Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1635/2024

Nr. 1635/2024 13. desember 2024

REGLUR
um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2025.

Eftirfarandi reglur um reiknað endurgjald eru settar skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna starfa á árinu 2025 og fyrir álagningu gjalda á árinu 2026. Reglur þessar eru til viðmiðunar fyrir reiknað endurgjald fyrir vinnu manns, sem vinnur við eigin atvinnu­rekstur eða sjálfstæða starfsemi, eða starfar á vegum lögaðila, t.d. sameignarfélags, samlagsfélags, samlags­hlutafélags, einkahlutafélags eða hlutafélags eða á vegum tengdra félaga (dótturfélaga, hlutdeildar­félaga) þar sem hann hefur ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar ef launa­tekjur af því starfi teljast vera lægri en hann hefði haft ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila.

 

1. Almennt.

 

Samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal maður, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi reikna sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starfið en hann hefði haft sem laun fyrir það hjá óskyldum eða ótengdum aðila. Sama gildir um vinnu maka manns og barna þeirra fyrir vinnu sem þau inna af hendi við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi hans.

Sömu reglur gilda um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum eða við atvinnurekstur hvers konar lögaðila. Við þær aðstæður ber að ákvarða manni laun eins og starfið hefði verið innt af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila og að lágmarki samkvæmt reglum þessum, enda teljist hann hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Á sama hátt skal reikna endur­gjald fyrir starf sem maki manns, barn hans, venslamaður hans eða nákominn ættingi innir af hendi fyrir framangreinda aðila.

Samkvæmt ákvæðum 58. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkisskattstjóri við upphaf árs setja reglur um reiknað endurgjald fyrir vinnu við eigin atvinnurekstur og ákveða viðmiðunar­fjárhæðir fyrir lágmark þess með hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf að viðbættum hvers konar hlunnindum. Reglur um reiknað endurgjald og viðmiðunar­fjárhæðirnar gilda einnig ef laun sem greidd eru vegna vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi, sem rekin er í sameign með öðrum eða við atvinnurekstur lögaðila, eru lægri en ætla mætti að þau væru ef vinnan væri innt af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila.

Tengsl milli launamannsins og vinnuveitandans til þess að reikna skuli endurgjald samkvæmt reglum þessum teljast vera fyrir hendi þegar sá sem launin tekur eða ætti að taka telst vera ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, þó ekki ef um er að ræða starf á vegum lögaðila sem skráður er á opinberum verðbréfamarkaði. Maður telst ráðandi aðili ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum, eða starfandi hluthöfum, á samtals 50% hlut eða meira í lögaðila, og á sjálfur 5% hlut eða meira í lögaðilanum. Með nákomnum ættingja er átt við þá sem tengdir eru fjölskylduböndum, þ.m.t. tengsl sem skapast við ættleiðingu eða fóstur. Tengsl þessi teljast á sama hátt vera fyrir hendi ef um er að ræða óbeina eignar- eða stjórnunaraðild svo sem starfi maður hjá dótturfélagi eða hlutdeildarfélagi félags sem hann hefur ráðandi stöðu í. Sömu reglur gilda einnig um starfandi hluthafa sem ekki eru tengdir fjölskylduböndum, þ.e. eigi hópur starfandi hluthafa meira en 50% í lögaðila þá skulu viðmiðunarreglur þessar gilda um þá, þ.e. ef eignarhlutur er a.m.k. 5%.

Endurgjald, sem manni ber að reikna sér, sbr. framangreint, skal hann ákveða þannig að það sé eigi lægra en hann hefði haft sem laun fyrir sama starf hjá óskyldum eða ótengdum aðila. Skal sú fjárhæð að jafnaði ekki vera lægri en viðmiðunarfjárhæð sú sem ákveðin er í reglum þessum en getur verið hærri eða lægri eftir því sem tilefni er til með hliðsjón af raunverulega greiddum launum fyrir sambærileg störf hjá óskyldum eða ótengdum aðila, umfangi og eðli starfseminnar og starfs hans, taxta fyrir útselda vinnu í starfsgreininni, hversu hátt hlutfall vinnuþáttur er í rekstrinum, afkomu rekstrarins og fé sem bundið var í rekstrinum í ársbyrjun. Ef greidd eru einhvers konar hlunnindi til viðbótar við almenn laun, t.d. bifreiðahlunnindi, þá skulu þau metin samkvæmt skattmatsreglum og bætast við fjárhæðir reiknaðs endurgjalds samkvæmt viðkomandi viðmiðunar­flokki.

