Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 588/2009

Nr. 588/2009 11. júní 2009
LÖGREGLUSAMÞYKKT
fyrir Akureyrarkaupstað.

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Samþykkt þessi gildir fyrir lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar. Hana ber að túlka með hliðsjón af gildandi lögum og reglum hverju sinni, s.s. hegningarlögum, byggingarlögum, umferðarlögum o.s.frv.

II. KAFLI

Um reglu, velsæmi og almennt öryggi á almannafæri.

2. gr.

Með almannafæri er í samþykkt þessari átt við götur, vegi, torg, gangstéttar, gangstíga, svæði ætluð til almenningsnota og staði sem opnir eru almenningi, svo sem kvikmyndahús, leikhús, samkomuhús, söfn, veitingastaði, verslanir, leiktækjastaði, bifreiðastöðvar, biðskýli og söluturna.

Með leiktækjastað er átt við stað þar sem aðgangur er veittur að leiktækjum, spilakössum, knattborðum, tölvum o.þ.h., gegn borgun.

3. gr.

Uppþot, áflog, óspektir eða önnur háttsemi sem raskar allsherjarreglu má ekki eiga sér stað á almannafæri og ekki mega menn þyrpast þar saman ef það tálmar umferð eða veldur vegfarendum óþægindum.

Enginn má áreita aðra á almannafæri eða sýna þar af sér ósæmilega háttsemi.

4. gr.

Bannað er að hafast nokkuð að sem veldur ónæði eða raskar næturró manna. Á virkum dögum skal halda næturró frá kl. 24.00 til 07.00. Um helgar og á helgidögum skal halda næturró frá kl. 24.00 til kl. 08.00. Röskun á næturró í almannaþágu, s.s. vegna snjómoksturs á vegum Akureyrarkaupstaðar, er heimil frá kl. 05.00. Undanþágu frá reglu þessari veitir Akureyrarkaupstaður vegna tímabundinnar starfsemi sem telst í almannaþágu. Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra metur grenndaráhrif veitingahúsa í flokki III, m.t.t. hljóðvistar.

Lögreglustjóri getur bannað notkun hátalara, hljómflutningstækja, hljóðfæra eða annars þess háttar á eða við almannafæri ef ástæða er til að ætla að hún valdi verulegu ónæði eða truflun.

Akureyrarkaupstaður getur bannað neyslu áfengis á almannafæri á tilteknum tíma á tilteknum svæðum í þéttbýli. Slíka samþykkt skal tilkynna lögreglustjóra og birta almenningi.

5. gr.

Þegar fjölmenni safnast saman á almannafæri svo sem í eða við biðstöðvar almenningsvagna og leigubifreiða, miðasölur, banka, veitingastaði, verslanir eða aðra afgreiðslustaði, skal mynda röð þannig að þeir sem fyrstir koma fái fyrstir afgreiðslu.

6. gr.

Hver sá sem staddur er á almannafæri er skyldur til að segja til nafns síns, kennitölu og heimilis þegar lögreglan krefst þess.

Skylt er að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur s.s. vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi reglu á almannafæri.

7. gr.

Lögreglan getur vísað þeim mönnum í burtu af almannafæri sem með háttsemi sinni valda vegfarendum eða íbúum í nágrenninu ónæði.

Sama á við um þá sem valda óspektum, hættu eða hneykslan á almannafæri sökum ölvunar eða af öðrum ástæðum.

8. gr.

Meðferð vatns við hvers konar þrif utandyra er óheimil nema í frostlausu veðri ef það veldur rennsli á gangstétt, gangstíg eða götu þannig að valdi hættu eða óþægindum.

Í götubrunna og göturæsi má ekki hella mengandi efnum svo sem spilliefnum eða efnum sem valdið geta mengun eða skemmdum í holræsakerfinu.

Eiganda eða umráðamanni húss er skylt að fjarlægja af húsi sínu snjó og grýlukerti sem fallið geta niður og valdið hættu fyrir vegfarendur.

9. gr.

