs vera staðfestanlegar. Endurskoðendaráð hefur eftirlit með að endurskoðandi uppfylli skilyrði um endurmenntun.

    Ef skilyrði 1.–3. mgr. eru ekki uppfyllt telst endurskoðandi ekki hafa fullnægt skilyrðum til að viðhalda löggildingu sinni sem endurskoðandi og fer um mál hans skv. III. kafla.

    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um endurmenntun endurskoðenda.

III. KAFLI

Brottfall löggildingar til endurskoðunarstarfa.

10. gr.

Niðurfelling löggildingar og starfsleyfis.

    Ef endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki fullnægir ekki skilyrðum til löggildingar eða starfs­leyfis skal án tafar tilkynna það til endurskoðendaráðs. Ef úrbætur eru ekki gerðar innan þess tíma­frests sem endurskoðendaráð ákveður fellur löggilding endurskoðanda eða starfsleyfi endur­skoð­unar­fyrirtækisins niður og er þá endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki óheimil frekari starf­semi á grundvelli löggildingar eða starfsleyfis og ber að skila löggildingarskírteini eða starfs­leyfi til endurskoðendaráðs.

    Nú fellur löggilding endurskoðanda eða starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis niður skv. 1. mgr. og ber þá endurskoðendaráði að auglýsa það í Lögbirtingablaði og á vef sínum.

11. gr.

Innlögn löggildingar til endurskoðunarstarfa.

    Endurskoðandi getur lagt inn löggildingu sína og falla þá réttindi hans og skyldur sem endur­skoðanda niður nema annað leiði af lögum. Ef endurskoðendaráð er með mál endurskoð­andans til meðferðar er innlögn löggildingar ekki heimil nema málið sé látið niður falla samkvæmt lögum þessum.

    Hafi endurskoðandi lagt inn löggildingu sína skal veita honum réttindi á ný eftir umsókn hans, án endurgjalds, ef hann fullnægir öllum skilyrðum til að njóta þeirra og sannar að hann hafi uppfyllt endurmenntunarkröfur þriggja ára tímabils.

12. gr.

Endurveiting löggildingar til endurskoðunarstarfa vegna ótímabundinnar niðurfellingar.

    Hafi löggilding endurskoðanda verið felld niður skv. 10. gr. getur einstaklingur óskað eftir endur­nýjun hennar, enda sýni hann fram á að hann fullnægi skilyrðum laga og standist próf skv. 7. gr. Skal hann þá skráður á ný í endurskoðendaskrá. Endurskoðendaráð getur veitt undanþágu frá skyldu til að taka próf að nýju.

13. gr.

Tilkynning um niðurfellingu réttinda.

    Hafi löggilding endurskoðanda eða starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis verið fellt niður eða lagt inn skal endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki tekið af endurskoðendaskrá og skal lög­gild­ingar­skírteini skv. 9. mgr. 5. gr. skilað til endurskoðendaráðs án tafar. Er honum eða fyrirtækinu þá óheimilt að nota starfsheitið endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki.

    Sé löggilding eða starfsleyfi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis sem skráð eru í öðrum ríkjum felld niður eða þau lögð inn skal endurskoðendaráð tilkynna það viðeigandi lögbæru yfirvaldi þess ríkis sem endurskoðandinn eða endurskoðunarfyrirtækið er einnig skráð í og skal upplýsa um ástæður niðurfellingar löggildingar eða starfsleyfis.

IV. KAFLI

Starfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja.

14. gr.

Starf endurskoðanda.

    Endurskoðandi skal rækja störf sín í samræmi við góða endurskoðunarvenju og siðareglur endur­skoðenda og skal af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna fylgja ákvæðum þeirra laga og reglna sem gilda um störf hans. Góða endurskoðunarvenju skal túlka í samræmi við þær kröfur sem er að finna í lögum, reglum og alþjóðlegum stöðlum hverju sinni og það efni sem kennt er í íslenskum háskólum og lagt til grundvallar löggildingarprófum endurskoðenda hér á landi.

    Góð endurskoðunarvenja felur meðal annars í sér að endurskoðandi skal auðsýna faglega gagn­rýni, heiðarleika, hlutleysi, trúnað, faglega hæfni og varkárni við framkvæmd verkefna. Endur­skoðandi skal viðhalda faglegri þekkingu og hæfni sinni til að tryggja faglega þjónustu í samræmi við framþróun í greininni. Endurskoðun skal vera áhættumiðuð og skal endurskoðandi vera með­vitaður um möguleikann á því að verulegar rangfærslur séu til staðar, þ.m.t. sviksemi eða skekkjur, þrátt fyrir að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki hafi fyrri reynslu af heiðarleika og ráð­vendni stjórn­enda einingarinnar sem er endurskoðuð og þeirra sem bera ábyrgð á stjórn­unar­háttum hennar.

    Endurskoðandi skal beita faglegri gagnrýni þegar mat stjórnenda er skoðað, t.d. hvað varðar gangvirði, virðisrýrnun eigna, reiknaðar skuldbindingar og framtíðarsjóðstreymi sem skiptir máli fyrir getu einingarinnar til að viðhalda rekstrarhæfi.

    Endurskoðandi er opinber sýslunarmaður við framkvæmd endurskoðunarstarfa.

    Ráðherra getur sett reglugerð um nánari útfærslu á starfsemi endurskoðanda og endurskoð­unar­fyrirtækis og framkvæmd endurskoðunar, meðal annars í ljósi alþjóðlegra skuld­bind­inga.

15. gr.

Áritunarendurskoðendur.

    Þegar endurskoðunarfyrirtæki annast endurskoðun skal það tilnefna a.m.k. einn áritunar­endurskoð­anda.

    Áritunarendurskoðandi skal taka virkan þátt í endurskoðuninni og verja nægilegum tíma í verk­efnið. Jafnframt skal hann tryggja að hann hafi á að skipa starfsfólki svo að hann geti innt af hendi skyldur sínar við endurskoðunina.

    Endurskoðunarfyrirtæki skal í samræmi við 2. mgr. útvega áritunarendurskoðanda nægileg aðföng og starfsfólk sem hefur hæfni til að sinna störfum sínum með fullnægjandi hætti.