Reiknað endurgjald manns, sem selur út eigin vinnu eða vinnu starfsmanna sinna, skal aldrei vera lægra en sem svarar til launa starfsmanns hans við reksturinn, með sambærilega menntun og reynslu. Jafnframt skal við þessar aðstæður taka tillit til þess hversu hátt hlutfall af rekstrartekjum stafar af útseldri vinnu, þ.e. hversu mikill vinnuþáttur er almennt í viðkomandi starfsgrein.

Viðmiðunarfjárhæðir eru miðaðar við þá tegund atvinnurekstrar eða starfsemi sem framteljandi stendur fyrir og eru lágmarksfjárhæðir sé viðkomandi ekki í öðru launuðu föstu starfi eða starfi sem reikna skal endurgjald fyrir. Sé svo er heimilt að lækka viðmiðunarfjárhæðirnar um þá fjárhæð sem laun eða reiknað endurgjald fyrir hitt starfið er umfram 50% af viðmiðunarfjárhæðinni þó þannig að það verði aldrei lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæðinni að viðbættri þeirri hækkun sem leiða kann af næstu málsgrein hér á undan. Stundi framteljandi starfsemi sem hver um sig telst ekki vera fullt starf skal skipta reiknuðu endurgjaldi hlutfallslega miðað við starfshlutfall og viðeigandi viðmiðunar­flokk.

Þegar hjón eða samskattað sambúðarfólk stendur saman að atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi skal hvort þeirra um sig ákvarða sér reiknað endurgjald í samræmi við reglur þessar og skiptist rekstrar­hagnaður milli þeirra í hlutfalli við reiknað endurgjald þeirra. Vinni það hjóna, sem ekki stendur fyrir atvinnurekstrinum, með maka sínum skal meta því reiknað endurgjald eins og starfið hafi verið unnið af óskyldum eða ótengdum aðila. Rekstrarhagnaður telst  vera tekjur þess sem stendur fyrir atvinnu­rekstrinum.

 

2. Staðgreiðsla af reiknuðu endurgjaldi.

 

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, ber manni, sem reikna skal sér endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, að tilkynna ríkis­skattstjóra um áætlaðar tekjur sínar á staðgreiðsluárinu í samræmi við reglur um reiknað endurgjald og standa skil á staðgreiðslu af þeirri fjárhæð eins og um greidd laun hafi verið að ræða. Sama á við ef maki eða annar sá sem fellur undir reglur þessar vinnur við atvinnureksturinn. Ef reiknuðu endur­gjaldi er breytt eftir að starfsemi er hafin og tilkynnt hefur verið um það skal gera grein fyrir breyt­ingum á því á staðgreiðsluárinu með því að tilgreina breytta fjárhæð í sundurliðun á staðgreiðslu, sjá nánar á vefsíðu Skattsins, skatturinn.is.

Samkvæmt sömu lagagrein skal lögaðili ákveða manni, sem hjá honum starfar og fellur undir reglur þessar, endurgjald fyrir vinnu hans ef þau laun, sem honum eru greidd eru lægri en reiknað endur­gjald samkvæmt reglunum og standa skil á staðgreiðslu af þeirri fjárhæð.

Telji ríkisskattstjóri að áætlun manns, sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða ákvörðun lögaðila um endurgjald manns sem hjá honum starfar og fellur undir reglur þessar séu á staðgreiðsluári lægri en lágmark viðmiðunarfjárhæða skal hann ákveða endurgjaldið og staðgreiðslu af því í samræmi við reglurnar. Ríkisskattstjóri má aðeins víkja frá lágmarki reiknaðs endurgjalds samkvæmt viðmiðunarreglunum á grundvelli skriflegra skýringa og nauðsynlegra gagna frá fram­teljanda og/eða launagreiðanda.

