1. gr.
Við reglugerðina bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Útlendingum, sem eru hvorki EES/EFTA-borgarar né ríkisborgarar Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkansins, er óheimilt að koma til landsins þrátt fyrir að þeir fullnægi skilyrðum sem fram koma í 5. gr. reglugerðarinnar og 106. gr. laga um útlendinga.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem hafa gilt dvalarleyfi eða annars konar dvalar- eða búseturétt hér á landi, í öðru EES/EFTA-ríki eða í Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkaninu og aðstandendur þeirra.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um aðstandendur íslenskra ríkisborgara, EES/EFTA-borgara eða ríkisborgara Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkansins.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem eru í nánu parsambandi, sem staðið hefur um lengri tíma, með íslenskum ríkisborgara eða einstaklingi sem er löglega búsettur hér á landi.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem hafa sannanlega búsetu í einu af þeim ríkjum eða sjálfstjórnarsvæðum sem ráðherra hefur sérstaklega undanþegið frá ferðatakmörkunum og eru að koma til landsins frá viðkomandi ríki. Ákvörðun ráðherra skal vera í samræmi við gildandi tilmæli ráðherraráðs Evrópusambandsins um undanþegin ríki og skal birta lista yfir þau ríki sem undanþegin eru ferðatakmörkunum hverju sinni á vefsíðu landamærasviðs ríkislögreglustjóra.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem geta framvísað vottorði um bólusetningu eða vottorði um að COVID-19 sýking sé afstaðin í samræmi við 6. gr. reglugerðar um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19.
Ákvæði 1. mgr. á ekki heldur við um útlendinga sem koma til landsins vegna brýnna erindagjörða, þ. á m. eftirtalda aðila:
- Farþega í tengiflugi.
- Starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu.
- Starfsfólk sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu.
- Einstaklinga sem hafa þörf á alþjóðlegri vernd.
- Einstaklinga sem þurfa að ferðast vegna brýnna aðstæðna í fjölskyldu sinni.
- Einstaklinga og sendinefndir sem koma til landsins á vegum íslenskra stjórnvalda, starfsmenn sendiskrifstofa og aðra fulltrúa erlendra ríkja, starfsmenn alþjóðastofnana og einstaklinga í boði þeirra sem þurfa að koma til landsins vegna starfsemi þessara stofnana, fulltrúa herliðs, og starfsmenn sem sinna mannúðaraðstoð og almannavörnum og fjölskyldur framangreindra aðila.
- Námsmenn.
- Einstaklinga sem þurfa nauðsynlega að ferðast vegna viðskipta eða starfa sem eru þess eðlis að þau er ekki hægt að framkvæma síðar eða erlendis.
2. gr.
Reglugerð þessi sem er sett samkvæmt heimild í 18. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, með síðari breytingum, öðlast gildi 6. apríl 2021. Við birtingu reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 305/2021.
Dómsmálaráðuneytinu, 25. mars 2021.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
|