Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 14/2023

Nr. 14/2023 27. mars 2023

LÖG
um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:

  1. Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
    1. Endurtekin umsókn: Þegar útlendingur, sem sótt hefur um alþjóðlega vernd, leggur fram frekari gögn í máli sínu eða sækir um alþjóðlega vernd að nýju eftir að hann hefur fengið niðurstöðu í máli sínu.
  2. Við 25. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Útlendingur telst ekki umsækjandi um alþjóð­lega vernd þegar hann hefur fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi.

 

2. gr.

    Á eftir 2. mgr. 4. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

    Ráðherra sem fer með yfirstjórn laga þessara, sbr. 1. mgr., skal árlega koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis og gera grein fyrir framkvæmd laganna og stöðunni í mála­flokknum.

 

3. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á efnismeðferð á grundvelli 36. gr. sætir sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki og skal greinargerð vegna kæru berast kærunefnd innan 14 daga frá birtingu ákvörðunarinnar.

 

4. gr.

    Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: um er að ræða endurtekna umsókn skv. 35. gr. a.

 

5. gr.

    Á eftir 2. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

    Ef nauðsyn ber til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun útlendings skv. 104. gr. er lögreglu heimilt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heil­brigði hans til að geta ferðast.

 

6. gr.

    Við 1. málsl. 3. mgr. 25. gr. laganna bætist: og skal ávallt framkvæma sérstakt hagsmunamat.

 

7. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „13. tölul. 3. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna kemur: 14. tölul. 3. gr.

 

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:

  1. 8. mgr. orðast svo:
        Útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd nýtur áfram réttinda samkvæmt þessari grein þar til hann hefur yfirgefið landið en þó að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðunin varð endanleg á stjórnsýslustigi. Að þeim tímafresti loknum falla réttindin niður. Þó er ekki heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónar­manna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barns­hafandi kvenna, alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Ekki er heimilt að fella niður rétt til bráðaheilbrigðisþjónustu. Í þeim tilvikum þegar umsækjandi er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis eða kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsóknin hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus falla réttindin þó niður þegar Útlendingastofnun hefur synjað umsókn hans um alþjóðlega vernd. Jafnframt eiga undanþágur 3. málsl. ekki við um þau mál.
  2. Á eftir 8. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
        Lögreglu er heimilt að fresta niðurfellingu réttinda skv. 8. mgr. hjá öðrum en ríkis­borgurum EES- og EFTA-ríkja og ríkja sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg uppruna­ríki og umsókn viðkomandi hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus ef það telst nauðsyn­legt vegna sanngirnissjónarmiða og útlendingur hefur sýnt samstarfsvilja við fram­kvæmd ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið. Við mat á því hvort fresta skuli niður­fell­ingu réttinda skal m.a. líta til þess hvort útlendingi hafi ekki tekist að fara sjálf­viljugur af landi brott innan tilgreinds frests vegna aðstæðna sem ekki eru á ábyrgð hans, svo sem vegna ómöguleika við að afla ferðaskilríkja, fötlunar hans eða vegna óviðráðan­legra ytri aðstæðna. Jafnframt er heimilt að fresta niðurfellingu réttinda í þeim tilvikum þegar fallist hefur verið á frestun réttaráhrifa skv. 6. mgr. 104. gr. Kæra frestar ekki réttar­áhrifum ákvörðunar samkvæmt þessari málsgrein.
  3. Á undan orðinu „kröfu“ í 1. málsl. 9. mgr. kemur: um skerðingu og niðurfellingu réttinda.

 

9. gr.

    Á eftir 35. gr. laganna kemur ný grein, 35. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Endurtekin umsókn.

    Endurtekinni umsókn skal vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur eru á því að fallist verði á fyrri umsókn hans skv. 24. gr.

    Verði endurtekin umsókn tekin til meðferðar skal málsmeðferð hennar fyrst og fremst taka mið af þeim nýju upplýsingum eða gögnum sem liggja henni til grundvallar. Endurtekin umsókn telst ekki framhald fyrri umsóknar í skilningi 2. mgr. 36. gr. og 2. mgr. 74. gr. Óafgreiddar umsóknir falla niður við framkvæmd fyrri ákvörðunar eða ef umsækjandi yfirgefur landið sjálfviljugur á meðan endurtekin umsókn er til meðferðar, enda hafi réttaráhrifum fyrri ákvörðunar ekki verið frestað.

    Endurtekinni umsókn skal beint að því stjórnvaldi sem tók þá ákvörðun sem leitað er endur­skoð­unar á og frestar hún ekki réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar. Því stjórnvaldi sem hefur endurtekna umsókn til skoðunar er þó heimilt að fresta réttaráhrifum fyrri ákvörðunar, enda hafi umsækjandi óskað eftir því þegar hin endurtekna umsókn var lögð fram og sýnt fram á brýna nauðsyn þess að fresta framkvæmd. Endurtekinni umsókn skal þó beint að Útlendingastofnun hafi umsækjandi farið af landi brott samkvæmt fyrirmælum fyrri ákvörðunar en komið aftur til landsins.

    Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um endurupptöku gilda ekki um ákvarðanir í málum er varða alþjóðlega vernd.

 

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:

  1. A-liður 1. mgr. orðast svo: umsækjandi hafi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd í öðru ríki.
  2. Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: umsækjandi hafi slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað enda þurfi hann ekki að sæta ofsóknum þar, geti óskað eftir að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.
  3. Í stað 2. málsl. 2. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Þá skal einnig taka umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórn­sýslu­stigi innan 12 mánaða frá því að umsókn var lögð fram, enda hafi umsækjandi sjálfur, maki eða sambúðarmaki hans eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd ekki átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tíma­marka. Við mat á því hvort viðkomandi hafi borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu máls skal m.a. líta til þess hvort viðkomandi hafi dvalist á ókunnum stað um tíma, framvísað fölsuðum skjölum við málsmeðferð umsóknar eða gefið misvísandi upplýsingar um auðkenni sitt, ekki mætt í boðað viðtal eða læknisskoðun eða að öðru leyti vanrækt eða ekki uppfyllt skyldur sínar við málsmeðferðina. Teljist umsækjandi á einhverjum tíma hafa tafið mál sitt sam­kvæmt framangreindu á hann ekki rétt á efnismeðferð á grundvelli tímafrestsins í þessari málsgrein.

 

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:

  1. Eftirfarandi breytingar verða á 5. mgr.:
    1. Í stað orðanna „skv. 1. og 2. mgr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur“ í 1. málsl. kemur: á umsókn barns um alþjóðlega vernd, hvort sem barn er fylgdar­laust eða ekki.
    2. Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Skylt er að horfa til ungs aldurs viðkomandi sem náð hefur 18 ára aldri en sannanlega verið fylgdarlaust barn við komu til landsins.
    3. Við lokamálslið bætist: um að synja barni um áframhaldandi dvöl hér á landi.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
        Ráðherra setur, að höfðu samráði við ráðherra sem fer með mál sem varða barnavernd, reglugerð um mat á hagsmunum barns skv. 5. mgr.

 

12. gr.

    Á eftir 2. mgr. 39. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

    Ef sótt hefur verið um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. eða grunur er um að það ákvæði eigi við skal fyrst skorið úr því hvort skilyrði eru til þess að veita slíka vernd áður en þessu ákvæði er beitt, sé ekki unnt að taka báðar umsóknir til meðferðar samhliða.

 

13. gr.

    Við 41. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Við mat á því hvort b-liður 1. mgr. á við skal fyrst og fremst líta til þess hvort viðkomandi njóti verndar gegn því að vera fluttur úr landi eða vísað brott og hann hafi frelsi til að ferðast jafnt innan sem utan ríkisins. Þrátt fyrir að einstaklingur hafi ekki öll þau réttindi sem ríkisborgarar ríkisins hafa, svo sem aðgang að æðstu embættum ríkisins, sé ekki kjörgengur eða hafi ekki kosningarrétt, skal það ekki útiloka beitingu ákvæðis b-liðar 1. mgr. heldur skal líta til möguleika viðkomandi á að öðlast sambærileg réttindi, t.d. með öflun ríkisfangs.

 

14. gr.

    Við 1. málsl. 2. mgr. 43. gr. laganna bætist: og veitir honum dvalarleyfi skv. 73. gr.

 

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:

  1. Í stað 1. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Maki eða sambúðarmaki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar skv. 37. eða 39. gr. og börn hans yngri en 18 ára, án maka eða sambúðarmaka, eiga einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót og skal þeim veitt dvalarleyfi skv. 73. gr. Það sama á við um stjúpbörn hans að því gefnu að þau séu í forsjá og fylgd maka hans.
  2. Í stað orðanna „samkvæmt kafla þessum“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: skv. 37. eða 39. gr.
  3. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þeim sem njóta þessa réttar skal veitt dvalar­leyfi skv. 73. gr.
  4. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
        Alþjóðleg vernd samkvæmt þessari grein skal almennt ekki veitt hafi umsækjandi áður fengið alþjóðlega vernd á grundvelli greinarinnar og sú vernd verið afturkölluð skv. 48. gr.

 

16. gr.

    Inngangsmálsliður 1. mgr. 48. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að afturkalla veitingu alþjóð­legrar verndar ef útlendingur fellur ekki lengur undir skilyrði 37., 39., 43. og 45. gr., þ.e. ef.

 

17. gr.

    Á eftir orðunum „hingað til lands“ í a-lið 4. mgr. 70. gr. laganna kemur: á öðrum grundvelli en í boði stjórnvalda skv. 43. gr.

 

18. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „skv. 37. eða 39. gr.“ í 1. mgr. 73. gr. laganna kemur: skv. 37., 39., 43. eða 45. gr.

 

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 74. gr. laganna:

  1. Orðið „fyrst“ í 1. málsl. 2. mgr. fellur brott.
  2. Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ef um barn er að ræða skal þó miða við 16 mánuði.
  3. Í stað tilvísunarinnar „3. mgr.“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: 2. mgr.
  4. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
        Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skilyrði og framkvæmd þessarar greinar, svo sem um hvernig meta skuli ríka þörf fyrir vernd skv. 1. mgr.