Í skýringum manns sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og óskar eftir að honum sé ákveðið lægra endurgjald en svarar til viðmiðunarfjárhæða samkvæmt reglum þessum skulu koma fram upplýsingar um umfang og eðli starfseminnar og starfs hans, upplýsingar um önnur launuð störf og eftir því sem við á, upplýsingar um verð á útseldri vinnu hans eða starfsmanna sem vinna í þjónustu hans. Hann skal enn fremur gera grein fyrir afkomu rekstrarins á síðastliðnu ári og leggja fram áætlun um rekstur og tekjur hans á staðgreiðsluárinu, svo og gera grein fyrir hvaða fjármagn sé bundið í rekstrinum.

Maður sem starfar hjá félagi og óskar eftir að honum sé ákveðið lægra endurgjald en svarar til viðmiðunarfjárhæða samkvæmt 4. kafla í reglum þessum skal leggja fram hliðstæðar upplýsingar um umfang og eðli starfseminnar og starfs hans, um önnur launuð störf sín og eftir því sem við á upp­lýsingar um verð á útseldri vinnu hans og annarra starfsmanna sem vinna hjá félaginu.

Staðgreiðsla af reiknuðu endurgjaldi er bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars á tekjuári. Endanleg ákvörðun reiknaðs endurgjalds fer fram við endurskoðun skattframtala og skal ríkis­skattstjóri þá hækka reiknað endurgjald frá ákvörðun þess vegna staðgreiðslu á tekjuárinu, komi þá í ljós að það hafi ekki verið í samræmi við reglur þessar.

Hafi maður svo lágt reiknað endurgjald af starfsemi samkvæmt samþykktri áætlun að stað­greiðsla hans sjálfs eða vegna hans og maka hans verði engin á árinu getur hann sótt um til Skattsins að skila „Skilagrein vegna reiknaðs endurgjalds“ einu sinni á ári. Sé áætlað reiknað endurgjald af starfseminni innan við 450.000 krónur á árinu 2025 fellur það utan staðgreiðslu.

 

3. Reiknað endurgjald við álagningu.

 

Framteljandi, sem reglur þessar taka til, skal í skattframtali sínu reikna sér endurgjald eigi lægra en viðmiðunarfjárhæðir í 4. kafla og að teknu tilliti til afkomu rekstrar, eigin fjár í rekstri, vinnu­þáttar í rekstrinum og taxta fyrir útselda vinnu og launa eða reiknaðs endurgjalds í öðru starfi, sbr. 1. kafla.

Telji framteljandi að reiknað endurgjald, og eftir atvikum laun hans, eigi að vera lægra í skatt­framtali en sú fjárhæð sem staðgreiðsla var greidd af eða lægra en viðmiðunarfjárhæð skv. 4. kafla í reglum þessum eða lægra en endurgjald sem ákveðið er skv. 1. kafla þeirra með hliðsjón af taxta fyrir útselda vinnu, afkomu rekstrar og eigin fé í rekstri, skal hann láta fylgja skattframtali sínu gögn og rökstuðning fyrir mati sínu ásamt upplýsingum, sbr. 2. kafla.

Að mótteknu skattframtali og öðrum framtalsgögnum skal ríkisskattstjóri endurskoða reiknað endurgjald framteljanda, maka hans og barna eftir því sem tilefni er til.

Ríkisskattstjóra er heimilt að fallast á að reiknað endurgjald sé lægra en viðmiðunarfjárhæðir kveða á um ef rökstuðningur og gögn framteljanda og eftir atvikum þess lögaðila, sem hann tekur eða á að taka laun hjá, réttlæta slíka ákvörðun. Fallist ríkisskattstjóri ekki á rök framteljanda um lægra reiknað endurgjald skal hann hækka það til samræmis við viðmiðunarfjárhæðir í reglum þessum.