Öllum ber að gæta þess að ganga vel um á almannafæri og skemma þar ekki hluti sem ætlaðir eru til almenningsnota eða prýði. Þetta á einnig við þá hluta af húsum og öðrum mannvirkjum sem liggja að almannafæri.

Á mannvirki og hluti má ekki mála, teikna eða festa auglýsingar nema með leyfi eiganda eða umráðamanns.

Óheimilt er að reisa auglýsingaskilti á almannafæri nema með leyfi Akureyrarkaupstaðar. Akureyrarkaupstaður skal tilkynna lögreglustjóra um slík leyfi. Uppfestar auglýsingar skulu hlutaðeigendur taka niður, þegar þær hafa fullnægt tilgangi sínum, og hreinsa vel staðinn þar sem þær voru hafðar. Löglega uppfestar auglýsingar má enginn rífa niður eða gera ólæsilegar á annan hátt. Að öðru leyti gildir reglugerð um skilti í lögsögu Akureyrar.

10. gr.

Akureyrarkaupstaður getur sett umgengnisreglur um skemmtigarða, leikvelli, lystigarða, tjarnir, kirkjugarða og önnur opinber svæði, enda séu reglurnar festar upp við innganginn eða á öðrum áberandi stað.

Hvorki má troða niður ræktaða bletti, grasreiti, blómabeð og limgerði á almannafæri né slíta þar upp blóm eða annan gróður.

Eigi má gista í tjöldum, húsbílum, hjólhýsum og tjaldvögnum á almannafæri innan lögsagnarumdæmis Akureyrarkaupstaðar, utan sérmerktra svæða.

11. gr.

Tilkynna skal lögreglustjóra svo fljótt sem verða má um fyrirhugaðar hópgöngur, útifundi, tónleika og aðrar útisamkomur í því skyni að hann geti gert viðeigandi ráðstafanir varðandi stjórnun umferðar.

Lögreglustjóri getur breytt gönguleið eða samkomustað telji hann það nauðsynlegt.

12. gr.

Meðferð skotvopna á almannafæri er bönnuð nema með sérstakri undanþágu frá lögreglustjóra.

Ekki má á almannafæri ganga með logandi blys, kveikja í bálköstum né halda skoteldasýningar nema með leyfi lögreglustjóra, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra, Akureyrarkaupstaðar og slökkviliðsstjóra, sbr. reglugerð um skotelda.

13. gr.

Enga atvinnu sem tálmar umferð má reka á almannafæri.

Akureyrarkaupstaður getur sett samþykktir um farandsölu og um sölu á götum, torgum og öðrum stöðum gilda reglur um útimarkað og sölutjöld frá 18. maí 1993 (birtar á akureyri.is).

14. gr.

Lögreglustjóri getur bannað öllum óviðkomandi, sem ekki eiga brýnt erindi, umferð út í skip, sem liggja í höfn.

15. gr.

Ekki má gera jarðrask, svo sem skurði í gangstéttir, götur eða torg né raska þeim á annan hátt, nema með leyfi Akureyrarkaupstaðar. Skal Akureyrarkaupstaður við veitingu leyfis setja skilyrði sem nauðsynleg eru til að afstýra hættu fyrir vegfarendur og tilkynna leyfisveitingu til lögreglustjóra. Að verki loknu skal leyfishafi færa það í samt lag sem raskað var.

Þegar gerður er skurður í gangstétt skal sá sem verkið vinnur sjá um að tryggja öryggi gangandi vegfarenda og annarra, svo sem með því að sjá fyrir göngubrautum og tryggja að vegfarendur séu aðvaraðir um farartálmann, t.d. með ljósum, glitmerkjum o.þ.h. þegar dimmt er. Slík verk skulu unnin þannig að sem minnstur farartálmi verði. Sé nauðsynlegt að loka gangstétt vegna framkvæmda skal hjáleið tryggð og afgirt frá umferð ökutækja innan þéttbýlismarka og annars staðar þar sem umferð er mikil.