 

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 104. gr. laganna:

  1. Tilvísunin „a-lið“ í a-lið 2. mgr. fellur brott.
  2. 2.–4. málsl. 7. mgr. orðast svo: Útlendingastofnun er heimilt að fela viðurkenndum alþjóða­stofnunum að annast aðstoð og fylgd útlendings, sem sótt hefur um alþjóðlega vernd, til heimaríkis óski hann þess sjálfur. Í þeim tilvikum er heimilt að veita viðkomandi fjárhags­aðstoð sem tekur mið af upprunaríki hans, fjölskyldustærð, á hvaða stigi máls­meðferðar ósk um aðstoð við heimför er borin fram og því hvort hann teljist í sérstak­lega viðkvæmri stöðu, sbr. 1. mgr. 25. gr. Þurfi útlendingurinn ekki á aðstoð alþjóða­stofnunar að halda til að snúa heim af sjálfsdáðum er heimilt að veita honum ferðastyrk.
  3. Í stað orðsins „umsækjandi“ í 5. málsl. 7. mgr. kemur: útlendingur.

 

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 120. gr. laganna:

  1. Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
    1. Mat á hagsmunum barns, sbr. 37. gr.
  2. Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
    1. Skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfa á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr.

 

22. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Hafi barn sótt um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir 1. ágúst 2021 og er enn á landinu skal Útlendingastofnun gefa út dvalarleyfi til handa forsjáraðila þess enda hafi slík umsókn borist innan þriggja mánaða frá gildistöku laga þessara. Hið sama gildir ef barn fæddist hér á landi á meðan umsókn forsjáraðila um alþjóðlega vernd var í vinnslu enda hafi umsóknin borist fyrir 1. ágúst 2021.

    Heimilt er að víkja frá skilyrðum a-liðar 1. mgr. 55. gr. um framfærslu. Umsækjandi skal þó hvorki sæta endurkomubanni né eiga ólokin mál í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi. Hið sama á við ef útlendingur afplánar fangelsisrefsingu eða bíður afplánunar.

    Nánasti aðstandandi útlendings sem fær útgefið dvalarleyfi skv. 1. mgr. getur með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar skv. 70. og 71. gr. Það sama á við um börn viðkomandi eldri en 18 ára sem ekki hafa gengið í hjúskap hafi þau einnig sótt um alþjóðlega vernd fyrir 1. ágúst 2021 og eru enn á landinu, enda samanstandi fjölskyldan af að minnsta kosti einu barni undir 18 ára aldri. Við veitingu fyrsta leyfis samkvæmt málsgrein þessari er heimilt að víkja frá skilyrðum 55. gr.

    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal veitt til eins árs og er heimilt að endurnýja það.

    Dvalarleyfi skv. 3. mgr. skal aðeins endurnýjað hafi dvalarleyfi skv. 1. mgr. verið endurnýjað. Við endurnýjun gilda almennar reglur laganna, þar á meðal grunnskilyrði 55. gr.

    Við útgáfu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu falla niður réttindi útlendings skv. 33. gr. Viðkomandi skal þó áfram tryggður réttur skv. a- og b-lið 1. mgr. 33. gr. í þrjá mánuði eftir útgáfu dvalarleyfis.

    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Ekki skal tekið gjald fyrir afgreiðslu fyrstu umsóknar um dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu þrátt fyrir ákvæði 32. tölul. 14. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

 

23. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. kemur 8. gr. ekki til framkvæmda fyrr en 30 dagar eru liðnir frá gildistöku laga þessara. Þá gildir 10. gr. ekki um meðferð umsókna sem bárust fyrir gildistöku laganna.

 

24. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

  1. Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002:
    1. A-liður 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: útlendingi hafi áður verið veitt bráðabirgðadvalarleyfi, dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals, dvalarleyfi fyrir fórnarlamb mansals, dvalarleyfi fyrir foreldra eða dvalarleyfi á grundvelli lögmæts tilgangs samkvæmt lögum um útlendinga, og.
    2. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að veita tímabundið atvinnu­leyfi vegna starfa nánustu aðstandenda íslensks ríkisborgara eða útlendings sem hefur tímabundið atvinnuleyfi skv. 8. gr., tímabundið dvalarleyfi á grundvelli alþjóð­legrar verndar, mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið samkvæmt lögum um útlendinga eða ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlend­inga að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 7. gr.
    3. Við 1. mgr. 22. gr. laganna bætast þrír nýir stafliðir, svohljóðandi:
      1. Útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga.
      2. Útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið samkvæmt lögum um útlendinga.
      3. Útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XIII í lögum um útlendinga.
  2. Lögreglulög, nr. 90/1996: Við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að starfrækja stoðdeild sem annast m.a. framkvæmd ákvarðana um brottvísanir og frávísanir samkvæmt lögum um útlendinga.

 

Gjört á Bessastöðum, 27. mars 2023.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Jón Gunnarsson.


A deild - Útgáfud.: 5. apríl 2023