Sé um að ræða endurgjald manns með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal hækkun ríkisskattstjóra á reiknuðu endurgjaldi ekki leiða til þess að tap á rekstrinum verði meira en almennar fyrningar ársins. Sé um að ræða elli- eða örorkulífeyrisþega með eigin atvinnurekstur skal þess gætt að ekki verði tap á rekstrinum. Ákvæði þessi taka ekki til félaga og þeirra sem reikna ber sér endurgjald vegna starfa hjá þeim.

 

4. Starfaflokkar og viðmiðunarfjárhæðir.

 

Þær fjárhæðir sem fara hér á eftir eru lágmarksviðmiðun fyrir reiknað endurgjald manna sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða starfa í hvers kyns stjórnunarstörfum og/eða almennum störfum hjá t.d. einkahlutafélagi, hlutafélagi, sameignarfélagi, samlagsfélagi, samlags­hlutafélagi eða tengdum félögum sem þeir sjálfir, makar þeirra, venslamenn eða aðrir þeim nátengdir eða þeir ásamt samstarfsmönnum hafa ráðandi stöðu í vegna eignar- eða stjórnaraðildar. Athygli er vakin á að ef greidd eru einhvers konar hlunnindi til viðbótar við almenn laun, t.d. bifreiða­hlunnindi, þá skulu þau metin samkvæmt skattmatsreglum og bætast við fjárhæðir sam­kvæmt viðkomandi viðmiðunarflokki.

 

Flokkur A. Sérfræðiþjónusta.

Til flokks A teljast sérmenntaðir menn vegna starfa í sérgrein sinni og/eða stjórnunarstarfa á þeim vettvangi, svo sem lyfjafræðingar, læknar, tannlæknar, lögfræðingar, löggiltir endurskoðendur, verkfræðingar, ráðgjafar og aðrir sérfræðingar, m.a. á tölvusviði, í fjármálaráðgjöf og verðbréfa­viðskiptum.

Flokkur A skiptist í sjö undirflokka:

A(1) Sérfræðingur sem jafnframt stýrir rekstri þar sem starfa með honum fleiri en fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum fleiri en fimmtán manna.

Mánaðarlaun 2.226.000 kr.
Árslaun 26.712.000 kr.

A(2) Sérfræðingur sem jafnframt stýrir rekstri þar sem starfa með honum tíu til fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tíu til fimmtán manna. Læknar, lögfræðingar, löggiltir endur­skoðendur, fjármálaráðgjafar, fjárfestar og verkfræðingar falla undir þennan flokk ef með þeim starfa þrír til fimmtán starfsmenn.

Mánaðarlaun 2.004.000 kr.
Árslaun 24.048.000 kr.

A(3) Sérfræðingur sem jafnframt stýrir rekstri þar sem starfa með honum sex til níu starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnu­framlag samsvara árslaunum sex til níu starfsmanna. Læknar, lögfræðingar, löggiltir endurskoð­endur, fjármálaráðgjafar, fjárfestar og verkfræðingar falla undir þennan flokk ef þeir starfa einir eða með tvo starfsmenn eða færri.

Mánaðarlaun 1.892.000 kr.
Árslaun 22.704.000 kr.

A(4) Sérfræðingur sem jafnframt stýrir rekstri þar sem starfa með honum tveir til fimm starfs­menn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnu­framlag samsvara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna. Tannlæknar, falla undir þennan flokk ef þeir starfa einir eða með fimm starfsmenn eða færri.

Mánaðarlaun 1.780.000 kr.
Árslaun 21.360.000 kr.

A(5) Sérfræðingur, þó ekki læknir, lögfræðingur, löggiltur endurskoðandi, fjármálaráðgjafi, fjárfestir eða verkfræðingur sem fellur undir A(2) eða A(3) eða tannlæknir sem fellur undir A(4), sem starfar einn eða með einum til tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur sam­kvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna.

Mánaðarlaun 1.559.000 kr.
Árslaun 18.708.000 kr.

A(6) Sérfræðingur, þó ekki þeir sem falla undir A(2) til A(5), sem starfar einn og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum eins starfsmanns.

Mánaðarlaun 1.337.000 kr.
Árslaun 16.044.000 kr.