Akureyrarkaupstaður getur bannað umferð um götur að nokkru eða öllu leyti meðan á verki stendur eða skipað fyrir um hvernig umferðinni skuli hagað. Haft skal samráð við vegamálastjóra þegar það á við. Einnig getur Akureyrarkaupstaður ákveðið að skurðir í götur séu byrgðir og uppgröftur fjarlægður þannig að umferð sé óhindruð um göturnar á þeim tíma sem ekki er unnið, svo sem að næturlagi og um helgar. Þá getur Akureyrarkaupstaður, teljist framkvæmdirnar dragast um of, látið setja í samt lag það sem raskað var, eftir atvikum á kostnað þeirra sem ábyrgð bera á framkvæmd.

Setja skal upp skilti og merkingar til leiðbeiningar fyrir ökumenn vegna framkvæmda sem truflað geta umferð. Sé fyrirsjáanlegt að framkvæmdir muni taka lengri tíma en 7 daga skal setja upp ítarlegri skilti þar sem fram koma upplýsingar um framkvæmdina, á hvers vegum hún er og hvað hún muni standa lengi.

Þá getur Akureyrarkaupstaður beint þeim fyrirmælum til ökumanna og eigenda ökutækja að þeir leggi ekki ökutækjum á tilteknum svæðum svo unnt sé að framkvæma hvers konar nauðsynlegar viðgerðir eða hreinsanir á götum. Tilmælin skulu tilkynnt með upplýsingaskiltum eða öðrum tryggum hætti. Sé slíkum tilmælum ekki sinnt getur Akureyrarkaupstaður látið flytja ökutæki á brott án frekari viðvörunar svo viðgerð eða hreinsun geti farið fram. Tilkynna skal eiganda ökutækis og lögreglu um brottflutninginn og hvar má vitja ökutækisins sé það ekki flutt aftur á sama stað eftir að viðgerð eða hreinsun lýkur.

16. gr.

Húseigendum eða umráðamönnum húseigna er skylt að hlíta fyrirmælum Akureyrarkaupstaðar um frágang girðinga o.þ.h. sem liggja að almannafæri. Einnig skal húsráðendum skylt að snyrta allan gróður, þ.m.t. trjágróður sem liggur að götum, gangstéttum og gangstígum, þannig að umferð vegfarenda sé óhindruð. Við gangstéttar, stíga og hjólreiðabrautir skulu neðstu greinar trjáa og runna ekki slúta meira en 2,25 m frá yfirborði en við götur skulu neðstu greinar trjáa og runna ekki slúta meira en 4,50 m frá yfirborði gatna. Hlíti húseigandi eða lóðarhafi ekki fyrirmælum Akureyrarkaupstaðar um frágang samkvæmt þessari grein er heimilt að láta vinna verkið á hans kostnað enda sé honum tilkynnt um það með hæfilegum fyrirvara.

Húsráðendur skulu sjá til þess að allt lauslegt á lóð sé tryggilega fest ef von er á hvassviðri.

Þegar hús eða annað mannvirki brennur eða það flutt brott, án þess að annað sé byggt í staðinn, er eiganda skylt að ganga svo frá hússtæðinu að ekki stafi af því hætta, óþrifnaður eða óprýði. Sama gildir um hús sem standa yfirgefin.

Þegar hús er byggt, rifið, endurbyggt eða flutt er eiganda og/eða verktaka skylt að haga sér eftir þeim fyrirmælum sem Akureyrarkaupstaður gefur til að forðast farartálma, hættu eða óþægindi fyrir vegfarendur og skal hann setja upp skilti til leiðbeiningar eftir því sem við á. Við flutning húsa skal eigandi og/eða verktaki kalla til lögreglu eftir því sem umferðarlög kveða á um.

Girðingar sem hafa verið reistar vegna mannvirkjagerðar skal fjarlægja þegar þeirra er ekki lengur þörf.

Um öryggi á vinnusvæðum við almannafæri gilda ákvæði skipulags- og byggingarlaga auk reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ásamt reglum settum á grundvelli þeirra.

17. gr.

Enginn má án leyfis húsráðanda láta fyrir berast á lóðum hans eða landi. Auk þess getur lögreglan bannað mönnum að hafast þar við ef hún telur að það geti valdið óþægindum eða hættu.