    Meginviðmið endurskoðunarfyrirtækis við tilnefningu og val á áritunarendurskoðanda skal vera að tryggja gæði endurskoðunarinnar, óhæði og hæfni.

16. gr.

Áritun endurskoðanda.

    Við lok endurskoðunar skal endurskoðandi árita hin endurskoðuðu reikningsskil með áritun sem inniheldur upplýsingar um endurskoðunina og álit endurskoðandans. Árita skal hin endurskoðuðu reikningsskil með nafni áritunarendurskoðanda og nafni endurskoðunarfyrirtækis. Áritun skal vera í samræmi við lög, reglur og góða endurskoðunarvenju.

    Áritun skal vera skrifleg og skal meðal annars:

  1. Tilgreina hina endurskoðuðu einingu og sérstaklega hvaða ársreiknings eða samstæðu­reikn­ings­skila hún tekur til auk dagsetningar og tímabils og jafnframt reiknings­skila­rammann sem beitt var þegar ársreikningurinn eða samstæðureikningsskilin voru samin.
  2. Hafa að geyma lýsingu á umfangi endurskoðunarinnar og þau viðmið sem notuð voru við endurskoðunina.
  3. Innihalda álit endurskoðanda, sem skal vera án fyrirvara, með fyrirvara eða neikvætt, þar sem kemur skýrt fram álit endurskoðandans á því hvort ársreikningurinn:
    1. gefi glögga mynd í samræmi við settar reikningsskilareglur og
    2. uppfylli aðrar lögbundnar kröfur þar sem við á.
  4. Innihalda áritun án álits ef endurskoðanda er ekki unnt að láta í ljós álit sitt.
  5. Skírskota til annarra málefna sem vekja sérstaka athygli endurskoðandans, eftir því sem við á, án þess að gefa áritun með fyrirvara.
  6. Tilgreina alla verulega óvissu varðandi rekstrarhæfi einingarinnar.
  7. Tilgreina starfsstöð endurskoðandans eða endurskoðunarfyrirtækisins.
  8. Innihalda upplýsingar um ábyrgð stjórnenda.
  9. Innihalda staðfestingu um óhæði endurskoðenda.
  10. Innihalda staðfestingu á að endurskoðandi hafi aflað nægilegra og viðeigandi gagna til að byggja álit sitt á.

    Ef fleiri en einn endurskoðandi annast endurskoðunina skulu þeir komast að samkomulagi um niðurstöður endurskoðunarinnar og leggja fram sameiginlega áritun. Ef upp kemur ágreiningur skal hver endurskoðandi fyrir sig leggja fram eigin áritun í aðskilinni efnisgrein og greina frá ástæðu fyrir ágreiningi.

    Endurskoðandi skal skrifa undir og dagsetja áritun sína. Ef fleiri en einn endurskoðandi eða endur­skoðunarfyrirtæki hafa verið valin samtímis skal áritunin undirrituð af öllum endur­skoð­endunum eða að lágmarki af þeim áritunarendurskoðendum sem inna endurskoðunina af hendi fyrir hönd hvers endurskoðunarfyrirtækis.

    Áritun endurskoðanda á samstæðureikningsskilum skal uppfylla sömu kröfur og settar eru fram í þessari grein.

    Endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki skulu, eftir því sem við á, staðfesta að skýrsla stjórnar og ársreikningur innihaldi það sem skylt er samkvæmt lögum um ársreikninga.

17. gr.

Skjölun.

    Endurskoðandi skal útbúa vinnuskjöl fyrir sérhverja endurskoðun og varðveita þau á tryggan og öruggan hátt í a.m.k. sjö ár frá áritunardegi.

    Endurskoðandi skal geta sýnt fram á hvernig endurskoðunin fór fram og niðurstöður hennar á rökstuddan og sannanlegan hátt. Þar sem um gæti verið að ræða svik eða villu, að mati endur­skoðanda, skal skjalfesta það sérstaklega með upplýsingum um hvað endurskoðandinn hafi gert í því sam­bandi.

    Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal halda eftir öllum gögnum og skjölum sem skipta máli til stuðnings endurskoðunarárituninni, sbr. 16. gr., og sem sönnun þess að farið hafi verið eftir lögum og reglum er lúta að endurskoðuninni.

    Ef áritunarendurskoðandi leitar ráðgjafar hjá utanaðkomandi sérfræðingum skal skrá beiðnina og ráðgjöfina sem fengin var.

    Áritunarendurskoðandi skal meðal annars skrá þau gögn sem endurskoðanda ber að skrá skv. V. kafla um óhæði endurskoðanda.

    Við endurskoðun samstæðu skulu viðeigandi vinnuskjöl annarra endurskoðenda sem koma að endurskoðun eininga innan samstæðunnar skjalfest.

    Loka skal endurskoðunarskjalaskrá eigi síðar en 60 dögum eftir dagsetningu áritunar.

18. gr.

Gæðakerfi.

    Endurskoðunarfyrirtæki og endurskoðendur skulu starfa samkvæmt formlegu gæðakerfi. Form­legt gæðakerfi skal meðal annars innihalda reglur um ábyrgð stjórnenda á gæðum endur­skoðunar, viðeigandi siðareglur, reglur um samþykki og áframhaldandi samþykki viðskipta­vina og endur­skoð­unar­verkefna, reglur um ráðningu starfsfólks í endurskoðunarteymi, reglur um fram­kvæmd endur­skoðunar og reglur um eftirfylgni og skráningu gæðakerfis. Stjórn endurskoð­unar­fyrirtækis skal bera ábyrgð á gæðakerfinu og skal kerfið metið árlega. Niðurstöður úr mati og fyrir­hugaðar breytingar á kerfinu skulu skjalfestar.

    Endurskoðunarfyrirtæki skal halda viðskiptamannaskrá. Slík skrá skal geyma eftirfarandi gögn fyrir hvern viðskiptavin:

  1. nafn, heimilisfang og starfsstöð,
  2. nafn áritunarendurskoðanda og
  3. þóknun fyrir endurskoðun og aðra þjónustu fyrir hvert fjárhagsár.