A(9) Sérfræðingur sem er að hefja starfsemi og starfar einn eða með einum starfsmanni.  Undir þennan flokk heyra einungis þeir sem eru að hefja sjálfstæða starfsemi í fyrsta sinn, og einungis í eitt ár frá upphafi starfseminnar.

Mánaðarlaun 1.113.000 kr.
Árslaun 13.356.000 kr.

Deili tveir eða fleiri menn sem undir reglur þessar falla með sér stjórnun á rekstrinum skal reiknað endurgjald þeirra fara eftir flokki A(2) til A(5) miðað við að fjölda starfsmanna að þeim meðtöldum sé deilt á þá.

 

Flokkur B. Almenn starfsemi, iðnaður, verslun, útgerð og þjónusta.

Til flokks B teljast menn sem vinna við iðnaðar- og iðjurekstur, hvers konar verslun og við­skipti, veitingastarfsemi, útgerð og fiskvinnslu, framleiðslu landbúnaðarvara, verktakastarfsemi hvers konar og þjónustu, sem ekki heyrir undir flokk A eða C. Stjórnun rekstrarins eða félagsins er hluti af störfum þeirra sem falla undir flokk B(1), B(2), B(3) og B(4), þótt þeir vinni einnig önnur almenn störf við reksturinn.

Flokkur B skiptist í sex undirflokka:

B(1) Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum fleiri en fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum fleiri en fimmtán manna.

Mánaðarlaun 1.872.000 kr.
Árslaun 22.464.000 kr.

B(2) Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum tíu til fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag sam­svara árslaunum tíu til fimmtán manna.

Mánaðarlaun 1.682.000 kr.
Árslaun 20.184.000 kr.

B(3) Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum sex til níu starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag sam­svara árslaunum sex til níu starfsmanna.

Mánaðarlaun 1.400.000 kr.
Árslaun 16.800.000 kr.

B(4) Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum tveir til fimm starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag sam­svara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna.

Mánaðarlaun 1.089.000 kr.
Árslaun 13.068.000 kr.

B(5) Maður, sem starfar einn eða með færri en tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna.

Mánaðarlaun 866.000 kr.
Árslaun 10.392.000 kr.

B(9) Maður sem er að hefja starfsemi og starfar einn eða með einum starfsmanni. Undir þennan flokk heyra einungis þeir sem eru að hefja sjálfstæða starfsemi í fyrsta sinn, og einungis í eitt ár frá upphafi starfseminnar.

Mánaðarlaun 632.000 kr.
Árslaun 7.584.000 kr.

Deili tveir eða fleiri menn sem undir reglur þessar falla með sér stjórnun á rekstrinum skal reiknað endurgjald þeirra fara eftir flokki B(1), B(2), B(3) eða lægst B(4) miðað við að fjölda starfsmanna að þeim meðtöldum sé deilt á þá.

 

Flokkur C. Fjölmiðlun, listamenn, skemmtikraftar, útgefendur, sérhæfð sölustarfsemi eða þjónusta o.fl.

Til flokks C teljast menn, sem vinna við framangreinda starfsemi, svo sem blaðamenn, frétta­menn og dagskrárgerðarmenn, þeir sem starfa við bóka og blaðaútgáfu, kvikmyndagerð, listamenn, skemmti­kraftar o.fl. Enn fremur sérhæfð sölustarfsemi, svo sem fasteignasala, bifreiðasala, bó­khalds­þjónusta, kennslustarfsemi, skólarekstur og námskeiðahald. Einnig háskólamenntaðar heilbrigðis­stéttir, s.s. hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfarar og sjúkranuddarar og aðrir með sérmenntun sem ekki falla undir flokka A eða B. Stjórnun starfseminnar er hluti af störfum þeirra sem falla undir flokk C(1), C(2), C(3) og C(4), þótt þeir vinni einnig önnur almenn störf við reksturinn.

Flokkur C skiptist í sjö undirflokka:

C(1) Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum fleiri en fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag sam­svara árslaunum fleiri en fimmtán manna.

Mánaðarlaun 1.808.000 kr.
Árslaun 21.696.000 kr.

