Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 342/2013

Nr. 342/2013 2. apríl 2013
REGLUGERÐ
um þróun upplýsinga- og fjarskiptatækni til notkunar fyrir skynvædd samgöngukerfi (ITS).

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að setja rammareglur til stuðnings samræmdri og samfelldri útbreiðslu skynvæddra samgöngukerfa á Íslandi og innan EES með því að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/40/ESB.

Með setningu reglugerðarinnar er að því stefnt að skynvædd samgöngukerfi byggist á rekstrarsamhæfðum kerfum sem grundvallast á opnum og opinberum stöðlum sem allir þjónustuveitendur og notendur hafa aðgang að án mismununar.

2. gr.

Orðskýringar.

1)

Skynvædd samgöngukerfi (ITS): Beiting upplýsinga- og fjarskiptatækni við söfnun gagna og miðlun upplýsinga um umferð og umferðarstýringu.

2)

Rekstrarsamhæfni: Geta kerfa og undirliggjandi viðskiptaferla til að skiptast á gögnum og deila upplýsingum og þekkingu.

3)

Tæknibúnaður fyrir skynvædd samgöngukerfi: Hagnýtt tæki til að beita skynvæddu samgöngukerfi.

4)

Samfelldni í þjónustu: Geta til að tryggja snurðulausa þjónustu á samgöngunetum innan EES.

5)

Forskrift: Bindandi ráðstöfun þar sem mælt er fyrir um ákvæði sem innihalda kröfur, verklagsreglur eða einhverjar aðrar viðeigandi reglur.

6)

Staðall: Staðall eins og hann er skilgreindur í 6. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB frá 22. júní 1998 sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra staðla og reglugerða.

3. gr.

Setning reglna um forskriftir.

Ráðherra er heimilt að setja nauðsynlegar reglur vegna forskrifta sem settar verða í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/40/ESB í tengslum við útbreiðslu skynvæddra samgöngukerfa (ITS).

4. gr.

Forgangssvið og forgangsaðgerðir.

Við útbreiðslu skynvæddra samgöngukerfa (ITS) skal taka mið af ákvæðum tilskipunar 2010/40/ESB, þ. á m. um forgangssvið og forgangsaðgerðir eins og þær eru skilgreindar í tilskipuninni.

5. gr.

Reglur um friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga.

Vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við rekstur tæknibúnaðar og þjónustu fyrir skyn­vædd samgöngukerfi skal fara fram í samræmi við gildandi lög og reglur um persónu­vernd og meðferð persónuupplýsinga.

6. gr.

Reglur um bótaábyrgð.

Um bótaábyrgð vegna tjóns sem rekja má til galla á tæknibúnaði og þjónustu fyrir skynvædda upplýsingamiðlun og umferðarstýringu fer eftir gildandi lögum um skaðsemis­ábyrgð.

7. gr.

Skýrslugjöf.

Eigi síðar 27. ágúst 2013 skal ráðherra gefa Eftirlitsstofnun EFTA skýrslu um starfsemi og verkefni sem varða forgangssviðin sem um getur í 2. gr. tilskipunarinnar.

Eigi síðar en 31. desember 2013 skal ráðherra veita Eftirlitsstofnun EFTA upplýsingar um aðgerðir á sviði skynvæddra samgöngukerfa sem fyrirhugaðar eru á næstu fimm árum.

Fara skal að leiðbeiningum um skýrslugjöf sem samþykktar verða í samræmi við máls­meðferð samkvæmt 2. mgr. 15. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/40/ESB.

Í kjölfar fyrstu skýrslunnar skal ráðherra gefa Eftirlitsstofnun EFTA skýrslu á þriggja ára fresti um framvindu varðandi útbreiðslu aðgerðanna sem um getur í 1. mgr.

8. gr.

Gildistaka o.fl.

Með reglugerð þessari er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/40/ESB frá 7. júlí 2010 um ramma um útbreiðslu skynvæddra samgöngukerfa á sviði flutninga á vegum og um tengingu þeirra við aðra flutningsmáta, sem vísað er til í XVI. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2011, þann 30. september 2011. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 65, 1. desember 2011, bls. 13.

Reglugerðin er sett samkvæmt 45. gr. vegalaga nr. 80/2007, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 2. apríl 2013.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

B deild - Útgáfud.: 18. apríl 2013