    Endurskoðunarfyrirtæki skal halda skrá yfir brot á ákvæðum laga og reglna um endurskoðendur þar sem við á. Endurskoðunarfyrirtæki skal einnig halda skrá yfir afleiðingar brota, þ.m.t. ráð­stafanir sem gripið er til til að bregðast við slíkum brotum og aðgerðir endurskoð­unar­fyrirtækisins til aðlögunar á gæðakerfi þess í framhaldi. Endurskoðunarfyrirtæki skal vinna árs­skýrslu, sem inniheldur yfirlit yfir allar slíkar ráðstafanir, og skal miðla þeirri skýrslu til stjórnar fyrir­tækisins.

    Endurskoðunarfyrirtæki skal halda skrá yfir skriflegar kvartanir um framkvæmd endur­skoð­unar­innar.

    Ráðherra getur sett reglugerð um nánari útfærslu á gæðakerfi og skipulagi vinnu endurskoðanda og endurskoðunarfyrirtækja.

19. gr.

Þóknun.

    Þóknun fyrir endurskoðun skal við það miðuð að hún geri endurskoðanda kleift að komast að rökstuddri niðurstöðu í samræmi við þær faglegu kröfur sem settar eru fram í lögum þessum og gilda almennt um störf endurskoðenda.

    Greiðslu eða fjárhæð þóknunar fyrir endurskoðun má ekki með nokkrum hætti skilyrða eða tengja annarri þjónustu en endurskoðuninni.

20. gr.

Peningaþvætti.

    Endurskoðandi skal gæta að fyrirmælum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og kanna áreiðanleika viðskiptamanna sinna í samræmi við ákvæði laga þar um.

21. gr.

Starfstími endurskoðenda.

    Ef ekki er annað áskilið í lögum eða í samþykktum eða samið um annað helst starf endur­skoðanda samkvæmt lögum þessum þangað til annar endurskoðandi tekur við. Ráða skal endur­skoð­anda eða endurskoðunarfyrirtæki í upphafsverkefni til a.m.k. eins árs. Ekki er hægt að segja upp samningi um endurskoðun vegna ágreinings um reikningsskilareglur eða endurskoð­unar­aðferðir.

    Þegar skipt er um endurskoðanda skal endurskoðandinn sem tekur við snúa sér til fráfarandi endurskoðanda sem ber skylda til að upplýsa um ástæður fyrir starfslokum sínum. Jafnframt skal fyrri endurskoðandi veita hinum nýja endurskoðanda aðgang að öllum upplýsingum sem máli skipta um eininguna sem endurskoðuð er.

    Ef endurskoðandi segir sig frá endurskoðunarverkefni og ræður öðrum endurskoðanda frá því að taka að sér endurskoðunarverkefni skal það skjalfest og rökstutt.

    Ef nýr endurskoðandi tekur að sér endurskoðunarverkefni þrátt fyrir ráðleggingar fyrri endur­skoðanda um að gera það ekki skal skjalfesta ástæður þess og rök.

    Hvorki áritunarendurskoðanda né öðrum endurskoðendum sem koma að endurskoðun reikn­ings­skila­einingar er heimilt að taka við lykilstjórnunarstöðu hjá einingunni sem er endur­skoðuð, sitja í stjórn eða vera nefndarmaður í endurskoðunarnefnd einingarinnar sem er endur­skoðuð, eða sem fulltrúi sem sinnir sambærilegum verkum og endurskoðunarnefnd sinnir, fyrr en a.m.k. að einu ári liðnu frá því að hann tók þátt í endurskoðun einingarinnar.

    Áritunarendurskoðanda á einingu tengdri almannahagsmunum er ekki heimilt að taka við lykil­stjórnunarstöðu hjá viðkomandi einingu fyrr en a.m.k. tvö ár eru liðin frá því að hann tók þátt í endur­skoðun einingarinnar.

22. gr.

Endurskoðandi samstæðu.

    Endurskoðandi samstæðu ber ábyrgð á endurskoðun samstæðureikningsskila. Endurskoðandi samstæðunnar skal afla gagna og leggja mat á vinnu annarra endurskoðenda sem komið hafa að endurskoðun annarra eininga innan samstæðunnar, eftir því sem við á. Endurskoðandi samstæðu skal skjalfesta eðli, tímasetningu og umfang vinnunnar sem aðrir endurskoðendur inna af hendi. Jafnframt ber honum að yfirfara viðeigandi vinnuskjöl annarra endurskoðenda eftir því sem við á. Skjölun endurskoðanda samstæðu skal vera með þeim hætti að eftirlitsaðilinn geti yfirfarið vinnu annarra endurskoðenda samstæðunnar.

    Ef endurskoðanda samstæðu er ekki unnt að leggja mat á endurskoðunarvinnu sem endur­skoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki einstakrar einingar innan samstæðunnar í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins innir af hendi skal hann grípa til viðeigandi ráðstafana og upplýsa viðkom­andi lögbært yfirvald. Slíkar ráðstafanir skulu, eftir því sem við á, lúta að því að sinna frekari endur­skoð­unar­vinnu í einingunni sem um ræðir, annaðhvort beint eða með því að útvista slíkum verkefnum.

    Endurskoðandi samstæðu ber ábyrgð á áritun endurskoðanda, sbr. 16. gr., og varðveislu gagna og eftir atvikum skýrslum til endurskoðunarnefndar, sbr. 12. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014 frá 16. apríl 2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB. Skjölun endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis samstæðunnar skal vera þannig að viðkomandi lögbæru yfirvaldi sé kleift að yfirfara vinnu endurskoðandans.

    Ef endurskoðandi samstæðu sætir gæðaeftirliti eða rannsókn vegna endurskoðunar samstæðu­reikningsskila skal endurskoðandi samstæðunnar veita eftirlitsaðila aðgang að öllum vinnu­skjölum sem tengjast endurskoðun samstæðunnar þegar þess er óskað, þ.m.t. vinnuskjölum endur­skoð­enda og endurskoðunarfyrirtækja frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Endurskoðendaráð getur óskað eftir viðbótarskjölum, sem varða endurskoðunarvinnu sérhvers endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis vegna endurskoðunar samstæðu, frá viðkomandi lögbærum yfirvöldum.