Ekki má fara í híbýli manna í söluerindum ef húsráðandi leggur við því bann.

18. gr.

Enginn má fleygja rusli eða öðru þess háttar á almannafæri nema í þar til gerð ílát. Enginn má fleygja rusli eða öðru þess háttar á lóð eða land annars manns.

Hver sem það gerir skal flytja óhreinindin tafarlaust í burt á sinn kostnað.

Ekki má ganga örna sinna eða kasta af sér þvagi á almannafæri eða á lóð eða land eða híbýli annars manns. Hver sem það gerir skal hreinsa upp eftir sig.

III. KAFLI

Um ökutæki, umferð o.fl.

19. gr.

Á almannafæri má ekki leggja eða setja neitt það sem hindrar umferð.

Á götum má ekki hindra umferð með skemmtunum eða leikjum nema með leyfi lögreglustjóra.

Bannað er að leggja ökutæki á gangstéttum. Lögreglustjóri getur, að fengnum tillögum Akureyrarkaupstaðar, veitt undanþágu frá ofangreindu.

Vörubifreiðum sem eru 5 tonn að leyfðri heildarþyngd eða meira og fólksflutningabifreiðum sem flytja mega 10 farþega eða fleiri má ekki leggja á götum eða almenningsbifreiðastæðum nema þau séu til þess ætluð. Bann þetta gildir einnig um hvers konar vinnuvélar og dráttarvélar án tillits til þunga þeirra. Akureyrarkaupstaður getur veitt undanþágu frá banni þessu og skal þá afmarka og merkja sérstaklega þá staði þar sem undanþága hefur verið veitt.

Lögreglustjóri getur bannað stöðu eftirvagna og tengivagna, s.s. hestaflutningavagna, hjólhýsa, dráttarkerra, báta og þess háttar tækja sem og húsbíla, á götum og almennum bifreiðastæðum sem þykja valda óþægindum, óþrifnaði eða hættu.

Akureyrarkaupstað er heimilt að láta fjarlægja skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, tæki, kerrur, vinnuvélar, báta og aðra lausamuni og drasl á kostnað og ábyrgð eiganda að undangenginni viðvörun, t.d. með álímingarmiða eða ábyrgðarbréfi þar sem eiganda/ábyrgðarmanni skal almennt veittur 7 daga frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða bregðast við tilmælum. Telji heilbrigðisfulltrúi svo alvarlega hættu stafa af geymslu hlutar eða tækis að aðgerð þoli enga bið er heimilt að fjarlægja slíka hluti eða tæki án viðvörunar.

Bílflökum og öðrum verðlausum hlutum er heimilt að farga strax að loknum fresti sem veittur er samkvæmt 6. mgr., enda hafi þá engin andmæli borist.

Skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja og aðrir hlutir og verðmæti sem eru fjarlægð að loknum fresti skulu geymd í vörslu viðkomandi sveitarfélags í 45 daga og síðan fargað hafi eigandi ekki vitjað eigna sinna og leyst út gegn greiðslu áfallins kostnaðar (svo sem dráttar- og geymslugjöld). Liggi fyrir skráningarmerki, vélarnúmer eða annað sambærilegt, skal eiganda tilkynnt um förgunina með tryggilegum hætti með a.m.k. 15 daga fyrirvara. Þá skal viðkomandi sýslumanni og eftir atvikum bifreiðaskrá og veðhöfum (sé um þá kunnugt) gert viðvart um förgunina með 15 daga fyrirvara.

Áfallinn kostnað vegna töku og geymslu skráningarskyldra ökutækja án skráningarmerkja og annarra hluta er heimilt að innheimta hjá eigendum samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heimilt er að selja nýtilega hluti úr bifreiðum og annað nýtilegt sem er tekið í vörslu og ekki leyst út samkvæmt framansögðu til að mæta kostnaði vegna töku og geymslu.

Að öðru leyti gildir samþykkt um umgengni og þrifnað utanhúss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra.

20. gr.