C(2) Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum tíu til fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag sam­svara árslaunum tíu til fimmtán manna.

Mánaðarlaun 1.693.000 kr.
Árslaun 20.316.000 kr.

C(3) Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum sex til níu starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árs­launum sex til níu starfsmanna.

Mánaðarlaun 1.584.000 kr.
Árslaun 19.008.000 kr.

C(4) Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum tveir til fimm starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag sam­svara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna.

Mánaðarlaun 1.259.000 kr.
Árslaun 15.108.000 kr.

C(5) Maður, sem starfar með færri en tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfs­manna.

Mánaðarlaun 1.048.000 kr.
Árslaun 12.576.000 kr.

C(6) Maður sem starfar einn og án annarra starfsmanna eða aðkeypts vinnuframlags.

Mánaðarlaun 738.000 kr.
Árslaun 8.856.000 kr.

C(9) Maður sem er að hefja starfsemi og starfar einn eða með einum starfsmanni. Undir þennan flokk heyra einungis þeir sem eru að hefja sjálfstæða starfsemi í fyrsta sinn, og einungis í eitt ár frá upphafi starfseminnar.

Mánaðarlaun 658.000 kr.
Árslaun 7.896.000 kr.

Deili tveir eða fleiri menn sem undir reglur þessar falla með sér stjórnun á rekstrinum skal reiknað endurgjald þeirra fara eftir flokki C(1), C(2), C(3) eða lægst C(4) miðað við að fjölda starfsmanna að þeim meðtöldum sé deilt á þá.

 

Flokkur D. Iðnaðarmenn o.fl.

Til flokks D teljast iðnaðarmenn í löggiltum iðngreinum sem og nuddarar og aðrir sem starfa við persónulega þjónustu og hafa ekki háskólapróf eða sambærilega menntun á sínu sviði. Ef stjórnun svo sem framkvæmdastjórn félags er aðalþáttur starfsins þar sem starfa með honum fleiri en fimm starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum fleiri en fimm starfsmanna skal miða reiknað endurgjald við flokka B(1), B(2) eða B(3).

Flokkur D skiptist í þrjá undirflokka:

D(1) Maður sem hefur tvo til fimm starfsmenn með sér eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna.

Mánaðarlaun 900.000 kr.
Árslaun 10.800.000 kr.

D(2) Maður sem starfar einn eða með færri en tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna.

Mánaðarlaun 755.000 kr.
Árslaun 9.060.000 kr.

D(9) Maður sem er að hefja starfsemi og starfar einn eða með einum starfsmanni. Undir þennan flokk heyra einungis þeir sem eru að hefja sjálfstæða starfsemi í fyrsta sinn, og einungis í eitt ár frá upphafi starfseminnar.

Mánaðarlaun 547.000 kr.
Árslaun 6.564.000 kr.

 

Flokkur E. Ýmis starfsemi einyrkja, ófaglærðra og vélstjórnenda, hreingerningarmenn, dag­foreldrar, umönnunarstörf sem ekki krefjast háskólamenntunar.

Til flokks E teljast menn sem vinna í störfum sem enga formlega fagmenntun þarf til en geta þurft að hafa réttindapróf til að sinna starfinu, s.s. réttindi til að stjórna bifreiðum eða vinnuvélum o.s.frv. og falla ekki undir flokka A til D. Ef stjórnun svo sem framkvæmdastjórn félags er aðalþáttur starfsins og starfsmenn með honum eru fleiri en fimm eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum fleiri en fimm starfsmanna skal miða reiknað endurgjald við flokka B(1), B(2) eða B(3). Til þessa flokks teljast t.d. bifreiðastjórar, stjórnendur vinnuvéla, svo og starfsgreinar sem ekki krefjast sérstakrar starfsmennt­unar svo sem hreingerningarmenn, dagforeldrar og starfsfólk við umönnunarstörf hvers konar sem ekki krefjast menntunar heilbrigðisstétta eins og tilgreint er í öðrum flokkum.