    Ef endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins endur­skoðar móðurfélög eða dótturfélög samstæðu getur endurskoðendaráð óskað eftir viðbótar­skjölum frá eftirlitsaðilum viðkomandi ríkis vegna endurskoðunarvinnu endurskoðanda eða endur­skoð­unarfyrirtækis þess lands.

    Í þeim tilvikum þegar ekki er unnt að senda vinnuskjöl um endurskoðun frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins til endurskoðanda samstæðunnar skulu vera til gögn hjá endur­skoðanda samstæðunnar sem sýna fram á að hann hafi beitt viðeigandi aðferðum til þess að fá aðgang að endurskoðunargögnunum. Ef um er að ræða hömlur, sem eru tilkomnar vegna laga viðkom­andi ríkja, skulu einnig vera sannanir um slíkar hömlur.

V. KAFLI

Óhæði endurskoðanda.

23. gr.

Óhæði í reynd og ásýnd.

    Endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki skulu vera óháð viðskiptavini sínum við vinnu endur­skoðunarverkefna, bæði í reynd og ásýnd. Endurskoðandi skal ekki framkvæma endurskoðun ef einhver þau tengsl eru milli endurskoðandans og viðskiptavinar hans sem eru til þess fallin að vekja efa um óhæði hans hjá vel upplýstum þriðja aðila, svo sem atvinnutengsl, fjölskyldutengsl, bein eða óbein fjárhagsleg tengsl eða viðskiptatengsl önnur en leiðir af endurskoðuninni. Endur­skoð­andi skal vera óháður viðskiptavini sínum það tímabil sem reikningsskilin sem eru endur­skoðuð ná til og þar til endurskoðun er lokið.

    Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal ekki taka þátt í ákvarðanatöku innan hinnar endurskoðuðu einingar.

24. gr.

Óhæðisógnanir.

    Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja óhæði í reynd og ásýnd. Óhæði skal skoða í ljósi mögulegra hagsmuna- eða viðskiptaárekstra, og beinna eða óbeinna tengsla endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtækis eða samstarfsfyrirtækjanets þeirra við hina endurskoðuðu einingu. Einnig skal meta óhæði stjórnenda endurskoðunarfyrirtækja, endur­skoðenda, starfsmanna og annarra einstaklinga sem veita þjónustu fyrir eða undir stjórn árit­unar­endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis eða annars aðila sem hefur bein eða óbein tengsl við áritunar­endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki í krafti yfirráða.

    Endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki eða samstarfsfyrirtækjanet þeirra skulu ekki annast endur­skoðun einingar ef til staðar er ógnun sem ekki er hægt að draga úr með viðeigandi varúðar­ráðstöf­unum svo að hún verði ásættanleg. Með ógnun er meðal annars átt við eigin­hagsmuna­ógnun, sjálfsmatsógnun, málsvarnarógnun, vinfengisógnun og þvingunarógnun.

25. gr.

Viðskipti með fjármálagerninga.

    Endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki, samstarfsfyrirtækjanet þeirra, starfsmenn þeirra og þeir sem veita þjónustu fyrir áritunarendurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki og taka beinan þátt í endurskoðuninni, sem og aðilar nátengdir þeim, skulu ekki eiga í viðskiptum með fjár­mála­gerninga sem eru útgefnir, tryggðir eða studdir með öðrum hætti af einingu sem verið er að endur­skoða, að undanskilinni óbeinni eignarhlutdeild í gegnum dreifða sameiginlega fjárfest­ingar­sjóði, þ.m.t. stýrðir sjóðir eins og lífeyrissjóðir eða sjóðir líftryggingafélaga.

    Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal ekki taka þátt í eða hafa að öðru leyti áhrif á niðurstöðu endurskoðunar þeirrar einingar sem endurskoðuð er ef endurskoðandi eða endur­skoð­unar­fyrirtæki:

  1. er handhafi fjármálagerninga í einingunni sem er endurskoðuð, að undanskilinni óbeinni eignar­hlutdeild í dreifðum sameiginlegum fjárfestingarsjóðum,
  2. er handhafi fjármálagerninga í einingu sem tengist endurskoðaðri einingu og eignarhald í henni getur valdið eða getur almennt talist valda hagsmunaárekstri, að undanskilinni óbeinni eignarhlutdeild í dreifðum sameiginlegum fjárfestingarsjóðum, eða
  3. tengist einingunni sem er endurskoðuð í gegnum viðskipti eða með því að hafa verið starfs­maður einingarinnar eða tengjast einingunni með öðrum hætti innan þess tímabils, sem um getur í 1. mgr. 23. gr., sem getur valdið eða getur almennt talist valda hagsmuna­árekstri.

26. gr.

Gjafir.

    Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal ekki þiggja gjafir, hvort heldur sem um er að ræða gjafir í formi fjármuna eða ófjárhagslegra gjafa, frá einingunni sem er endurskoðuð eða nokkurri einingu sem tengist endurskoðuðu einingunni nema hlutlægur þriðji aðili mundi telja verðmæti þeirra óverulegt eða léttvægt.

27. gr.

Samruni eininga.

    Ef eining sem er endurskoðuð er yfirtekin, sameinast eða tekur yfir aðra einingu á því tímabili sem reikningsskilin ná til skal endurskoðandinn eða endurskoðunarfyrirtækið meta núverandi eða fyrri hagsmuni eða sambönd, þ.m.t. þjónustu sem ekki felur í sér endurskoðun sem veitt hefur verið þeirri einingu, að teknu tilliti til mögulegra varúðarráðstafana, sem gætu stofnað í hættu óhæði endurskoðandans og möguleikanum á að halda áfram með endurskoðunina að loknum gildistökudegi samrunans eða kaupanna.

    Eins fljótt og auðið er, þó eigi síðar en innan þriggja mánaða frá gildistökudegi samrunans eða yfirtökunnar, skal endurskoðandinn eða endurskoðunarfyrirtækið stíga öll nauðsynleg skref til að binda enda á hvers kyns hagsmuni eða tengsl, sem fyrir hendi eru sem stefna óhæði endur­skoðandans í hættu, og skal, ef unnt er, gera varúðarráðstafanir til að lágmarka ógnun við óhæðið sem kann að stafa af fyrri og núverandi hagsmunum og tengslum.

28. gr.

Eigendur og stjórnendur.

