Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1000/2019

Nr. 1000/2019 5. nóvember 2019

REGLUR
um auglýsingar lausra starfa.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um þá starfsmenn ríkisins sem falla undir skilgreiningu 1. mgr. 1. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og teljast ekki embættismenn samkvæmt 22. gr. sömu laga.

2. gr.

Birting auglýsingar.

Auglýsa skal laus störf og skal umsóknarfrestur að lágmarki vera tíu dagar frá birtingu auglýs­ingar. Starf telst nægjanlega auglýst með birtingu á sérstöku vefsvæði um laus störf hjá ríkinu. Umsókn­ar­frestur skal miðast við fyrstu birtingu á hinu sérstaka vefsvæði og skal ljúka á virkum degi.

Ekki er skylt að auglýsa störf í eftirfarandi tilvikum:

  1. Störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur.
  2. Störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæð­ingar- og foreldraorlofs, námsleyfis, leyfis til starfa á vegum alþjóðastofnana o.þ.u.l., enda sé ráðn­ing­unni ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
  3. Störf sem auglýst hafa verið innan síðustu sex mánaða og í þeirri auglýsingu hafi þess verið getið að umsóknin geti gilt í sex mánuði frá birtingu.
  4. Störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnu­mark­aðar­ins.
  5. Hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu sem teljast til vinnumarkaðs­úrræða.

Öllum umsóknum skal svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

3. gr.

Efni auglýsingar.

Í auglýsingu um laust starf skal tilgreina starfsheiti, heiti stofnunar og staðsetningu starfs eða hvort það sé án staðsetningar. Í auglýsingu skal ávallt tilgreina eftirfarandi:

  1. Hvaða starf og starfssvið er um að ræða. Skal lýsing starfs vera nægjanlega greinar­góð til þess að mögulegir umsækjendur geti gert sér glögga grein fyrir því í hverju starfið felst.
  2. Starfshlutfall.
  3. Stjórnunarlega stöðu starfsins innan stofnunar/ríkisfyrirtækis.
  4. Menntunar- og hæfniskröfur.
  5. Aðrar almennar og sértækar kröfur sem gerðar eru til starfsmanns.
  6. Starfskjör.
  7. Hvenær æskilegt er að starfsmaður hefji störf.
  8. Hvar leita skuli frekari upplýsinga.
  9. Lengd umsóknarfrests.
  10. Hvert umsókn á að berast og á hvaða formi.

4. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 464/1996.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 5. nóvember 2019.

Bjarni Benediktsson.

Guðmundur Árnason.


B deild - Útgáfud.: 19. nóvember 2019