Vélar kyrrstæðra bifreiða og vinnuvéla sem ekki eru í notkun er óheimilt að hafa í gangi eða skilja eftir í gangi lengur er nauðsynlegt er, svo komast megi hjá mengun og hávaða á almannafæri og annars staðar þar sem ætla má að slíkt valdi óþægindum.

21. gr.

Lögreglustjóri getur að fengnum tillögum Akureyrarkaupstaðar, takmarkað eða bannað umferð stórvirkra vinnuvéla, vörubifreiða eða annarra ökutækja á einstökum götum ef slík umferð er álitin hættuleg eða til sérstakra óþæginda fyrir aðra umferð eða íbúa.

Allur akstur torfærutækja, s.s. vélsleða og torfæruhjóla, er bannaður innan þéttbýlis. Akureyrarkaupstaður getur þó heimilað undanþágu frá þessu ákvæði á afmörkuðum svæðum og skal sú ákvörðun tilkynnt lögreglustjóra.

22. gr.

Á og við götur eða vegi eða þar sem hætta stafar af má ekki gera rennibrautir, renna sér á skíðum, hjólaskautum, hjólabrettum, skautum, sleðum eða iðka leiki, skemmtanir eða íþróttir þannig að hætta eða umferðartruflun geti hlotist af. Einnig er bannað að hanga í bifreiðum, dráttarvélum, vögnum eða öðrum farartækjum sem eru á ferð eða festa við þau sleða, handvagn eða annað sem óþægindum eða hættu getur valdið.

Lögreglustjóri getur heimilað skíða-, sleða- eða rennibrautir á vegi í alfaraleið og skulu þeir vegir sérstaklega merktir sem slíkir. Þar mega ekki aðrir fara með ökutæki en íbúar gatnanna eða menn í erindum þeirra og skal þá ítrustu varúðar og tillitssemi gætt.

Börn yngri en fjórtán ára, sem fara um á reiðhjólum, hjólabrettum, hjólaskautum, renna sér á skíðum, sleðum, skíðabrettum o.þ.h., skulu nota hlífðarhjálma og viðeigandi hlífðarbúnað.

23. gr.

Ef ís á Pollinum og tjörnum er ótryggur, getur lögreglustjóri bannað alla umferð þar eða sett upp viðvörunarmerki.

24. gr.

Þeir sem flytja farm um götur sveitarfélags skulu gæta þess vandlega að ganga þannig frá farminum að ekki valdi óþrifnaði eða hættu. Nota skal yfirbreiðslur þegar farmur er það fíngerður að hætta er á að hann fjúki og alltaf skal nota gafl og vör við flutning innan kaupstaðarmarkanna. Ef eitthvað hrynur niður við flutning, fermingu eða affermingu á almannafæri er stjórnanda flutningstækisins skylt að hreinsa það upp þegar í stað, að öðrum kosti er kaupstaðnum heimilt að gera það á kostnað flytjanda eða þess sem ábyrgð ber á flutningi.

Jarðverktakar og byggingarverktakar (framkvæmdaaðilar eða verktakar í þeirra þjónustu) sem aka frá framkvæmdasvæði og inn á gatnakerfi kaupstaðarins skulu gæta þess að hreinsa flutningstæki sín og hjólbarða bifreiða sinna og vinnuvéla áður en þeir fara inn á malbikaðar götur.

Framkvæmdaaðilar eða verktakar á þeirra vegum skulu einnig gera ráðstafanir á aðkeyrslum framkvæmdasvæða þannig að bifreiðar, vélar og tæki beri ekki óþrif s.s. jarðveg inn á gatnakerfi bæjarins t.d. með hreinum yfirborðsefnum og/eða þvotti, að öðrum kosti er bænum heimilt að þrífa götur á kostnað framkvæmdaaðila.

Öðrum en starfsmönnum og verktökum á vegum Akureyrarkaupstaðar er óheimilt að dreifa efni s.s. sandi, möl eða salti á götur kaupstaðarins.

IV. KAFLI

Um veitingastaði, skemmtanahald o.fl.

25. gr.