    Endurskoðunarfyrirtæki skal koma á viðeigandi verklagsreglum til að tryggja að eigendur endur­skoðunarfyrirtækis, svo og stjórnarmenn í stjórn eða framkvæmdastjórn þess eða tengdra fyrirtækja, aðrir en áritunarendurskoðandi, blandi sér ekki í framkvæmd endurskoðunar á nokkurn hátt þannig að það stofni í hættu óhæði og hlutlægni endurskoðanda sem annast endurskoðun fyrir hönd endurskoðunarfyrirtækis.

29. gr.

Staðfesting við endurskoðunarnefnd.

    Endurskoðandi einingar tengdrar almannahagsmunum skal skriflega á hverju ári:

  1. staðfesta við endurskoðunarnefnd viðkomandi einingar að hann sé óháður hinni endur­skoðuðu einingu,
  2. greina endurskoðunarnefndinni frá þeirri þjónustu sem einingunni er veitt auk endur­skoðunar og
  3. gera endurskoðunarnefndinni grein fyrir hugsanlegri ógnun við óhæði sitt og þeim varúðar­ráðstöfunum sem gerðar eru til að draga úr slíkri ógnun.

VI. KAFLI

Þagnarskylda og upplýsingagjöf.

30. gr.

Þagnarskylda og upplýsingagjöf.

    Endurskoðendur, starfsmenn endurskoðenda, eftirlitsaðilar og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu endurskoðenda eða eftirlitsaðila eru bundnir þagnarskyldu um allt það er þeir kunna að komast að vegna starfa sinna og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upp­lýs­ingar lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er endurskoðendaráði heimilt að láta viðkomandi lögbærum yfirvöldum sem hafa eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum í té upplýsingar að því tilskildu að þau yfirvöld uppfylli kröfur um samsvarandi þagnarskyldu í sínu heimalandi.

    Með upplýsingar sem eftirlitsaðili fær frá framangreindum erlendum aðilum og tilgreindar eru sem trúnaðarmál eða eru það eðli máls samkvæmt skal fara að hætti 1. mgr.

VII. KAFLI

Gæðaeftirlit.

31. gr.

Inntak gæðaeftirlits.

    Endurskoðendum eða endurskoðunarfyrirtækjum er skylt að sæta gæðaeftirliti á grundvelli áhættu­greiningar eigi sjaldnar en á sex ára fresti í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

    Endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem annast endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum skulu þó sæta gæðaeftirliti sem fer fram á grundvelli áhættugreiningar eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.

    Endurskoðendaráð setur reglur um framkvæmd gæðaeftirlits og val gæðaeftirlitsmanna svo að tryggt sé að þeir séu hæfir og óháðir þeim sem eftirlitið beinist að.

    Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki sem sætir gæðaeftirliti skal veita þeim sem sinnir gæðaeftirliti nauðsynlega aðstoð og aðgang að upplýsingum sem óskað er eftir við gæðaeftirlitið. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

    Við gæðaeftirlit skal taka tillit til umfangs og þess hve flókin starfsemi og verkefni endur­skoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis sem sætir eftirliti eru.

    Í gæðaeftirliti skulu gæðakerfi endurskoðunarfyrirtækis yfirfarin.

    Endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki skulu fara að tilmælum sem fram koma í niðurstöðum gæðaeftirlitsins. Endurskoðendaráð getur óskað eftir staðfestingu á að brugðist hafi verið við til­mæl­unum eða látið framkvæma eftirlit til staðfestingar á að tilmælum hafi verið fylgt eftir. Ef til­mæl­um gæðaeftirlitsins er ekki fylgt eftir skal endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki sæta viður­lögum skv. 24. tölul. 1. mgr. 49. gr. og 9. tölul. 51. gr.

    Endurskoðendaráð skal árlega birta upplýsingar um heildarniðurstöðu gæðaeftirlitsins.

32. gr.

Hæfi gæðaeftirlitsmanna.

    Gæðaeftirlitsmaður skal hafa viðeigandi menntun og reynslu í endurskoðun og reikningsskilum auk sérstakrar þjálfunar í gæðaeftirliti.

    Gæðaeftirlitsmaður skal staðfesta óhæði sitt og að ekki sé að vænta neinna hagsmunaárekstra hans og endurskoðandans eða endurskoðunarfyrirtækisins sem sætir gæðaeftirliti.

VIII. KAFLI

Eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

33. gr.

Eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

    Endurskoðendaráð annast eftirlit með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja sam­kvæmt fyrirmælum laga þessara og reglugerða og reglna settra á grundvelli þeirra.

34. gr.

Eftirlitsaðili.

    Eftirliti með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum skal stýrt af einstaklingum sem ekki eru starfandi sem endurskoðendur en hafa þekkingu til að bera á sviðum sem tengjast endur­skoðun.

    Ráðherra skipar þrjá einstaklinga í endurskoðendaráð til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara og skulu þeir hafa þekkingu á sviðum sem tengjast endurskoðun. Skal formaður fullnægja skil­yrðum til að vera skipaður í embætti héraðsdómara. Eins skal farið að um skipun varamanna.

    Endurskoðendaráð getur leitað ráðgjafar endurskoðenda og annarra sérfræðinga og útvistað einstökum eftirlitsverkefnum en öll ákvörðunartaka skal vera hjá endurskoðendaráði.

35. gr.

Hlutverk endurskoðendaráðs.

    Hlutverk endurskoðendaráðs er að hafa eftirlit með því að endurskoðendur og endur­skoð­unar­fyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði þessara laga, góða endurskoðunar­venju, siðareglur endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda.

    Í eftirlitinu felst ábyrgð á:

  1. löggildingu endurskoðenda og starfsleyfum endurskoðunarfyrirtækja,
  2. beitingu viðurlaga,
  3. eftirliti með gæðakerfi endurskoðunarfyrirtækja og
  4. gæðaeftirliti skv. VII. kafla.

    Í eftirlitinu felst einnig ábyrgð á eftirfylgni með:

  1. því að kröfum um óhæði skv. V. kafla sé fylgt,
  2. innleiðingu góðrar endurskoðunarvenju og siðareglum endurskoðenda,
  3. kröfum um endurmenntun skv. 9. gr. og
  4. starfsábyrgðartryggingu skv. 8. gr.