Flokkur E skiptist annars vegar í stjórnendur vinnuvéla og hins vegar í önnur störf samkvæmt honum og hvor flokkurinn síðan í tvo undirflokka, auk sérstaks flokks fyrir þá sem eru að hefja starfsemi:

E(1) Stjórnandi vinnuvéla og bifreiða, sem réttindi þarf til að stjórna, þar sem starfa með honum tveir til fimm starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna.

Mánaðarlaun 823.000 kr.
Árslaun 9.876.000 kr.

E(2) Stjórnandi vinnuvéla og bifreiða, sem réttindi þarf til að stjórna, sem starfar einn eða með færri en tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna.

Mánaðarlaun 652.000 kr.
Árslaun 7.824.000 kr.

E(3) Aðrir menn í störfum sem falla ekki undir skilgreiningu annarra flokka, s.s. hreingerningar­fólk, dagforeldrar og starfsfólk við umönnunarstörf sem ekki krefjast sérþekkingar, þar sem starfa með þeim tveir til fimm starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna.

Mánaðarlaun 758.000 kr.
Árslaun 9.096.000 kr.

E(4) Aðrir menn sem falla ekki undir skilgreiningu annarra flokka, s.s. hreingerningarfólk, dagforeldrar og starfsfólk við umönnunarstörf sem ekki krefjast sérþekkingar, sem starfa  með færri en tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna. Ef maður starfar einn er heimilt að lækka fjárhæðina um 15%.

Mánaðarlaun 604.000 kr.
Árslaun 7.248.000 kr.

E(9) Maður sem er að hefja starfsemi og starfar einn eða með einum starfsmanni. Undir þennan flokk heyra einungis þeir sem eru að hefja sjálfstæða starfsemi í fyrsta sinn, og einungis í eitt ár frá upphafi starfseminnar.

Mánaðarlaun 438.000 kr.
Árslaun 5.256.000 kr.

 

Flokkur F. Sjómennska.

Til þessa flokks teljast sjómenn, sem starfa sem skipverjar við útgerð. Um önnur störf við útgerð fer eftir flokki B. Undir þennan flokk heyra einnig þeir sem hafa atvinnu af strandveiðum.

Flokkur F skiptist í fimm undirflokka: 

F(1) Skipstjóri.

Mánaðarlaun 1.129.000 kr.
Árslaun 13.548.000 kr.

F(2) Stýrimaður og vélstjóri.

Mánaðarlaun 1.054.000 kr.
Árslaun 12.648.000 kr.

F(3) Matsveinn og bátsmaður.

Mánaðarlaun 938.000 kr.
Árslaun 11.256.000 kr.

F(4) Háseti.

Mánaðarlaun 755.000 kr.
Árslaun 9.060.000 kr.

Reiknað endurgjald í flokkum F(1) til F(4) skal að lágmarki miðast við aflahlut skv. kjara­samningi og hliðstæðar greiðslur til annarra skipverja á sama skipi eða sambærilegu.

F(5) Skipverji á smábát, með og án kjarasamninga.

Mánaðarlaun 755.000 kr.
Árslaun 9.060.000 kr.

Reiknað endurgjald og greidd laun af aflahlut samtals skulu ekki vera lægri en 30% af 70% af aflaverðmæti bátsins, eða ekki lægri en heildarskiptaverðmæti samkvæmt ákvæðum viðeigandi kjarasamninga séu þeir fyrir hendi.

Við skil á staðgreiðslu er heimilt að miða við fjárhæðir í framangreindum flokkum en í skatt­framtali skal reiknað endurgjald ekki vera lægra en viðmiðun við aflaverðmæti tilgreinir.

 

Flokkur G. Landbúnaður.

Til flokks G teljast bændur sem einir eða með öðrum standa fyrir búrekstri, með eða án aðkeypts vinnuafls. Standi hjón bæði fyrir búrekstrinum skal reiknað endurgjald hvors um sig metið miðað við vinnuframlag hvors um sig við búreksturinn og skiptist rekstrarhagnaður jafnframt á milli þeirra í hlutfalli við reiknað endurgjald. Vinni það hjóna sem ekki stendur fyrir búrekstri með maka sínum við reksturinn, skal meta því endurgjald með hliðsjón af vinnuframlagi þess, metið á sama verði og endurgjald makans, og telst rekstrarhagnaður þá vera tekjur þess hjóna sem stendur fyrir búrekstrinum. Sé búrekstur umfangsmikill og tveir eða fleiri starfsmenn eru á launum auk bóndans og maka hans og barna innan 16 ára skal flokka starfið í flokka B(1) til B(4).