Um leyfi til rekstrar veitingastaða, útleigu samkomusala í atvinnuskyni og leyfi til skemmtanahalds gilda ákvæði laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Veitingastaði án áfengisveitinga (flokkur I) er heimilt að hafa opna allan sólarhringinn. Stafi íbúum í nágrenni slíks veitingastaðar ónæði af rekstrinum getur Akureyrarkaupstaðar þó takmarkað afgreiðslutíma hans.

Áfengisveitingar á umfangslitlum áfengisveitingastöðum (flokkur II) eru heimilar frá

kl. 06.00 til kl. 23.00 alla daga. Áfengisveitingar á umfangsmiklum áfengisveitingastöðum (flokkur III) eru heimilar frá kl. 06.00 til kl. 01.00 virka daga og til kl. 04.00 aðfararnætur laugardaga, sunnudaga og almennra frídaga með eftirfarandi undantekningum:

Heimilt er að hafa veitingastaði skv. flokki III opna til kl. 04.00 aðfararnótt 27. desember ár hvert.

Heimilt er að hafa veitingastaði skv. flokki III opna til kl. 03.00 aðfararnótt páskadags og hvítasunnudags skv. lögum um helgidagafrið.

Heimilt er að hafa veitingastaði skv. flokki III opna til kl. 06.00 aðfararnótt 1. janúar.

Heimilt er hafa veitingastaði skv. flokki III opna um verslunarmannahelgi sem hér segir: Aðfararnótt föstudags til kl. 03.00, aðfararnótt laugardags og sunnudags, til allt að kl. 05.00 skv. nánari ákvörðun bæjarráðs.

Á veitingastað sem leyfi hefur til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl. 22.00 á kvöldin og fram til lokunar staðarins nema í fylgd með foreldrum sínum, öðrum forráðamönnum, ættingjum eða maka, 18 ára eða eldri. Dyraverðir, eftirlitsmenn, framreiðslumenn og/eða aðrir sem ábyrgð bera á rekstri staðarins skulu láta ungmenni er koma á slíka staði eða dveljast þar eftir kl. 22.00 að kvöldi, án framangreindrar fylgdar, sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt enda sé ástæða til að ætla að hlutaðeigandi hafi ekki náð 18 ára aldri.

Veita má í reglum undanþágu frá framangreindri reglu sem tekur til ákveðinna tegunda veitingastaða og sérstakra tilefna, svo sem skóladansleikja, enda fari engar áfengisveitingar þar fram og afgreiðslutími viðkomandi veitingastaðar sé í samræmi við heimilan afgreiðslutíma samkvæmt rekstrarleyfi staðarins, nema sótt hafi verið um tímabundið leyfi.

Á veitingastöðum í flokki III skulu vera dyraverðir, sem lokið hafa dyravarðanámskeiði.

Áfengisveitingastöðum skal lokað þegar heimiluðum áfengisveitingatíma lýkur og má ekki opna þá að nýju að morgni dags fyrr en a.m.k. tvær klukkustundir eru liðnar frá lokun. Allir gestir skulu hafa yfirgefið áfengisveitingastað eigi síðar en einni klukkustund eftir lokun hans.

Afgreiðslu- eða þjónustutími verslana og annarra þjónustufyrirtækja er frjáls að því marki sem heimilt er að lögum er gilda á hverjum tíma eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim. Akureyrarkaupstaður getur þó takmarkað afgreiðslu- eða þjónustutíma hjá einstökum aðilum ef starfsemin veldur nágrönnum eða vegfarendum ónæði.

26. gr.

Hver sá sem rekur veitinga- eða gististað, kvikmyndahús, leikhús eða annað samkomuhús eða heldur almenna skemmtun eða sýningu, skal sjá um að allt fari þar vel fram og starfsemin valdi ekki nágrönnum eða vegfarendum ónæði.

Slík starfsemi skal háð sérstöku eftirliti lögreglu og er henni heimilt að fara um samkomusali og önnur húsakynni sem gestir eiga aðgang að.

Sá sem rekur framangreinda starfsemi skal þrífa glerbrot og annað rusl sem safnast fyrir utan staðinn, á opnunartíma og eftir lokun.