    Ákvarðanir endurskoðendaráðs um veitingu, niðurfellingu og sviptingu löggildingar endur­skoð­enda og starfsleyfa endurskoðunarfyrirtækja eru kæranlegar til ráðuneytisins. Aðrar ákvarð­anir endur­skoð­endaráðs sæta ekki stjórnsýslukæru.

36. gr.

Samvinna við erlenda eftirlitsaðila.

    Endurskoðendaráð skal hafa samvinnu við lögbær yfirvöld í ríki innan Evrópska efnahags­svæðis­ins, í aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum við eftirlit og rannsókn með störfum endurskoðenda.

    Endurskoðendaráði er heimilt að hafa samvinnu við eftirlitsaðila í ríkjum utan Evrópska efna­hags­svæðisins um upplýsingaskipti og eftirlit með endurskoðendum og endurskoð­unar­fyrirtækjum félaga sem eru með skráða starfsstöð utan Evrópska efnahagssvæðisins en gefa út verð­bréf sín sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi.

37. gr.

Meðferð mála hjá endurskoðendaráði.

    Endurskoðendaráð getur tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði ef ástæða er til að ætla að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki hafi brotið gegn lögum þessum, góðri endurskoð­unar­venju, siðareglum endurskoðenda eða öðrum reglum sem taka til starfa endurskoð­enda.

    Hver sá sem telur á sér brotið af hálfu endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis með aðgerðum eða aðgerðaleysi getur vísað málinu til endurskoðendaráðs, enda hafi hann lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Mál skal lagt fyrir endurskoðendaráð með skriflegu erindi svo fljótt sem verða má en eigi síðar en fjórum árum eftir að atvik átti sér stað.

    Endurskoðendaráð tekur ákvörðun um ágreiningsefni sem lúta að störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja samkvæmt lögum þessum, reglum settum á grundvelli þeirra og góðri endurskoðunarvenju.

    Endurskoðendaráði er heimilt ef sérstaklega stendur á að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna rekstrar máls fyrir ráðinu.

    Endurskoðendaráð getur vísað máli til opinberrar rannsóknar.

38. gr.

Skýrsla endurskoðendaráðs.

    Endurskoðendaráð skal árlega gefa út skýrslu um störf sín er lúta að eftirliti með endur­skoð­endum og endurskoðunarfyrirtækjum og birta opinberlega.

    Endurskoðendaráð skal birta árlega heildarniðurstöður gæðaeftirlits hjá endurskoðendum og endur­skoðunarfyrirtækjum.

    Birta skal opinberlega og tryggja að unnt sé að rekja allar ákvarðanir endurskoðendaráðs. Birta skal nöfn endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja. Þó skal ekki birta nöfn endurskoðenda ef birtingin:

  1. leiðir til þess að opinberar verði persónulegar upplýsingar sem leynt skulu fara,
  2. hefur neikvæð áhrif á stöðugleika á fjármálamarkaði eða refsimál sem er til rannsóknar eða
  3. hefur í för með sér ótilhlýðilegan skaða.

39. gr.     

Eftirlitsgjald endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja.

    Sérhver endurskoðandi skal árlega greiða í ríkissjóð gjald að fjárhæð 100 þús. kr. til að standa straum af kostnaði við störf endurskoðendaráðs er lýtur að eftirliti með endurskoðendum. Gjalddagi er 1. apríl ár hvert. Ef ekki er greitt innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu.

40. gr.     

Gjald vegna gæðaeftirlits.

    Heimilt er að innheimta þjónustugjöld fyrir gæðaeftirlit með endurskoðendum og endur­skoð­unar­fyrirtækjum.

    Falla þar undir gjöld vegna:

  1. útsendingar bréfa og gagna,
  2. vinnslu gagna,
  3. vettvangseftirlits á starfsstöð endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis,
  4. skýrslugerðar,
  5. endurtekins gæðaeftirlits og
  6. fundarsetu.

    Fyrir eftirlit samkvæmt þessari grein skal greitt gjald sem er ekki hærra en raunkostnaður við að standa straum af kostnaðarþáttum við eftirlit. Þannig skal við ákvörðun gjalda leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, ferðakostnað, kostnað vegna þjálfunar og endur­menntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, stjórnunar og stoð­þjónustu.

    Ráðherra staðfestir, að fengnum tillögum endurskoðendaráðs, gjaldskrá fyrir gæðaeftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum samkvæmt lögum þessum. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.

    Endurskoðendaráð annast innheimtu gjalda samkvæmt greininni og renna þau óskipt til ráðsins. Gjöldin skulu greidd samkvæmt reikningi sem gefinn skal út eftir að gæðaeftirlit fer fram. Gjalddagi er við útgáfu reiknings og eindagi 15 dögum síðar. Sé gjald greitt eftir eindaga reiknast dráttar­vextir frá gjalddaga í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu. Innheimta má gjöld sam­kvæmt þessari grein með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.

41. gr.

Upplýsingar til eftirlitsaðila.

    Endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki, starfsmenn endurskoðunarfyrirtækja og aðrir þeir sem aðkomu hafa að endurskoðunarverkefnum skulu veita endurskoðendaráði allar nauðsynlegar upp­lýsingar sem ráðið óskar eftir í tengslum við þau verkefni sem endurskoðendaráði eru falin í lögum þessum.

    Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar samkvæmt þessari grein.

    Endurskoðendaráð hefur heimild til að óska eftir upplýsingum og gögnum frá öðrum aðilum í tengslum við verkefni sem endurskoðendaráði eru falin í lögum þessum.

IX. KAFLI

Endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum.

42. gr.

Lögfesting.

    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 um sérstakar kröfur í tengsl­um við lögboðna endurskoðun á einingum sem tengjast almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambandsins nr. 31 frá 9. maí 2018, bls. 29–64, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlög­unum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102, frá 27. apríl 2018, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.

43. gr.

Eftirlit.

    Endurskoðendaráð fer með eftirlit samkvæmt þessum kafla og er lögbært yfirvald í samræmi við 20. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014.

44. gr.

Heimild til að veita þjónustu sem ekki felur í sér endurskoðun.

    Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki getur þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014 veitt skattaþjónustu skv. i. og iv.–vii. lið a-liðar annarrar undirgreinar 1. mgr. og verðmatsþjónustu skv. f-lið annarrar undirgreinar 1. mgr. að uppfylltum skilyrðum 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

45. gr.

Skráahald.

    Endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki skulu geyma endurskoðunargögn í sjö ár hið minnsta, sbr. 15. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014.

46. gr.

Hámarkstími endurskoðunarverkefnis.

    Hámarkstímabil verksamnings endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis skal vera tíu ár, sbr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014. Þó má lengja verksamning í:

  1. Tuttugu ár ef opinbert útboðsferli vegna endurskoðunarinnar fer fram skv. a-lið 4. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014.
  2. Tuttugu og fjögur ár ef fleiri en eitt endurskoðunarfyrirtæki eru ráðin á sama tíma skv. b-lið 4. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB ) nr. 537/2014.

47. gr.

Útvistun verkefna.

    Endurskoðendaráði er heimilt að útvista hluta þeirra verkefna sem því eru falin skv. 24. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014. Skilgreining verkefna og skilmálar skulu vera skýrir.

    Eftirfarandi verkefnum er þó ekki heimilt að útvista:

  1. gæðaeftirliti endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja á einingum tengdum almanna­hagsmunum,
  2. rannsóknum sem koma til vegna gæðaeftirlits eða tilvísunar af hálfu annars yfirvalds og
  3. ákvörðunum og beitingu viðurlaga sem tengjast gæðaeftirliti eða rannsóknum á endur­skoðun á einingum tengdum almannahagsmunum.

X. KAFLI

Viðurlög.

48. gr.

Réttindamissir og áminning.

    Ef endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki brýtur gegn lögum þessum eða vanrækir alvarlega skyldur sínar að öðru leyti að mati endurskoðendaráðs er því heimilt að fella réttindi viðkomandi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis úr gildi.

    Ef brot endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis er ekki stórfellt skal áminna viðkomandi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki. Einnig getur endurskoðendaráð í slíkum tilvikum fellt réttindi viðkomandi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis tímabundið úr gildi í allt að þrjú ár.

    Samhliða viðurlögum skv. 1. og 2. mgr. getur endurskoðendaráð eftir atvikum lagt stjórn­valds­sektir á endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki á grundvelli 49. gr.

49. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Endurskoðendaráð getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra: 

  1. 1. mgr. 8. gr. um skyldu endurskoðanda til að hafa starfsábyrgðartryggingu,
  2. 9. gr. um skyldu endurskoðanda til að afla sér endurmenntunar,
  3. 1. mgr. 10. gr. um skyldu endurskoðanda og endurskoðunarfyrirtækis til að tilkynna endur­skoðendaráði að endurskoðandinn eða endurskoðunarfyrirtækið fullnægi ekki skil­yrðum laga til löggildingar eða starfsleyfis,
  4. 14. gr. um skyldu endurskoðenda til að rækja störf sín í samræmi við lög, góða endur­skoð­unarvenju og siðareglur endurskoðenda,
  5. 15. gr. um tilnefningu og störf áritunarendurskoðanda,
  6. 16. gr. um áritun á endurskoðuð reikningsskil,
  7. 17. gr. um skjölun,
  8. 18. gr. um skyldu endurskoðunarfyrirtækja og endurskoðenda til að hafa formlegt gæðakerfi og starfa samkvæmt því,
  9. 19. gr. um þóknun,
  10. 2. mgr. 21. gr. um skyldu fyrri endurskoðanda einingar til að veita nýjum endurskoðanda einingar aðgang að öllum upplýsingum sem máli skipta um eininguna,
  11. 5. mgr. 21. gr. um bann við því að endurskoðandi sem komið hefur að endurskoðun reikn­ingsskila einingar taki við lykilstjórnunarstöðu hjá einingu sem er endurskoðuð, sitji í stjórn eða verði nefndarmaður í endurskoðunarnefnd einingarinnar sem er endurskoðuð eða sem fulltrúi sem sinnir sambærilegum verkum og endurskoðunarnefnd sinnir fyrr en a.m.k. að einu ári liðnu frá því að hann tók þátt í endurskoðun einingarinnar,
  12. 6. mgr. 21. gr. um bann við því að áritunarendurskoðandi á einingu tengdri almanna­hagsmunum taki við lykilstjórnunarstöðu hjá viðkomandi einingu fyrr en a.m.k. tvö ár eru liðin frá því að hann tók þátt í endurskoðun einingarinnar,
  13. 22. gr. um ábyrgð endurskoðanda samstæðu á endurskoðun samstæðureikningsskila,
  14. 23. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að vera óháð viðskiptavini sínum,
  15. 1. mgr. 24. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja óhæði í reynd og ásýnd,
  16. 2. mgr. 24. gr. um bann við því að endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki og samstarfs­fyrirtækjanet þeirra annist endurskoðun einingar ef til staðar er ógnun sem ekki er hægt að draga úr með viðeigandi varúðarráðstöfunum,
  17. 1. mgr. 25. gr. um bann við því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki eigi í við­skiptum með fjármálagerninga sem eru útgefnir, tryggðir eða studdir með öðrum hætti af ein­ingu sem verið er að endurskoða,
  18. 2. mgr. 25. gr. um bann við því að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki taki þátt í eða hafi að öðru leyti áhrif á niðurstöðu endurskoðunar tiltekinna eininga,
  19. 26. gr. um bann við því að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki þiggi gjafir,
  20. 2. mgr. 27. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að binda enda á hagsmuni eða tengsl sem stefna óhæði endurskoðandans í hættu við yfirtöku eða samruna einingar sem er endurskoðuð,
  21. 28. gr. um skyldu endurskoðunarfyrirtækja til að setja verklagsreglur til að tryggja að eig­endur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórn endurskoðunarfyrirtækis og tengdra fyrir­tækja, aðrir en áritunarendurskoðandi, blandi sér ekki í framkvæmd endur­skoð­unarinnar,
  22. 29. gr. um skyldu endurskoðenda á einingu tengdri almannahagsmunum gagnvart endur­skoð­unarnefndum,
  23. 30. gr. um þagnarskyldu,
  24. 31. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að sæta gæðaeftirliti, veita nauðsynlega aðstoð og aðgang að upplýsingum í tengslum við framkvæmd gæðaeftirlits og fara að tilmælum sem fram koma í niðurstöðum gæðaeftirlits,
  25. 39. gr. um skyldu endurskoðenda til greiðslu eftirlitsgjalds,
  26. 40. gr. um skyldu endurskoðenda til greiðslu gjalds fyrir gæðaeftirlit,
  27. 41. gr. um skyldu endurskoðenda, endurskoðunarfyrirtækja, starfsmanna endur­skoð­unar­fyrirtækja og annarra sem aðkomu hafa að endurskoðunarverkefnum til að veita endur­skoð­endaráði allar þær upplýsingar sem ráðið óskar eftir í tengslum við þau verkefni sem því eru falin í lögum þessum.
  28. 44. gr. laganna, sbr. 5. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014 um bann við því að endur­skoðendur og endurskoðunarfyrirtæki veiti viðbótarþjónustu,
  29. 45. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að geyma endur­skoð­unar­gögn,
  30. 46. gr. um hámarkstímabil verksamnings endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja.