Í blönduðum búskap skal ákvarða viðmiðunarflokk miðað við þann hluta búskaparins sem meiri hluti tekna stafar af.

Stundi bóndi aðra starfsemi en búskap skal ákvarða reiknað endurgjald vegna annarrar starfsemi en búrekstursins samkvæmt viðeigandi viðmiðunarflokki fyrir það starf.

Flokkur G skiptist í sex undirflokka:

G(1) Bóndi með sauðfjárrækt sem aðalbúgrein og hefur meiri hluta bútekna af henni. Flokkurinn miðast við mest 400 fjár á húsi (vetrarfóðrað á húsi).

Mánaðarlaun 246.000 kr.
Árslaun 2.952.000 kr.

G(2) Bóndi með sauðfjárrækt sem aðalbúgrein og hefur meiri hluta bútekna af henni. Flokkurinn miðast við fleiri en 400 fjár á húsi (vetrarfóðrað á húsi).

Mánaðarlaun 337.000 kr.
Árslaun 4.044.000 kr.

G(3) Bóndi með kúabú sem aðalbúgrein og hefur meiri hluta bútekna af henni. Flokkurinn miðast við mest 25 mjólkandi kýr.

Mánaðarlaun 363.000 kr.
Árslaun 4.356.000 kr.

G(4) Bóndi með kúabú sem aðalbúgrein og hefur meiri hluta bútekna af henni. Flokkurinn miðast við fleiri en 25 mjólkandi kýr.

Mánaðarlaun 498.000 kr.
Árslaun 5.976.000 kr.

G(5) Bóndi sem stendur fyrir öðrum búrekstri, svo sem svínarækt, alifuglarækt og annarri kjötframleiðslu, hrossarækt, grænmetisrækt og garðplönturækt .

Mánaðarlaun 552.000 kr.
Árslaun 6.624.000 kr.

G(6) Bóndi með loðdýrarækt sem aðalbúgrein og hefur meiri hluta bútekna af henni.

Mánaðarlaun 694.000 kr.
Árslaun 8.328.000 kr.

 

Flokkur H. Makar og börn.

Maður sem starfar við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi maka síns eða starfar hjá félagi sem maki hans eða nákomnir venslamenn hafa ráðandi stöðu í vegna eignar- eða stjórnaraðildar svo og barn sem starfar með sama hætti við atvinnurekstur foreldris.

Reiknað endurgjald maka skal almennt taka mið af þeim kjarasamningum sem eru í gildi fyrir viðkomandi starf, en þó skal það aldrei nema lægri fjárhæð en samkvæmt viðmiðunarflokkum H(1) til H(3).

H(1) Sérfræðingur, sbr. flokk A, sem vinnur í sérgrein sinni en stendur ekki fyrir starfsemi.

Mánaðarlaun 1.133.000 kr.
Árslaun 13.596.000 kr.

H(2) Iðnaðarmaður, sbr. flokk D, sem vinnur í iðngrein sinni en stendur ekki fyrir starfsemi.

Mánaðarlaun 604.000 kr.
Árslaun 7.248.000 kr.

H(3) Ófaglærður starfsmaður.

Mánaðarlaun 376.000 kr.
Árslaun 4.512.000 kr.

H(4) Barn, 15 ára.

Mánaðarlaun 263.000 kr.
Árslaun 3.156.000 kr.

H(5) Barn, 13 eða 14 ára.

Mánaðarlaun 227.000 kr.
Árslaun 2.724.000 kr.

 

Reglur þessar eru settar með stoð í 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

 

Reykjavík, 13. desember 2024.

 

Snorri Olsen ríkisskattstjóri.


B deild - Útgáfud.: 27. desember 2024