Á öllum gististöðum skal haldin nákvæm gestaskrá.

27. gr.

Enginn má reka leiktækjastað eða þess háttar starfsemi gegn borgun nema með leyfi lögreglustjóra að fenginni umsögn sveitarstjórnar. Leyfi skal ekki veita til lengri tíma en fjögurra ára í senn. Það skal bundið við nafn leyfishafa og rekstur á tilteknum stað. Ef leyfishafi brýtur gegn ákvæðum greinar þessarar eða reksturinn þykir ekki fara vel úr hendi getur lögreglustjóri svipt hann leyfinu enda hafi leyfishafi ekki sinnt áminningu um úrbætur.

Börnum yngri en 14 ára er ekki heimill aðgangur að slíkum leiktækjastöðum nema í fylgd með forráðamönnum. Miða skal aldur við fæðingarár en ekki fæðingardag.

V. KAFLI

Um götuspjöld og húsnúmer.

28. gr.

Akureyrarkaupstaður ákveður nöfn á stjórnsýslueiningar, byggingar, hverfi og götur bæjarins og lætur festa upp skilti með þeim upplýsingum, þar sem þurfa þykir, svo sem við gatnamót og á fasteignir.

Húseigendur skulu merkja hús sín með húsnúmeri og eftir atvikum bókstöfum, á götuhlið eða öðrum áberandi stað, vegfarendum og þjónustuaðilum til glöggvunar.

VI. KAFLI

Um útivistartíma barna og ungmenna.

29. gr.

Um útivistartíma barna og ungmenna gilda ákvæði barnaverndarlaga og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.

A1dursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.

VII. KAFLI

Um búfjárhald, hunda- og kattahald og dýravernd.

30. gr.

Búfjárhald í lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar er bannað nema þar sem settar hafa verið sérstakar takmarkanir með samþykktum á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, Um hunda- og kattahald gilda samþykkt um hundahald á Akureyri og samþykkt um kattahald í Akureyrarkaupstað.

Um lausagöngu búfjár fer samkvæmt vegalögum og lögum um búfjárhald o.fl.

Umferð reiðhesta er bönnuð innan Akureyrarkaupstaðar annars staðar en í deiliskipulögðum hesthúsahverfum í Breiðholti og Hlíðarholti og á merktum reiðstígum nema með sérstöku leyfi eða samþykkt Akureyrarkaupstaðar.

Enginn má raska friði fugla á fuglatjörnum í kaupstaðnum eða annars staðar í lögsagnarumdæminu.

Óheimilt er að áreita dýr eða raska friði þeirra, svo að hættu eða ónæði geti valdið. Ákvæði þetta á ekki við um meindýr, varg o.fl. er sérákvæði gilda um. Að öðru leyti vísast til ákvæða laga um verndun dýra og laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

VIII. KAFLI

Um refsingar, kostnað, gildistöku o.fl.

31. gr.

Ef einhver lætur það ógert sem honum er skylt að gera samkvæmt samþykkt þessari getur lögreglustjóri látið framkvæma það eða gert aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til að hindra að vanrækslan valdi tjóni. Kostnaður sem leiðir af framkvæmdum og ráðstöfunum lögreglustjóra og Akureyrarkaupstaðar greiðist af þeim er ábyrgð ber á vanrækslunni.

32. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum sbr. 6. gr. laga nr. 36/1988 um lögreglusamþykktir nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum eða reglugerðum.

Með mál sem varða brot gegn ákvæðum samþykktar þessarar skal fara að hætti laga um meðferð opinberra mála.

33. gr.

Samþykkt þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 2. gr. laga nr. 36 18. maí 1988, um lögreglusamþykktir, öðlast gildi þegar 6 mánuðir eru liðnir frá birtingu hennar.

Jafnframt er numin úr gildi lögreglusamþykkt fyrir Akureyri, nr. 483/1996 með áorðnum breytingum.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 11. júní 2009.

Ragna Árnadóttir.

Skúli Þór Gunnsteinsson.

B deild - Útgáfud.: 3. júlí 2009