    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 15 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 40 millj. kr. 

    Við ákvörðun sekta skal meðal annars tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t.: 

  1. alvarleika brots,
  2. hve lengi brotið hefur staðið, 
  3. ábyrgðar hins brotlega,
  4. fjárhagsstöðu hins brotlega,
  5. ávinnings af broti eða taps sem afstýrt er með broti, 
  6. samstarfsvilja hins brotlega, 
  7. fyrri brota og
  8. hvort um ítrekað brot er að ræða. 

    Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af endurskoðendaráði og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort brot er framið af ásetningi eða gáleysi. 

50. gr.

Fyrning.

    Heimild endurskoðendaráðs til að leggja á stjórnvaldssekt skv. 49. gr. fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. 

    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar endurskoðendaráð tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti og hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

51. gr.

Sektir og fangelsi allt að tveimur árum.

    Brot gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við brotum samkvæmt öðrum lögum:

  1. 1. mgr. 6. gr. um notkun hugtakanna endurskoðandi eða endurskoðun í starfs- eða firma­heiti og bann við að vekja þá trú að aðili sé endurskoðandi ef hann er það ekki,
  2. 14. gr. um skyldu endurskoðenda til að rækja störf sín í samræmi við lög, góða endur­skoðunarvenju og siðareglur endurskoðenda,
  3. 16. gr. um áritun á endurskoðuð reikningsskil,
  4. 18. gr. um skyldu endurskoðunarfyrirtækja og endurskoðenda til að hafa formlegt gæðakerfi og vinna samkvæmt því,
  5. 22. gr. um ábyrgð endurskoðanda samstæðu á endurskoðun samstæðureikningsskila,
  6. 23. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að vera óháð viðskiptavini sínum,
  7. 25. gr. um bann við því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki eigi í viðskiptum með fjármálagerninga sem eru útgefnir, tryggðir eða studdir með öðrum hætti af einingu sem verið er að endurskoða,
  8. 30. gr. um þagnarskyldu,
  9. 31. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að sæta gæðaeftirliti, veita nauðsynlega aðstoð og aðgang að upplýsingum í tengslum við framkvæmd gæðaeftirlits og fara að tilmælum sem fram koma í niðurstöðum gæðaeftirlits.

52. gr.

Refsiábyrgð.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. 

    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum. 

    Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verður sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðila, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðila, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðila má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.

    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan og óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi. 

53. gr.

Kæra til lögreglu o.fl.

    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu ákveður endur­skoð­enda­ráð hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldssekt. Ef brot er meiri háttar ber endurskoðendaráði þó að vísa því til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef um verulegar fjárhæðir er að ræða, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðri háttsemi eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Endurskoðendaráð getur á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rann­sóknar lögreglu.

    Með kæru endurskoðendaráðs skulu fylgja afrit gagna sem grunur um brot er studdur við.

    Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun endurskoðendaráðs um að kæra mál til lögreglu. 

    Endurskoðendaráði er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast brotum skv. 51. gr. Endurskoðendaráði er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn brota skv. 51. gr.

    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta endurskoðendaráði í té upplýsingar og gögn sem hefur verið aflað og tengjast brotum skv. 51. gr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum endur­skoð­endaráðs vegna rannsóknar á brotum skv. 51. gr.

    Telji ákærandi að ekki sé tilefni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafn­framt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til endurskoðendaráðs til meðferðar og ákvörðunar.

XI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

54. gr.

Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2014/56/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2006/43/EB um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018, frá 27. apríl 2018 og reglugerð Evrópu­þingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endur­skoðun á einingum sem tengjast almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun fram­kvæmda­stjórnarinnar 2005/909/EB eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahags­svæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018, frá 27. apríl 2018.

55. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020. Frá sama tíma falla úr gildi lög um endurskoðendur, nr. 79/2008.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast ákvæði 46. gr. gildi 27. apríl 2024 gagnvart þeim endur­skoð­endum og endurskoðunarfyrirtækjum sem hafa veitt endurskoðunarþjónustu til eininga tengdra almanna­hagsmunum samfellt í 20 ár eða lengur við gildistöku laga þessara og 27. apríl 2027 gagn­vart þeim endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum sem hafa veitt endur­skoð­unar­þjónustu til eininga tengdra almannahagsmunum samfellt í 11 ár eða lengur en skemur en 20 ár við gildistöku laga þessara.

56. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

  1. Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum: 2. mgr. 90. gr. laganna fellur brott.
  2. Lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, með síðari breyt­ingum: Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
    1. Í stað orðanna „Lög um endurskoðendur, nr. 79/2008“ í 1. málsl. kemur: Lög um endurskoðendur og endurskoðun.
    2. Við 2. málsl. bætist: og endurskoðun.
    3. Orðin „skv. 6. gr. laga nr. 79/2008“ í 3. málsl. falla brott.
  3. Lög um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, með síðari breytingum: 4. mgr. 70. gr. laganna fellur brott.

Gjört á Bessastöðum, 1. júlí 2019.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.


A deild - Útgáfud.: 15. júlí 2019