1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar gilda um framleiðendur pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta og aðila sem veita ráðgjöf um eða selja slíkar afurðir. Jafnframt gilda reglurnar um þá aðila sem bjóða upp á viðbótartryggingavernd skv. II. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. 3.–5. mgr. 8. gr. þeirra laga.
2. gr.
Samning og miðlun lykilupplýsingaskjals fyrir almenna fjárfesta.
Aðilar sem falla undir gildissvið reglnanna skulu við samningu og miðlun lykilupplýsingaskjals fyrir almenna fjárfesta skv. 5. mgr. 8. gr., 2. mgr. 10. gr. og 5. mgr. 13. gr. II. kafla reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014, sbr. lög nr. 55/2021, um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, fylgja ákvæðum reglugerðar (ESB) 2017/653 frá 8. mars 2017, sbr. a-lið 4. gr.
3. gr.
Tímabundin undanþága frá skyldu til að semja og miðla lykilupplýsingaskjali fyrir almenna fjárfesta.
Rekstrarfélög verðbréfasjóða skv. lögum nr. 116/2021, um verðbréfasjóði, rekstraraðilar sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta, skv. lögum nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, og aðilar sem bjóða viðbótartryggingavernd skv. II. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, eru undanþegnir skyldunni til að semja og miðla lykilupplýsingaskjali fyrir almenna fjárfesta til 31. desember 2021, sbr. b-lið 4. gr.
4. gr.
Innleiðing reglugerða.
Með reglum þessum öðlast gildi hér á landi:
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/653 frá 8. mars 2017, um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta (PRIIP) með því að mæla fyrir um tæknilega eftirlitsstaðla að því er varðar framsetningu, inntak, yfirferð og endurskoðun lykilupplýsingaskjala og skilyrðin fyrir því að uppfylla kröfur um að láta slík skjöl í té, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 frá 30. apríl 2020. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23 frá 31. mars 2021, bls. 41-92.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/1866 frá 3. júlí 2019, um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) 2017/653 til að laga umbreytingarfyrirkomulag framleiðenda pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta (PRIIP), sem bjóða hlutdeildarskírteini í sjóðum eins og um getur í 32. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014, sem undirliggjandi fjárfestingarmöguleika, að framlengdu undanþágutímabilinu sem um getur í þeirri grein, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 frá 30. apríl 2020. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23 frá 31. mars 2021, bls. 93-94.
5. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 2. mgr. 17. gr. laga nr. 55/2021, um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, öðlast þegar gildi. Þó skulu aðilar skv. 3. gr. undanþegnir gildissviði reglnanna til 31. desember 2021.
Seðlabanka Íslands, 30. september 2021.
|
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. |
Rannveig Júníusdóttir framkvæmdastjóri. |
|